Samgönguráðuneyti

960/2001

Reglugerð um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri fjarskiptafyrirtækja. - Brottfallin

I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.
Skilgreining gildissviðs.

Reglugerð þessi gildir um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri fjarskiptafyrirtækja.


2. gr.
Orðskýringar.
Fjarskiptafyrirtæki

: Einstaklingur eða lögaðili sem hefur almenna heimild eða rekstrarleyfi Póst- og fjarskiptastofnunar til að reka fjarskiptaþjónustu og/eða fjarskiptanet.

Fjarskiptanet: Sendikerfi og þar sem það á við skiptistöðvar og önnur úrræði sem gera kleift að beina merkjum milli skilgreindra nettengipunkta eftir þræði, þráðlaust, með ljósbylgjum eða með öðrum rafsegulaðferðum.

Hrakvirði: Virði fjármunar að loknum endingartíma hans í hendi eiganda.

Kostnaðarstaður: Safn mismunandi kostnaðarliða sem raðað hefur verið niður eftir fyrirfram skilgreindum sameiginlegum nefnara.

Kostnaðarvaki: Sérhver þáttur sem hefur áhrif á heildarkostnað.

Langtíma viðbótarkostnaður (LRIC): Kostnaður sem bætist við eða sparast við það að tiltekin starfsemi bætist við eða leggst af á þeim forsendum að allur kostnaður er breytilegur.

Notendanet: Línur og búnaður sem tengir notanda við stofnkerfið frá nettengipunkti hans til og með notendastigi í símstöð.

Starfsmáttarfjármagn: Það fjármagn sem fyrirtæki þarf á að halda til að halda óskertu rekstrarhæfi.

Stofnnet: Línur og búnaður sem notaður er fyrir flutning merkja milli notenda og innifelur í sér vinnslustig skiptistöðva, þ.m.t. útstöðvar, hnútstöðva og annarra stöðva sem sjá um að beina boðum og merkjum um netið.

Sviptivirði fjármuna: Sú upphæð sem nægir til að bæta fyrirtæki það tjón sem hlytist ef fyrirtækið væri svipt fjármununum. Sviptivirði er í flestum tilvikum jafnt endurkaupsverði.

Umtalsverð markaðshlutdeild: Markaðshlutdeild sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur skilgreint sem umtalsverða í samræmi við 2. eða 3. mgr. 24. gr. laga um fjarskipti nr. 107/1999. Meginreglan er að miðað er við hlutdeild sem er yfir 25% að jafnaði á ákveðnum hluta fjarskiptamarkaðar.

Verkgrundaður kostnaðarreikningur: Sundurgreining rekstrarkostnaðar sem byggir á þeirri aðferð að greina kostnað eftir aðgerðum sem framkvæmdar eru í viðkomandi rekstrareiningu. Magnstærðir eru því ekki skiptigrundvöllur rekstrarkostnaðar heldur einstök verkefni. Verkefni taka til sín kostnað og afurðir taka til sín verkefni.


3. gr.
Fyrirtæki sem aðgreina skulu kostnað.

Fyrirtæki sem hafa umtalsverða markaðshlutdeild á ákveðnu sviði almennrar fjarskiptaþjónustu eða almennra fjarskiptaneta skulu aðgreina kostnað í bókhaldi í samræmi við þessa reglugerð. Reglur um bókhaldslega aðgreiningu skulu einnig gilda um fjarskiptafyrirtæki sem stunda jafnframt aðra leyfisskylda starfsemi. Reglurnar skulu einnig að ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar gilda fyrir önnur fyrirtæki sem stunda eingöngu fjarskiptastarfsemi ef þau reka net og veita þjónustu, ef þau veita mismunandi tegundir fjarskiptaþjónustu eða ef Póst- og fjarskiptastofnun telur sérstakar ástæður knýja á um bókhaldslega aðgreiningu.

Ákvæði um fjárhagslega aðgreiningu fjarskiptafyrirtækja gilda þegar Póst- og fjarskiptastofnun hefur mælt fyrir um fjárhagslega aðgreiningu á grundvelli laga um fjarskipti, nr. 107/1999 og laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 110/1999 eða samkeppnisyfirvöld á grundvelli samkeppnislaga, nr. 8/1993.


II. KAFLI
Bókhaldsleg aðgreining.
4. gr.
Tilgangur.

Tilgangur með aðgreiningu á kostnaði í bókhaldi fyrirtækis er:

a. að hægt verði að sjá tekjur, kostnað og bundið fjármagn fyrir mismunandi rekstrareiningar,
b. að geta sýnt fram á að sömu skilmálar gildi um þjónustu sem veitt er öðrum fyrirtækjum og þjónustu sem innt er af hendi við aðrar deildir fjarskiptafyrirtækisins sem hlut á að máli,
c. að auka traust á aðferðum við ákvörðun þjónustu- og samtengingargjalda.


5. gr.
Framkvæmd aðgreiningar.

Fjarskiptafyrirtæki sem falla undir ákvæði 3. gr. skulu færa bókhald sitt á þann hátt að hægt verði að skipta öllum tekjum og kostnaði niður á rekstrareiningar sem tengja má mismunandi þjónustu. Fjarskiptafyrirtæki sem reka almenn fjarskiptanet skulu greina kostnað í netunum á þann hátt að hægt verði að jafna netkostnaði niður á mismunandi þjónustu, þ.m.t. aðgang að netum. Skal það gilda jafnt um aðgang þjónustudeilda fyrirtækisins og annarra fjarskiptafyrirtækja að netum. Kostnaði við rekstur neta og/eða þjónustu skal deilt niður á rekstrareiningar með verkgrundaðri kostnaðargreiningu í samræmi við 1. viðauka og nánari reglur sem Póst- og fjarskiptastofnun setur.


6. gr.
Millifærslur.

Þegar hluti af rekstri fjarskiptafyrirtækis fer fram í dótturfyrirtæki eða rekstur nets eða þjónustu skiptist milli deilda skal skrá allar færslur milli fyrirtækjanna eða deildanna með skýrri aðgreiningu í bókhaldi.


7. gr.
Eignamat.

Með hliðsjón af mati á afskriftum og ávöxtunarkröfu þeirra fjármuna sem þarf til þess að veita fjarskiptaþjónustu skal árlega leggja mat á virði þeirra fjárfestinga sem krafist er til að inna af hendi viðkomandi þjónustu. Í þeim tilgangi að líkja sem mest eftir aðstæðum á samkeppnismarkaði skal við þessa ákvörðun nota sviptivirði starfsmáttarfjármagns sem aðferð. Að jafnaði skal ekki reikna viðskiptavild til eigna sem þarf til að veita fjarskiptaþjónustu. Dæmi um útreikninga á afskrift við hækkandi og lækkandi markaðsverð eigna er að finna í 2. viðauka.

Í undantekningatilfellum getur Póst- og fjarskiptastofnun samþykkt til bráðabirgða að stuðst verði við sögulegan kostnað. Í slíkum tilfellum skal Póst- og fjarskiptastofnun hafa til samanburðar áætlað verð sem mundi leiða af hagkvæmum rekstri fjarskiptafyrirtækis á viðkomandi sviði.

8. gr.
Afskriftir.

Beita skal aðferð beinlínu afskriftar við mat á árlegum afskriftum eigna sem tengjast framboði þjónustunnar, þ.e. afskrift er fundin með því að deila í sviptivirði eignarinnar með áætluðum endingartíma. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt þegar sérstakar aðstæður krefjast þess að samþykkja notkun annarra afskriftaraðferða og að taka tillit til hugsanlegs hrakvirðis eignar.


9. gr.
Ávöxtunarkrafa.

Reikna skal kostnað af fjármagni sem bundið er í eignum sem notaðar eru í sambandi við framboð þjónustu. Ávöxtun fjármagnsins skal taka mið af hlutfallinu á milli eigin fjár lögbundins ársreiknings og vaxtaberandi skulda og byggjast á vegnu meðaltali fjármagnskostnaðar (WACC). Taka ber tillit til frádráttarbærni vaxta gagnvart útreikningi tekjuskatts þegar vegið meðaltal fjármagnskostnaðar er reiknað. Niðurfærsla viðskiptavildar sem til er orðin sem viðbót á kaupverði eigna félags og falin er í framtíðarsjóðstreymi þess skal ekki skerða eigið fé félagsins við útreikning á vegnu meðaltali fjármagnskostnaðar eins og hér hefur verið lýst.

Í sérstökum tilfellum og að fengnum rökstuðningi frá fjarskiptafyrirtæki um fjárhagsskipan allra rekstrareininga getur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að gera megi mismunandi ávöxtunarkröfur fyrir einstakar rekstrareiningar fyrirtækisins þegar reiknað er vegið meðaltal fjármagnskostnaðar (WACC).


10. gr.
LRIC aðferðin.

Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild skulu gera kostnaðarlíkan í samræmi við LRIC aðferðina. Markmiðið skal vera að byggja kostnaðarlíkan til útreiknings á verði þjónustu á grundvelli þess kostnaðar sem verður til í fyrirtæki sem telst rekið á hagkvæman hátt. Póst- og fjarskiptastofnun skal setja reglur um byggingu líkansins og í því sambandi skal stofnunin hafa heimild til að hafa til samanburðar tölur úr sambærilegum rekstri erlendra fjarskiptafyrirtækja.

Kostnaðargreiningu samkvæmt 4.-6. gr. skal vera hægt að nota í þeim tilgangi að setja inn gildi í LRIC líkanið fyrir viðkomandi þjónustu, þ.m.t. samtengingu. Gerð LRIC líkans felur í sér að greina skal kostnað við að auka magn þjónustu eða fjölga þjónustutegundum. Í hverju tilfelli fyrir sig þarf að ákveða hversu mikil aukningin sem mæld er skal vera.


11. gr.
Skipting eftir netum og þjónustu.

Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild sem á eru lagðar sérstakar kvaðir samkvæmt lögum um fjarskipti skulu fyrir 1. janúar 2002 gera Póst- og fjarskiptastofnun grein fyrir því hvernig aðgreiningu í bókhaldi er háttað með tilliti til tekna og kostnaðar eftirfarandi fjarskiptaneta og þjónustu:

1) Almenn fjarskiptanet þó ekki farsímanet
a) Notendanetið
b) Stofnnetið
2) Talsímaþjónusta
3) Leigulínuþjónusta
4) Almenn farsímanet
a) NMT netið og þjónusta
b) GSM netið og þjónusta
5) Gagnaflutningsþjónusta
6) Önnur þjónusta

Til talsímaþjónustu skv. 2. tl. skal telja símtöl innanlands og til útlanda, símtöl í farsíma, samnetsþjónustu, upplýsingaþjónustu um símanúmer, almenningssíma og sérþjónustu.

Til þess að finna kostnað við samtengingu neta skal afla upplýsinga úr töluliðum 1-6 eftir því sem við á en auk þess getur komið til sérkostnaður vegna framkvæmdar við samtengingar.

Ef aðgreining telst að mati Póst- og fjarskiptastofnunar ekki fullnægjandi til þess að hægt verði að ná fram markmiðum fjarskiptalaga um kostnaðarviðmið skal fjarskiptafyrirtæki bæta úr því innan frests sem skal að jafnaði ekki vera lengri en þrír mánuðir frá því að beiðni þar að lútandi er send.


12. gr.
Netgrundvöllur.

Við færslu og útreikninga á kostnaði við almenn fjarskiptanet til notkunar í LRIC aðferðinni skal gengið út frá staðsetningu skiptistöðva, þ.m.t. útstöðva, og hnútstöðva eins og þær eru í netinu hverju sinni. Póst- og fjarskiptastofnun getur þó ákveðið við útreikninga á LRIC að breyta forsendum um staðsetningu einstakra stöðva ef ljóst þykir að gildandi staðsetning hafi í för með sér verulegan aukakostnað umfram það sem önnur staðsetning hefði leitt til. Slík ákvörðun skal vera rökstudd.


13. gr.
Ársreikningar og reikningsyfirlit.

Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild skulu semja reikningsskil fyrir alla sérgreinda starfsemi sem lýst er í tölu- og stafliðum 11. gr. Eftirtalin reikningsyfirlit og upplýsingar skulu fylgja ársreikningi sem senda skal Póst- og fjarskiptastofnun:

a) Sérgreindur rekstrarreikningur fyrir hinar ýmsu deildir sem mismunandi netrekstur og þjónusta tengjast,
b) Sérgreindur efnahagsreikningur sem er í samræmi við þá fjármuni og það fjármagn sem haft er til viðmiðunar í verðlagningu.

Reikningsfærslan skal taka mið af reikningsskilum sviptivirði-starfsmáttarfjármagns nema ríkar ástæður séu til annars, sbr. 7. gr.

Fjarskiptafyrirtæki skv. 1. mgr. skal upplýsa um þær reikningsskilaaðferðir sem beitt er við ársreikningsgerð hinna ýmsu neta og þjónustu.

Við gerð reikningsskila neta, þjónustu og deilda og hins lögbundna ársreiknings skal þess gætt að kleift sé að rekja þann mismun sem upp kemur vegna mismunandi reikningsskila aðferða.

Á öllum reikningsskilum skal vera áritun endurskoðanda.

Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um nánari útfærslu á reikningsskilum skv. 1. mgr., þeim upplýsingum sem veita skal og samræmingu sem við á að hafa.


14. gr.
Frestur til að taka LRIC í notkun.

Póst- og fjarskiptastofnun skal gera ráðstafanir til þess að LRIC aðferðin verði að fullu tilbúin til notkunar í fjarskiptafyrirtækjum með umtalsverða markaðshlutdeild eigi síðar en í árslok 2003. Aðferðafræðina skal endurskoða eftir þörfum en þó eigi sjaldnar en á 2 ára fresti. Við slíka endurskoðun skal leita umsagnar fjarskiptafyrirtækja sem hlut eiga að máli.

Fjarskiptafyrirtæki skulu hefja færslu bókhaldsgagna í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar fyrir 1. janúar 2002.


15. gr.
Upplýsingaskylda.

Fjarskiptafyrirtæki sem reka almenn fjarskiptanet og/eða bjóða almenna fjarskiptaþjónustu skulu afhenda Póst- og fjarskiptastofnun sundurliðaðar bókhalds- og fjármálaupplýsingar svo að tilgangi 4. gr. megi ná, innan hæfilegs frests sem stofnunin setur. Heimilt er að birta slíkar upplýsingar í heild eða að hluta til ef það er talið leiða til aukinnar samkeppni og opnari markaðar og eins til að tryggja að jafnræðis sé gætt nema að eðlilegt og sanngjarnt teljist að leynt sé farið með viðkomandi upplýsingar vegna viðskiptahagsmuna.

Þegar nota á kostnaðargreiningu fjarskiptafyrirtækja til þess að ákvarða verð á þjónustu sbr. 11. gr. er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að krefjast skriflegra upplýsinga sem gera stofnuninni kleift að leggja mat á eftirfarandi þætti:

1) Eignamat.
2) Afskriftir.
3) Arðsemi.
4) Framkvæmd verkgrundaðrar kostnaðargreiningar.

III. KAFLI
Fjárhagsleg aðgreining.
16. gr.
Fjárhagur deilda.

Þegar fjárhagsleg aðgreining deilda fjarskiptafyrirtækis hefur verið ákvörðuð sbr. 3. gr. skal fjarskiptafyrirtæki auk þess að fara að ákvæðum II. kafla um bókhaldslega aðgreiningu halda fjárhag viðkomandi deilda aðgreindum.


IV. KAFLI
Eftirlit.
17. gr.
Eftirlitsskylda.

Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa eftirlit með að ákvæðum reglugerðar þessarar sé fylgt, sbr. 5. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 110/1999.


18. gr.
Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt 56. og 57. gr. laga um fjarskipti, nr. 107/1999.


V. KAFLI
Heimildarákvæði.
19. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 5. mgr. 29. gr. og 31. gr. laga um fjarskipti, nr. 107/1999 öðlast þegar gildi.


Samgönguráðuneytinu, 18. desember 2001.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.



1. VIÐAUKI

Kostnað og tekjur skal færa á þá þætti starfseminnar þar sem kostnaður og tekjur verða til. Í þessu sambandi verða fjarskiptafyrirtæki að meta alla kostnaðar-, tekju- og fjármagnsliði, tengja þá við kostnaðarvaka og nota kostnaðarvakann til þess að heimfæra hvern lið á ákveðna starfsemi eða þjónustu.

Við kostnaðargreiningu sbr. 4. gr. skal styðjast við eftirfarandi skiptingu:

1. Beinn kostnaður sem hægt er að rekja ótvírætt til viðkomandi kostnaðarstaðar.
2. Óbeinn kostnaður sem hægt er að heimfæra til kostnaðarstaðar með mati á tengingu kostnaðarins við beina kostnaðarliði.
3. Óbeinn kostnaður sem ekki er hægt að heimfæra með samanburði við aðra kostnaðarliði.

Póst- og fjarskiptastofnun setur nánari reglur um hvernig fara skuli með þessar þrjár tegundir kostnaðar.


2. VIÐAUKI

Til glöggvunar á ákvæðum 8. gr. eru hér sýnd dæmi um útreikninga á afskrift við hækkandi og lækkandi markaðsvirði eigna.




Skýringar

1. Gangverð eignar - er endurnýjunarverð tækisins á hverjum tíma.
2. Gangverðsafskrift - er hundraðshluti af endurnýjunarverði tækisins sem færa þarf á hverjum tíma.
3. Söguleg kostnaðarafskrift - er línuleg afskrift upphaflegs kostnaðarverðs tækisins.
4. Viðbótarafskrift - er sá hluti afskriftar sem bætist við eða dregst frá við breytingar á sviptivirði tækisins.
5. Uppsöfnuð raunafskrift - er gangverðsafskrift að teknu tilliti til leiðréttrar afskriftar í 7. lið töflu.
6. Gangverðsafskrift uppsöfnuð - er miðuð við endurnýjunarverð tækisins á hverjum tíma.
7. Bakfærð afskrift - er sá hluti afskriftar sem ekki hefur náðst að jafna miðað við sviptivirði tækisins.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica