Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 4. apríl 2017

189/1990

Reglugerð um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum

I. KAFLI TILGANGUR, ORÐASKÝRINGAR, EFTIRLIT.

1. gr. Tilgangur.

Tilgangur þessarar reglugerðar er að koma í veg fyrir að til landsins berist skaðvaldar sem valdið geti alvarlegu tjóni á plöntum og plöntuafurðum hér á landi og að hindra að skaðvaldar sem aðrar þjóðir vilja verjast berist til þeirra frá Íslandi.

2. gr. Orðaskýringar.

Merking orða er í reglugerð þessari sem hér segir:

Planta: Lifandi jurtir og viðarplöntur svo og lifandi hlutar þeirra og vefur, einnig trjáviður sé við harm áfastur börkur. Með lifandi plöntuhlutum er m.a. átt við ávexti, grænmeti, rótar- og stöngulhnýði, lauka, jarðstöngla, afskorin blóm, felld tré með greinum, trjágreinar og plöntuvef í vefjaræktun. Þar með er einnig átt við jarðveg eða annað ræktunarefni er kann að loða við eða fylgja plöntunni sem og umbúðir og umbúðarefni er umlykja hana í flutningi. Reglugerð þessi tekur ekki til djúpfrystra plöntuhluta né heldur til fræs, sem ekki er ætlað til sáningar.

Ræktunarland: Land þar sem plantan var síðast í ræktun í minnst eitt vaxtarskeið, eða þar sem sáð var til hennar með fræi. Sé um græðlinga að ræða (með eða án rótar) er átt við það land þar sem móðurplantan var ræktuð síðasta vaxtarskeið fyrir töku græðlinga, eða þar sem rótun fór fram.

Ræktunarstaður: Sú rekstrareining í ræktunarlandinu, þar sem plönturnar eru ræktaðar; gróðrarstöð, garðyrkju- eða landbúnaðarbýli eða annað fyrirtæki.

Sending: Plöntur og plöntuafurðir sem tilgreindar eru á sama heilbrigðisvottorði.

Skaðvaldur: Lífverur og lífrænir þættir er meinum valda á plöntum; veirur (víra), berfrymingar (mycoplasma), bakteríur (bacteria), sveppir (fungi) og meindýr.

Trjáviður með berki: Trjáviður þar sem meira en 1% af yfirborði er þakið berki. Sé meira en 3% af þyngd trjákurls börkur telst kurlið unnið úr trjáviðið með berki.

Útflutningsland: Land þaðan sem plöntur eru fluttar beint til Íslands án þess að skipt sé um flutningsfar á leiðinni.

Vaxtarstaður: Akur, gróðurhús eða annar hluti innan ræktunarstaðar, þar sem plönturnar eru ræktaðar.

3. gr. Eftirlit.

Matvælastofnun landbúnaðarins og tollyfirvöld sjá um að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt.

Sérfræðingar Matvælastofnunar landbúnaðarins í plöntusjúkdómum hafa heimild til skoðunar á plöntusendingum, hvort sem er í flutningstækjum, á geymslusvæði farmflytjanda eða hjá innflytjanda vörunnar. Er skylt að aðstoða þá við þá skoðun og skal þeim heimilt að taka sýni til nánari skoðunar án endurgjalds.

Komi í ljós við skoðun að sendingin uppfylli ekki ákvæði reglugerðar þessarar, skal innflytjanda og tollyfirvöldum tilkynnt þar um. Matvælastofnun landbúnaðarins ákveður hvort sendingin skuli endursend eða henni eytt hér á landi. Torveldi innflytjandi aðgang að plöntusendingu eða skoðun hennar eða framkvæmi harm ekki þau fyrirmæli er honum kunna að vera gefin í tengslum við innflutninginn, má hafna innflutningi jafnvel þótt sendingin uppfylli að öðru leyti sett skilyrði. Innflytjandi ber allan kostnað við endursendingu eða eyðingu.

Eigi vankantar sem finnast á sendingu einungis við um hluta hennar og sé það mat Matvælastofnunar landbúnaðarins að ekki sé með því tekin óréttmæt áhætta, má í undantekningatilvikum leyfa að sendingu sé skipt upp og að sá hluti hennar sem í lagi telst sé fluttur inn. Sé eigi aðgreint fullnægjandi milli plöntusendinga í sama flutningsrými og finnist skaðvaldar, sbr. viðauka I, í einhverjum þeirra, má hafna öllum sendingum í því flutningsrými.

Þegar um er að ræða plöntur til áframhaldandi ræktunar skal sérfræðingum stofnunarinnar veittur aðgangur að plöntunum til skoðunar eftir að þær eru komnar í ræktun og í allt að tvö ár frá því innflutningur átti sér stað. Komi í ljós að plöntur hafi verið fluttar inn í trássi við reglugerð þessa, er heimilt að fyrirskipa eyðingu plantnanna.

Þegar fluttar eru inn trjáplöntur af tegundum sem gegna þýðingarmiklu hlutverki í íslenskri skógrækt skal Matvælastofnun landbúnaðarins veita Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins upplýsingar um innflutning þeirra.

II. KAFLI INNFLUTNINGUR PLANTNA OG PLÖNTUAFURÐA.

4. gr. Innflutningsbann.

Óheimilt er að flytja til landsins:

a) Skaðvalda sem upp eru taldir í viðauka I og plöntur sem þeir finnast í eða á.

b) Plöntur sem ætlaðar eru til áframhaldandi ræktunar og bera skaðvalda er nefndir eru í viðauka II, séu þeir í sendingunni í meira en mjög óverulegum mæli.

c) Plöntur sem upp eru taldar í viðauka III og frá þeim löndum sem nefnd eru.

d) Plöntur sem taldar eru upp í viðauka IV uppfylli þær ekki þau skilyrði sem þar eru sett.

e) Plöntusendingar sem vísað hefur verið frá við innflutning til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar vegna þess að skilyrði þeirra lands, með tilliti til plöntuheilbrigði, hafa ekki verið uppfyllt.

f) Jarðveg, safnhaugamold, óunninn eða kurlaðan trjábörk og húsdýraáburð. Undanskilin er þó mold, sem að meginhluta samanstendur af mosa (Sphagnum), enda sé hún tekin frá óræktuðum svæðum og hafi aldrei verið notuð til ræktunar. Þá er undanskilin mold, sem fylgir rótum plantna eða rótarávöxtum, enda sé hún í óverulegum mæli. Frá löndum þar sem nýsjálenski flatormurinn (Artioposthia triangulata) er útbreiddur skulu plöntur og plöntuafurðir vera alveg lausar við mold nema sérstök yfirlýsing sé um það á heilbrigðisvottorði að plönturnar séu frá ræktunarstað þar sem flatormurinn finnst ekki.

Finnist í plöntusendingu skaðvaldur sem ekki er vitað til að fyrirfinnist hér á landi og ekki er nefndur í viðaukum I og II og sé það mat Rannsóknastofnunar landbúnaðarins að harm geti engu síður valdið alvarlegu tjóni á plöntum hér á landi, getur stofnunin bannað innflutning sendingarinnar.

Sé grunur um að skaðvald, sem nefndur er í viðauka I, sé að finna í farmi sem samanstendur af öðru en plöntum, skal sérfræðingum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins veittur aðgangur til skoðunar og útrýmingaraðgerða og er skylt að veita þeim aðstoð við slíka aðgerð.

5. gr. Innflutningur.

Innflutningur á plöntum og öðrum vörum, sem falls undir eftirtalda flokka, er því aðeins heimilt, að sendingunni fylgi heilbrigðisvottorð.

a) Plöntur með rót eða plöntuhlutar s.s. græðlingar, laukar, stöngul- og rótarhnýði o.fl., sem ætlunin er að ræta og rækta áfram. Fræ eru þó undanskilin svo og vatnaplöntur ætlaðar í fiskabúr.

b) Kartöflur (Solanum tuberosum).

c) Afskorin blóm og greinar.

d) Rótarlaus barrtré og barrtrjágreinar (Coniferae) frá Everópu, önnur en þau, sem getið er um í viðauka III með reglugerð þessari.

e) Trjáviður með berki.

f) Mold.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að flytja inn eftirtaldar plöntur og plöntuhluta án þess að þeim fylgi heilbrigðisvottorð. Undanþága þessi nær ekki yfir villtar plöntur sem tíndar eru á víðavangi, trjáplöntur (með og án rótar), þ.m.t. dvergtré ("bonsai") og kartöflur:

1. Farþegum í millilandaferðum er heimilt að taka með sér eftirfarandi án heilbrigðisvottorðs og sama gildir einnig um póstsendingar milli landa:

a. Vönd með afskornum blómum og greinum (allt að 25 plöntum).

b. Blómlauka og rótar- og stöngulhnýði frá Evrópu í órofnum verslunarumbúðum (allt að 2 kg).

c. Einstaka pottaplöntur (inniplöntur) frá Evrópu (allt að 3 stk).

2. Við búferlaflutninga frá Evrópulandi er heimilt að taka með sér pottaplöntur (inniplöntur) sem tilheyra venjulegri búslóð (allt að 30 stk, 1-5 af hverri tegund).

6. gr. Heilbrigðisvottorð.

Heilbrigðisvottorð skulu gefin út og undirrituð af þeim opinbera aðila í ræktunarlandinu, sem hefur eftirlit með plöntusjúkdómum. Vottorðið skal vera á því formi sem gefið er í hinum alþjóðlega sáttmála um plöntuvernd (IPPC/FAO) eða sambærilegu formi. Útgáfa vottorðs skal vera staðfesting þess, að sendingin uppfylli þær kröfur sem gerðar eru hér á landi til plöntuheilbrigðis.

Þegar plöntur eru ræktaðar í öðru landi en útflutningslandinu, skal fylgja sendingunni afrit af því heilbrigðisvottorði er fylgdi plöntunum inn í útflutningslandið ásamt sérstöku endurútflutningsvottorði á því formi sem gefið er í hinum alþjóðlega sáttmála um plöntuvernd eða sambærilegu formi. Vottorðið skal gefið út og undirritað af þeim opinbera aðila í útflutningslandinu sem hefur eftirlit með plöntusjúkdómum. Sé afgerandi munur á innflutningsreglum þessum og reglum útflutningslandsins, skal það vera ljóst á því vottorði er fylgdi plöntunum frá þriðja landi inn í útflutningslandið eða staðfest á annan hátt, að plönturnar uppfylli þau skilyrði sem sett eru hér á landi.

Vottorð skulu rituð á íslensku, dönsku, norsku, sænsku, ensku, frönsku eða þýsku. Þau skulu vera þannig að allur texti sé vel læsilegur, vélritaður eða ritaður með upphafsstöfum. Hægt er að hafna vottorði sé texti ekki á einu ofangreindra tungumála eða sé harm ógreinilegur eða ólesanlegur. Breytingar eða viðbætur mega ekki koma fyrir á vottorði nema greinilegt sé að þær séu gerðar af þeim aðila sem gaf það út.

Vottorð má ekki vera eldra en 14 daga þegar sending fer frá útflutningslandinu.

Hafi plöntur sem ætlaðar eru til neyslu verið meðhöndlaðar með einhverjum efnum þegar upp var skorið eða eftir að uppskera átti sér stað, skal það tilgreint á heilbrigðisvottorði. Skal þá gefa upp nafn efnasambands, notað magn og hvenær meðhöndlun fór fram.

7. gr. Innflutningsstaðir.

Plöntur og aðrar vörur sem falla undir stafliði a-e í 1. mgr. 5. gr., má einungis flytja inn í landið um eftirtaldar tollhafnir: Reykjavík, Hafnarfjörð, Keflavík, Keflavíkurflugvöll, Akureyri, Húsavík og Seyðisfjörð.

8. gr. Tollafgreiðsla og athending.

Við tollafgreiðslu á sendingum, sem falla undir stafliði a-e í 1. mgr. 5. gr., skal fylgja tollskjölum frumrit heilbrigðisvottorðs, áritað af Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Heimilt er einnig að tollafgreiða plöntusendingu sé afrit af frumriti áritað. Rannsóknastofnun landbúnaðarins getur ákveðið í vissum tilvikum að veita undanþágu frá kröfunni um heilbrigðisvottorð og skal það þá tilgreint á tollskýrslu eða vörureikning með áritun.

Tollyfirvöldum er óheimilt að leyfa afhendingu plöntusendinga, sem falla undir stafliði a-e í 1. mgr. 5. gr., gegn framvísun bráðabirgðaleyfis, nema fyrir liggi samþykki Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Slíkt samþykki er gefið með áritun á bráðabirgðaleyfi til tollafgreiðslu, áritun á heilbrigðisvottorð eða með skriflegri afhendingarheimild.

9. gr. Undanþágur.

Matvælastofnun er heimilt að leyfa innflutning á plöntum og öðrum vörum sem falla undir a. - e. lið 1. mgr. 4. gr. í vísinda- og fræðatilgangi eða af öðrum ástæðum, enda sé tryggt að engir skaðvaldar berist til landsins við innflutning. Heimilt er að setja skilyrði fyrir innflutningnum sem umsækjandi skuldbindur sig til að hlíta, svo sem um sótthreinsun, ræktun í sóttkví o.fl. Umsóknir skulu berast Matvælastofnun skriflega ásamt rökstuðningi fyrir nauðsyn innflutnings.

III. KAFLI ÚTFLUTNINGUR.

10. gr.

Þegar plöntur eru fluttar frá Íslandi til annarra landa, skal fylgja þeim heilbrigðisvottorð í samræmi við kröfur innflutningslandsins. Séu plönturnar ræktaðar í öðru landi en Íslandi og fluttar um Ísland áfram til þriðja lands, skal fylgja þeim endurútflutningsvottorð ásamt afriti af því vottorði er fylgdi plöntunum til Íslands. Rannsóknastofnun landbúnaðarins gefur út slík heilbrigðisvottorð.

Forsenda þess að Rannsóknastofnun landbúnaðarins geti gefið út heilbrigðisvottorð, er að stofnuninni sé kunnugt um gildandi innflutningsreglur viðkomandi lands með tilliti til plöntuheilbrigði og að plönturnar uppfylli þau skilyrði sem innflutningslandið setur.

IV. KAFLI REFSIÁKVÆÐI OG GILDISTAKA.

11. gr.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinbera mála.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum nr. 5129. maí 1981 og öðlast gildi 1. júní 1990. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð nr. 103 19. ágúst 1948 um eftirlit með innflutningi plantna o.fl. og reglugerðir nr. 46/ 1984 og 382 15. júlí 1988 um breytingu á þeirri reglugerð.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.