Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

478/1996

Reglugerð um innheimtu og ráðstöfun á verðskerðingargjöldum af hrossakjöti

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Innheimta skal 2% verðskerðingargjald af öllu hrossakjöti. Skal gjaldið dregið af verði til framleiðenda eins og það er ákveðið af verðlagsnefnd búvöru (sexmannanefnd), eða áætlað skv. verðtöku Framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem landbúnaðarráðherra staðfestir.

2. gr.

Afurðastöðvum er skylt að standa Framleiðsluráði landbúnaðarins skil á skýrslum um alla slátrun hrossa og ráðstöfun kjötsins hvort sem er til innleggs, heimtöku eða annars. Framleiðsluráð reiknar verðskerðingargjaldið samkvæmt skýrslum afurðastöðvanna. Afurðastöð skal innheimta það gjald sem hverjum framleiðanda er skylt að greiða.

3. gr.

Verðskerðingargjaldið greiðist af afurðastöðvum. Gjalddagi skal vera 25. hvers mánaðar vegna næstliðins framleiðslumánaðar. Sé gjaldið ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal innheimta dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Dráttarvextir skulu reiknast hinir sömu og hjá innlánsstofnunum skv. ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.

4.gr.

Ef gögn um viðskipti með gjaldskyldar afurðir þykja að mati Framleiðsluráðs ófullnægjandi eða gjaldskyldur aðili skilar ekki skýrslum skv. 2. gr. skal Framleiðsluráð skora á viðkomandi aðila að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skriflegar skýringar og gögn. Fái Framleiðsluráð fullnægjandi skýringar og gögn innan tiltekins tíma skal gjaldið ákvarðað og innheimt í samræmi við þau.

Berist svar við áskorun skv. 1. mgr. ekki innan tiltekins tíma eða ef skýringar eða gögn eru ófullnægjandi, er Framleiðsluráði heimilt að áætla gjaldið og innheimta það skv. þeirri áætlun. Senda skal skriflega tilkynningu til greiðanda gjaldsins um áætlunina. Telji greiðandi áætlunina ranga, getur hann innan 20 daga frá og með póstsendingardegi tilkynningar um áætlun gjaldsins krafist þess skriflega að Framleiðsluráð taki áætlunina til endurskoðunar. Skal sú krafa rökstudd með söluskrám eða öðrum nauðsynlegum gögnum. Framleiðsluráð skal innan eins mánaðar frá lokum þessa frests gera greiðanda skriflega grein fyrir afgreiðslu á kröfu hans. Heimilt er greiðanda að skjóta lokaafgreiðslu Framleiðsluráðs til landbúnaðarráðherra og skal skrifleg og rökstudd beiðni þar um hafa borist ráðherra innan 30 daga frá póstlagningu lokaafgreiðslu.

Beiðni um endurskoðun á áætlun gjaldsins eða deila um gjaldskyldu frestar ekki eindaga né leysir undan neinum viðurlögum, sem lögð eru við vangreiðslu þeirra. Ef gjaldið er lækkað samkvæmt afgreiðslu Framleiðsluráðs eða úrskurði ráðherra skal endurgreiðsla þegar fara fram.

5.gr.

Skylt er Framleiðsluráði að halda innheimtu verðskerðingargjaldi sérgreindu og skal gjaldinu varið til markaðsaðgerða fyrir hrossakjöt, bæði hér á landi og erlendis. Framleiðsluráð skal fyrir 1. september ár hvert gera áætlun um tekjur af innheimtu verðskerðingargjalds á almanaksárinu og ráðstöfun þess. Hvers konar ráðstöfun á tekjum af verðskerðingargjaldi skal vera háð samþykki landbúnaðarráðherra.

6.gr.

Reglugerð þessi er samkvæmt heimild í 20. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og öðlast þegar gildi.

Landbúnaðarráðuneytinu, 3. september 1996

Guðmundur Bjarnason

Jón Höskuldsson

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.