Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 26. mars 1999

796/1998

Reglugerð um verðtilfærslugjald af mjólk.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Innheimta skal 2,65 kr. verðtilfærslugjald hjá afurðastöðvum af hverjum innvegnum mjólkurlítra í afurðastöð innan greiðslumarks, í fyrsta sinn af mjólk innlagðri í afurðastöð 1. september 1998. Afurðastöðvum ber að standa skil á gjaldinu til Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Framleiðsluráð skal halda sérstakan reikning um fjárreiður verðtilfærslugjalds sbr. 24. gr. laga nr. 99/1993.

2. gr.

Álagning verðtilfærslugjalds skal byggja á skýrslu um mánaðarlegt innlegg hvers framleiðanda og skal hún hafa borist Framleiðsluráði landbúnaðarins í síðasta lagi 10. næsta mánaðar. Framleiðsluráð landbúnaðarins sendir út álagningarseðla til afurðastöðva í samræmi við skýrslur þeirra. Gjalddagi greiðslu til Framleiðsluráðs landbúnaðarins er 25. hvers mánaðar og eindagi 25. næsta mánaðar. Framleiðsluráð gerir upp við hver verðlagsáramót hver heildargreiðsla hverrar afurðastöðvar skal vera á verðtilfærslugjaldi, sem fer eftir innvegnu mjólkurmagni í afurðastöðina, innan heildargreiðslumarks.

3. gr.

Framleiðsluráð landbúnaðarins endurgreiðir verðtilfærslugjald til afurðastöðva út á tilteknar mjólkurafurðir við sölu skv. ákvörðunum verðlagsnefndar búvara sbr. 22. gr. laga nr. 99/1993. Verðlagsnefnd skal ákveða til hvaða mjólkurafurða endurgreiðsla á verðtilfærslugjaldi skal taka hverju sinni, fjárhæð á einingu afurðar og fyrir hvaða tímabil hún skal gilda og tilkynnir það Framleiðsluráði landbúnaðarins.

Ákveði verðlagsnefnd að breyta endurgreiðslu á verðtilfærslugjaldi skal breytingin taka gildi miðað við 1. dag mánaðar. Framleiðsluráð landbúnaðarins tilkynnir afurðastöðvum hverju sinni um ákvarðanir verðlagsnefndar.

4. gr.

Endugreiðsla verðtilfærslugjalds fer fram mánaðarlega út á sölu í mánuðinum á undan. Afurðastöð skal skila sölu- og birgðaskýrslum til Framleiðsluráðs landbúnaðarins mánaðarlega á því formi sem Framleiðsluráð ákveður. Skýrsluskil skulu fara fram eigi síðar en 10. hvers mánaðar til að fá greitt í þeim mánuði. Skýrslur afurðastöðva um selt magn skulu staðfestar af löggiltum endurskoðendum eða á annan þann hátt sem Framleiðsluráð landbúnaðarins samþykkir. Gjalddagar greiðslna skulu vera þeir sömu og gilda um innheimtu gjalda af afurðastöð skv. 2. gr. þessarar reglugerðar.

5. gr.

Sé gerður samningur milli afurðastöðva í mjólkuriðnaði um verðtilfærslu milli seldra afurða sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 99/1993, skulu ákvæði 1. til 4. gr. reglugerðarinnar gilda um þá verðtilfærslu eftir því sem við getur átt. Í slíkum samningi, sem gerður skal til eins verðlagsárs í senn, skal kveða á um hvaða aðili hafi á höndum umsjón og fjárreiður og um að ársreikningur skuli endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda.

Verði verulegar breytingar á heildsöluverði mjólkurvara sbr. 15. gr. laga nr. 99/1993, geta samningsaðilar leitað heimildar verðlagsnefndar búvara til breytinga á fjárhæðum í samningnum.

6. gr.

Ef gögn um viðskipti með gjaldskyldar afurðir þykja að mati Framleiðsluráðs landbúnaðarins ófullnægjandi eða gjaldskyldur aðili skilar ekki skýrslum skv. 2. gr. skal Framleiðsluráð skora á viðkomandi aðila að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skriflegar skýringar og gögn. Fái Framleiðsluráð fullnægjandi skýringar og gögn innan tiltekins tíma skal gjaldið ákvarðað og innheimt í samræmi við þau.

Berist svar við áskorun skv. 1. mgr. ekki innan tiltekins tíma eða ef skýringar eða gögn eru ófullnægjandi skal Framleiðsluráð áætla gjaldið og innheimta það skv. þeirri áætlun. Áætlunin skal vera innlagt magn mjólkur í afurðastöðina árið á undan í sama mánuði og áætlað er fyrir, að viðlögðum 20%. Senda skal skriflega tilkynningu til greiðanda gjaldsins um áætlunina. Telji greiðandi áætlunina ranga, getur hann innan 20 daga frá og með póstsendingardegi tilkynningar um áætlun gjaldsins krafist þess skriflega að Framleiðsluráð taki áætlunina til endurskoðunar. Skal sú krafa rökstudd með söluskrám eða öðrum nauðsynlegum gögnum. Framleiðsluráð skal innan eins mánaðar frá lokum þessa frests gera greiðanda skriflega grein fyrir afgreiðslu á kröfu hans. Heimilt er greiðanda að skjóta lokaafgreiðslu Framleiðsluráðs til landbúnaðarráðherra og skal skrifleg og rökstudd beiðni þar um hafa borist ráðherra innan 30 daga frá póstlagningu lokaafgreiðslu.

Beiðni um endurskoðun á áætlun gjaldsins eða deila um gjaldskyldu frestar ekki eindaga né leysir undan neinum viðurlögum, sem lögð eru við vangreiðslu þeirra. Ef gjaldið er lækkað samkvæmt afgreiðslu Framleiðsluráðs eða úrskurði ráðherra skal endurgreiðsla þegar fara fram.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. 22. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993, sbr. 69. gr. sömu laga, og öðlast hún þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Á tímabilinu 1. september til 31. desember 1998 skal verðtilfærsla skv. 13. og 22. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, fara eftir verklagsreglum Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði um verðtilfærslu frá 24. ágúst 1995. Framleiðsluráð landbúnaðarins endurgreiðir verðtilfærslugjald sem tekið er yfir þetta tímabil skv. 1. gr. til afurðastöðva að fullu. Framleiðsluráð landbúnaðarins skal láta fara fram birgðatalningu hjá afurðastöðvum á þeim afurðum sem verðtilfærslugjald skv. 3. gr. greiðist til. Hafi birgðir sem til eru 31. desember 1998 notið verðtilfærslu skv. verklagsreglum Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði frá 24. ágúst 1995, skal ekki greiða á þær birgðir verðtilfærslugjald við sölu.

Ákvæði til bráðabirgða.

Á tímabilinu 1. september til 31. desember 1998 skal verðtilfærsla skv. 13. og 22. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, fara efir verklagsreglum Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði um verðtilfærslu frá 24. ágúst 1995. Framleiðsluráð landbúnaðarins endurgreiðir verðtilfærslugjald sem tekið er yfir þetta tímabil skv. 1. gr. til afurðastöðva að fullu.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.