Landbúnaðarráðuneyti

782/1999

Reglugerð um embætti yfirdýralæknis - Brottfallin

I. KAFLI

Stjórn og skipulag.

Almennt.

1. gr.

Embætti yfirdýralæknis er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir yfirstjórn landbúnaðarráðherra. Yfirdýralæknir veitir stofnuninni forstöðu.

Við embætti yfirdýralæknis skulu auk yfirdýralæknis starfa aðstoðaryfirdýralæknir, héraðsdýralæknar, sérgreinadýralæknar, skrifstofustjóri og annað starfslið eftir því sem þörf er á og yfirdýralæknir ákveður hverju sinni.

Landbúnaðarráðherra skipar yfirdýralækni, aðstoðaryfirdýralækni og héraðsdýralækna. Sérgreinadýralækna, eftirlitsdýralækna og annað starfslið embættis yfirdýralæknis skal yfirdýralæknir ráða með ráðningarsamningum samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

2. gr.

Við embætti yfirdýralæknis skal starfrækt rannsóknadeild dýrasjúkdóma, þar sem starfa sérfræðingar og aðstoðarfólk til greiningar dýrasjúkdóma og forvarnarstarfa.

3. gr.

Yfirdýralæknir er næsti yfirmaður aðstoðaryfirdýralæknis, héraðsdýralækna, sérgreinadýralækna og skrifstofustjóra.

II. KAFLI

Yfirdýralæknir.

Skipun og hlutverk.

4. gr.

Landbúnaðarráðherra skipar yfirdýralækni til fimm ára í senn.

5. gr.

Yfirdýralæknir er ráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um allt er varðar heilbrigðismál dýra og hollustuhætti við framleiðslu búfjárafurða eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari. Yfirdýralæknir skal koma fram fyrir stofnunina og vera fulltrúi hennar gagnvart stjórnvöldum og hagsmunaaðilum.

Helstu störf og starfsskyldur yfirdýralæknis.

6. gr.

Yfirdýralæknir hefur m.a. með höndum eftirtalin störf:

a) Yfirstjórn og eftirlit með störfum héraðsdýralækna, sérgreinadýralækna og annarra dýralækna sem leyfi hafa til að stunda dýralækningar.

b) Yfirumsjón með öllu er varðar heilbrigðismál dýra; hann skal einnig afla upplýsinga um heilbrigðisástand dýra og hollustu dýraafurða í öðrum löndum eftir því sem nauðsyn krefur.

c) Yfirumsjón með sjúkdómavörnum dýra, forvörnum, fræðslustarfi varðandi búfjársjúkdóma, innflutningi og útflutningi lifandi dýra, erfðaefnis og búfjárafurða og fylgist með hollustu dýrafóðurs í samvinnu við Aðfangaeftirlit ríkisins.

d) Yfirumsjón með heilbrigði sláturdýra, heilbrigðiseftirliti í sláturhúsum og framleiðslu mjólkur, auk yfirumsjónar með heilbrigði annars búfjár og afurða þess.

e) Skipulagningu, gagnaöflun og skýrslugerð varðandi dýrasjúkdóma, heilbrigðisskoðun sláturafurða og heilbrigðiseftirlit með framleiðslu mjólkur, svo og árlega útgáfu heilbrigðisskýrslna.

f) Umsjón með að öll embætti héraðsdýralækna séu að jafnaði setin, eftir því sem dýralæknar fást til starfa.

g) Yfirumsjón með gerð fjárlagatillagna og framkvæmd fjárhagsáætlana og hefur eftirlit með fjárreiðum stofnunarinnar.

h) Erlend samskipti við alþjóðastofnanir og yfirdýralæknisembætti um allt sem snýr að verkefnasviði embættisins.

Dýravernd.

7. gr.

Yfirdýralæknir skal vera umhverfisráðherra til ráðuneytis við framkvæmd laga nr. 15/1994 um dýravernd, s.s. varðandi dýrahald í atvinnuskyni, aðgerðir á dýrum, aflífun, dýraveiðar, tilraunir á dýrum og skipan dýraverndunarmála almennt.

Lyfjamál.

8. gr.

Yfirdýralæknir skal vera heilbrigðisráðherra til ráðuneytis við framkvæmd lyfjalaga nr. 93/1994, sbr. 1. gr. laganna, m.a. um hvaða lyf dýralæknar megi selja, um setningu reglugerðar þar sem kveðið sé á um hvaða lyf dýralæknar megi eingöngu sjálfir gefa dýrum, eftirlit með ávísun dýralyfja o.fl.

Yfirdýralæknir skal vera lyfjaverðsnefnd til ráðuneytis um hámarksverð á dýralyfjum í lausasölu.

Lax- og silungsveiði.

9. gr.

Yfirdýralæknir hefur yfirumsjón með flutningi á lifandi fiski og hrognum milli landa og er heimild til slíks flutnings háð leyfi hans, sbr. 77. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði.

Dýrasjúkdómar.

10. gr.

Yfirdýralæknir skal vera landbúnaðarráðherra til aðstoðar og ráðuneytis um allt er lýtur að dýrasjúkdómum og framkvæmd laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

Innflutningur dýra.

11. gr.

Yfirdýralæknir skal vera landbúnaðarráðherra til aðstoðar og ráðuneytis um allt er lýtur að innflutningi dýra og erfðaefnis þeirra og framkvæmd laga nr. 54/1990 um innflutning dýra.

Eldi og heilbrigði sláturdýra o.fl.

12. gr.

Yfirdýralæknir skal vera landbúnaðarráðherra til aðstoðar og ráðuneytis um allt er lýtur að framkvæmd laga nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum.

Útflutningur hrossa.

13. gr.

Yfirdýralæknir skal vera landbúnaðarráðherra til ráðuneytis og aðstoðar um öll atriði er varða framkvæmd laga nr. 161/1994 um útflutning hrossa og skal hafa yfirumsjón með að fylgt sé öllum reglum um heilbrigði og aðbúnað útflutningshrossa, sbr. 3. gr. laga nr. 161/1994.

Matvæli.

14. gr.

Yfirdýralæknir skal vera landbúnaðarráðherra til ráðuneytis og aðstoðar um öll atriði er varða framleiðslu og dreifingu búfjárafurða, sláturafurða og eldisfisks, sbr. 6. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.

Yfirdýralæknir skal sjá til þess að haldið sé uppi fræðslu fyrir almenning um framleiðslu og dreifingu búfjárafurða, sláturafurða og eldisfisks svo og fyrir þá sem starfa við framleiðslu þessara matvæla.

Yfirdýralæknir skal veita ráðgjöf við gerð námsefnis fyrir kennslu um framleiðslu búfjárafurða, sláturafurða og eldisfisks og hafa með höndum leyfisveitingar til þeirra sem hefja vilja framleiðslu þessara matvæla, sbr. 19.-20. gr. laga nr. 93/1995.

Yfirdýralæknir skal hafa yfirumsjón með opinberu eftirliti við framleiðslu matvæla samkvæmt 6. gr. laga nr. 93/1995.

Sóttvarnir.

15. gr.

Yfirdýralæknir skal vera sóttvarnalækni til ráðuneytis við framkvæmd sóttvarnalaga eftir því sem við á, sbr. 4. gr. laga nr. 19/1997.

Yfirdýralæknir skal sitja fundi sóttvarnaráðs þegar það fjallar um mál sem tengjast embætti yfirdýralæknis, sbr. 6. gr. laga nr. 19/1997.

Búfjárhald.

16. gr.

Yfirdýralæknir skal í samvinnu við Bændasamtök Íslands, viðkomandi búgreinafélög og dýraverndarnefnd hlutast til um að gefnar verði út leiðbeinandi reglur, um sem flesta þætti er lúta að fóðrun, aðbúnaði, meðferð og heilbrigði búfjár af viðkomandi tegund. Jafnframt skal yfirdýralæknir í samvinnu við framangreinda aðila hlutast til um að slíkar reglur verði endurskoðaðar reglulega í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma, sbr. 8. gr. laga nr. 46/1991 um búfjárhald.

Meðferð og vinnsla sjávarafurða.

17. gr.

Yfirdýralæknir skal láta sjávarútvegsráðherra í té umsagnir við veitingu leyfa til innflutnings á lifandi fiskum, skrápdýrum eða lindýrum sem lifa í söltu vatni, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

Ónæmisaðgerðir.

18. gr.

Yfirdýralæknir skal veita heilbrigðisráðherra umsagnir um innflutning og notkun á lifandi smitefnum, sbr. 12. gr. laga nr. 38/1978 um ónæmisaðgerðir.

Rannsóknir í meinafræði.

19. gr.

Yfirdýralæknir annast samskipti við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, sbr. lög nr. 67/1990 um sama efni.

20. gr.

a) Yfirdýralæknir er formaður dýrasjúkdómanefndar, sbr. 27. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

b) Yfirdýralæknir á sæti í lyfjanefnd ríkisins, sbr. 4. gr. lyfjalaga nr. 93/1994.

c) Yfirdýralæknir skal vera formaður fisksjúkdómanefndar, sbr. 74. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði.

d) Yfirdýralæknir skal vera formaður tilraunadýranefndar, sbr. 6. gr. laga nr. 15/1994 um dýravernd.

Tilnefningar í nefndir og ráð.

21. gr.

a) Yfirdýralæknir skal tilnefna aðila í markanefnd, sbr. 69. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

b) Yfirdýralæknir skal tilnefna aðila í útflutnings- og markaðsnefnd, sbr. 6. gr. laga nr. 161/1994 um útflutning hrossa.

c) Yfirdýralæknir skal tilnefna aðila í fóðurnefnd, sbr. 3. gr. laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

d) Yfirdýralæknir skal tilnefna aðila í samstarfsráð um matvæli, sbr. 8. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.

e) Yfirdýralæknir skal tilnefna aðila í tilraunaráð Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, sbr. 34. gr. laga nr. 64/1965 um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.

22. gr.

Yfirdýralæknir skal vinna önnur störf sem honum eru falin samkvæmt gildandi löggjöf á hverjum tíma og sem fram koma í erindisbréfi hans.

Réttarstaða yfirdýralæknis.

23. gr.

Yfirdýralæknir er embættismaður og fer um réttarstöðu hans eftir ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Laun yfirdýralæknis eru ákveðin af kjaranefnd.

Erindisbréf.

24. gr.

Landbúnaðarráðherra setur yfirdýralækni erindisbréf þar sem kveðið skal á um helstu störf og starfsskyldur hans.

III. KAFLI

Aðstoðaryfirdýralæknir.

Skipun og hlutverk.

25. gr.

Landbúnaðarráðherra skipar aðstoðaryfirdýralækni til fimm ára í senn.

Aðstoðaryfirdýralæknir, sem valinn er úr hópi sérgreinadýralækna, skal vera yfirdýralækni til aðstoðar og staðgengill hans.

Helstu störf aðstoðaryfirdýralæknis.

26. gr.

Aðstoðaryfirdýralæknir skal hafa umsjón með lyfjamálum, að einstök héraðsdýralæknaembætti séu setin, útgáfu ársskýrslna og viðbragðsáætlunum vegna smitsjúkdóma og náttúruhamfara. Einnig skal aðstoðaryfirdýralæknir halda skrá yfir dýralækna sem leyfi hafa til að stunda dýralækningar hér á landi og vinna önnur störf sem yfirdýralæknir felur honum á hverjum tíma og fram koma í erindisbréfi hans.

Réttarstaða aðstoðaryfirdýralæknis.

27. gr.

Aðstoðaryfirdýralæknir er embættismaður og fer um réttarstöðu hans eftir ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Laun aðstoðaryfirdýralæknis eru ákveðin af kjaranefnd.

Erindisbréf.

28. gr.

Landbúnaðarráðherra setur aðstoðaryfirdýralækni erindisbréf þar sem kveðið skal á um helstu störf og starfsskyldur hans.

IV. KAFLI

Héraðsdýralæknar.

Skipun og hlutverk.

29. gr.

Landbúnaðarráðherra skipar héraðsdýralækna til fimm ára í senn. Héraðsdýralæknar skulu starfa í öllum héraðsdýralæknaumdæmum, sbr. 30. gr.

Héraðsdýralæknaumdæmi.

30. gr.

Umdæmi héraðsdýralækna skulu vera sem hér segir:

a) Gullbringu- og Kjósarumdæmi: Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Gullbringu- og Kjósarsýsla.

b) Borgarfjarðar- og Mýraumdæmi: Borgarfjarðarsýsla, Mýrasýsla, Akranes, Borgarbyggð.

c) Snæfellsnessumdæmi: Stykkishólmur, Snæfellsbær, Eyrarsveit, Helgafellssveit, Hnappadalssýsla, Flatey og býli í gamla Flateyjarhreppi, Skógarstrandarhreppur.

d) Dalaumdæmi: Dalabyggð, Saurbæjarhreppur, Austur-Barðastrandarsýsla, að undanskilinni Flatey og býlum í Flateyjarhreppi hinum gamla.

e) Vestfjarðaumdæmi: Vestur-Barðastrandarsýsla, Ísafjörður, Bolungarvík, Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýsla, Strandasýsla að Bæjarhreppi.

f) Vestur-Húnaþingsumdæmi: Vestur-Húnavatnssýsla, Bæjarhreppur í Strandasýslu.

g) Austur-Húnaþingsumdæmi: Blönduós, Austur-Húnavatnssýsla.

h) Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmi: Akureyri, Ólafsfjörður, Dalvík, Siglufjörður, Sauðárkrókur, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslur, Svalbarðsstrandar-, Grýtubakka- og Hálshreppar í Suður-Þingeyjarsýslu.

i) Þingeyjarumdæmi: Húsavík, Suður-Þingeyjarsýsla, að undanskildum Svalbarðsstrand-
ar-, Grýtubakka- og Hálshreppum, Norður-Þingeyjarsýsla.

j) Austurlandsumdæmi nyrðra: Egilsstaðir og nágrenni, Eskifjörður, Mjóifjörður, Neskaupstaður, Reyðarfjörður, Seyðisfjörður, Norður-Múlasýsla.

k) Austurlandsumdæmi syðra: Fáskrúðsfjarðarhreppur, Búðahreppur, Stöðvarhreppur, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur.

l) Austur-Skaftafellsumdæmi: Hornafjarðarbær, Austur-Skaftafellssýsla.

m) Vestur-Skaftafellsumdæmi: Vestur-Skaftafellssýsla, að undanskildum Mýrdalshreppi.

n) Suðurlandsumdæmi: Árnes- og Rangárvallasýslur, Mýrdalshreppur.

Skipa skal einn héraðsdýralækni í hvert umdæmi, að undanskildu Vestfjarðaumdæmi, Þingeyjarumdæmi og Austurlandsumdæmi nyrðra, en í hvert þeirra skal skipa tvo héraðsdýralækna.

Í umdæmum þar sem fleiri en einn héraðsdýralæknir er skipaður ákveður yfirdýralæknir skiptingu ábyrgðar og verkefna milli einstakra héraðsdýralækna umdæmisins á hverjum tíma.

Helstu störf og starfsskyldur héraðsdýralækna.

31. gr.

Héraðsdýralæknar skulu hver í sínu umdæmi hafa eftirlit með sláturdýrum, sláturafurðum og afurðastöðvum, einnig eftirlit með heilbrigði, hirðingu, aðbúnaði og aðstöðu nautgripa á búum þar sem framleidd er mjólk til sölu. Þeir skulu og hafa með höndum framkvæmd sóttvarnaaðgerða. Einnig ber þeim að hafa eftirlit með búfé og öðrum dýrum eftir því sem lög ákveða. Þeir skulu fylgjast með viðhaldi varnargirðinga í umdæminu.

Héraðsdýralæknar í Gullbringu- og Kjósarumdæmi, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmi og Suðurlandsumdæmi sinna eingöngu eftirlitsstörfum, en héraðsdýralæknar í öðrum dýralæknisumdæmum annast jafnframt eftirlitsstörfum almenna dýralæknaþjónustu í umdæminu, þ.m.t. vaktþjónustu. Ávallt skal aðskilja eins og kostur er eftirlitsstörf dýralækna og almenna dýralæknisþjónustu.

Héraðsdýralæknar skulu halda skrá yfir alla eftirlitsskylda aðila í sínu umdæmi og sinna eftirliti með þeim samkvæmt sérstakri eftirlitsáætlun, sem skal endurskoðuð um hver áramót.

Héraðsdýralæknar skulu fyrir lok hvers árs gera sérstaka kostnaðaráætlun um rekstur umdæmisins á næsta ári og skal hún borin undir yfirdýralækni til samþykktar. Þeir eru síðan ábyrgir fyrir framkvæmd áætlunarinnar.

Héraðsdýralæknar skulu vinna önnur störf sem yfirdýralæknir felur þeim á hverjum tíma auk starfa sem fram koma í erindisbréfi þeirra.

Landbúnaðarráðherra skal sjá héraðsdýralæknum fyrir starfsaðstöðu í samræmi við umfang starfsemi þeirra.

Réttarstaða héraðsdýralækna.

32. gr.

Héraðsdýralæknar eru embættismenn og fer um réttarstöðu þeirra eftir ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Laun héraðsdýralækna eru ákveðin af kjaranefnd.

Erindisbréf.

33. gr.

Landbúnaðarráðherra setur héraðsdýralæknum erindisbréf þar sem kveðið skal á um helstu störf og starfsskyldur þeirra.

Eftirlitsdýralæknar.

34. gr.

Yfirdýralæknir ræður eftirlitsdýralækna til starfa í héraðsdýralæknaumdæmum þar sem þess er þörf að mati yfirdýralæknis.

Eftirlitsdýralæknar skulu starfa undir stjórn viðkomandi héraðsdýralæknis við lögboðin eftirlitsstörf, m.a. kjötskoðun, eftirlit með mjólkurframleiðslu og eldi sláturdýra. Þeir skulu hafa starfsaðstöðu á skrifstofu héraðsdýralæknis.

Eftirlitsdýralæknar eru opinberir starfsmenn og fer um réttarstöðu þeirra eftir ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um laun eftirlitsdýralækna fer eftir kjarasamningum Dýralæknafélags Íslands við fjármálaráðuneytið á hverjum tíma.

V. KAFLI

Sérgreinadýralæknar.

Störf sérgreinadýralækna.

35. gr.

Yfirdýralæknir skal ráða sérmenntaða dýralækna, til að starfa við embætti yfirdýralæknis, einn á hverju eftirtalinna sérsviða: Sviði alifuglasjúkdóma, fisksjúkdóma, hrossasjúkdóma, nautgripa- og sauðfjársjúkdóma, júgursjúkdóma, loðdýrasjúkdóma og svínasjúkdóma. Auk þess skal yfirdýralæknir ráða dýralækni með sérþekkingu í heilbrigðiseftirliti sláturdýra og sláturafurða og dýralækni sem hafi eftirlit með inn- og útflutningi búfjárafurða.

Helstu starfsskyldur sérgreinadýralækna.

36. gr.

Sérgreinadýralæknar skulu vinna að bættu heilbrigði búfjár og sjúkdómavörnum, hver á sínu sviði, í samráði við héraðsdýralækna og aðra dýralækna, með sértækum aðgerðum, almennri fræðslu, leiðbeininga- og forvarnastarfi. Þeir skulu einnig vinna önnur störf sem fram koma í erindisbréfi þeirra og sem yfirdýralæknir felur þeim á hverjum tíma.

Yfirdýralæknir skal sjá sérgreinadýralæknum fyrir starfsaðstöðu.

Réttarstaða sérgreinadýralækna.

37. gr.

Sérgreinadýralæknar eru opinberir starfsmenn og fer um réttarstöðu þeirra eftir ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um laun sérgreinadýralækna fer eftir ákvæðum kjarasamninga Dýralæknafélags Íslands við fjármálaráðuneytið á hverjum tíma.

VI. KAFLI

Rannsóknadeild dýrasjúkdóma.

38. gr.

Yfirdýralæknir skal ráða til starfa við rannsóknadeild dýrasjúkdóma sérfræðinga og aðstoðarfólk til að annast greiningar og rannsóknir dýrasjúkdóma. Rannsóknadeild dýrasjúkdóma skal halda skrá yfir útbreiðslu dýrasjúkdóma samkvæmt nánari fyrirmælum yfirdýralæknis.

Yfirdýralæknir velur starfandi sérgreinadýralækni samkvæmt 35. gr. til að veita deildinni forstöðu. Skal hann í lok hvers árs gera sérstaka fjárhagsáætlun um rekstur deildarinnar á næsta ári og skal hún borin undir yfirdýralækni til samþykktar. Hann er ábyrgur fyrir framkvæmd fjárhagsáætlunarinnar.

VII. KAFLI

Vaktþjónusta.

Yfirumsjón vaktþjónustu.

39. gr.

Embætti yfirdýralæknis skal hafa yfirumsjón með vaktþjónustu á vaktsvæðum dýralækna samkvæmt 40. gr.

Vaktsvæði.

40. gr.

Vaktsvæði dýralækna eru sem hér segir:

1) Gullbringu- og Kjósarumdæmi.

2) Borgarfjarðar- og Mýraumdæmi.

3) Snæfellsnesumdæmi.

4) Dalaumdæmi.

5) Vestfjarðaumdæmi.

6) Austur- og Vestur-Húnaþingsumdæmi.

7) Skagafjörður og Siglufjörður.

8) Eyjafjörður, Dalvík og Ólafsfjörður.

9) Þingeyjarumdæmi.

10) Austurlandsumdæmi nyrðra.

11) Austurlandsumdæmi syðra.

12) Austur-Skaftafellsumdæmi.

13) Vestur-Skaftafellsumdæmi.

14) Rangárvallasýsla og Mýrdalshreppur.

15) Árnessýsla.

Skipulag vaktþjónustu.

41. gr.

Yfirdýralæknir ákvarðar umfang vaktþjónustu á einstökum vaktsvæðum á hverjum tíma.

Héraðsdýralæknar skulu skipuleggja vaktir í samráði við starfandi dýralækna innan sinna vaktsvæða þannig að dýralæknir sé þar jafnan á vakt og auðvelt sé að afla vitneskju um hvaða dýralæknir er á vakt hverju sinni. Heimilt er að skipta vakt innan sama vaktsvæðis milli fleiri dýralækna samtímis. Við skipulagningu vakta skulu héraðsdýralæknar taka mið af vegalengdum og umfangi þjónustu innan viðkomandi vaktsvæða.

Úrskurðarvald um ágreining.

42. gr.

Ef ágreiningur rís um skiptingu vakta innan vaktsvæða skal leita úrskurðar yfirdýralæknis.

Greiðslur fyrir vaktir og greiðslufyrirkomulag.

43. gr.

Fyrir vaktþjónustu greiðist samkvæmt samningi Dýralæknafélags Íslands við landbúnaðar- og fjármálaráðuneyti.

VIII. KAFLI

Fjármál og rekstur.

Almennt.

44. gr.

Skrifstofustjóri skal undir yfirumsjón yfirdýralæknis sjá um gerð fjárlagatillagna, framkvæmd fjárhagsáætlana og annað sem varðar fjárreiður stofnunarinnar, svo sem bókun og greiðslu reikninga vegna allra rekstrarþátta en þeir eru helstir:

1. Rekstur aðalskrifstofu ásamt starfsemi sérgreinadýralækna.

2. Rekstur rannsóknadeildar dýrasjúkdóma.

3. Rekstur héraðsdýralæknaembættanna.

4. Rekstur varnargirðinga.

5. Rekstur eftirlitssjóðs vegna kjötskoðunar.

6.Innheimta gjalda vegna gjaldskyldra eftirlitsstarfa.

7. Annast gerð tillagna um gjaldskrá samkvæmt eftirlitsáætlunum hvers árs.

Skrifstofustjóri skal einnig vinna önnur störf sem yfirdýralæknir felur honum á hverjum tíma.

Gjaldskrá.

45. gr.

Gjald sem nemur kostnaði skal innheimt fyrir eftirlit og skoðanir samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra setur að fengnum tillögum yfirdýralæknis.

Gildistaka.

46. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og öðlast gildi 1. desember 1999.

Landbúnaðarráðuneytinu, 24. nóvember 1999.

Guðni Ágústsson.

Sigríður Norðmann.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica