Landbúnaðarráðuneyti

505/1992

Reglugerð um Fiskræktarsjóð.

1. gr.

Hlutverk og stjórn.

Fiskræktarsjóður starfar samkvæmt XIV. kafla laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði sbr. breytingu með lögum nr. 38/1992 og er hlutverk hans að styðja fiskrækt og fiskeldi í landinu.

Veiðimálanefnd og veiðimálastjóri fara með stjórn Fiskræktarsjóðs. Ákvarðanir um styrki og lán úr sjóðnum eru háðar samþykki landbúnaðarráðherra.

2. gr.

Tekjur.

Tekjur Fiskræktarsjóðs eru m.a.:

a) Fjárveiting úr ríkissjóði.

b) 2% gjald af skírum veiðitekjum, sem innheimt er af veiðifélögum eða einstaka veiðiréttareigendum.

c) 3‰ af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu, sem selja orku til almennings.

Stjórn Fiskræktarsjóðs innheimtir tekjur skv. b og c liðum 1. mgr. og skal árlegur gjalddagi vera 1. júní vegna tekna gjaldskyldra aðila á næstliðnu almanaksári. Sé gjald til sjóðsins ekki greitt innan 30 daga frá gjalddaga, skal greiða vexti samkvæmt vaxtalögum og ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma af fjárhæð þeirri sem gjaldfallin er.

3. gr.

Áætlun.

Stjórn Fiskræktarsjóðs ber að afla nauðsynlegra upplýsinga um gjaldskyldar tekjur veiðifélaga og vatnsaflsstöðva fyrir 1. maí ár hvert. Skylt er að veita stjórn sjóðsins allar þær upplýsingar sem nægja til álagningar gjaldsins, þ.e. skattframtöl og rekstrarreikning. Nú þykja gögn um tekjur gjaldskylds aðila ófullnægjandi að mati stjórnar Fiskræktarsjóðs eða aðili skilar ekki nauðsynlegum gögnum og er stjórn Fiskræktarsjóðs þá skylt að skora á viðkomandi aðila að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skriflegar skýringar og gögn sem stjórn Fiskræktarsjóðs telur þörf á. Fái stjórn Fiskræktarsjóðs fullnægjandi gögn og skýringar innan tilskilins frests, skal gjaldið ákvarðað og innheimt í samræmi við þau. Berist svar ekki eða ef skýringar og gögn eru enn ófullnægjandi, er stjórn sjóðsins heimilt að áætla gjaldið og innheimta það samkvæmt þeirri áætlun.

Stjórn Fiskræktarsjóðs skal tilkynna greiðanda gjaldsins skriflega um áætlun. Telji viðkomandi að áætlun sé röng getur hann, innan 30 daga frá og með póstsendingardegi tilkynningar um áætlun gjaldsins, krafist þess skriflega að Fiskræktarsjóður taki áætlunina til endurskoðunar, enda sé krafan rökstudd með viðhlítandi gögnum um tekjur. Stjórn Fiskræktarsjóðs skal innan eins mánaðar frá lokum þessa frests gera greiðanda skriflega grein fyrir afgreiðslu á kröfu hans. Heimilt er viðkomandi aðila að skjóta lokaafgreiðslu Fiskræktarsjóðs til landbúnaðarráðherra og skal rökstudd beiðni þar um hafa borist ráðherra innan 30 daga frá póstlagningu bréfs Fiskræktarsjóðs.

Þar sem veiðifélag hefur ekki verið stofnað skal gjaldið lagt á hvern veiðiréttareiganda. Er veiðiréttareigendum skylt að láta stjórn Fiskræktarsjóðs í té skattframtöl vegna næstliðins tekjuárs og önnur nauðsynleg gögn fyrir 1. maí ár hvert. Fer að öðru leyti um framkvæmd innheimtu skv. 1. mgr.

4. gr.

Ágreiningur.

Rísi ágreiningur um gjaldskyldu eða önnur atriði í reglugerð þessari er heimilt að vísa málinu til úrskurðar hjá landbúnaðarráðherra.

Beiðni um endurskoðun á áætlun gjalda eða deila um gjaldskyldu frestar ekki eindaga gjaldsins né leysir undan neinum viðurlögum, sem lögð eru við vangreiðslu þess. Lækki gjaldið samkvæmt afgreiðslu Fiskræktarsjóðs eða úrskurði ráðherra, skal endurgreiðsla fara fram þegar í stað.

5. gr.

Lán og styrkir.

Heimilt er að veita lán og styrki úr Fiskræktarsjóði til mannvirkjagerðar er lýtur að fiskrækt eða fiskeldi, enda samþykki veiðimálastjóri tilhögun framkvæmda, þær séu gerðar undir eftirliti hans og hann mæli með styrkveitingu. Þá er heimilt að veita úr sjóðnum lán eða styrki til annarra verkefna sem stuðla að aukningu og viðhaldi íslenskra laxfiska.

Styrk er nemi allt að 1/3 af áætluðum kostnaði njóta:

a) Fiskvegir og önnur meiriháttar mannvirki, er miða að því að auka fiskför um vatn.

b) Klak- og eldisstöðvar í tengslum við fiskirækt.

c) Önnur fiskræktarmannvirki.

Umsóknir um lán og styrki úr Fiskræktarsjóði skal senda stjórn sjóðsins fyrir 1. mars ár hvert. Greiðslur úr sjóðnum fara fram í maímánuði og desembermánuði eftir því sem fjármagn er fyrir hendi.

Styrkir skulu greiddir út á mannvirki, þegar þau hafa verið tekin út. Þó skal heimilt að greiða allt að helming af áætluðum styrk út á mannvirki í byggingu, þegar sérstaklega stendur á, enda sé þá lokið minnst 2/3 af verkinu, hvað kostnað snertir.

Lán má ekki vera hærra en sem nemur 1/5 hluta þess fjár, sem sjóðurinn getur haft til umráða á árinu og eigi má lána meira til eins verks en sem nemur helmingi af áætluðu kostnaðarverði. Óheimilt er að veita rekstrarlán úr Fiskræktarsjóði.

Lán til fasteigna skulu vera til allt að 15 ára með sömu ársvöxtum og Stofnlánadeild landbúnaðarins lánar til útihúsa í sveitum. Lán skulu vera afborgunarlaus fyrstu tvö árin og greiðast svo með jöfnum afborgunum á 13 árum. Lán til fasteigna skulu tryggð með veði í fasteign þannig, að lánið, auk áhvílandi lána, nemi eigi meiru en þrem fjórðu hlutum matsverðs veðsins. Heimilt er að hefja útborgun á láni, áður en framkvæmd er lokið, enda sé þá lokið helmingi verksins, hvað áætlaðan kostnað snertir.

Til þess að standa straum af kostnaði við lánveitingar og vörslu Fiskræktarsj óðs, skal taka 1% þóknun af hverju láni við veitingu þess og auk þess 1/2% á ári.

6. gr.

Framsal lána.

Lán eru ekki framseljanleg, nema leyfi stjórnar Fiskræktarsjóðs komi til. Heimilt er að telja lán eða eftirstöðvar láns úr Fiskræktarsjóði komnar í gjalddaga án uppsagnar:

1. Þegar áskilið árgjald er ekki greitt á réttum gjalddaga.

2. Við eigendaskipti að veði fyrir láni, ef Fiskræktarsjóði hefur ekki verið tilkynnt um eigendaskiptin.

3. Ef veðið gengur svo úr sér eða rýrnar að gildi, að veðið er ekki lengur tryggt að dómi sjóðsstjórnarinnar.

4. Ef lögð er niður sú starfsemi, sem lánið var veitt til.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 38 27. maí 1992 um breytingu á lögum nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði og öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð um Fiskræktarsjóð nr. 124 9. júlí 1971.

Landbúnaðarráðuneytið, 15. desember 1992.

Halldór Blöndal.

Jón Höskuldsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica