Landbúnaðarráðuneyti

613/2001

Reglugerð um uppruna og ræktun íslenska hestsins. - Brottfallin

613/2001

REGLUGERÐ
um uppruna og ræktun íslenska hestsins.

1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til uppruna og ræktunar íslenska hestsins. Reglugerðin er sett til að fylgja eftir sameiginlegri yfirlýsingu landbúnaðarráðuneytisins og Alþjóðasambands Íslandshestafélaga (FEIF), sbr. yfirlýsingu í viðauka I.


2. gr.
Skýringar.

Upprunaland íslenska hestsins er Ísland. Íslensk hross eru eingöngu þau sem fædd eru á Íslandi eða geta rakið ætt sína til hrossa sem fædd eru á Íslandi og eru hreinræktuð.


3. gr.
Ættbók og alþjóðaskrá.

Bændasamtök Íslands halda upprunaættbók íslenska hestsins (Fengur) og bera ábyrgð á að færa inn upplýsingar um kynbótahross sem eru fædd og alin á Íslandi og uppfylla skilyrði þessarar reglugerðar. Bændasamtök Íslands gefa út vottorð í samræmi við framangreindar upplýsingar og gefa einnig út viðurkenningarskjöl fyrir sæði, egg og fósturvísa þeirra.

Bændasamtök Íslands halda alþjóðaskrá yfir íslensk hross í samvinnu við Alþjóðasamband Íslandshestafélaga og aðildarfélög þess sem nefnist Veraldar-Fengur (World– Fengur).

Einungis ræktunarfélögum íslenska hestsins sem fengið hafa viðurkenningu opinbers aðila í viðkomandi landi eða Alþjóðasambands Íslandshestafélaga er heimilt að halda ættbók um íslensk hross á félagssvæðum sínum. Öll hross sem skráð eru í þessar ættbækur eða alþjóðaskrána skulu geta rekið ættir sínar til upprunaættbókar íslenska hestsins (Fengur). Aðeins þau hross sem uppfylla þetta skilyrði teljast hæf til skráningar í Veraldar-Feng.

Bændasamtök Íslands skulu tryggja nána samvinnu við félög eða samtök sem færa ættbók íslenskra hrossa til að miðla upplýsingum og stuðla að lausn ágreinings sem upp kann að koma.

Við sölu á skráðum kynbótahrossum milli landa skulu þau færð inn í ættbók viðkomandi lands undir sama heiti og auðkennisnúmerum þess lands, ásamt öðrum upplýsingum sem krafist er samkvæmt þessari reglugerð. Heimilt er að gefa hrossum annað nafn í nýjum heimkynnum að því tilskildu að upprunalegt nafn ásamt upphafsstaf/stöfum upprunalandsins sé skráð innan sviga í ættbók nýja landsins á meðan hrossið lifir. Sömu reglur skulu gilda um skráningu við sölu annarra hrossa.


4. gr.
Skráning.

Eingöngu íslensk hross með viðurkennd vottorð um að þau séu fædd á Íslandi eða geta rakið ætt sína til hrossa, sem flutt eru út frá Íslandi og eru hreinræktuð, er heimilt að skrá í Veraldar-Feng.

Folald er fært í viðurkennda ættbók viðkomandi hrossaræktarfélags eða í Veraldar-Feng að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

1. Þegar bæði faðir og móðir eru skráð í ættbók eða Veraldar-Feng.
2. Fangvottorð hafi verið sent til Bændasamtaka Íslands eða FEIF eða aðildarfélags FEIF, eftir því sem við á, fyrir 31. desember árið sem hryssan festi fang.
3. Fang- og folaldaskýrsla hafi borist Bændasamtökum Íslands eða ræktunarfélagi í Alþjóðasambandi Íslandshestafélaga fyrir 31. desember ár hvert.
4. Vottorð um einstaklingsmerkingu hafi borist Bændasamtökum Íslands eða aðildarfélagi í Alþjóðasambandi Íslandshestafélaga fyrir 1. mars árið eftir að folaldið fæðist.

Heimilt er að skrá öll önnur hross í ættbók eða Veraldar-Feng að undangenginni ætternisgreiningu með blóðflokkun eða DNA-greiningu.

Öll hross sem skrá skal í ættbók eða Veraldar-Feng skulu einstaklingsmerkt annaðhvort með örmerki eða frostmerki.


5. gr.
Kynbótamarkmið, kynbótadómar og sýningar.

Varðandi kynbótamarkmið, sýningahald, skipun dómnefnda, mat og kynbótadóma skal farið eftir reglum sembirtar eru í viðauka II með þessari reglugerð.


6. gr.
Upprunavottorð.

Í upprunavottorði skal vera teikning af hrossi frá báðum hliðum og séð bæði framan og aftan frá, einnig háls séður neðanfrá og granir. Á myndunum skulu koma fram litir, eyrna- og brennimörk, svo og önnur sérstök auðkenni.

Eftirfarandi upplýsingar skulu einnig vera í upprunavottorði:

1. Nafn hrossins.
2. Auðkennisnúmer.
3. Merkingaraðferð og tegund merkis (örmerki, frostmerki).
4. Fæðingarár.
5. Foreldrar í fjóra ættliði með skráningarnúmerum.
6. Nafn, kennitala og heimilisfang ræktanda.
7. Nafn, kennitala og heimilisfang útflytjanda.
8. Staðfesting Bændasamtaka Íslands eða viðurkenndra samtaka sem halda ættbók íslenska hestsins í viðkomandi landi.


7. gr.
Sjúkdómar.

Óheimilt er að nota stóðhest til undaneldis sem haldinn er smitandi sjúkdómi og hann skal vera laus við erfðagalla.


8. gr.
Viðurlög.

Með mál út af brotum á ákvæðum reglugerðar þessarar skal farið að hætti opinberra mála.


9. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt III. kafla og 19. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998 og öðlast þegar gildi. Reglugerðin er sett með hliðsjón af tilskipun ráðsins 90/427/EBE og ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar nr. 92/353/EBE, 92/354/EBE, 96/78/EB og 96/79/EB.


Landbúnaðarráðuneytinu, 7. ágúst 2001.

Guðni Ágústsson.
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.



VIÐAUKI I
FEIF (INTERNATIONAL FÖDERATION DER ISLANDPFERD-VEREINE)
Alþjóðasambands Íslandshestafélaga
Sameiginleg yfirlýsing um ræktun íslenska hestsins.

Í aldarfjórðung hefur íslenska landbúnaðarráðuneytið með Búnaðarfélagi Íslands átt samstarf við Alþjóðasamband Íslandshestafélaga (FEIF) sem einn stofnaðili þeirra. Samtökin eru fulltrúi eigenda og ræktenda íslenskra hesta í öllum þeim löndum þar sem íslenska hestinn er að finna.

Auk tæknilegra þátta við ræktunina nær samstarfið einnig bæði til reglna um hestaíþróttir og menningarlegra og félagslegra tengsla.

Með þessari yfirlýsingu staðfesta undirrituð áframhald þessa samstarfs sem hefur með tímanum stöðugt orðið styrkara. Markmið þess er að viðhalda sameiginlegum ræktunarstaðli á grundvelli íslenskra hefða og að vinna að enn frekara samræmi í öllum málefnum sem varða íslenska hestinn.

Aðildarfélög FEIF viðurkenna Ísland sem upprunaland tegundarinnar og þau hyggjast reyna að fylgja fordæmi upprunalandsins í hverju því málefni sem varðar tegundina og notkun hestsins.

Ísland hefur fulla trú á, að þessu markmiði sé hægt að ná á fullnægjandi hátt með aðild sinni að FEIF, sem tekur að sér að tryggja áframhaldandi hreinræktun íslenska hestsins með lokuðum ættartölum í samræmi við þann sameiginlega ræktunarstaðal sem fullt samkomulag ríkir um.


Núverandi aðildarfélög FEIF, miðað við 1. mars 1994, eru ræktunarsamtök þeirra landa sem hér segir:
Ísland Þýskaland Holland
Danmörk Sviss Belgía
Noregur Austurríki Lúxemborg
Svíþjóð Frakkland Kanada
Finnland Ítalía Bandaríkin
Færeyjar Stóra-Bretland
Í öllum þessum löndum fer ræktun íslenska hestsins fram í samræmi við staðal FEIF og endurspeglar hefðir upprunalandsins.

1. apríl 1994,
Fyrir hönd FEIF:
Fyrir hönd Íslands:
Marit Jonsson (sign.)
Halldór Blöndal (sign.)
forseti
landbúnaðarráðherra
Anne Marie Quarles (sign.)
Jónas Jónsson (sign.)
ræktunarritari
búnaðarstjóri


VIÐAUKI II
Reglur um kynbótasýningar íslenskra hrossa.


1. Stefnumótun og heildarskipulagning

Lög og reglur.
Opinbert ræktunarstarf í hrossarækt á sér lagastoð í búnaðarlögum nr. 70/1998 en þar kemur fram að Bændasamtök Íslands hafa á hendi faglega yfirumsjón með því starfi í umboði og samkvæmt samningi við landbúnaðarráðherra en hann hefur yfirstjórn allra mála sem lögin taka til.
Í Búnaðarlögunum er kveðið á um að í hverri búgrein skuli starfa landsráðunautur en hann hefur landið allt sem starfssvæði og skal hafa yfirumsjón með leiðbeiningum, kynbótum og ræktun í viðkomandi búgrein.
Í lögunum er einnig kveðið á um að fyrir hverja búgrein skuli starfa svokallað fagráð. Fagráð móta stefnu í kynbótum og þróunarstarfi viðkomandi búgreinar, skilgreina ræktunarmarkmið og setja reglur um framkvæmd meginþátta ræktunarstarfsins. Enn fremur móta þau tillögur um stefnu í fræðslumálum og rannsóknum búgreinarinnar og fjalla um önnur mál sem vísað er þangað til umsagnar og afgreiðslu. Í fagráðum skulu sitja menn úr hópi starfandi bænda. Þá skal landsráðunautur sitja í fagráði og jafnframt skulu sitja í fagráðum eða starfandi með þeim sérfróðir aðilar. Fagráð skulu hljóta staðfestingu landbúnaðarráðherra að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands. Samkvæmt búnaðarlögum er það í verkahring fagráðs hverrar búgreinar að meta þörf fyrir kynbótadóma og sýningar búfjár í viðkomandi búgrein og gera tillögur til Bændasamtaka Íslands og viðkomandi aðildarfélaga um dómstörf og sýningahald. Þær reglur sem gilda um sýningar á íslenskum kynbótahrossum, og koma fram í riti þessu, eru unnar af landsráðunauti í hrossarækt í samvinnu við fagráð hrossaræktar og sérfræðinga á vegum þess, staðfestar af stjórn Bændasamtaka Íslands í umboði landbúnaðarráðherra sem fer með yfirstjórn þeirra mála sem búnaðarlögin taka til.

Kynbótasýningar.
Sýningarhald í hrossarækt byggist á einstaklingssýningum kynbótahrossa og afkvæmasýningum. Um er að ræða árlegar héraðssýningar víðs vegar um landið eftir þörfum auk landssýninga annað hvert ár.

Kynbótadómarar.
Landsráðunautur í hrossarækt sér um starfsmenntun kynbótadómara og heldur úti, á hverjum tíma, teymi kynbótadómara með fullnægjandi starfsreynslu og menntun.


2. Ræktunarmarkmið í íslenskri hrossarækt.


Almenn ræktunarmarkmið.
Heilbrigði, frjósemi, ending
Hið opinbera ræktunartakmark miðar að því að rækta heilbrigðan, frjósaman og endingargóðan hest – hraustan íslenskan hest.
Litir
Hið opinbera ræktunartakmark er að viðhalda öllum mögulegum litaafbrigðum innan stofnsins.
Stærð
Hið opinbera ræktunartakmark gefur færi á allmiklum breytileika hvað varðar stærð hrossanna. Almennt er talið að heppileg stærð sé á bilinu 135 til 145 cm á hæstar herðar, mælt á stöng.


Sérstök ræktunarmarkmið.
Sköpulag, almennt
Almennt er stefnt að því að rækta hina léttbyggðari gerð íslenska hestsins með mikilli áherslu á styrk, skrokkmýkt og vöðvastælta líkamsbyggingu. Sköpulagið á að stuðla að mikilli ganghæfni og eðlisgóðum höfuðburði og á sama tíma að taka mið af viðurkenndum fagurfræðilegum þáttum.
Sköpulag, nánar
Vísað til einkunnarinnar 10 fyrir eiginleikana höfuð, háls, herðar og bógar, bak og lend, samræmi, fótagerð, réttleiki, hófar, prúðleiki á fax og tagl.
Reiðhestshæfileikar, almennt
Almennt er stefnt að því að rækta fjölhæfan, taktfastan og öruggan, viljugan og geðprúðan hest sem fer glæsilega í reið - hinn íslenska gæðing.
Reiðhestshæfileikar, nánar
Vísað til lýsingar á einkunninni 10 fyrir eiginleikana tölt, brokk, skeið, stökk, vilja og geðslag, fegurð í reið, fet.

Vægi einstakra eiginleika:

Sköpulag
Reiðhestshæfileikar
Höfuð
3%
Tölt
15%
Háls, herðar og bógar
10%
Brokk
7,5%
Bak og lend
3%
Skeið
9%
Samræmi
7,5%
Stökk
4,5%
Fótagerð
6%
Vilji og geðslag
12,5%
Réttleiki
3%
Fegurð í reið
10%
Hófar
6%
Fet
1,5%
Prúðleiki
1,5%
Samtals:
40%
60%


3. Reglur um kynbótasýningar.
Starfsfólk og verksvið þess.

Á hverri kynbótasýningu starfa að jafnaði 3 dómarar og hafa samráð um einkunnir. Skipaður er formaður í hverri dómnefnd en hlutverk formannser að sjá til að dómstörf gangi vel fyrir sig og að niðurstaða fáist.
Á stærri sýningum getur þurft að skipa sýningarstjóra, mælingamann, tölvara og þul, allt eftir stærðargráðu mótsins, auk þess að tryggð verði þjónusta dýralæknis.
Vellir og önnur aðstaða.
Þar sem aðstæður eru fyrir hendi skulu mælingar og dómar á byggingarþáttum fara fram innandyra (reiðhöll).
Hæfileikar skulu sýndir á beinni braut, ca. 250 m langri og er hámarksferðafjöldi 5 ferðir fram og til baka (10 sinnum fram hjá dómurum).
Almennt verklag.
Kynbótadómar fara þannig fram að fyrst koma hross til byggingardóms en síðan til dóms á reiðhesthæfileikum. Þegar öll hross á sýningu hafa komið til dóms er haldin sérstök yfirlitssýning þar sem öll hæfileikadæmd hross eiga þátttökurétt.
Á yfirlitssýningu eru 2-4 hross í braut í einu, allt eftir aðstæðum og fjölda hrossa. Þar er dómurum heimilt að hækka fyrri dóm á einstökum reiðhestkostum komi hrossið betur fyrir.
Á stærri sýningum sem hafa á að skipa fullu starfsliði má áætla að afköst við dómstörf séu u.þ.b. 45 hross á einum vinnudegi.
Á mjög stórum sýningum sem spanna fleiri vikur er miðað við að yfirlitssýning sé haldin að aflokinni hverri dómaviku.
Dómarar skulu hafa við hendina alla eldri dóma viðkomandi hrossa.
Niðurstöðum mælinga og dóma er safnað jafnóðum í miðlægan gagnagrunn hrossaræktarinnar (Fengur) og eins fljótt og auðið er eftir að dómi á viðkomandi hrossi er lokið skal umráðamaður fá niðurstöðublað í hendur.
Um hestinn.
Hross sem koma til kynbótadóms skulu vera vel undirbúin, hraust og ósár, vel fóðruð og hirt.
Öll hross sem koma til kynbótadóms skulu vera grunnskráð og einstaklingsmerkt (örmerki/frostmerki). Starfsmenn sýningarinnar sjá um að samlesa einstaklingsmerkið við grunnskráningu.
Allir stóðhestar sem koma til kynbótadóms skulu vera blóðflokkaðir eða DNA-greindir til staðfestingar á ætterni. Heimilt er að koma með ungfola án blóðprófs en þá verður einungis gefin umsögn.
Járningar og fótabúnaður.
Hross sem sýnd eru í reið skulu vera járnuð. Járningin skal vera vönduð sem kostur er, eðlilegt samræmi sé milli tálgunar fram- og afturhófa og hófhalli samsvari halla kjúkunnar. Hófar mega ekki vera lengri en 9,5 cm og ekki má muna meiru en 2 cm á lengd framhófa og afturhófa. Hámarksþykkt skeifna er 8 mm og hámarksbreidd 20 mm. Skeifurnar skulu vera samstæðar og úr samskonar efni. Efni skeifnanna hafi ekki meiri eðlisþyngd en hefðbundið skeifnajárn. Skeifurnar séu af hæfilegri stærð miðað við hófa og ekki má muna meiru í þykkt en 2 mm á fram- og afturfótaskeifum. Leyfilegt er að nota skafla en þeir séu þá að hámarki (lengd*breidd*hæð) 15mm*15mm*12mm. Afbrigðileg járning, s.s. uppsteyptir hófar, er óheimil og vottorð sem mæla með slíku eru ekki tekin gild.
Fótahlífar séu að hámarki 120 gr. að þyngd (samanlagður þungi á hvern fót, þ.e. legghlífar og hófhlífar) Þær séu í dökkum lit, svartar eða dökkbrúnar. Ef hlífar eru notaðar í hæfileikadómi þá skal sami búnaður notaður út alla sýninguna. Ef hlíf dettur af þá skal henni komið fyrir aftur áður en lengra er haldið.
Reiðtygi og annar búnaður.
Heimilt er að að nota alla hnakka og hnakkígildi sem ekki valda hrossinu óþægindum eða særindum og hæfa íslenskum hrossum.
Leyfilegur beislisbúnaður er stangamél og hringamél. Nota má enskan reiðmúl (með eða án skáreimar), krossmúl og þýskan reiðmúl (nasamúl). Þó má ekki nota þýskan reiðmúl með stöngum. Annar beislisbúnaður er óheimill.
Leyfilegt er að nota písk.
Um knapa og umráðamenn.
Sami knapi sýni hrossin í einni og sömu sýningunni. Knapar skulu veraallsgáðir og sýna prúðmannlega reiðmennsku og þeir, ásamt umráðamönnum hrossins, sýni einnig kurteisi og háttvísi íframkomu. Að öðrum kosti komi til áminning (gult spjald) eða brottvísun frá sýningu (rautt spjald).
Verði knapi í kynbótasýningu uppvís af því að hestur hans greinist með ólögleg lyf, sbr. reglugerð nr. 635/1996 um notkun lyfja og meðferð á sýningar- og keppnishrossum, hlítir hann viðurlögum samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðareglum þar um. Hafi knapi gerst brotlegur samkvæmt lyfjareglum Landssambands hestamannafélaga (LH) gilda þau viðurlög sem hann hlýtur einnig í kynbótasýningum.
Notkun reiðhjálma er skylda.


4. Reglur um afkvæmasýningar.
Sömu reglur gilda um búnað og annað hvað varðar afkvæmasýningar og talið er upp fyrir kynbótasýningar hér á undan. Hvað varðar járningar þá er heimild fyrir ákveðnu fráviki þegar um er að ræða afkvæmi sem tekur þátt í öðrum sýningaratriðum sama móts. Þá er heimilt að fara eftir reglum LH um járningu en einungis ef sönnun liggur fyrir um þátttöku hrossins í gæðinga- eða íþróttakeppni á sama móti. Þetta á þó eingöngu við um þátttöku afkvæmis í afkvæmasýningunni sjálfri en ekki ef um er að ræða sýningu til kynbótadóms á afkvæminu sjálfu.


Lágmörk til verðlauna fyrir afkvæmi eru sem hér segir:
-Stóðhestar, 1. verðlaun fyrir afkvæmi: (annað tveggja eftirfarandi)
120 stig í aðaleinkunn kynbótamats og a.m.k. 15 dæmd afkvæmi
115 stig í aðaleinkunn kynbótamats og a.m.k. 30 dæmd afkvæmi
-Stóðhestar, heiðursverðlaun:
120 stig í aðaleinkunn kynbótamats og a.m.k. 50 dæmd afkvæmi
-Hryssur, heiðursverðlaun:
120 stig í aðaleinkunn kynbótamats og a.m.k. 5 dæmd afkvæmi.
Fjöldi afkvæma sem fylgja í sýningu skal vera sem hér segir: Stóðhestar, heiðursverðlaun, 12; stóðhestar, 1. verðlaun, 6; hryssur, heiðursverðlaun, 4.
Um útfærslu á sýningu skal samráð haft við sýningarstjórn og mótshaldara á hverjum stað.
Öll afkvæmi sem koma fram í afkvæmasýningu skulu hafa hlotið kynbótadóm.
Afkvæmahross geta einungis komið einu sinni til þátttöku í hvert verðlaunastig, þ.e. 1. verðlaun og heiðursverðlaun og þau þurfa að vera á lífi á Íslandi. Eignarhald skiptir engu um þátttöku né verðlaunun.
Dómnefnd skal að aflokinni afkvæmasýningu semja dómsorð er lýsiþeim meginþáttum sem einkenna afkvæmahópinn.


5. Skrokkmál.
Stóðhestar skulu mældir með bandi, stöng, boga og skíðmáli á eftirtalinn hátt: Bandmál öll, stangarmál öll og skíðmál. Hryssur skulu mældar með bandmáli um framhné og legg og með stangarmáli á hæstar herðar, lend, brjóstdýpt og lengd. Hófalengd skal mæld á öllum hrossum.

Stangarmál:
Hæð á hæstar herðar
Hæð á lægst bak
Hæð á hæsta lend
Brjóstdýpt mæld frá hæsta punkti herðakambs á bringubein aftan armleggs
Bollengd mæld frá bóghnútu og aftur á aftasta punkt vöðva aftan setbeins
Bogmál:
Brjóstbreidd um bóghnútur
Mjaðmarbreidd um mjaðmarhorn
Mjaðmarbreidd um lærleggstoppa
Bandmál:
Ummál um sverast framhné
Ummál um grennstan framfótlegg
Skíðmál:
Breidd leggs og sina á fótlegg neðan framhnés
Vinstri framhófur frá hófhvarfi og fram í tá
Vinstri afturhófur frá hófhvarfi og fram í tá


6. Stigunarkvarði einstaklingsdóma.


Höfuð
9,5 - 10:
-Mjög frítt og fínlegt höfuð. Eyrun þunn og fínleg, hæfilega lokuð og vel sett. Stórt, opið og næmt, fjörlegt auga og falleg augnaumgjörð. Húðin þunn og fínhærð. Kjálkarnir þunnir og hæfilega grunnir og góð gleidd á milli þeirra. Neflína bein og nasir flenntar.
9,0:
-Frítt og fínlegt, gallalaust höfuð.
8,5:
-Mjög myndarlegt, svipmikið höfuð.
-Frítt, fínlegt höfuð.
8,0:
-Myndarlegt höfuð, svipmikið, má vera nokkuð gróft eða hlutfallslega stórt ef það er að öðru leyti gallalítið.
-Svipgott höfuð, gallalítið.
-Mjög frítt höfuð en með einhvern galla í talsverðum mæli.
7,5:
-Þokkalegt gallalítið höfuð, hvergi gott.
-Góðir þættir í höfuðgerðinni geta vegið upp nokkur lýti.
7.0:
-Ófrítt svipljótt höfuð.
-Þungt (holdugt) höfuð.
-Djúpir, þykkir kjálkar.
-Smá augu sem sitja djúpt.
-Slæm eyrnastaða.
-Gróf eyru.
-Nokkurt frávik frá beinni neflínu.
-Mjög stutt munnvik.


Sambærilegar reglur gilda um einn galla eða fleiri eins og lýst er hér að neðan (einkunn 6,5 og lægra).


6,5 og lægra:
-Mjög gróft og hlutfallslega stórt höfuð.
-Mjög slæm eyrnastaða og illa gerð eyru.
-Mikið frávik frá beinni neflínu.
-Mikill ófríðleiki.


Einkunnin 6,5 eða lægri er gefin ef einn ofantalinna galla lýta höfuðið í afar ríkum mæli en mjög fátt prýðir. Einnig gæti einkunn á þessu bili komið til þótt gallarnir séu ekki í afar ríkum mæli hver og einn, séu þeir fleiri en einn og fátt prýði, sjá einnig í upptalningu við einkunn 7,0.


Háls, herðar og bógar
9,5 - 10:
-Langur, háreistur, afar fíngerður háls, úrvalsgóð hnakkabeygja, hálsinn greinist fagurlega frá bolnum, háar og vel lagaðar herðar, bógar skásettir.
9,0:
-Langur, háreistur, fremur fíngerður háls en dýpt ívið of mikil um brjóst, úrvals góð hnakkabeygja, háar vel lagaðar herðar, bógar skásettir.
-Vel í meðallagi langur, vel reistur, þunnur og fíngerður háls, hnakkabeygja góð, háar og vel lagaðar herðar, bógar skásettir.
8,5:
-Háreistur, meðallangur og full sver en vel settur háls, hnakkabeygja góð, háar og vel lagaðar herðar, skásettir bógar.
-Langur, þokkalega reistur, fíngerður, bærilega settur háls, háar og vel lagaðar herðar, skásettir bógar.
-Langur, vel reistur, fíngerður háls, háar og vel lagaðar herðar, en full beinir bógar.
-Langur, vel reistur, fíngerður háls, rétt þokkalegar herðar, en vel skásettir bógar.
-Langur, vel reistur, fíngerður háls, en hnakkabeygja þó ekki nógu góð, háar og vel lagaðar herðar, bógar skásettir.
8,0:
-Reistur og mjúkur, þokkalega langur en djúpur og of sver háls, herðar háar, bógar skásettir.
–Langur, grannur, vel settur háls, allgóð hnakkabeygja en herðar full lágar, bógsetning í lagi.
-Vel reistur háls en frambygging að öðru leyti í meðallagi.
7,5:
-Þokkaleg frambygging en hvergi góð.
-Reising í meðallagi, háls of stuttur, þykkur og/eða djúpur, herðar vel lagaðar (háar og vel breiðar), bógar vel skásettir.
-Háls langur og vel gerður en of lágt settur, herðar lágar og bógar beinir.
-Reistur háls en áberandi mikill hjartarháls og/eða mikið taumaslöður, frambygging að öðru leyti þokkaleg.
7.0:
-Mikill hjartarháls.
-Holdfyllt kverk.
-Mikið taumaslöður.


Þetta þrennt er til viðbótar upptalningu fyrir einkunn 6,5 eða lægri. Sambærilegar reglur gilda um einkunn eins og lýst er hér að neðan (6,5 og lægra), þ.e. taka skal tillit til fjölda og eðlis lýta í sköpulagi frambyggingar.


6,5 og lægra:
-Háls er mjög lágt settur.
-Háls er mjög djúpur.
-Háls er mjög stuttur.
-Herðar eru mjög lágar og flatar.
-Bógar eru mjög beinir.
-Bógar eru mjög fast bundnir.


Einkunnin 6,5 eða lægri er gefin ef einhverjir gallar lýta frambygginguna í afar ríkum mæli en mjög fátt prýðir. Einnig gæti einkunn á þessu bili komið til þótt gallarnir séu ekki í afar ríkum mæli hver og einn, séu þeir margir og fátt prýði. Sjá einnig skýringar við einkunn 7,0.


Kröfur um fínleika hálsgerðarinnar eru ekki hinar sömu hvað stóðhesta varðar og hryssur eða gelta hesta.
Áður en einkunn fyrir háls, herðar og bóga er endanlega ákvörðuð skal dómnefnd skoða hvernig hrossinu nýtist frambyggingin í reið, hvað varðar fótaburð, framtak, reisingu og hnakkabeygju.


Bak og lend
9,5 - 10:
-Einstök úrvalsgerð yfirlínu: Bakið er mjúkt og fjaðurmagnað, hæfilega langt, vel breitt og vöðvað. Hrygglínan er mjúk aftur í krossbein. Lendin er fögur, löng, hæfilega brött, jafnvaxin, fyllt, lærin eru löng og hafa mikla og djúpa vöðvafyllingu. Taglið er fagurlega sett.
9,0:
-Mjög vel sköpuð yfirlína.
-Sérlega vel skapað bak eða lend getur vegið upp fremur gott sköpulag hins líkamshlutans ef samskeyti baks og lendar eru vel gerð.
8,5:
-Vel sköpuð yfirlína.
-Sérlega vel skapað bak eða lend getur vegið upp þokkalegt sköpulag hins líkamshlutans ef samskeyti baks og lendar eru góð.
8,0:
-Fremur gott sköpulag yfirlínunnar.
-Vel skapað bak; mjúkt, breitt og vel vöðvað, góð samskeyti baks og lendar. Lendin er þokkalega gerð en hvergi góð.
-Þokkalega gert bak; ekki mjög hart, söðulbakað, né stífleiki í spjaldi. Vel sköpuð lend; löng, hæfilega brött, jafnvaxin og fyllt.
7,5:
-Þokkalegt sköpulag baks, lendar og samskeyta þeirra en hvergi gott (þokkalega gerð yfirlína).
-Gott sköpulag baks og lendar getur náð að vinna upp nokkur lýti á yfirlínunni.
7,0:
-Sjá upptalningu við einkunn 6,5 og lægra, en hér er ekki um eins alvarlega galla að ræða.
6,5 og lægra:
-Kryppa í baki eða spjaldhrygg.
-Mjög mikið söðulbak.
-Mjög gölluð samskeyti baks og lendar.
-Mjög stutt bak eða mjög langt.
-Mjög mjótt bak, illa vöðvað.
-Mjög afturdregin lend.
-Afar grófgerð lend.
-Mjög stutt, grunn, flöt eða þúfulaga lend.
-Mjög framhallandi bak.


Við einkunnagjöf skal taka tillit til fjölda lýta og hversu stórfelld þau eru, sbr. fyrr sagt.


Samræmi
9,5 – 10:
-Glæst heildarmynd. Hrossið hafi lofthæð, sívalan, langan og léttan bol, það sé nægilega framhátt og algerlega hlutfallarétt.
9,0:
-Mjög falleg heildarmynd. Hrossið hafi lofthæð, sívalan, langan og léttan bol, það sé nægilega framhátt. Einungis sé um smávægilega samræmisgalla að ræða.
8,5:
-Falleg heildarmynd. Hrossið hafi lofthæð, sívalan, langan bol. Hryssur séu ekki afturháar en stóðhestar hærri á herðar en lend. Einungis um smávægilega samræmisgalla að ræða.
8,0:
-Fremur falleg heildarmynd.
-Mjög góðir þættir í samræminu geta vegið upp nokkur lýti.
7,5:
-Þokkalegt samræmi.
-Góðir þættir í samræminu geta vegið upp nokkur lýti.
7,0:
-Sjá upptalningu við einkunn 6,5 og lægra, en hér er ekki um eins alvarlega galla að ræða.
6,5 og lægra:
-Hrossið er mjög framlágt.
-Hrossið er mjög djúpbyggt; mjög djúpt um brjóst, bolmikið (miklar útlögur, flatar síður).
-Hrossið er mjög fótlágt.
-Hrossið er mjög stuttvaxið og/eða það er mikið ósamræmi í lengd, framhluta, miðhluta og afturbyggingu.
-Hrossið hefur mikið ósamræmi í fram- og afturhluta (breidd, dýpt), þar með talið að brjóstið sé of þunnt (samfallið).


Fótagerð
9,5 – 10:
-Þurrar, mjög sterklegar sinar og mjög góð skil sina og leggja, traustlegir liðir og vel gerðar kjúkur, fótstaða mjög góð.
9,0.
-Þurrar, mjög sterklegar sinar og mjög góð skil sina og leggja, traustlegir liðir og allgóðar kjúkur.
8,5:
-Þurrar, sterklegar sinar og góð skil sina og leggja (mjög gott átak), þokkalegir liðir, kjúkur og fótstaða (útlit).
-Þokkalegt átak en mjög fallegt útlit.
8,0:
-Allgóð fótagerð.
-Mjög góðir þættir í fótagerðinni geta vegið upp nokkra galla.
7,5:
-Þokkaleg fótagerð.
-Góðir þættir í fótagerðinni geta vegið upp nokkra galla.
7,0:
-Sjá upptalningu við einkunn 6,5 og lægra en hér er ekki um eins alvarlega galla að ræða.
6,5:
-Mjög votar sinar á fram- og/eða afturfótum.
-Mjög lítil skil sina og leggja á framfótum.
-Mjög grannir liðir á aftur- og/eða framfótum (einkum skal litið á hæl og framhné).
-Mjög svög eða hörð fótstaða.
-Mikið frávik frá réttri fótstöðu, þ.e. sverðfætt eða hafurfætt


Við einkunnagjöf skal taka tillit til fjölda galla og hversu miklir þeir eru.


Réttleiki
9,5 – 10:
-Frábær réttleiki: Framfætur eru algerlega réttir og hæfileg gleidd er á milli framfóta sem og afturfóta. Afturfætur mega vera lítillega útskeifir.
9,0:
-Mjög góður réttleiki. Ekki er um neina eiginlega galla að ræða.
8,5:
-Góður réttleiki. Einungis er um smávægilegan galla að ræða, þó sé enginn vindingur í hæklum.
8,0:
-Fremur góður réttleiki fóta. Ekki um verulega galla að ræða.
7,5:
-Þokkalegur réttleiki. Liðir mega þó vera nokkuð snúnir ef hrossið er algerlega óágripið og engin einkenni um óeðlilegt álag koma fram í fótum.
7,0:
-Sjá upptalningu við einkunn 6,5 og lægra en hér er ekki um eins alvarlega galla að ræða.
6,5 og lægra:
-Mjög illa snúnir liðir fram- og/eða afturfóta.
-Mjög mikill vindingur í hæklum.
-Mjög mikil nágengni.
-Mjög skæld fótstaða á fram- og/eða afturfótum; kiðfætt, hjólbeinótt, kýrfætt.


Við einkunnagjöf skal taka tillit til fjölda galla og hversu miklir þeir eru.


Við dóma á réttleika skal taka tillit til hvort hross grípi á sig eða einkenni um óeðlilegt álag komi fram.


Sú venja skal viðhöfð við dóma á nágengum hrossum að þau séu teymd á brokki, auk þess sem þau eru teymd á feti, eins og venja er. Mjög mikil gleiðgengni að aftan, svo að lýti sé af, getur haft áhrif á einkunnagjöf réttleika.


Hófar
9,5 – 10:
-Mjög vel djúpir hófar og hvelfdur hófbotn, mjög vel lagaðir, kúptir og fallegir að sjá, efnisþéttir, einlitir og helst dökkir. Hóftunga er mikil og hælstoðir mjög traustlegar.
9,0:
-Vel djúpir, vel lagaðir og kúptir, sterklegir og efnismiklir hófar, hóftunga er góð og hælstoðir traustlegar.
8,5:
-Vel djúpir, vel lagaðir og sterklegir hófar. Aðeins er um fremur smávægilega galla að ræða hvað önnur atriði hófgerðar varðar.
8,0:
-Þokkalega vel djúpir hófar, þeir séu lausir við alla stórgalla.
-Meðaldjúpir hófar en mjög efnisgóðir og vel lagaðir.
7,5:
-Meðaldjúpir hófar en gallar og betri atriði geta náð til að vega hvort annað upp.
7,0:
-Sjá upptalningu við einkunn 6,5 og lægra, en hér er ekki um eins alvarlega galla að ræða.
6,5 og lægra:
-Mjög grunnir hófar, flatir, útflenntir eða hófbotn siginn.
-Mjög krappir (þröngir) hófar.
-Mjög lélegt efni í hófum (þ.m.t. afar ljótt yfirborð).
-Mjög efnislitlir hófar, nær enginn hóftunga eða nær engir hælar.


Við einkunnagjöf skal taka tillit til fjölda galla og hversu miklir þeir eru.


Prúðleiki á fax og tagl
9,5 – 10:
-Einstakur prúðleiki á fax og tagl, þykkt og sítt fax með miklum ennistoppi.
9,0:
-Mjög góður prúðleiki á fax og tagl.
8,0-8,5:
-Allþykkt fax sem má auðveldlega skipta, ágætur vöxtur í ennistopp. Taglið þokkalegt.
7,5:
-Meðalprýði
7,0:
-Sjá einkunn 6,5 og lægra, en hér er ekki um eins alvarlegan galla að ræða.
6,5 og lægra:
-Mjög snoðið á fax og tagl.


Hryssur hafa að jafnaði fíngerðara fax og tagl en stóðhestar og þarf að hafa það í huga við mat á þessum þætti.


Tölt
9,5 – 10:
-Taktgott tölt með góðu afturfótastigi, glæstri lyftu og framgripi framfóta, mikið fjaðurmagn er í hreyfingum, töltferðin frábær.
9,0:
-Taktgott tölt með góðu afturfótastigi, góðri lyftu og framgripi framfóta, fjaðurmagn er í hreyfingum, mjög ferðmikið.
-Taktgott tölt með góðu afturfótastigi, glæstri lyftu og framgripi framfóta, mikið fjaðurmagn er í hreyfingum, dágóð ferð.
8,5:
-Taktgott tölt með góðu afturfótastigi, meðalgóðri lyftu og framgripi framfóta en töltferðin er mjög góð.
-Taktgott tölt með góðu afturfótastigi, góðri lyftu og framgripi framfóta en aðeins þokkalegri töltferð.
-Rúmt, afar lyftingar- og framtaksmikið tölt en skortir nokkuð á gott taktöryggi.
-Hrossið nær ekki góðu afturfótarstigi en hreyfingar framfóta eru afar lyftingar- og framgripsmiklar, bærilegur taktur á hægu tölti, mjög ferðmikið.
8,0:
-Taktgott tölt með góðu afturfótastigi, lyfta og framgrip framfóta er ekki undir meðallagi, allgóð ferð.
-Taktgott tölt með góðu afturfótastigi, góðri lyftu og framgripi framfóta en töltferð er í meðallagi.
-Rúmt lyftingargott, framtaksmikið tölt en um nokkra taktgalla er að ræða þegar komið er á ferð.
-Fremur stutt afturfótastig en lyfta og framgrip framfóta er mikið, hreinir taktgallar eru ekki til staðar, hrossið nær góðri töltferð.
7,5:
-Taktgott tölt en nokkuð skortir á rýmiþess og glæsileik.
-Taktgott tölt, rúmt en reisnarlítið (lágengni).
-Rúmt, lyftingar- og framgripsmikið tölt en um talsverða taktgalla er að ræða á hægu og milliferðartölti.
-Tölt með stuttu afturfótastigi en lyfta og framgrip fóta er mikið og allgóð ferð næst.
7,0:
-Þokkalegt tölt með köflum en ójafnt.
-Rýmislítið tölt eða mjög stutt afturfótastig.
-Brokkívaf en þokkaleg ferð.
-Bindingur þó að nokkur ferð og lyfta náist.
-Hopp upp á fótinn á venjulegri töltferð.
-Takthreint tölt, milliferð næst en gangurinn er afskaplega lítilfjörlegur (mikil lággengni, stuttstigni).
6,5 og lægra:
-Töltir ekki (5,0).
-Mjög tregt tölt (klárgengni).
-Mjög bundið tölt (skeiðbindingur).
-Afar ferðlítið tölt.
-Mjög víxlað tölt.
-Tipl eða mikið hopp upp á fótinn.


Mikilvægt er að sýna hægt tölt og greinilegar hraðabreytingar eigi hinar hærri einkunnir að nást. Hægt tölt er stigað sérstaklega og sýning þess er skilyrði þess að hærri einkunnir (8,5 og hærra) fyrir tölt náist. Einkunn fyrir hægt tölt reiknast ekki sérstaklega inn í heildar-einkunn en er hugsuð til að auka upplýsingagildi dómsins.


Brokk
9,5-10:
-Öruggt brokk með rúmum og háum fjaðurmögnuðum, svífandi hreyfingum, brokkferðin einstök.
9,0:
-Öruggt brokk með rúmum og háum fjaðurmögnuðum, svífandi hreyfingum, ferðgott.
-Kappreiðabrokk, ekki kröfur um glæsileik.
8,5:
-Glæst og svifmikið brokk en skortir nokkuð á brokköryggi.
-Öruggt, létt, ferðgott og þokkalega fallegt brokk.
-Öruggt brokk með háum og miklum hreyfingum, ferðmikið en gróft.
8,0.
-Skrefadrjúgt og fallegt brokk en lítið brokköryggi.
-Öruggt, létt og sæmilega ferðgott brokk en ekki fallegt.
-Öruggt, ferðmikið en klúrt brokk.
7,5:
-Sýnir skrefadrjúgt brokk en óöruggt (lítið brokköryggi).
-Full lin og sveiflulítil brokkhreyfing en þokkalega ferðgott.
-Hreint og öruggt brokk en þung hreyfing og ekki ferðmikið.
7,0:
-Afar óöruggt brokk en sýnir á köflum gott brokk.
-Brokkar örugglega en lint og ferðlítið.
6,5:
-Mjög lint og óöruggt brokk, hoppar upp á fótinn.
-Öruggt tipl.
5,5-6,0:
-Rétt aðeins tæpt á tilþrifalausu brokki.
5,0:
-Sýnir ekki brokk.


Við dóm á brokki er ætíð litið til hreinleika gangtegundarinnar ef hinar hærri einkunnir eiga að nást, þó eru ekki gerðar kröfur um fullkominn tvítakt á brokki.


Skeið
9,5 – 10:
-Öruggt og glæsilegt skeið, taktgott, skeiðferðin frábær.
9,0:
-Öruggt og glæsilegt skeið, taktgott, góð skeiðferð.
-Kappreiðaskeið, ekki kröfur um glæsileik.
8,5:
-Öruggt og afar fallegt skeið, taktgott, allgóð skeiðferð.
-Öruggt og snarpt skeið en ekki fallegt.
-Glæsilegt og ferðmikið skeið en ekki full sprettlengd, - nær þó 90 til 100 m.
-Glæsilegt og flugrúmt skeið, óverulegir taktgallar, full sprettlengd, nær 150 til 180 m.
8,0:
-Öruggt og fallegt skeið, taktgott, skeiðferð í meðallagi.
-Öruggt og rúmt skeið en ekki fallegt.
-Fallegt og ferðmikið skeið en ekki langir sprettir, nær þó 70 – 80 m.
-Fallegt og mjög rúmt skeið en lítillega fjórtaktað á köflum.
7,5:
-Öruggt og þokkalega fallegt skeið, taktgott en skortir á ferð.
-Öruggt, ekki fallegt skeið en fremur ferðgott.
-Fallegt og rúmt skeið en stuttir sprettir, - nær þó 40 til 60 m.
-Fallegt og rúmt skeið en fjórtaktað á köflum.
7,0:
-Snerpu skeiðhrifsur en lítið skeiðöryggi.
-Skeið með allmiklum taktgöllum.
-Snerpu- og fegurðarlítið en öruggt skeið.
6,5 eða lægra:
-Engin vekurð (5.0).
-Stuttir snerpulitlir sprettir.
-Snerpulaust skeið þótt hrossið haldi sprettinn út.
-Skeiðhrifsur.
-Skeið með verulegum taktgöllum; flandur, fjórtaktur eða víxl.


Stökk
9,5 – 10:
-Takthreint og afar fallegt stökk; hrossið lyftir sér vel að framan og teygir vel á sér í mjúkum bogum, stökkferðin frábær.
9,0:
-Takthreint og afar fallegt stökk; hrossið lyftir sér vel að framan og teygir vel á sér í mjúkum bogum, dágóð ferð.
-Kappreiðastökk, ekki kröfur um glæsileik.
8,5:
-Sniðgott stökk, allgóð stökkferð.
-Mjög ferðmikið stökk, snið í þokkalegu meðallagi.
8,0:
-Sniðgott stökk, stökkferð í meðallagi.
-Ferðmikið stökk, snið í meðallagi.
7,5:
-Þokkalegt stökk með sæmilegu sniði og stökkferð í meðallagi.
-Stökkferð og snið (taktur, svif og mýkt) geta vegið upp vankanta hvort á öðru.
7,0:
-Víxlar en sýnir gott stökk á milli.
-Stökk með óhreinum takti.
-Þungt stökk; svif- og ferðlítið.
-Þokkalegt snið en ferðlaust stökk.
6,5 eða lægra:
-Krossstökk
-Víxl
-Mjög óhreinn taktur, ferðlaust.
-Mjög mikið ósamræmi í stökkhreyfingu, t.d. mjög há lendarhreyfing.
-Afar mikil þyngsli (svifleysi).


Stökksýning í kynbótadómi skal framkvæmd á þann veg að hleypt er af hægu stökki (það sýnt), stökkhraði síðan aukinn og ýtrasta stökkferð hrossins sýnd.


Vilji og geðslag
9,5-10:
-Fjörviljugur, glaður og kjarkaður en frábærlega þjáll og leitast sífellt eftir því að gera knapa sínum til geðs.
9,0:
-Ásækinn í vilja og þjáll en ekki fjörugur.
-Fjörviljugur en einungis meðalþjáll.
-Sýnir frábæran og hnökralausan samstarfsvilja í hvívetna en ekki fjörugur.
8,5:
-Mjög þjáll en ekki mikið ásækinn.
-Ásækinn í vilja en einungis meðalþjáll.
8,0:
-Reiðvilji.
-Ásækinn í vilja en óþjáll.
7,5:
-Þægð en framtaksleysi.
-Spennuvilji.
-Reiðvilji en viðkvæmni eða einbeitingarleysi.
7,0:
-Viljaleysi.
-Kergjuvottur.
-Taugaveiklun.
6,5-5:
-Kergja.
-Mikil leti og deyfð.
-Mikið ofríki (rokur).


Fegurð í reið
9,5 – 10:
Hrossið er glæsilegt og aðsópsmikið í framgöngu:
-Hrossið er háreist, þjált í beisli, höfuð í lóð. Hreyfingar eru léttar, háar, fjaðurmagnaðar og samræmisgóðar, mikið framgrip og frábært fas, taglburður eins og best verður á kosið.
9,0:
Hrossið fer mjög fallega í reið;
-Reising er fögur og hrossið fer fallega í beisli. Hreyfingar eru léttar, háar, fjaðurmagnaðar og samræmisgóðar, mikið framgrip og mikið fas, taglburður með ágætum. Mjög góðir þættir geta vegið upp nokkru síðri þætti í fegurð hrossins í reið, en ætíð eru gerðar miklar kröfur til fallegrar reisingar.
8,5:
Hrossið fer fallega í reið.
-Reising er góð og hrossið fer vel í beisli. Hreyfingar eru léttar og samræmisgóðar eða aðsópsmiklar. Góðir þættir geta vegið upp minniháttar galla í fegurð hrossa í reið.
8,0:
Hrossið fer vel í reið:
-Hrossið er hæfilega reist og heildarmynd þess í reið er laus við öll eiginleg lýti t.d. þegar hestur ganar.
-Reising og höfuðburður aðeins sæmilegur en fallegar og verklegar hreyfingar.
-Reising og höfuðburður mjög góður en hreyfingar aðeins sæmilegar.
7,5:
Engir afgerandi gallar á heildarmynd hrossins í reið:
-Hrossið er meðalreist og fer þokkalega.
7,0:
-Sjá upptalningu við einkunn 6,5 og lægra, en hér er ekki um eins alvarlega galla að ræða.
6,5 og lægra:
-Mikil lággengni.
-Mikið mýktarleysi og þung hreyfing.
-Mikil lágreisni.
-Mikil ofreisn, gan og gap.
-Mikill höfuðsláttur og skekking í beisli.
-Taglsláttur.


Einkunn 6,5 eða lægri getur komið til ef einn ofantalinna galla nær til að stórskemma heildarmynd hrossins í reið. Hitt er þó algengara að fleiri galla þurfi til, svo að heildarmynd verði þetta lýtt. Einkunn fyrir fegurð í reið er, á hliðstæðan hátt einkunn fyrir vilja og geðslag, samnefnari fyrir eiginleikann eins og hann kemur fyrir hjá hrossinu í gegnum alla sýninguna.


Fet
9,5 – 10:
-Hrossið fasmikið og fetar mjúkt í bol, með stöðugum jöfnum takti, meðalreist, nær framfótaspori vel, hreyfingar rösklegar og rúmar.
8,5 – 9,0:
-Gangurinn takthreinn og rösklegur en hreyfingarnar fasminni en undir einkunn 9,5-10.
7,5 – 8,0:
-Fetið takthreint en skortir röskleika.
6,5 – 7,0:
-Ójafn taktur eða fetið framtakslítið, afturfótur nær ekki framfótaspori.
5,5 – 6,0:
-Fetið mjög skrefstutt, tiplandi, eða mikil hliðstæð hreyfing.
5,0:
-Hrossið fetar ekki.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica