Landbúnaðarráðuneyti

263/1991

Reglugerð um loðkanínurækt. - Brottfallin

Felld brott með:

I. KAFLI

Yfirstjórn og gildissvið.

1. gr.

1.1. Landbúnaðarráðherra hefur yfirstjórn allra mála er varða loðkanínur en yfirdýralæknir og héraðsdýralæknar hafa eftirlit með því að reglum um heilbrigði, innflutning og sóttkví loðkanína sé fylgt.

1.2. Loðkanínur (angorakanínur) teljast til loðdýra.

2. gr.

2.1. Eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar er á hendi búfjáreftirlits skv. 9. gr. laga nr. 46/1991 og skal leitað álits viðkomandi héraðsdýralæknis um mál er snerta heilbrigði dýranna.

II. KAFLI

Stofnun og gerð loðkanínubúa.

3. gr.

3.1. Hús og búr, þar sem loðkanínur eru aldar, nefnast loðkanínubú.

3.2. Áður en loðkanínubú er tekið í notkun skal héraðsráðunautur kanna alla aðstöðu og sannreyna, að búnaður sé í samræmi við ákvæði þessa kafla. Ráðunautur skal afhenda eiganda búsins vottorð um skoðun á búinu, en afrit skal sent Búnaðarfélagi Íslands og landbúnaðarráðuneytinu. Búnaðarfélag Íslands setur nánari reglur um úttekt loðkanínubúa. Heimilt er að veita búum með færri en 20 dýr, undanþágu frá ákvæðum þessum.

4. gr.

4.1. Hús skulu vera einangruð. Þar sem bústærð er yfir 100 dýr skal vera hólfað af pláss þar sem got og ungauppeldi fer fram. Veita má undanþágu á einangrun ef upphitun er í húsinu og hitastig fari ekki niður fyrir 1°C+ og skal þá hluti hússins vera einangraður fyrir got og nýklipptar kanínur.

4.2. Í gólfi skal vera niðurfall sem auðvelt er að hreinsa. Frárennsli með öruggum vatnslásum skulu vera frá hverju eldishúsi og skal það leitt í rotþró.

4.3. Hitastig loðkanínubúa skal vera sem næst 6-12°C og dagleg hitasveifla sem minnst, einkum þar sem læður með unga og/eða nýrúin dýr eru höfð. Vatn má ekki undir neinum kringumstæðum frjósa.

4.4. Húsin skulu vera laus við raka. Rakastig skal vera á bilinu 60-70%.

4.5. Loftræsting skal vera góð án þess að dragsúgur myndist. Húsin skulu vera laus við stækju og magn ammoníaks í loftinu ekki fara yfir 15 ppm/m3. Ljósstyrkur skal vera á bilinu 10-20 lux, en 75- 100 lux við gegningar.

4.6. Fóðurgeymslur skulu vera hreinar, þurrar og músa- og rottuheldar.

5. gr.

5.1. Búrasamstæður skulu ekki vera meira en þrjár hæðir og auðvelt að fylgjast með kanínunum í þeim. Ekki skulu vera fleiri en ein kanína á hvern rúmmetra hússins. 5.2. Einstaklingsbúr skulu hafa minnst 0,32 m2 gólfflöt og fyrir fleiri kanínur minnst 0,25 á kanínu. Gotbúr skulu vera tvískipt og gólfflötur þá samtals 0,64 m2 hið minnsta og gólfflötur hreiðurkassans 0,12 m2 minnst, stysta hlið 30 cm og lágmarkshæð 30 cm. Búr skulu vera minnst 43 cm á hæð, hliðar a.m.k. 45 cm og ekki fleiri en þrjár þéttar hliðar. Búr mega vera með hallandi þaki og þá 45 cm að framan og 30 cm að aftan. Búr skulu vera þannig gerð að auðvelt sé að þrífa þau og sótthreinsa. Gólfnet skal vera þannig gert að ekki særi fætur.

6. gr.

6.1. Loðkanínur skal klippa á minnst 90 daga fresti.

6.2. Rottum, músum, flóm og flugum skal útrýmt úr loðkanínubúum ef þeirra verður vart. Bannað er að hafa hunda og ketti í loðkanínubúum, nema þar sem brýna nauðsyn ber til að hafa kött vegna útrýmingar á músum.

6.3. Saur og úrgang skal fjarlægja úr búrum svo ekki valdi raka eða ólofti.

6.4. Hræ af loðkanínum skulu urðuð eða þeim eytt á þann hátt að frá þeim stafi ekki smithætta.

7. gr.

7.1. Ákvæði V. kafla laga nr. 46 25. mars 1991 um búfjárhald gilda um loðkanínubú og skal forðagæslumaður telja kanínur í búunum, athuga húsakost þeirra, hirðingu og fóðrun dýranna.

8. gr.

8.1. Merkja skal öll dýr á loðkanínubúi á eftirfarandi hátt: Í hægra eyra komi númer viðkomandi bús, sem kynbótanefnd í loðkanínurækt úthlutar. Fyrsta tala í vinstra eyra táknar fæðingarár, næstu ein til tvær tákna fæðingarmánuð og síðan kemur hlaupandi raðnúmer innan búsins. Öll dýr skulu merkt á sérstakan hátt, þannig að ekki skapist hætta á að númer ruglist á dýrum.

III. KAFLI

Sæðingar loðkanína.

9. gr.

9.1. Félög loðkanínubænda eða einstaklingar sem hafa í hyggju að setja á stofn sæðingarstöð, skulu senda um það umsókn til landbúnaðarráðuneytisins, sem veitir heimild til starfrækslu hennar, að fenginni umsögn yfirdýralæknis og kynbótanefndar í loðkanínurækt. Í leyfi ráðuneytisins skal kveðið á um starfssvið sæðingarstöðvar.

10. gr.

10.1. Þeim einum sem hafa aflað sér þekkingar og þjálfunar á námskeiði í sæðingu loðdýra, sem viðurkennt er af yfirdýralækni og kynbótanefnd í loðkanínurækt, er heimilt að stunda sæðingar loðkanína og sæðistöku.

10.2. Búnaðarfélag Íslands skal standa fyrir námskeiðum í sæðingum loðkanína. Umsókn um þátttöku á námskeiðum skulu fylgja meðmæli frá stjórn loðkanínuræktarfélags í viðkomandi héraði. Dýralæknir sem veitir námskeiðinu forstöðu skal veita þátttakendum skriflegt leyfisbréf. Í leyfisbréfi skal tilgreint um hæfni viðkomandi, hvar hann hafi heimild til að starfa og hve lengi leyfi hans til sæðinga á loðkanínum gildi.

11. gr.

Sæðingarstöðvar.

11.1. Með sæðingarstöð er í reglugerð þessari átt við loðkanínubú þar sem höfð eru í vörslu karldýr í þeim tilgangi að taka úr þeim sæði til sæðingar og loðkanínubú eða önnur húsakynni þar sem sæðing fer fram.

12. gr.

12.1. Sæðistaka og sæðing loðkanína skal fara fram í sérstökum herbergjum sem eru eingöngu ætluð til þeirra nota þann tíma sem þessi starfsemi fer fram.

12.2. Á stöðum þar sem fram fer bæði sæðistaka og sæðing skal þessi starfsemi fara fram aðskilin hvor frá annarri.

13. gr.

13.1. Í sæðistöku- og sæðingarherbergi skulu gólf og veggir vera þannig að auðvelt sé að þrífa og sótthreinsa. Í herberginu skal vera upphitun þannig að hitastig geti verið 18-24° C, heitt og kalt vatn, niðurfall í gólfi, aðstaða til handþvotta, rafmagn, hitaplata, vinnuborð fyrir smásjá, pappírshandþurrkur og sérstakur sæðingarbekkur sem auðvelt er að þrífa. Við inngöngudyr skal vera aðstaða til fata- og skóskipta og búnaður fyrir sótthreinsun á skófatnaði.

13.2. Sæðistöku- og sæðingarherbergi skulu vera vel hljóðeinangruð og þannig staðsett að sú starfsemi sem þar fer fram verði fyrir sem minnstu ónæði.

14. gr.

14.1. Á sæðingarstöð skal vera afdrep fyrir þá sem koma með dýr til sæðingar sem og fyrir dýr þeirra (biðstofa).

14.2. Á sæðingarstöð skulu vera sérstök hlífðarföt fyrir þá sem starfa við stöðina. Sömuleiðis skulu þeir sem koma með dýr til sæðingar klæðast sérstökum hlífðarfötum og skóm eða sótthreinsa skófatnað sinn rækilega fyrir og eftir dvöl í sæðingarherbergi.

15. gr.

Val karldýra.

15.1. Einungis má nota sem sæðisgjafa karldýr sem að mati héraðsdýralæknis eru heilbrigð. Áður en högnar eru teknir í notkun skal fara fram á þeim ítarleg heilbrigðisskoðun sem m.a. tekur til getnaðarfæra. Jafnframt skal héraðsdýralæknir athuga heilbrigði á þeim búum sem högnarnir koma frá og gefa vottorð þar um. Ekki má hafa orðið vart smitnæmra sjúkdóma á þessum búum síðustu 18 mánuðina.

15.2. Ekki má nota högna sem sæðisgjafa á sæðingarstöðvum, ef leitt hefur verið undir þá sama ár.

15.3. Sala á sæði út fyrir starfssvæði viðkomandi sæðingarstöðvar er óheimil án sérstaks leyfis yfirdýralæknis.

16. gr.

Framkvæmd sæðingar.

16.1. Einungis má koma með til sæðingar heilbrigðar læður frá búum þar sem ekki hefur orðið vart smitnæmra sjúkdóma síðustu 18 mánuðina.

16.2. Sæða má læður frá sama búi án þess að sótthreinsun á sæðingarbekk fari fram á milli einstakra dýra. Áður en læður frá öðru búi eru sæddar skal þrífa sæðingarbekkinn vandlega og sótthreinsa, t.d. með því að fara yfir hann allan með gasloga.

16.3. Í lok hvers vinnudags skulu fara fram rækileg þrif og sótthreinsun á áhöldum, biðstofu, sæðistöku- og sæðingarherbergjum, sæðingarbekkjum og vinnuborðum.

17. gr.

Skýrslugerð.

17.1. Öllum högnum á sæðingarstöð skal gefið númer í raðnúmerakerfi, sbr. 8. gr. Halda skal skrá um hvern einstakan högna, yfir allar sæðistökur og gæði sæðis (magn, þéttleika og lífsþrótt sæðisfruma). Skýrslum skal skilað inn til Landssambands kanínubænda fyrir 20. september ár hvert.

17.2. Þeim læðum sem komið er með til sæðingar skulu fylgja útfyllt búrkort.

17.3. Sæðingarmaður heldur nákvæma skýrslu á þar til gerðum eyðublöðum yfir allar sæðingar. Hann skal safna niðurstöðum um árangur sæðinganna og ungafjölda hjá hverri sæddri læðu og senda Landssambandi kanínubænda fyrir 20. september ár hvert.

17.4. Allar högna- og sæðingarskýrslur skulu vera tiltækar ráðunaut Búnaðarfélags Íslands í loðkanínurækt.

18. gr.

Heilbrigðiseftirlit og sjúkdómavarnir.

18.1. Héraðsdýralæknar skulu hver í sínu umdæmi hafa eftirlit með sæðingarstöðvum. Skulu þeir fullvissa sig um að stöðvarnar uppfylli öll skilyrði um aðstöðu og útbúnað og er óheimilt að hefja sæðingar fyrr en skoðun hefur farið fram.

18.2. Áður en sæðingar hefjast skal héraðsdýralæknir kanna heilbrigði dýra á viðkomandi sæðingarstöð, taka sýnishorn o.þ.h. og er stöðinni skylt að sjá honum fyrir nauðsynlegri aðstoð og veita þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru og óskað er eftir.

18.3. Héraðsdýralæknir skal hafa eftirlit með þrifnaði og hreinlæti á sæðingarstöð og skal hann veita starfsmönnum leiðbeiningar um smitgát, sótthreinsun og sóttvarnir, eftir því sem þörf krefur.

18.4. Veikist dýr sem notað er á sæðingarstöð skal þegar í stað gera héraðsdýralækni aðvart, og er óheimilt að nota dýrið fyrr en hann gefur leyfi til þess.

18.5. Komi upp næmur sjúkdómur á búi þar sem sæðingarstöð er til húsa eða á starfssvæði sæðingarstöðvar, þannig að hætta sé á að sjúkdómurinn geti breiðst út vegna starfsemi sæðingarstöðvarinnar, er héraðsdýralækni heimilt í samráði við yfirdýralækni að takmarka eða stöðva sæðingar.

18.6. Komi upp rökstuddur grunur um að dýr á sæðingarstöð sé haldið næmum sjúkdómi, skal einangra það svo lengi sem þurfa þykir. Telji héraðsdýralæknir nauðsynlegt að lóga dýri sem þannig sýkist, til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins eða vegna þess að sterkar líkur séu fyrir því að dýrið nái ekki bata, má skjóta málinu til úrskurðar yfirdýralæknis. Sérstök rannsókn skal fara fram á dýrum sem lógað er af þessum ástæðum.

IV. KAFLI

Almennar sjúkdómavarnir.

19. gr.

19.1. Komi upp smitsjúkdómur eða grunur um smitsjúkdóm í loðkanínubúi skal umsjónarmaður eða eigandi þegar í stað gera viðkomandi héraðsdýralækni aðvart. Skal héraðsdýralæknir þegar gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja frekari útbreiðslu sjúkdómsins og tjón af hans völdum. Jafnframt skal hann hlutast til um að fá staðfesta sjúkdómsgreiningu með því að senda nauðsynleg líffæri eða heil hræ til rannsóknar að Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum. Ennfremur skal hann tilkynna yfirdýralækni um sjúkdóminn og hafa samráð við hann um frekari sóttvarnaraðgerðir.

19.2. Heimilt er að hneppa loðkanínubú í sóttkví um lengri eða skemmri tíma ef upp kemur alvarlegur smitsjúkdómur í búinu og fyrirskipa aðrar ráðstafanir sem landbúnaðarráðuneytið telur nauðsynlegar til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins, þ.á.m. slátrun dýranna. Skulu fyrirmæli um slíkar aðgerðir tilkynnt skriflega.

20. gr.

20.1. Nú er talið nauðsynlegt að gera ónæmisaðgerðir á loðkanínum til að girða fyrir eða hefta útbreiðslu smitsjúkdóma. Bólusetja skal eftir reglum sem yfirdýralæknir setur. Bólusetningu annast héraðsdýralæknar eða menn undir þeirra umsjón, sem lært hafa meðferð bóluefnis og héraðsdýralæknar telja fullgilda til verksins.

20.2. Skýrslur um bólusetningu skal senda yfirdýralækni jafnskjótt og við verður komið. Skulu þær gerðar á sérstök eyðublöð sem hann afhendir héraðsdýralæknum.

20.3. Nú fyrirskipar landbúnaðarráðuneytið bólusetningu í tilteknu búi vegna yfirvofandi smithættu eða til varnar veiki sem upp hefur komið og skulu þá allir loðkanínueigendur er fyrirskipunin nær til veita næga aðstoð við bólusetningu, ella skal kveðja til aðstoðarfólk á þeirra kostnað. Kostnað við bólusetningu og bóluefni skulu eigendur loðkanínubúsins bera samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðuneytið setur.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

21. gr.

21.1. Félög loðkanínubænda skulu stofna til landssamtaka sem beiti sér fyrir fræðslu meðal félagsmanna sinna og stuðli að kynbótum og bættri arðsemi loðkanínuræktar. Félagið gætir hagsmuna atvinnugreinarinnar í hvívetna. Landbúnaðarráðuneytið skal staðfesta lög félagsins.

21.2. Búnaðarfélag Íslands annast leiðbeiningaþjónustu í loðkanínurækt í samvinnu og samráði við stjórn Landssambands kanínubænda.

21.3. Kynbótanefnd skal starfa í loðkanínurækt. Ráðunautur Búnaðarfélags Íslands í loðkanínurækt á hverjum tíma skal vera formaður hennar. Landssamband kanínubænda tilnefnir tvo menn í nefndina til tveggja ára og tvo til vara. Ef ekki er starfandi ráðunautur í loðkanínurækt, skal stjórn Búnaðarfélags Íslands skipa mann í þá stöðu.

21.4. Kynbótanefnd skal marka skýra stefnu í kynbótum á loðkanínum. Meðal verkefna nefndarinnar er að gera tillögur um:

a) Afurðaskýrsluhald í loðkanínurækt, sem Búnaðarfélag Íslands sér um.

b) Dómsstiga fyrir kynbótasýningar og val á kynbótadýrum, auk þjálfunar fyrir tilvonandi dómara.

c) Innflutning á loðkanínum og sæði.

d) Fyrirkomulag einstaklingsprófana og afkvæmarannsókna á loðkanínum.

21.5. Búnaðarfélagi Íslands er skylt að halda kynbótasýningar á loðkanínum í samráði við einstök kanínuræktarfélög eða Landssamband kanínubænda. Skal Búnaðarfélag Íslands senda landráðunaut, eða annan þann dómara sem kynbótanefnd hefur veitt tilskilin réttindi. Stjórn viðkomandi kanínuræktarfélags tilnefnir tvo meðdómendur og annast undirbúning sýningar. Einstök kanínuræktarfélög geta haldið sýningar oftar, að því tilskildu að stjórn félagsins útvegi hæfa dómara á sýningu.

21.6. Heimilt er Búnaðarfélagi Íslands, Landssambandi kanínubænda, bændaskólunum og/ eða öðrum þeim aðilum sem þess óska, að koma á fót uppeldis- og kynbótastöðvum í loðkanínurækt. Slíkar stöðvar skulu hlíta fyrirmælum kynbótanefndar um einstaklingsprófanir og afkvæmarannsóknir á loðkanínum.

22. gr.

22.1. Brot gegn reglugerð þessari varða sektum til ríkissjóðs nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

22.2. Ítrekuð, alvarleg brot af ásetningi eða stórfelldu gáleysi skulu jafnframt valda réttindamissi til að reka loðkanínubú.

22.3. Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

23. gr.

23.1. Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 46 25. mars 1991 um búfjárhald, lögum nr. 11 23. apríl 1928 um varnir gegn því að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins, lögum nr. 77 1. október 1981 um dýralækna og lögum nr. 84 30. maí 1990 um búfjárrækt og öðlast gildi þegar í stað og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

23.2. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um loðkanínurækt nr. 393 3. október 1984.

Landbúnaðarráðuneytið, 5. júní 1991.

Halldór Blöndal.

Jón Höskuldsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica