Félagsmálaráðuneyti

123/2006

Reglugerð um tryggingar Lánasjóðs sveitarfélaga í tekjum sveitarfélags. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um veð sem sveitarfélag veitir Lánasjóði sveitarfélaga í tekjum sínum sem tryggingu fyrir lánum sem það tekur hjá lánasjóðnum og vegna ábyrgða sem það veitir skv. 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum.

2. gr.

Tegundir veðs.

Sveitarfélag getur veitt Lánasjóði sveitarfélaga veð í útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í eftirtöldum tilvikum:

  1. Vegna lána sem sveitarfélagið tekur sjálft.
  2. Vegna sjálfskuldarábyrgðar sem sveitarfélag gengst í vegna lántöku félags eða stofnunar, sbr. 1. málsl. 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga, með síðari breytingum.
  3. Vegna einfaldrar ábyrgðar sem sveitarfélag gengst í vegna lántöku félags eða stofnunar sem sveitarfélagið á og rekur í samvinnu við önnur sveitarfélög eða aðra opinbera aðila, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga.
  4. Vegna einfaldrar ábyrgðar sem sveitarfélag hefur samþykkt sérstaklega vegna lántöku byggðasamlags sem sveitarfélagið á aðild að, sbr. 82. gr. sveitarstjórnarlaga.

3. gr.

Form veðyfirlýsingar.

Til að veðyfirlýsing sé gild skal hún samþykkt af sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags á sveitarstjórnarfundi og uppfylla önnur skilyrði sem sett eru í lögum. Í sumarleyfi sveitarstjórnar getur byggðarráð með sama hætti samþykkt veðyfirlýsingu með endanlegum hætti, enda sé ekki ágreiningur innan ráðsins eða við framkvæmdastjóra um ákvörðunina.

Veðyfirlýsingar skal sérstaklega getið í skuldarviðurkenningu eða ábyrgðaryfirlýsingu og skal sveitarstjórn eða sá sem undirritar skjalið í umboði hennar staðfesta hana með undirritun sinni.

4. gr.

Vanskil sveitarfélags.

Komi til þess að sveitarfélag lendi í vanskilum við lánasjóðinn með lán sem falla undir 1. tölul. 2. gr. getur lánasjóðurinn sent um það tilkynningu til félagsmálaráðuneytisins með upplýsingum um þær fjárhæðir sem í vanskilum eru. Slíka tilkynningu má þó fyrst senda ef vanskil hafa varað í 30 daga eða lengur frá gjalddaga.

Komi til þess að sveitarfélag sé krafið um greiðslu vegna ábyrgðar sem það hefur veitt lánasjóðnum vegna lántöku stofnunar, félags eða byggðasamlags, sbr. 2., 3. eða 4. tölul. 2. gr., og sveitarfélagið hefur ekki sinnt greiðsluskyldu sinni, getur lánasjóðurinn sent um það tilkynningu til félagsmálaráðuneytisins með upplýsingum um þær fjárhæðir sem í vanskilum eru. Slíka tilkynningu má þó fyrst senda ef liðnir eru 30 dagar frá því að lánasjóðurinn sendi sveitarfélaginu beiðni um greiðslu.

Afrit af tilkynningu skv. 1. og 2. mgr. skal senda til þess sveitarfélags sem í hlut á.

5. gr.

Innheimta vanskila.

Ef veðyfirlýsing uppfyllir skilyrði laga eða ef sveitarfélag er í vanskilum og Lánasjóður sveitarfélaga hefur sent um þau tilkynningu skv. 4. gr., skal félagsmálaráðherra án tafar veita lánasjóðnum heimild til að ganga að veðinu. Getur lánasjóðurinn þá sent kröfu um greiðslu vanskilanna til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna framlaga úr honum eða ríkisféhirði vegna útsvarstekna. Ef það er nægilegt að mati lánasjóðsins skal hann takmarka kröfuna við framlög til sveitarfélags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Kröfur skv. 1. mgr. skulu greiddar beint til lánasjóðsins af framlögum til sveitarfélaga eftir því sem þau koma til greiðslu úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og innheimtum útsvars­tekjum eftir því sem þær koma til greiðslu hjá ríkisféhirði.

6. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga, öðlast gildi við birtingu.

Félagsmálaráðuneytinu, 27. janúar 2006.

F. h. r.

Ragnhildur Arnljótsdóttir.

Guðjón Bragason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica