Viðskiptaráðuneyti

408/1994

Reglugerð um öryggi leikfanga og hættulegar eftirlíkingar. - Brottfallin

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um leikföng sem greinilega eru hönnuð sem leikföng handa börnum yngri en fjórtán ára. Hún gildir einnig um vörur sem hafa þannig lögun, lykt, lit, útlit, umbúðir, merkingar, rúmmál eða stærð að þótt þær séu ekki matvæli er hætta á að neytendur, einkum börn, rugli þeim saman við matvæli og stingi þeim upp í sig, sjúgi þær eða gleypi.

Vörur þær sem taldar eru upp í viðauka I með reglugerð þessari teljast ekki til leikfanga í skilningi hennar.

II. KAFLI

Skilgreiningar.

2. gr.

Ábyrgðaraðili merkir aðila sem ber ábyrgð á markaðssetningu leikfanga og eða eftirlíkinga hér á landi. Ábyrgðaraðili getur verið framleiðandi eða innflytjandi. Á ábyrgðaraðila hvíla ákveðnar skyldur umfram aðra seljendur.

CE-merki er merki til staðfestingar á að vara fullnægi öllum skilgreindum grunnkröfum í reglugerðum og samhæfðum stöðlum. Um gerð og notkun merkisins er fjallað í ákvörðun ráðsins 93/465/EBE.

Efnafræðileikfang merkir leikfang, svo sem búnað til efnafræðitilrauna eða plaststeypunar , smækkaðar útgáfur af búnaði fyrir leirkeraverkstæði, glerjun og ljósmyndun og áþekk leikföng. Eftirlíking merkir vöru sem hætta er á að sé ruglað saman við matvæli vegna þess að hún virðist vera önnur en hún er.

Faggilding merkir aðferð sem faggildingardeild Löggildingarstofunnar beitir til að veita formlega viðurkenningu á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni í samræmi við settar reglur.

Framleiðandi merkir framleiðanda vöru og hvern annan aðila sem kynnir sig sem framleiðanda vöru, með því að merkja vöruna með nafni sínu, viðskiptaheiti eða öðru kennimarki. Þá getur framleiðandi talist aðili sem endurgerir vöru eða er umboðsmaður framleiðanda með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins ef framleiðandi hefur ekki staðfestu á því svæði. Loks getur framleiðandi átt við aðra þá aðila í aðfangakeðju vöru sem hafa framleitt íhluti sem öryggi vörunnar byggist á.

Markaðseftirlit merkir skipulegt eftirlit með vöru á markaði. Það greinist í markaðsskoðun annars vegar og skipulega öflun upplýsinga um vöru á markaði hins vegar, m.a. með því að taka á móti ábendingum um vöru sem talin er hættuleg. Markaðseftirlit er framkvæmt af faggiltri skoðunarstofu.

Markaðsskoðun merkir rannsókn á vöru og ákvörðun um hvort hún samræmist sérstökum eða almennum kröfum. Mat á samræmi vöru er framkvæmt eftir föstum og skilgreindum verklagsreglum.

Neytandi merkir kaupanda vöru og notanda hennar.

Nytjaleikfang merkir leikfang sem er notað á sama hátt og tæki eða búnaður fyrir fullorðna og líkist þeim í útliti.

Opinber markaðsgæsla merkir skipulagða viðleitni stjórnvalda til að tryggja að vara á markaði uppfylli settar reglur um öryggi, heilsuvernd og umhverfisvernd. Opinber markaðsgæsla greinist í markaðseftirlit og stjórnvaldsaðgerðir.

íarkaðseftirlit og stjórnvaldsaðgerðir.

Samhæfður staðall merkir staðal sem saminn hefur verið með hliðsjón af grunnkröfum og samþykktur hefur verið af Staðlasamtökum Evrópu (CEN) eða Rafstaðlasamtökum Evrópu (CENELEC) í umboði Evrópusambandsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu.

Samræmisyfirlýsing merkir yfirlýsingu framleiðanda um ábyrgð hans á að vara, ferli eða þjónusta sé í samræmi við staðla eða önnur kröfuskjöl.

Samvinnunefnd merkir samstarfsvettvang Löggildingarstofunnar og skoðunarstofu sem annast framkvæmd markaðseftirlits.

Seljandi merkir framleiðanda vöru, umboðsmann framleiðanda, innflytjanda, millilið á síðari stigum, dreifingaraðila og smásala.

Tilnefndur aðili merkir prófunarstofu, vottunarstofu eða skoðunarstofu sem stjórnvöld tilnefna til að annast yfirumsjón með samræmismati samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins og samkomulagi aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu um gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum prófana og staðfestingum á samræmi frá 15. júní 1988 (Tampere-samningurinn).

Vara merkir sérhverja framleiðsluvöru sem boðin er neytendum gegn gjaldi eða endurgjaldslaust í tengslum við atvinnurekstur seljanda, hvort sem hún er ný, notuð eða endurgerð. Þetta gildir ekki ef um er að ræða notaða vöru sem telst hafa fornmunagildi eða þarfnast lagfæringar fyrir notkun enda geri seljandi kaupanda grein fyrir því áður en viðskiptin fara fram eða kaupanda má vera það ljóst.

Örugg vara merkir sérhverja vöru sem við eðlilega eða fyrirsjáanlega notkun fullnægir þeim kröfum sem gerðar eru vegna almannahagsmuna um öryggi og vernd heilsu og umhverfis.

III. KAFLI

Öryggi leikfanga og eftirlíkinga.

3. gr.

Óheimilt er að setja leikföng á markað hér á landi ef hætta er á að þau geti stofnað öryggi eða heilsu notenda og annarra í voða þegar þau eru notuð eins og til er ætlast eða fyrirsjáanlegt er miðað við eðlilega hegðun barna. Aðilum með staðfestu hér á landi er sömuleiðis óheimilt að setja slík leikföng á markað í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Leikföng verða, í því ástandi sem þau eru þegar þau eru sett á markað og með hliðsjón af fyrirsjáanlegum og eðlilegum endingartíma þeirra, að standast þær öryggis- og heilbrigðiskröfur sem settar eru fram í viðauka II með reglugerð þessari.

4. gr.

Eigi er heimilt að setja leikföng á markað nema þau séu annaðhvort hönnuð og framleidd í samræmi við samhæfða evrópska staðla eða hönnuð og framleidd í samræmi við eintak sem hefur hlotið gerðarviðurkenningu tilnefnds aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins. Framleiðandi skal lýsa yfir að leikfang uppfylli allar kröfur reglugerðarinnar með samræmisyfirlýsingu.

Í viðauka III með reglugerð þessari er að finna tilvísanir í viðeigandi staðla.

5. gr.

Viðskiptaráðherra getur tilnefnt eina eða fleiri prófunarstofur sem tilnefnda aðila á sviði leikfanga og gefið þeim umboð til þess að veita gerðarviðurkenningu á leikföngum samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar. Tilnefningin getur verið háð skilyrðum og takmörkunum.

Við útnefningu á tilnefndum aðila á sviði leikfanga skal velja prófunarstofu sem hlotið hefur faggildingu samkvæmt stöðlunum ÍST EN 45001, ÍST EN 45002 og ÍST EN 45003 til að framkvæma prófanir á leikföngum á tilheyrandi prófunarsviði. Í viðauka VII með reglugerð þessari eru talin upp nánari skilyrði sem tilnefndur aðili verður að uppfylla.

Um aðferðir framleiðenda við gerð samræmisyfirlýsinga og tilhögun gerðarviðurkenningar er fjallað í viðauka IV með reglugerð þessari.

6. gr.

Ábyrgðaraðili leikfanga sem eru framleidd í samræmi við samhæfða evrópska staðla verða að geta lagt fram upplýsingarnar sem um getur í viðauka V með reglugerð þessari.

Ábyrgðaraðili gerðarviðurkenndra leikfanga verður að geta lagt fram upplýsingarnar sem um getur í viðauka VI með reglugerðinni.

Ábyrgðaraðila er skylt að halda skrá yfir allar vörur sem hann hefur á boðstólum og hafa tiltæk afrit af vottorðum, tækniskjölum og yfirlýsingum um samræmi eftir því sem við á. Skjöl þessi skal varðveita í minnst tíu ár eftir að síðasta eintak af framleiðslunni hefur verið sett á markað.

7. gr.

Eingöngu er heimilt að setja á markað leikföng sem merkt eru með CE-merki. Á leikfanginu eða í notkunarleiðbeiningum sem því fylgir skal varað við hættu sem fylgir tilteknum leikföngum, ásamt upplýsingum um hvernig skuli brugðist við þeirri hættu. Á leikfanginu skal einnig vera nafn framleiðandans og merki ásamt heimilisfangi eða nafn og merki ábyrgðaraðila með heimilisfangi. Upplýsingar þessar skulu settar á leikfangið eða umbúðirnar og vera skýrar, læsilegar og óafmáanlegar. Þegar leikföng eru smágerð eða sett saman úr litlum hlutum er heimilt að setja þessar upplýsingar á merkimiða eða í notkunarleiðbeiningar. Óheimilt er að setja merki eða áletranir á leikföng sem rugla má saman við CE-merkið.

Heimilt er að nota skammstafanir í upplýsingum þeim sem um getur í 1. mgr., enda skal vera unnt að bera kennsl á framleiðanda eða ábyrgðaraðila með skammstöfuninni.

Auk upplýsinga sem um getur í 1. mgr. skulu viðvaranir og reglur um varúð við notkun fylja eftirtöldum leikföngum svo sem hér greinir:

1. Leikföng sem kunna að vera hættuleg börnum yngri en þriggja ára skulu vera með viðvörun þar að lútandi ásamt ábendingu um hættuna sem viðvörunin lýtur sérstaklega að. Þetta ákvæði gildir ekki um leikföng sem vegna notagildis, stærðar, sérkenna, eiginleika eða af öðrum augljósum ástæðum eru ekki ætluð börnum yngri en þriggja ára.

2. Rennibrautum, rólum, hringjum, fimleikarólum, reipum og áþekkum leikföngum sem eru fest á þverslár skulu fylgja notkunarleiðbeiningar um hvernig eigi að setja þau saman og upplýsingar um hvaða hlutar geti verið hættulegir sé leikfangið ekki sett saman á réttan hátt. Ennfremur skulu fylgja upplýsingar um nauðsynlegt eftirlit og viðhald á mikilvægasta uppsetningarbúnaði og um hættu á falli eða veltu ef eftirliti eða viðhaldi er ekki framfylgt.

3. Umbúðir nytjaleikfanga skal merkja með varnaðarorðum um að þau skuli nota undir eftirliti fullorðinna. Ennfremur skulu fylgja þeim varúðarreglur sem notandi á að fara eftir og aðvörun um áhættuna sem notandi tekur geri hann það ekki. Ennfremur skal benda á að leikfangið skuli geymt þar sem börn yngri en þriggja ára nái ekki til þess.

4. Leikföngum sem innihalda hættuleg efni og efnafræðileikföngum skulu fylgja upplýsingar um varúðarreglur, ábending um sérstaka hættu og ábending um skyndihjálp ef slys verður, ásamt merkingum í samræmi við ákvæði í reglugerð um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna og hættulegra efna. Enn fremur skal benda á að leikfangið eigi að geyma þar sem börn yngri en þriggja ára nái ekki til þess. Á umbúðum utan um efnafræðileikföng skal ennfremur standa viðvörun um að leikfangið sé eingöngu ætlað börnum í aldursflokki sem nánar verður kveðið á um í viðkomandi stöðlum og það skuli notað undir eftirliti fullorðinna.

5. Hjólabretti og rúlluskauta fyrir börn skál merkja með viðvörun um að nota hlífðarbúnað. Í notkunarleiðbeiningum skal minna á að nota leikfangið með varúð og veita ábendingar um hlífðarbúnað sem mælt er með.

6. Á leikföng til nota í vatni, sbr. f-lið í kafla II. 1 í viðauka II með reglugerð þessari, skal í samræmi við samræmda evrópska staðla sett viðvörun um að þau megi eingöngu nota undir eftirliti og í vatni þar sem barnið nær til botns.

Allar varúðarmerkingar skulu vera á íslensku.

8. gr.

Óheimilt er að flytja inn, framleiða eða markaðssetja vörur hér á landi sem hætta er á að sé ruglað saman við matvæli vegna þess að þær virðast aðrar en þær eru og geta þannig reynst hættulegar öryggi og heilsu neytenda því að þótt þær séu ekki matvæli hafa þær þannig lögun, lykt, lit, útlit, umbúðir, merkingar, rúmmál eða stærð að hætta er á að neytendur, einkum börn, rugli þeim saman við matvæli og stingi þeim upp í sig, sjúgi þær eða gleypi, sem gæti reynst hættulegt og til dæmis valdið köfnun, eitrun eða stungið gat á eða lokað meltingarvegi. Aðilum með staðfestu hér á landi er sömuleiðis óheimilt að setja slíka vöru á markað í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

IV KAFLI

Opinber markaðsgæsla með leikföngum og eftirlíkingum.

9. gr.

Með opinberri markaðsgæslu skal vinna að því að leikföng og eftirlíkingar á markaði uppfylli settar reglur og skapi ekki hættu.

Löggildingarstofan fer með stjórnvaldsþátt markaðsgæslu en skoðunarstofa annast markaðseftirlit. Samvinna Löggildingarstofunnar og skoðunarstofu fer fram á vettvangi samvinnunefndar.

10. gr.

Hlutverk Löggildingarstofunnar í opinberri markaðsgæslu með leikföngum og eftirlíkingum er sem hér greinir:

1. Að móta meginstefnu um áherslur í markaðseftirliti og umfang eftirlits á markaði og setja verklagsreglur.

2. Að annast samningsgerð við skoðunarstofu og greiða kostnað vegna hennar.

3. Að fella úrskurð í einstökum málum eftir að samvinnunefnd hefur fjallað um málið og lagt fram tillögu sína.

11. gr.

Markaðseftirlit skal framkvæmt af skoðunarstofu sem faggilt er samkvæmt reglugerð nr. 346/1993 um starfsemi faggiltra óháðra skoðunarstofa. Skoðunarstofa annast markaðsskoðun, aflar á skipulegan hátt upplýsinga um vörur á markaði og tekur við kvörtunum og ábendingum frá neytendum og öðrum aðilum. Samið skal við eina eða fleiri skoðunarstofur um framkvæmd markaðseftirlits.

12. gr.

Samvinnunefnd fjallar um starfsáætlanir í markaðseftirliti, athugasemdir sem gerðar eru við einstakar vörur og vöruflokka og gerir tillögur um stjórnvaldsaðgerðir en Löggildingarstofan tekur endanlega ákvörðun.

Viðskiptaráðherra skipar þriggja manna samvinnunefnd. Skal einn nefndarmanna vera frá Löggildingarstofunni og annar frá skoðunarstofu. Fulltrúar Hollustuverndar ríkisins og Rafmagnseftirlits ríkisins skulu boðaðir á fundi nefndarinnar þegar fjallað er um sértæk málefni sem tengjast starfsvettvangi þessara stofnana.

V KAFLI

Markaðseftirlit.

13. gr.

Skoðunarstofu er heimilt að skoða vörur hjá seljanda og krefjast upplýsinga um ábyrgðaraðila, svo og að taka sýnishorn vöru til rannsóknar. Skoðunarstofa getur krafið ábyrgðaraðila um vottorð, yfirlýsingu um samræmi við reglur og staðla, prófunarskýrslu, tæknilegar upplýsingar og aðrar nauðsynlegar upplýsingar til að sannreyna öryggi vöru.

Starfsmenn Löggildingarstofunnar, skoðunarstofu og fulltrúar í samvinnunefnd eru bundnir þagnarskyldu um atriði er fram koma við rannsókn og viðskiptaleynd hvílir yfir. Það skal þó ekki vera því til fyrirstöðu að þeir birti opinberlega upplýsingar um hættuleg leikföng og hættulegar eftirlíkingar ef brýna nauðsyn ber til sökum þess að af vörunni stafar hætta fyrir öryggi, heilsu eða umhverfi.

VI. KAFLI

Stjórnvaldsaðgerðir.

14. gr.

Ef leikföng eða eftirlíkingar uppfylla ekki formleg skilyrði um merkingar, leiðbeiningar, vottorð, yfirlýsingar um samræmi, prófunarskýrslur o.s.frv. getur Löggildingarstofan bannað sölu þeirra.

Ef ábyrgðaraðili torveldar skoðun eða rannsókn leikfanga eða eftirlíkinga eða hefur ekki tiltæk fullnægjandi gögn um öryggi þeirra getur Löggildingarstofan bannað sölu þeirra.

Ef rökstuddur grunur leikur á að leikföng eða eftirlíkingar uppfylli ekki settar öryggisreglur getur Löggildingarstofan ákveðið tímabundið bann við sölu þeirra á meðan rannsókn fer fram í málinu.

Þyki ljóst að leikföng eða eftirlíkingar uppfylla ekki settar öryggisreglur getur Löggildingarstofan bannað sölu þeirra.

Ef leikföng eða eftirlíkingar eru álitin sérstaklega hættuleg getur Löggildingarstofan krafist tafarlausrar afturköllunar allra eintaka vörunnar. Ábyrgðaraðili skal lagfæra vöruna þannig að hún uppfylli settar reglur, afhenda kaupendum sams konar vöru en hættulausa eða greiða kaupendum andvirði vörunnar. Löggildingarstofan getur þó ákveðið að óheimilt sé að lagfæra vöru eða endurnýta hana á annan hátt ef það telst hættulegt eða varhugavert að mati hennar. Hægt er að skylda ábyrgðaraðila til að eyðileggja öll eintök vörunnar með öruggum hætti, ef nauðsyn þykir af eðli máls.

15. gr.

Löggildingarstofan skal, eftir því sem unnt er, hafa samvinnu við ábyrgðaraðila um málsmeðferð, svo sem öflun gagna, skoðun og prófun vöru og aðgerðir eins og stöðvun sölu og afturköllun vöru.

Löggildingarstofunni ber að tilkynna ábyrgðaraðila um rökstudda ákvörðun sína svo fljótt sem unnt er. Ákvörðunin skal studd viðeigandi gögnum sem eftir aðstæðum geta verið skoðunarskýrsla, prófunarskýrsla eða önnur gögn.

Ábyrgðaraðila skal veittur eðlilegur frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri en heimilt er að víkja frá því ef vara er álitin sérstaklega hættuleg.

Hafi Löggildingarstofan bannað sölu vöru á grundvelli þess að hún uppfylli ekki öryggiskröfur er ábyrgðaraðila heimilt að krefjast þess að varan skuli prófuð af faggiltri prófunarstofu. Slík prófun frestar ekki framkvæmd ákvörðunar Löggildingarstofunnar.

Löggildingarstofunni er heimilt að endurskoða ákvörðun ef breyttar aðstæður eru fyrir hendi.

Ákvörðunum Löggildingarstofunnar má skjóta til úrskurðar viðskiptaráðherra en málskot frestar ekki framkvæmd ákvörðunar.

16. gr.

Ábyrgðaraðili ber kostnað vegna þeirra sýnishorna vöru sem tekin eru til rannsóknar. Að lokinni rannsókn skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti eftir atvikum.

Ábyrgðaraðili ber allan kostnað af afturköllun vöru. Sé vara ekki í samræmi við settar reglur skal ábyrgðaraðili bera þann kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn, prófun, svo og annan kostnað.

VII. KAFLI

Gildistaka.

17. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, sbr. lög nr. 102/1994 um breytingu á þeim.

Reglugerð þessi er sett með hliðsjón af eftirfarandi ákvæðum EES-samningsins:

1. Ákvörðun ráðsins 93/465/EBE um aðferðareiningar fyrir hin ýmsu þrep samræmismatsins og reglur um áfestingu og notkun CE-samræmismerkja sem ætlað er að nota í tilskipunum um tæknilega samhæfingu, sbr. lið 3d í XIX. kafla II. viðauka. Ákvörðun þessi er birt í 3. bók sérstakrar útgáfu EES- viðbætis við Stjórnartíðindi EB, sbr, lög nr. 91/1994, um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, sbr. lög nr. 66/ 1993.

2. Tilskipun 88/378/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna um öryggi leikfanga, sbr. I. tölul. XXIII. kafla II. viðauka, eins og henni var breytt með tilskipun 93/68/EBE. Fyrri tilskipunin er birt í 25. hefti sérritsins EES-gerðir, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 31/1993. Hin síðari er birt í 3. bók sérstakrar útgáfu EES-viðbætis við Stjórnartíðindi EB, sbr. lög nr. 91/1994.

3. Tilskipun 87/357/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vörur sem geta reynst hættulegar heilsu og öryggi neytenda þar eð þær virðast aðrar en þær eru, sbr. 5. tölul. XIX. viðauka. Tilskipun þessi er birt í 46. hefti sérritsins EES-gerðir, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 31/1993.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Viðskiptaráðuneytið, 12. júlí 1994.

Sighvatur Björgvinsson.

Þorkell Helgason.

 

 

 

Viðauki 1.

Vörur sem teljast ekki til leikfanga samkvæmt reglugerðinni.

1. Jólaskreytingar.

2. Nákvæm líkön í réttum hlutföllum handa fullorðnum söfnurum.

3. Búnaður til nota á leikvöllum.

4. Íþróttabúnaður.

5. Búnaður fyrir vatnaíþróttir, til nota í djúpu vatni.

6. Brúður í þjóðbúningum og brúður til skrauts og áþekkir hlutir handa fullorðnum söfnurum.

7. Leiktæki sem greitt er fyrir að nota og komið er fyrir á opinberum stöðum (verslunarmiðstöðvum, umferðarmiðstöðvum o.s.frv.).

8. Raðspil með yfir 500 bitum með eða án mynda, ætluð kunnáttumönnum.

9. Loftbyssur og loftskammbyssur.

10. Flugeldar, að hvellhettum meðtöldum, að undanskildum hvellhettum sérstaklega gerðum fyrir leikföng.

11. Slöngvur og teygjubyssur.

12. )Píluspil þar sem pílurnar eru með málmoddi.

13. Rafmagnsofnar, straujárn eða aðrar nytjavörur sem nota málspennu sem fer yfir 24 volt.

14. Vörur með hitarist, ætlaðar til nota í kennslu undir eftirliti fullorðinna.

15. Ökutæki með brennsluvél.

16 Leikfangalestir með gufuvél.

17. Reiðhjól til hjólreiðaíþrótta eða nota á vegum úti, þ.e. reiðhjól þar sem hæð hnakks fer yfir 635 mm.

18. Leiktæki tengd sjónvarpsskjá sem notaður er við málspennu sem fer yfir 24 volt.

19. Snuð.

20. Nákvæmar eftirlíkingar af skotvopnum.

21. Skartgripir fyrir börn.

 

Viðauki II.

Grunnkröfur um öryggi leikfanga.

I. Almennar reglur.

1. Samkvæmt ákvæðum 3. gr. reglugerðarinnar verður að vernda notendur leikfanga og aðra gegn heilsutjóni og líkamsmeiðslum þegar leikföng eru notuð eins og til er ætlast eða fyrirsjáanlegt er miðað við eðlilega hegðun barna. Um er að ræða hættur:

a. er stafa af hönnun leikfangsins, smíði þess eða gerð,

b. er felast í notkun leikfangsins og ekki er hægt að útrýma að fullu með því að breyta smíði og gerð leikfangsins án þess að notkun þess breytist eða það glati helstu eiginleikum sínum.

2. Hættan við notkun leikfangs verður að miðast við færni notenda og, þar sem við á, umsjónarmanna þeirra til að bregðast við hættunni. Þetta á einkum við um leikföng sem samkvæmt fyrirhugaðri notkun, stærð og sérkennum eru ætluð börnum yngri en þriggja ára.

Fylgja skal þessari reglu með því að tiltaka, þar sem við á, lágmarksaldur notenda leikfanganna og gefa fyrirmæli um að þau megi einungis nota í umsjón fullorðinna.

3. Merkimiðar á leikföngum og umbúðum þeirra og notkunarleiðbeiningar með leikföngum verða að beina athygli notenda eða umsjónarmanna þeirra á árangursríkan og ótvíræðan hátt að þeim hættum sem felast í notkun leikfanganna og leiðum til að forðast þær.

II. Sérstakar hættur

1. Eðliseiginleikar og aflfræðilegir eiginleikar.

a. Leikföng og einstakir hlutar þeirra og festingar, þegar um samsett leikföng er að ræða, verða að hafa nauðsynlegan aflfræðilegan styrkleika og, þar sem við á, stöðugleika til að þola álag við notkun án þess að brotna eða aflagast svo af því stafi hætta á meiðslum.

b. Brúnir, útskot, snúrur, kaplar og festingar á leikföngum verður að hanna og smíða þannig að sem minnst hætta sé á meiðslum þegar komið er við þau.

c. Leikföng verður að hanna og smíða á þann hátt að sem minnst hætta á meiðslum stafi af hreyfanlegum hlutum þeirra.

d. Leikföng sem eru augljóslega ætluð börnum yngri en þriggja ára, og einstakir hlutar þeirra og þeir hlutar leikfanga sem hægt er að taka í sundur og setja saman, skulu vera nægilega stór til að ekki sé hægt að gleypa þau og anda þeim að sér.

e. Leikföng og einstakir hlutar þeirra og smásöluumbúðir mega ekki geta valdið kyrkingu eða köfnun.

f. Þegar leikföng, sem ætluð eru til nota í grunnu vatni og geta borið barn eða haldið því á floti, eru hönnuð og smíðuð verður að leitast við eftir fremsta megni, með hliðsjón af ráðlagðri notkun þeirra, að draga úr hættu á að leikfangið missi flotkraft sinn eða hætti að halda barninu á floti.

g. Leikföng sem hægt er að fara inn í og mynda lokað rými fyrir þá sem inni eru verða að hafa útgönguleið sem er auðvelt að opna innan frá.

h. Leikföng sem auka hreyfanleika notenda verða, að því marki sem unnt er, að hafa hemlakerfi sem hæfir leikfanginu og miðast við hreyfiorkuna sem myndast við notkun þess. Notandi verður að eiga auðvelt með að stjórna þessu kerfi án þess að eiga á hættu að kastast út úr leikfanginu eða slasa sig eða aðra.

i. Miða skal lögun og gerð skeyta við það að hreyfiorkan, sem myndast þegar þeim er skotið úr þar til gerðu leikfangi, sé hvorki óþarflega hættuleg notanda né öðrum, með hliðsjón af eðli leikfangsins.

j. Leikföng með hitarist skulu smíðuð þannig að tryggt sé:

i. að engir aðgengilegir fletir nái svo háu hitastigi að valdið geti brunasárum við snertingu,

ii. að vökvar og lofttegundir sem eru í leikfanginu nái ekki svo háu hitastigi eða þrýstingi að þau sleppi út úr því, nema beinlínis sé ætlast til þess þegar leikfangið er notað, og valdi ef til vill brunasárum eða öðrum meiðslum.

2. Brunaeiginleikar

a. Leikföng mega ekki skapa eldhættu í umhverfi barna. Þau verða því að vera úr efnum:

i. sem brenna ekki þó að logar leiki um þau eða þau séu óvarin fyrir neistum eða öðru sem valdið getur íkveikju,

ii. sem er erfitt að kveikja í (eldurinn slokknar um leið og íkveikjuvaldurinn er fjarlægður),

iii. sem brenna hægt þótt kvikni í þeim og flýta ekki fyrir útbreiðslu elds,

iv. sem hafa fengið meðhöndlun sem hægir á bruna sama hver efnasamsetning leikfangsins er.

Sú hætta má ekki vera fyrir hendi að eldfim efni kveiki í öðrum efnum í leikfanginu.

b. Leikföng sem innihalda hættuleg efni, sem um er fjallað í sérstökum reglugerðum, vegna þess hlutverks sem þau gegna, m.a. efni og búnaður fyrir efnafræðitilraunir, samsetningu líkana, mótun úr plasti eða leir, glerjun, ljósmyndun eða áþekka starfsemi, mega ekki innihalda efni eða efnablöndur sem geta orðið eldfim ef þau glata rokgjörnum efnisþáttum sem ekki eru eldfimir.

c. Ekki má stafa sprengihætta af leikföngum og þau mega ekki innihalda efni eða efnisþætti sem hætta er á að springi þegar leikföngin eru notuð eins og til er ætlast samkvæmt ákvæðum í reglugerð þessari. Ákvæði þetta á ekki við um hvellhettur sem notaðar eru sem leikföng, eins og getið er um í 10. tölul. í viðauka I.

d. Leikföng, m.a. leikir og leikföng sem snerta efnafræði á einhvern hátt, mega ekki innihalda efni og efnablöndur sem geta sprungið

i. ef þeim er blandað saman vegna efnahvarfa eða þegar þau hitna,

ii. ef þeim er blandað saman við oxandi efni, sem innihalda rokgjarna efnisþætti sem eru eldfimir í andrúmslofti og geta myndað blöndu af gufu og lofti sem hætt er við að kvikni í eða springi.

3. Efnafræðilegir eiginleikar.

a. leikföng verður að hanna og smíða þannig að þau valdi ekki heilsutjóni eða líkamsmeiðslum, þegar þau eru notuð, séu þau gleypt, þeim andað að sér eða komist þau í snertingu við hörund, slímhúð eða augu. Þau verða í öllum tilvikum að vera í samræmi við viðeigandi lög og reglur um ákveðnar vörutegundir, um bönn um takmarkanir á notkun og um meðferð og merkingu hættulegra efna.

b. Til að heilsu barna sé ekki stofnað í voða verður að hafa það að markmiði að aðgengi efna í leikfanginu, sem leiðir af notkun þess, fari ekki yfir eftirfarandi mörk á dag:

0,2 µg fyrir antímon,

0,1 µg fyrir arsen,

25,0 µg fyrir baríum,

0,6 µg fyrir kadmíum,

0,3 µg fyrir króm,

0,7 µg fyrir blý,

0,5 µg fyrir kvikasilfur,

0,5 µg fyrir selen,

eða önnur sambærileg mörk sem kunna að verða ákveðin fyrir þessi eða önnur efni í samræmi við ákvæði í öðrum lögum og stjórnsýslufyrirmælum.

Með aðgengi efna þessara er átt við að úr leikfangi geti losnað efnasambönd sem hafa eiturverkanir.

c. Leikföng mega ekki innihalda eiturefni eða hættuleg efni sem skilgreind eru í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í þeim mæli að valdið gæti tjóni á heilsu barna sem þau nota. Óheimilt er að nota eiturefni eða hættuleg efni í leikföng ef ætlunin er að nota þau í leiknum.

Nú er takmarkaður fjöldi hættulegra efna aftur á móti ómissandi vegna fyrirhugaðrar notkunar ákveðinna leikfanga, m.a. efni og búnaður til nota í efnafræðitilraunir, samsetningu líkana, mótun úr plasti eða leir, glerjun, ljósmyndun eða áþekka starfsemi, og er þá leyfilegt að nota þau í styrkleika upp að tilteknu hámarki sem Staðlastofnun Evrópu (CEN) hefur umboð til að ákveða fyrir hvert efni, í samræmi við málsmeðferð nefndar þeirrar sem stofnuð var innan Staðlastofnunarinnar í þessum tilgangi og að því tilskildu að umrædd leyfileg efni séu í samræmi við ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum.

4. Rafeiginleikar.

a. Rafmagnsleikföng mega ekki vera knúin rafmagni með málspennu sem fer yfir 24 volt og enginn hluti leikfangsins má fara yfir 24 volt.

b. Einangra verður vandlega þá hluta leikfanga sem tengdir eru eða geta komist í snertingu við spennuhafa sem valdið geta raflosti, svo og kapla eða aðra leiðara sem rafmagn er leitt eftir í hluta þessa, og búa þannig um þá að ekki sé hætta á raflosti af völdum þeirra.

c. Rafmagnsleikföng verður að hanna og smíða þannig að engir aðgengilegir fletir á yfirborðinu nái svo háu hitastigi að valdið geti brunasári við snertingu.

5. Hreinlæti.

Leikföng skal hanna og smíða þannig að þau uppfylli kröfur í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um heilbrigði, hreinlæti og þrifnað til að koma í veg fyrir hættu á sýkingu, veikindum og smiti.

6. Geislavirkni.

Leikföng mega ekki innihalda geislavirka hluta eða efni í þeirri mynd og í því magni sem stofnað geta heilsu barns í voða. Við gerð leikfanga skal þess gætt að ákvæðum í og stjórnsýslufyrirmælum um geislavirkni sé fylgt.

 

Viðauki III.

Samhæfðir evrópskir staðlar um leikföng.

Eftirfarandi staðlar eiga við um framleiðslu leikfanga:

ÍST EN71-1, Leikföng. Öryggiskrafa. 1. hluti: Aflfræðilegir og eðlisfræðilegir eiginleikar.

ÍST EN71-2, Leikföng. Öryggiskrafa. 2. hluti: Eldfimi.

ÍST EN71-3, Leikföng. Öryggiskrafa. 3. hluti: Flæði ákveðinna efna.

ÍST EN71-4, Leikföng. Öryggiskrafa. 4. hluti: Prófunarsamstæða fyrir efnafræðirannsóknir

og samsvarandi starfsemi.

CENELEC, HD 271 S1, Reglugerð um sterkstraum, C-deild, kafli 134-2-22, 2. hluti. Sérákvæði um rafmagnsleikföng með öryggisspennu.

1. breyting: HD 271 S1,

2. breyting: HD 271 S1 og

3. breyting: HD 271 S1.

 

Viðauki IV.

Gerð samræmisyfirlýsinga og tilhögun gerðarviðurkenninga.

1. Almenn atriði.

Framleiðandi leikfanga skal beita þeim aðferðaeiningum sem við eiga eins og lýst er í ákvörðun ráðsins nr. 93/465/EBE frá 22. júní 1993 um aðferðaeiningar fyrir hin ýmsu þrep samræmismatsins og reglur um áfestingu og notkun CE-merkisins sem ætlað er til nota í tilskipunum um tæknilega samhæfingu.

Ábyrgðaraðili skal sækja skriflega um gerðarprófun til tilnefnds aðila á sviði leikfanga og skal eftirfarandi fylgja umsókninni:

a. Nafn og heimilisfang framleiðanda og/eða ábyrgðaraðila.

b. Yfirlýsing um að umsækjandi hafi ekki lagt umsókn inn til annarra tilnefndra aðila innan hins evrópska efnahagssvæðis.

c. Tækniskjöl, en þau skulu innihalda eftir því sem skipta þykir máli til þess að unnt sé að framkvæma mat:

i. Almenna lýsingu á gerðinni.

ii. Hönnunar- og framleiðsluteikningar, skrá yfir íhluta, samsetningarhluta, rafrásir, o.s.frv.

iii. Lýsingar og útskýringar sem nauðsynlegar eru til skilnings á teikningum og skrám, þar með talinni notkun.

iv. Skrá yfir staðla sem gilda að einhverju eða öllu leyti og lýsing á þeim lausnum sem valdar eru til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar ef staðlar eru ekki notaðir.

v. Niðurstöður á útreikningum við hönnun, hönnunarrannsóknum, o.s.frv. vi. Prófunarskýrslur, ef við á.

2. Framkvæmd gerðarviðurkenningar á leikfangi.

Umsækjandi sendir tilnefndum aðila, samkvæmt samkomulagi, eitt eða fleiri prófsýni sem eru dæmigerð fyrir fyrirhugaða vöru, þ.e. svokallaða gerð eða gerðir.

Tilnefndi aðilinn:

a. skal rannsaka tækniskjölin og ganga úr skugga um að gerðin sé framleidd í samræmi við þau og ákveða hvaða þættir eru hannaðir í samræmi við staðla og hvaða þættir ekki,

b. skal framkvæma eða láta framkvæma prófun til eftirlits með því hvort úrlausnir framleiðandans uppfylla grundvallarkröfur reglugerðarinnar ef stöðlum er ekki fylgt,

c. skal framkvæma eða láta framkvæma prófun til eftirlits með því hvort framleiðandinn fylgi í raun viðkomandi stöðlum þegar framleiðandinn segist hafa fylgt þeim,

d. hefur hugsanlega samráð við umsækjandann um hvort framkvæma skuli nauðsynlegar prófanir,

e. getur ákveðið að láta aðra prófunarstofu framkvæma prófunina. Í því tilviki skal fá samþykki umsækjanda þar að lútandi.

 

Viðauki V.

Samræmisyfirlýsing ábyrgðaraðila leikfanga

sem eru framleidd í samræmi við samhæfða evrópska staðla.

Ábyrgðaraðili skal merkja vöruna með CE-merki sem tryggingu fyrir því að varan sé í samræmi við kröfur í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar og þar með í samræmi við samræmdar kröfur sem gerðar eru til leikfanga á Evrópska efnahagssvæðinu.

Til staðfestingar á þessu skal ábyrgðaraðilinn hafa undir höndum tækniskjal sem gerir kleift að skilja hönnun vörunnar, framleiðslu og notkun ásamt því að meta samræmi við reglugerðina og þar með samræmdar kröfur sem í gildi eru um leikföng á hinu evrópska efnahagssvæði.

Skjölin sem á að leggja fram ef eftirlitsaðili krefst þess skulu innihalda:

1. Heimilisfang ábyrgðaraðila.

2. Almenna lýsingu á vörunni.

3. Hönnunar- og framleiðsluteikningar, skrá yfir efni sem eru notuð, íhluta, samsetningarhluta, rafrás o.s.frv.

4. Lýsingar og útskýringar sem nauðsynlegar eru til skilnings á teikningum og skrám og þar með talið á notkun vörunnar.

5. Skrá yfir staðla sem eru notaðir.

6. Lýsingu á því hvernig tryggja megi að varan sé í samræmi við staðlana, þar með talið niðurstöður á útreikningum á hönnunarforsendum, hönnunarrannsóknum o.s.frv.

7. Prófunarskýrslur, ef við á.

 

Viðauki VI.

Samræmisyfirlýsing ábyrgðaraðila gerðarviðurkenndra leikfanga.

Ábyrgðaraðili skal merkja vöruna með CE-merki sem tryggingu fyrir því að viðkomandi vara sé í samræmi við eintakið sem lýst er í gerðarviðurkenningarvottorðinu og uppfylli kröfu í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Ef Löggildingarstofan eða skoðunarstofa krefst þess skal leggja fram eftirfarandi upplýsingar eða skjöl:

1. Heimilisfang ábyrgðaraðila.

2. Gerðarviðurkenningarvottorð ásamt þeim hluta tækniskjalanna sem máli skipta.

3. Afrit af skjölum sem voru afhent tilnefnda aðilanum.

4. Lýsingu á því hvernig tryggja megi að varan sé í samræmi við staðlana, þar með talið niðurstöður á útreikningum á hönnunarforsendum, hönnunarrannsóknum o.s.frv.

 

Viðauki VII.

Skilyrði sem tilnefndir aðilar verða að uppfylla.

Tilnefndir aðilar á sviði leikfanga skulu uppfylla eftirtalin atriði til viðbótar þeim skilyrðum sem fram koma í 4. gr. reglugerðarinnar:

1. Þeir verða að ráða yfir nauðsynlegum búnaði, fjármunum og starfsfólki.

2. Starfsfólk verður að hafa nauðsynlega tækniþekkingu og sýna fullkominn heiðarleika í fagi sínu.

3. Stjórnendur og tæknimenn, sem sjá um prófanir, skýrslur, útgáfu vottorða og eftirlitsaðgerðir sem ráð er gert fyrir í reglugerðinni, verða að vera óháðir öllum hagsmunahópum og aðilum sem hafa beint eða óbeint með leikföng að gera.

4. Starfsfólkið er bundið þagnarskyldu.

5. Undirrita verður samning um ábyrgðartryggingu nema ríkið eða annar opinber aðili sé skaðabótaskyldur fyrir hönd tilnefnda aðilans samkvæmt lögum.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica