Landbúnaðarráðuneyti

427/2002

Reglugerð um merkingar búfjár. - Brottfallin

427/2002

REGLUGERÐ
um merkingar búfjár.

1. gr.
Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð og/eða fæðingu viðkomandi dýrs til sölu afurða og skapa með því grundvöll að markvissu matvæla- og búfjáreftirliti, skráningu búfjársjúkdóma og meðhöndlun þeirra.


2. gr.
Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð merkingu sem hér segir:

1. Búfé: Hross, nautgripir, svín og alifuglar.
2. Eftirlitsaðili: Héraðsdýralæknir eða hver annar sem hefur með höndum eftirlit með framkvæmd ákvæða reglugerðar þessarar.
3. Einstaklingsnúmer: Einkvæmt númer/bókstafir fyrir hvern ásetningsgrip á landsvísu.
4. Framleiðandanúmer: Tveggja stafa númer svínahjarðar, ákveðið af landbúnaðarráðuneyti í samvinnu við Svínaræktarfélag Íslands.
5. Gripanúmer: Númer grips innan hjarðar sem jafnframt er síðasti hluti einstaklingsnúmers.
6. Gylta: Gylta sem hefur gotið.
7. Heilsukort: Safn upplýsinga með gögnum um meðhöndlun sjúkdóma og fyrirbyggjandi aðgerðir.
8. Hjarðbók: Gagnagrunnur eða skýrsluhaldsform sem umráðamanni búfjár, að alifuglum undanskildum, er skylt að skrá í tilgreindar upplýsingar um dýr í hans umsjón.
9. Hjörð: Hópur tiltekinnar búfjártegundar frá sama býli.
10. Hópnúmer: Átta stafa númer hóps í alifuglabúi.
11. Landmarkaskrá: Sbr. reglugerð nr. 200/1998 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár.
12. Líf-/ásetningsdýr: Dýrsem sett eru á til undaneldis og/eða nytja.
13. Merki: Plötumerki, frostmerki, örmerki, húðflúr og skráning sem yfirdýralæknir viðurkennir fyrir einstakar búfjártegundir.
14. Skráningaraðili: Aðili sem annast skráningu upplýsinga í umboði landbúnaðarráðuneytisins, samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.
15. Spenagrís: Grís sem er hjá gyltu.
16. Stofn: Sérstök ræktunarlína innan sömu búfjártegundar.
17. Tölvuskráningarkerfi: Skráningarkerfi sem yfirdýralæknir hefur yfirumsjón með.
18. Valnúmer: Númer sem umráðamaður búfjár velur.
19. Unggylta: Gylta sem hefur fest fang í fyrsta sinn en ekki gotið.
20. Umráðamaður búfjár: Eigandi búfjár eða aðili sem er ábyrgur fyrir fóðrun, aðbúnaði og vörslu þess í samræmi við lög nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl.
21. Slátrun: Varðar bæði slátrun í sláturhúsi og heimaslátrun til eigin nota á lögbýli.


3. gr.
Skráningarskylda.

Allir umráðamenn búfjár skulu vera skráðir í tölvuskráningarkerfi fyrir merkingar búfjár, sbr. ákvæði 4. og 13. gr.


4. gr.
Merkingarskylda.

Umráðamaður búfjár ber ábyrgð á að allt búfé sem alið er á hans vegum sé merkt innan tilskilins tíma frá fæðingu með viðurkenndu merki, sem fylgir dýrinu alla ævi þess, sbr. ákvæðin fyrir einstakar búfjártegundir. Ákvæði þessi gilda ekki um merkingar sauðfjár og geitfjár.

Óheimilt er að breyta eða fjarlægja einstaklingsnúmer/merki dýrs eða eldishóps, nema það sé orðið ólæsilegt eða skemmt. Missi dýr merki eða það sé orðið ólæsilegt, skal endurmerkja dýrið með merki í sama lit og með sama auðkennisnúmeri. Glatist merki dýrs skal það merkt á ný. Nýja merkið skal vera forprentað með upplýsingunum skv. 1.-2. lið 6. gr. og með bókstafnum N aftan við bæjar- eða eigandanúmer, sem sýnir að um nýtt merki sé að ræða. Ef dýr ferst eða týnist skal það tilkynnt skráningaraðila.


5. gr.
Kröfur um gerð plötumerkja fyrir ásetningsdýr.

Plötumerki skulu þannig gerð að ekki sé unnt að nota þau aftur eftir að þau hafa verið fjarlægð. Upplýsingar á merkjum skal prenta fyrirfram með skýru letri sem ekki er hægt að breyta. Plötumerki til notkunar samkvæmt reglugerð þessari skulu viðurkennd af yfirdýralækni.


6. gr.
Kröfur um upplýsingar á plötumerkjum ásetningsdýra.

Grunnlitir merkja fyrir svín: Litaskipt eftir stofni skv. reglum sem landbúnaðarráðuneytið setur.

Eftirfarandi upplýsingar skal forprenta á merkin:

1) Fyrir nautgripi:
a) Landnúmer
b) Ártal.
c) Gripanúmer
2) Fyrir svín:
a) Framleiðandanúmer.
b) Gripanúmer.

Ekki er krafist einstaklingsmerkis á grísi og alifugla. Hafi grís fengið lyfjameðhöndlun skal viðkomandi grís auðkenndur við upphaf lyfjagjafar og skulu þær upplýsingar aðgengilegar eftirlitsaðila.

Heimilt er að nota eigin valnúmerakerfi til viðbótar forprentuðum upplýsingum.

Óheimilt er að nota númer sem þegar eru í notkun innan hjarðarinnar. Líða skulu 10 ár milli notkunar á sama einstaklingsnúmeri innan hjarðar.


7. gr.
Hjarðbók.

Umráðamaður búfjár er ábyrgur fyrir færslu upplýsinga um öll dýr hjarðarinnar, annaðhvort í gagnagrunn eða í skýrsluform, viðurkennt af yfirdýralækni, sem skráningaraðili lætur í té.

Eftirfarandi upplýsingar um nautgripi skal skrá:

1) Fæðingardag/fæðingarmánuð og ár.
2) Einstaklingsnúmer dýrs.
3) Valnúmer, ef um slíkt er að ræða.
4) Kyn og stofn dýrsins.
5) Einstaklingsnúmer móður og föður.
6) Dagsetningu slátrunar og ef dýrið ferst eða glatast.
7) Alla flutninga lífdýra til og frá hjörð, bæði varanlega og tímabundna og auk þess:
a) Nafn, heimilsfang og eigenda- eða bæjarnúmer sendanda og móttakanda.
b) Fjölda dýra sem flutt/seld eru,
c) Dagsetning flutnings.
8) Móttekin plötumerki.

Eftirfarandi upplýsingar um lífdýr svína skal skrá í hjarðbók:

1) Einstaklingsnúmer.
2) Fæðingardag.
3) Einstaklingsnúmer móður og föður.
4) Valnúmer, ef um slíkt er að ræða.
5) Stofn.
6) Dagsetningu dauða eða slátrunar.
7) Alla lífdýraflutninga og grísaflutninga til og frá hjörð, bæði varanlega og tímabundna og auk þess:
a) Nafn, heimilisfang og framleiðandanúmer sendanda og móttakanda.
b) Fjölda dýra sem flutt/seld eru.
c) Dagsetningu flutnings.
d) Nafn og kennitölu flutningsaðila.

Þegar nýtt dýr kemur inn í hjörð skal skrá einstaklingsnúmer dýrsins.


8. gr.
Heilsukort.

Umráðamaður búfjár er ábyrgur fyrir að sjúkdómar í búfé hans og meðhöndlun þeirra sé skráð, sem og fyrirbyggjandi aðgerðir. Upplýsingar skulu skráðar á eyðublöð sem yfirdýralæknir viðurkennir eða í tölvuskrár. Við flutning dýra milli hjarða skal afrit heilsukorts fylgja dýrinu til móttakanda.


9. gr.
Varðveisla hjarðbókar og heilsukorta.

Hjarðbækur og heilsukort skulu umráðamenn búfjár varðveita í a.m.k. 10 ár. Sama gildir þótt framleiðslu sé hætt.

Umráðamaður búfjár skal, að ósk héraðsdýralæknis, veita allar umbeðnar upplýsingar um uppruna, númer og eftir því sem við á, áfangastað þeirra dýra sem hann hefur átt, alið, selt á fæti eða slátrað.


10. gr.
Ábyrgð sláturhúsa.

Að slátrun lokinni tilkynnir umsjónarmaður sláturhúss skráningaraðila á tölvutæku formi númer dýrs eða dýra, fjölda, uppruna þeirra, auk nafns og heimilisfangs sláturhúss.

Afurðum sem fluttar eru frá sláturhúsi til frekari vinnslu og sölu (heilum skrokkum og skrokkhlutum) skal fylgja framleiðandanúmer og/eða hópnúmer dýrs eða eldishóps. Auk þess skal afurðum fylgja bæjar- eða eigendanúmer og einstaklingsnúmer dýrs, eftir því sem við á.


11. gr.
Óskráð dýr.

Komi í ljós að skráningu dýra í tiltekinni hjörð sé ábótavant skal stöðva allan flutning dýra frá hjörðinni þar til úr hefur verið bætt.


12. gr.
Grunur um smitsjúkdóm.

Vakni grunur um smitsjúkdóm í hjörð skal umráðamaður búfjár þegar í stað tilkynna það héraðsdýralækni, sbr. ákvæði 5. gr. laga nr. 25/l993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og ákvæði reglugerðar nr. 665/2001 um viðbrögð við smitsjúkdómum.


13. gr.
Tölvuskráningarkerfi.

Vegna skráningar á upplýsingum samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar skal vera til staðar samræmt tölvuskráningarkerfi sem aðgengilegt er öllum sem ala dýr til slátrunar.

Landbúnaðarráðuneytið hefur yfirumsjón með rekstri skráningarkerfisins en felur Bændasamtökum Íslands eða öðrum til þess bærum aðilum að hafa umsjón með skráningu upplýsinga í tölvuskráningarkerfið skv. ákvæðum reglugerðar þessarar.

Upplýsingar úr skráningarkerfi skv. 1. mgr. skulu heimilar Hagstofu Íslands, yfirdýralækni, Hagþjónustu landbúnaðarins og öðrum aðilum skv. nánari ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins.


14. gr.
Merkingar nautgripa.

Nautgripi skal merkja með plötumerki innan 30 daga frá fæðingu eða áður en þeir eru fluttir frá viðkomandi hjörð.


15. gr.
Merkingar alifugla.

Framleiðandi skal einkenna hvern alifuglahóp í útungunarstöð með sérstöku auðkennisnúmeri. Númer þetta skal vera minnst átta tölustafir og þannig uppbyggt að fyrstu þrír tölustafirnir merkja alifuglaframleiðandann, síðan koma tveir tölustafir fyrir árið, tveir fyrir vikuna sem ungarnir eru klaktir og að lokum einn stafur fyrir eldishópinn. Frjálst er að hafa fleiri stafi í númeri til frekari merkingar, telji aðilar þess þörf.


16. gr.
Merkingar svína.

Allir spenagrísir skulu merktir innan 20 daga frá fæðingu með tveggja stafa framleiðandanúmeri (húðflúri) í eyra. Húðflúrið skal vera sýnilegt alla ævi dýrsins. Heimilt er að merkja með valnúmeri ef spenagrísir eru ætlaðir til ásetnings. Aðkeyptir gripir skulu merktir skv. 6. gr. í upprunahjörð. Kaupandi merkir aðkeyptar ásetningsgyltur, unggyltur og gelti með nýju númeri ekki seinna en 7 dögum eftir móttöku. Heimaaldar ásetningsgyltur skal merkja skv. 6. gr. við tilhleypingu. Heimaalda ásetningsgelti skal merkja skv. 6. gr. eigi síðar en við 6 mánaða aldur.


17. gr.
Merkingar hrossa.

Öll ásetningsfolöld skulu einstaklingsmerkt við hlið móður fyrir 10 mánaða aldur. Folöld sem slátrað er fyrir þann tíma skulu auðkennd þannig að númer móður sé gefið upp við slátrun.


18. gr.
Eftirlit.

Eftirlit með framkvæmd ákvæða reglugerðar þessarar er í höndum yfirdýralæknis.


19. gr.
Kostnaður.

Kostnað sem hlýst af framkvæmd ákvæða reglugerðar þessarar bera eigendur búfjár, sbr. þó ákvæði 2. mgr. 10. gr.


20. gr.
Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum skv.19. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl.


21. gr.
Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 1. tl. 17. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl., laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum. Reglugerðin er auk þess sett með hliðsjón af reglugerð þingsins og ráðsins, nr. 1760/2000/EB, reglugerðum ráðsins nr. 2628/1997/EB og 2629/1997/EB, reglugerðum framkvæmdastjórnarinnar nr. 2630/1997/EB og 494/98/EB, tilskipunum ráðsins nr. 64/432/EBE og 92/102/EBE. Reglugerðin öðlast þegar gildi.


Bráðabirgðaákvæði.
I.

Gildistaka fyrir hross: Öll ásetningsfolöld, fædd eftir 1. janúar 2003, skulu merkt samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar. Ekki er gerð krafa um að hross sem fædd eru fyrir þann tíma séu merkt samkvæmt ákvæðum þessum nema sérstakar markaðsaðstæður krefjist.

Gildistaka fyrir nautgripi: Allir kálfar, fæddir eftir 1. september 2003, skulu merktir samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar. Frá 1. janúar árið 2005 skulu allir nautgripir merktir samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

Gildistaka fyrir alifugla: Allir alifuglar, sem slátrað er eftir 1. september 2003, skulu merktir samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

Gildistaka fyrir svín: Öll svín, sem slátrað er eftir 1. september 2003, skulu merkt samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.


Landbúnaðarráðuneytinu, 7. júní 2002.

Guðni Ágústsson.
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica