Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

1277/2014

Reglugerð um velferð minka.

I. KAFLI

Tilgangur, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði minka með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Leitast skal við að minkar geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur um einstök atriði.

2. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð merkingu sem hér segir:

  1. Harðýðgi: Gróf valdbeiting, svo sem barsmíðar eða að taka dýr upp á skotti ein­göngu.
  2. Hvolpar: Minkar á aldrinum 0 til 7 vikna, eða frá goti að fráfærum.
  3. Minkabú: Starfsemi þar sem minkar eru haldnir í minkahúsum.
  4. Minkur: Aliminkur (Neovison vison) sem alinn er á húsi, m.a. til skinnaframleiðslu.
  5. Neyðaraflífun: Aflífun dýra sem eru með áverka eða sjúkdóm sem hefur í för með sér mikinn sársauka eða þjáningu og ef engin önnur hagkvæm leið er til að lina sár­saukann eða þjáninguna.
  6. Pelsun: Árstíðabundið verk á minkabúum sem felst í aflífun minka, fláningu og verkun skinna.
  7. Rekstraraðili: Eigandi eða stjórnarformaður/framkvæmdastjóri félags sem er skráður eigandi minkahalds.
  8. Umhverfisauðgandi hlutir: Rör, kubbar, boltar eða innréttingar, svo sem hillur í búrum sem veita örvun og ætlað er að fyrirbyggja óæskilega hegðun.
  9. Umráðamaður: Eigandi dýrs eða annar aðili sem er ábyrgur fyrir umsjá þess.
  10. Ungdýr: Minkar á aldrinum 7 vikna til 30 vikna.
  11. Upphaf starfsemi: Þegar dýr koma í hús.
  12. Toppsýlindrabúr: Búr af hefðbundinni gerð en með hreiðurkassa ofan á búrinu aftast eða hreiðurkassa sem felldur er niður í búrið aftast.
  13. Yfirborðssár: Sár þar sem efsta lag húðarinnar (epidermis) vantar.

II. KAFLI

Úttekt og eftirlit.

3. gr.

Opinbert eftirlit.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Matvælastofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar.

Umráðamanni minka ber að tryggja aðgengi eftirlitsaðila að öllum minkum og öllum þeim svæðum þar sem minkar eru haldnir.

4. gr.

Úttekt.

Hver sem elur mink skal tilkynna það til Matvælastofnunar svo tryggt sé að lögbundið eftirlit geti hafist.

Umráðamanni minkabús með fleiri en 10 minka ber að tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaða starfsemi eigi síðar en 30 dögum áður en áætluð starfsemi hefst. Óheimilt er að hefja starfsemi áður en skilyrði sem sett eru um húsnæði, búnað og þekkingu eru uppfyllt og hafa verið staðfest af Matvælastofnun að lokinni úttekt.

III. KAFLI

Meðferð og umsjá.

5. gr.

Geta, hæfni og ábyrgð.

Öllum þeim sem halda minka, hvort sem það eru eitt eða fleiri dýr, er skylt að afla sér grunn­þekkingar á þörfum og umönnun minka og þeim skyldum sem hvíla á rekstraraðilum og umráðamönnum.

Umráðamaður minkabús, skal sjá til þess að hver sá sem ber ábyrgð á umönnun minka hafi lokið prófi í búfræði frá landbúnaðarskóla, unnið við umsjá minka sem nemur tveimur árum í fullu starfi eða hafa lokið námskeiði í minkahaldi viðurkenndu af Matvælastofnun. Nám­skeiðið skal ná til kennslu um líffræðilegar þarfir og atferli minka, umsjá, smitvarnir og aflífun í neyð og löggjöf er varðar velferð dýra.

Rekstraraðili minkabús skal tryggja að starfsmenn við minkabúið hafi fengið grunnþjálfun í umönnun minka, fræðslu um þarfir þeirra og skal hann halda skrá um það.

6. gr.

Almenn meðferð og eigið eftirlit.

Bannað er að beita minka harðýðgi eða annarri illri meðferð.

Umráðamaður minka skal hafa eftirlit með heilsufari og aðbúnaði dýra í hans umsjá. Hafa skal eftirlit með fóðrun, fóðri, vatni, tækjabúnaði og umhverfisþáttum sem geta haft áhrif á líðan dýranna. Tryggja skal hreinlæti og heilnæmi fóðurs og vatns. Eftirlit með heilsufari dýra skal vera markvisst og kerfisbundið.

Lágmarkstíðni eftirlits með heilsufari og aðbúnaði dýra er eftirfarandi:

 

Einu sinni á dag

15. desember eða að lokinni pelsun - 19. apríl

 

Þrisvar sinnum á dag

20. apríl - 19. júlí

 

Tvisvar sinnum á dag

20. júlí - 15. desember eða þar til pelsun er lokið

Umráðamanni ber skylda til, svo fljótt sem auðið er, að bæta úr því sem ábótavant er varðandi heilsufar og aðbúnað dýra í hans umsjá.

Óheimilt er að gera minkum í minkabúum ónæði að óþörfu. Umsjá og eftirlit skal fram­kvæma með þeim hætti að ekki komi órói eða ótti að dýrunum. Dýrin skulu með­höndluð af varfærni undir eftirliti þjálfaðs starfsfólks sem dýrin eru vön. Umráðamaður skal halda bókhald um fjölda dýra, afdrif þeirra og heilsufar. Skráningar skulu geymdar í 2 ár.

7. gr.

Hreyfing, hvíld og þarfir.

Minkar, haldnir í búrum, skulu geta hreyft sig óhindrað, staðið á afturlöppum, legið og viðhaft eins eðlilega og fjölbreytta hegðun og frekast er unnt. Undirlag og allar innréttingar skulu þannig gerðar að velferð dýranna sé höfð að leiðarljósi. Um stærð og gerð búra fer samkvæmt viðauka I.

Fráfærur skulu ekki fara fram fyrr en við sjö vikna aldur hvolpanna. Þó er heimilt að færa þá fyrr frá læðunum ef heilsufar eða velferð þeirra eða læðunnar krefst þess. Heimilt er að hafa fleiri en tvö ungdýr saman í búri á ákveðnum tímum sem tilgreindir eru í viðauka I en þó aldrei fleiri en fjögur. Á öðrum árstímum er einungis heimilt að hafa eitt dýr í búri nema þegar um pörun á fengitíma er að ræða.

Gæta skal þess í hvívetna að við minkahald og í umhverfi minka sé komið í veg fyrir aðstæður sem leiða til vanlíðunar, eineltis, vanfóðrunar eða vanþrifa. Minkar í öðrum teg­undum búra en toppsýlindrabúrum skulu ætíð hafa aðgang að umhverfisauðgandi hlutum, hálmur eingöngu er ekki nægjanleg umhverfisauðgun.

Læður með hvolpa fram að sjö vikna aldri skulu hafa aðgang að afdrepi sem gerir læðunni kleift að liggja í hvíld og næði fyrir hvolpunum og fylgjast með umhverfi sínu.

Dýr sem ekki sættast skulu aðskilin og höfð ein í búri.

8. gr.

Fóðrun og brynning.

Fóðra skal minka minnst einu sinni á dag. Fóður skal að magni, gæðum og efnainnihaldi fullnægja þörfum þeirra til þroska, vaxtar og viðhalds, það skal vera ómengað og óskemmt. Við fóðrun skal að auki tekið tillit til kyns, lífeðlisfræðilegs ástands dýranna og árstíma. Óheimilt er að svelta dýrin, en heimilt er að stýra holdafari með fóðrun fyrir pörun í stuttan tíma og skal þá fara eftir faglegum leiðbeiningum ráðunauta eða dýralækna.

Minkar skulu ávallt hafa öruggan aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni.

Tæki og búnaður sem notaður er í tengslum við fóðrun og brynningu skal vera staðsettur og gerður þannig að aðgengi dýranna sé auðvelt, fóður og vatn mengist ekki og að skaðleg samkeppni dýranna sé fyrirbyggð.

Notkun vaxtarhormóna og pelsmótunarefna, t.d. melatóníns, er ekki heimil. Óheimilt er að nota hvers konar sýklalyf að staðaldri í fóður fyrir minka.

Holdafar minka skal að jafnaði ekki vera lægra en holdastig 2 en við got skulu læður vera með holdastig 3 að lágmarki. Við mat á holdafari minka skal farið samkvæmt A-lið viðauka III.

9. gr.

Aðferðir og útbúnaður við sýningar.

Umráðamanni minka sem nota á við gerð auglýsinga, kvikmynda, leiksýninga eða við aðrar aðstæður og/eða í umhverfi sem minkum er ekki eðlilegt, ber að tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaða notkun eigi síðar en 10 dögum áður en áætluð notkun fer fram.

Óheimilt er að hefja sýningu eða notkun fyrr en skilyrði varðandi húsnæði, búnað, notkun og þekkingu eru uppfyllt og hafa verið staðfest af Matvælastofnun að lokinni úttekt.

Minka sem notaðir hafa verið við sýningar er óheimilt að flytja inn á minkabú að sýningu eða notkun lokinni og skulu þeir aflífaðir eða þeim komið fyrir hjá umráðamanni sbr. 5. gr.

10. gr.

Aðgerðir.

Ekki má framkvæma aðgerðir á minkum án læknisfræðilegrar ástæðu. Við sársaukafulla aðgerð eða læknismeðferð skal ávallt deyfa eða svæfa minka og veita þeim verkjastillandi meðhöndlun.

11. gr.

Ræktun og æxlun.

Við ræktun á minkum skal leitast við að rækta eiginleika gegn streitu. Ekki skal nota til ræktunar dýr sem sýna mikla hræðslu við menn eða álíka hegðunargalla, né heldur ef vitað er að dýrið beri alvarlega erfðasjúkdóma eða erfðagalla.

Óheimilt er að hýsa villiminka á minkabúum eða nota þá til undaneldis.

12. gr.

Varnir og handsömun.

Minkahús skal hafa minnst tvöfalda vörn gegn því að dýr sem þar eru vistuð geti sloppið úr haldi. Í því felst að minkarnir séu ávallt í dýrheldum búrum í dýrheldum húsum. Minkahús skulu ávallt vera dýrheld með neti í öllum opnum veggjum og í opnanlegum fögum. Inn­gangur í minkahús skal vera tvöfaldur, þ.e. í gegnum opið svæði með dyrum sem opnast inn og út. Dyrnar skulu búnar sjálfvirkum lokunarbúnaði, t.d. spennugormsbúnaði, þannig að hurð falli að dyrastöfum um leið og henni er sleppt. Aldrei skulu báðar dyrnar vera opnar sam­tímis.

Í hverju minkahúsi skulu vera a.m.k. tvær gildrur til að fanga laus dýr og skal líta til með þeim að minnsta kosti einu sinni á dag. Gildrurnar skulu vera þannig gerðar að þær valdi dýrunum ekki sársauka eða vanlíðan. Á minkabúi skal vera að lágmarki einn háfur til að fanga mink.

Við handsömun minka skal notast við aðferðir sem ekki valda þeim sársauka eða ótta. Óheimilt er að taka dýrin upp á skottinu eingöngu.

13. gr.

Heilbrigði og forvarnir.

Umráðamaður skal fylgjast með holdafari og heilbrigði minka í hans umsjá í samræmi við kröfur í 6. gr. og kalla til dýralækni ef með þarf. Ef vart verður við bitsár, sjálfskaða eða aðra óeðlilega hegðun skal umráðamaður grípa til aðgerða til að fyrirbyggja slíkt. Fara skal eftir leiðbeiningum um mat á áverkum í viðauka III um sár og áverka og veita viðeigandi meðferð í samráði við dýralækni ef þörf krefur. Sjúkir og/eða slasaðir minkar skulu færðir eins fljótt og auðið er á sérstaka sjúkradeild og fá viðeigandi meðferð eða vera aflífaðir.

Á sjúkradeild skal vera rými fyrir dýr sem eru í meðferð og skulu ungdýr og fullorðin dýr höfð ein í búri, en leyfilegt er að hafa hvolpa saman ef um hópmeðferð er að ræða. Tryggja skal að nægjanlegur fjöldi tómra búra sé til reiðu hverju sinni til að nota á sjúkradeild. Dýr á sjúkradeild skulu vera undir auknu og sérstöku eftirliti, og skal deildin þannig staðsett að auðvelt sé að framkvæma eftirlitið.

Umráðamanni minka er skylt að láta skima árlega fyrir sjúkdómnum plasmacytósa (Plasmacytosis) og skal því lokið eigi síðar en 15. september ár hvert.

Taka skal blóðprufu samkvæmt leiðbeiningum frá Matvælastofnun úr að minnsta kosti 10% paraðra læðna á búinu. Gæta skal hófs við blóðtöku, svo ekki hljótist skaði af.

Flutningur minka milli búa er óheimill nema fyrir liggi neikvæðar niðurstöður úr árlegum skimunum fyrir plasmacytósa (Plasmacytosis) síðustu þriggja ára.

Verja skal minka gegn ytri og innri óværu. Komi upp slík vandamál skal meðhöndla þau þegar í stað, í samráði við dýralækni, s.s. meðhöndlun með viðeigandi lyfjum. Dauða minka skal tafarlaust fjarlægja úr umhverfi lifandi minka og hræjum fargað á viðeigandi hátt.

14.gr.

Aflífun.

Þeir einir mega aflífa minka sem hafa aflað sér til þess viðhlítandi þekkingar. Aflífun minka má aðeins fara fram undir beinu eftirliti eða fara fram í viðurvist handhafa hæfisskírteinis, gefnu út af Matvælastofnun skv. reglugerð nr. 911/2012 sem innleiðir reglugerð nr. 1099/2009/EB um vernd dýra við aflífun.

Aflífun og pelsun minka má aðeins framkvæma utan augsýnar annarra dýra í þar til gerðum aflífunarkössum og á máta sem hræðir þau ekki. Tryggja þarf að dýrið sé dautt áður en fláning á sér stað. Minka má ekki flá eftir aflífun fyrr en eftir að þeir hafa verið lagðir til kælingar og dauðastirðnun er hafin eða gengin yfir.

Á hverju minkabúi skal vera búnaður til neyðaraflífunar á stökum dýrum með viðurkenndum aðferðum. Búnaður til neyðaraflífunar dýra skal vera færanlegur og einfaldur í notkun svo ekki verði nein töf á framkvæmd aflífunarinnar. Minkar sem eru alvarlega veikir og/eða slasaðir og meðferð ekki möguleg, skulu tafarlaust aflífaðir.

Um aflífun minka gildir að öðru leyti reglugerð um vernd dýra við aflífun.

IV. KAFLI

Aðbúnaður.

15. gr.

Aðbúnaður og húsakostur.

Stærð og gerð búra skulu taka mið af fjölda dýra, aldri, kyni og árstíma. Búr skulu smíðuð úr efnum sem auðvelt er að þrífa og úr efnum sem almennt eru ætluð til búragerðar fyrir minka og fullnægja skilyrðum þeim sem sett eru fram í viðauka I með reglugerð þessari.

Minkar skulu ætíð hafa aðgang að þurrum hreiðurkassa sem skal einangraður með heyi, hálmi eða öðru einangrandi efni. Hjá læðum skal þetta efni vera nýtt og skal það endur­nýjað eftir þörfum hjá læðum með hvolpa fram að 30 daga aldri. Hreiðurkassinn skal að flatar­máli vera nægilega stór svo að öll dýr geti legið í einu. Hreiðurkassinn skal hafa op inn í búrið sem er hæfilegt að stærð svo að nýfæddir hvolpar haldist þar inni, en á sama tíma nógu stórt til að læðan hafi auðvelt aðgengi.

16. gr.

Lýsing, loftgæði og hljóðvist.

Minkum skal tryggð dagsbirta og eðlileg breyting á daglengd. Ljósmagnið skal vera hæfilegt til að dýrin geti viðhaft eðlilega hegðun. Óleyfilegt er að hafa stöðugt myrkur eða stöðuga lýsingu hjá minkum. Þar sem nauðsynlegt reynist að nota rafmagnslýsingu skulu ljósgjafar vera þannig útbúnir að ekki valdi dýrunum óþægindum.

Loftræsting skal tryggja viðeigandi loftskipti og loftgæði þannig að það hæfi aldri og ástandi dýranna. Um magn hættulegra lofttegunda gilda skilyrði í viðauka II.

Óheimilt er að hafa minka í stöðugum hávaða eða reglubundnum hvell- eða högghljóðum og skal hávaði ekki vera meiri en 65 dB.

17. gr.

Slysavarnir.

Innréttingar, tæki og tól skulu þannig hönnuð og þeim þannig viðhaldið að þau geti ekki valdið minkum skaða. Búr og hreiðurkassar skulu þannig gerð að dýrin geti ekki skaðað sig á oddhvössum eða ófrágengnum brúnum eða köntum. Um minkahús gildir að öðru leyti ákvæði byggingarreglugerðar.

18. gr.

Smitvarnir.

Hafi aðilar verið á loðdýrabúum eða sýningum erlendis þar sem minkar hafa verið eða komist í snertingu við hugsanlegt smit sem getur borist í minka hérlendis, skulu þeir ekki fara inn á minkabú eða komast í snertingu við minka fyrr en 48 klst. eftir komu til landsins.

Við þá innganga í minkahús, sem ætla má að smitefni geti borist inn um með gestum og þjónustuaðilum, skal vera aðstaða til þrifa á fótabúnaði og höndum eða viðeigandi hlífðar­fatnaður til staðar.

Umhverfi minkahúsa skal vera þannig að smitefni berist ekki auðveldlega inn í þau, né að þau dragi að sér smitbera s.s. nagdýr, skordýr eða fugla.

Við móttöku og afhendingu dýra skal gæta smitvarna. Aukið eftirlit skal hafa með heilbrigði og velferð aðkeyptra dýra fyrstu vikuna.

Fóðurgeymsla og aðgengi að henni skal vera hreint og þurrt og tryggt á annan hátt að fóður hvorki mengist né skemmist, þannig að dýrum geti stafað sjúkdómahætta af. Við móttöku fóðurs og annarra aðfanga skal gæta smitvarna og taka mið af leiðbeiningum sérfræðinga og dýralækna. Fóður- og brynningarbúnaður skal þannig útbúinn, uppsettur og viðhaldið að hætta á mengun, bæði af saur og öðrum óhreinindum, sé í lágmarki.

Gólf, veggir, loft, innréttingar og búnaður í minkahúsum skulu vera úr þannig efni að auð­velt sé að halda þeim við, þrífa þau og sótthreinsa.

19. gr.

Flutningur.

Við flutning á minkum milli búa skal nota flutningsbúr sem uppfylla lágmarkskröfur um stærð og skulu búrin með dýrunum flutt í dýrheldum, tryggum flutningatækjum. Flutn­ings­búr skulu vera úr neti og hvert hólf vera samkvæmt kröfum um stærð í viðauka I með reglugerð þessari. Í hverju hólfi skal vera tryggilega fest drykkjarkar úr járni eða sambæri­legu varanlegu efni. Búrin skulu vera þannig smíðuð að dýr geti ekki náð hvert til annars. Undir flutningsbúrum skal vera lekaheldur botn til að grípa saur og þvag til varnar smit­dreifingu.

Aldrei má flytja fullorðin dýr saman í búri og ekki fleiri en tvo hvolpa, enda séu þeir yngri en þriggja mánaða við flutning. Sé áætlað að flutningur standi yfir í meira en átta klst. skal brynna dýrunum og skal það gert ekki seinna en átta klst. eftir að flutningur hófst.

Um flutninga gildir að öðru leyti reglugerð um flutning búfjár.

V. KAFLI

Önnur ákvæði.

20. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

Meðferð mála út af brotum á reglugerðinni fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

21. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 55/2013 um velferð dýra og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og öðlast þegar gildi. Við gildistöku hennar fellur úr gildi reglugerð nr. 165/2007 um aðbúnað og meðferð minka og refa.

Ákvæði til bráðabirgða.

Minkabú sem þegar eru starfandi og uppfylla ekki skilyrði reglugerðarinnar, skulu aðlaga starfsemi sína að ákvæðum hennar eigi síðar en 1. janúar 2016.

Minkabúum sem hafa ekki uppfyllt skilyrði reglugerðar þessarar fyrir 1. janúar 2016 er veittur aukafrestur hvað varðar eftirfarandi ákvæði:

 

a)

Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 7. gr. um afdrep fyrir læður með got er veittur frestur til 1. janúar 2018.

 

b)

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 7. gr. um umhverfisauðgandi hluti og innréttingar er veittur frestur til 1. janúar 2018.



Í húsum sem eru í notkun sem minkabú, byggð fyrir 1. janúar 2008 er heimilt að nota búr 1.800 sm² að flatarmáli (30 x 60 sm) fyrir stakar fullorðnar læður. Í slíkum búrum er leyfilegt að hafa 2,0 mm þykkan þráð í botnneti búra. Óheimilt er með öllu frá gildistöku reglugerðarinnar, að nota búr sem eru minni en 1.800 sm² að botnflatarmáli eða 30 sm að breidd og 60 sm að lengd.

Notkun búra sem eru minni en 2.100 sm² að botnflatarmáli eða 30 sm að breidd og 70 sm að lengd er bönnuð eftir 1. janúar 2020.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 18. desember 2014.

Sigurður Ingi Jóhannsson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Rebekka Hilmarsdóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica