Landbúnaðarráðuneyti

160/1984

Reglugerð um heilbrigðiseftirlit sláturafurða, sláturhús, kjötfrystihús, meðferð og verkun sláturafurða til útflutnings til Bandaríkja Norður-Ameríku - Brottfallin

1. gr.

Við heilbrigðiseftirlit, meðferð og verkun sláturafurða til útflutnings til Bandaríkja Norður-Ameríku skal í sláturhúsum og kjötfrystihúsum auk reglugerðar nr. 205/1967 um útbúnað sláturhúsa, kjötfrystihúsa, kjötverkunarstöðva og meðferð og flutning sláturafurða, reglugerðar nr. 168/1970 um heilbrigðisskoðun á sláturafurðum og reglugerðar nr. 442/1977 um slátrun, mat og meðferð sláturafurða og annarra reglna er mál þetta varða, fylgt ákvæðum þessarar reglugerðar.

2. gr.

Til að hlífa sláturafurðum við óhreinkun og mengun skal nota umbúðir úr plastdúk eða öðru viðlíka efni, áður en afurðir eru klæddar í grisju eða settar í kassa til útflutnings.

3. gr.

Sláturfé skal svipta meðvitund með skotvopni með föstum skotteini áður en blóðtæming fer fram. Óheimilt er að nota skotvopn með lausum kúlum. Þeir sem deyða sláturfé, skulu hafa skotvopnaleyfi og hafa náð 20 ára aldri, og skulu þeir gæta þess að skotvopn séu ávallt í fullkomnu lagi.

4. gr.

Í sláturhúsaréttum skal þess gætt að grindur, gólf, milligerðir, gangar og pallar séu þannig frágengið og viðhaldið að ekki sé hætta á að sláturfé verði fyrir meiðslum, þegar það er rekið til í rétt eða bíður slátrunar.

5. gr.

Óheimilt er að nota sláturhús eða hluta þeirra sem íbúð fyrir fólk. Óheimilt er að slátra hrossum í sláturhúsi, þar sem slátrað er sauðfé til útflutnings til Bandaríkja Norður-Ameríku. Óheimilt er að geyma sláturafurðir af hrossum, þar sem afurðir af sauðfé eru geymdar.

6. gr.

Nú koma sláturgripir fyrir í sláturhúsarétt, sem grunur leikur á að séu sjúkir eða hafi slasast í flutningum. Skulu gripir þessir þá merktir samstundis og geymdir í sérstökum klefa í réttinni, þar sem sérstakt niðurfall er og þann veg búnum að unnt sé að sótthreinsa hann á viðhlítandi hátt.

7. gr.

Afurðir sem taldar eru óhæfar eða sem ástæða er til að taka frá til nánari skoðunar, skulu merktar á tryggilegan hátt, svo útilokað sé að þær ruglist saman við aðrar afurðir. Áhöld og búnaður sem nota þarf við slíkar afurðir skal sérmerktur og má ekki taka til annarra nota.

8. gr.

Óheimilt er að nota í vinnusölum og frystigeymslum vélknúin farartæki, sem nota eldsneyti sem mengar andrúmsloft. Óheimilt er að nota áhöld og búnað, sem hefur skemmst eða gengið svo úr sér, vegna slits eða skorts á nauðsynlegu viðhaldi, að fyllstu kröfum um hreinlæti og þrifnað er ekki lengur fullnægt. Dýralækni er skylt að taka út notkun og auðkenna slík áhöld og búnað og láta endurnýja eða endurbæta án tafar

9. gr.

Sláturafurðir sem bera með sér greinilega þvaglykt skal dæma óhæfar.

Sláturafurðir af gripum sem orðið hafa fyrir áhrifum geislavirkra efna skal dæma óhæfar.

Sláturafurðir sem í eru lyfjaleifar skal einnig dæma óhæfar.

10. gr.

Um refsingu fyrir brot á ákvæðum þessarar reglugerðar fer eftir lögum nr. 30 28. apríl 1966.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 30 28. apríl 1966 um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum og öðlast gildi 1. apríl 1984.

Landbúnaðarráðuneytið, 27. mars 1984.

Jón Helgason.

Tryggvi Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica