Samgönguráðuneyti

325/1995

Reglugerð um girðingar með vegum. - Brottfallin

1. gr. 

 Uppsetning girðinga.

Nú er vegur lagður gegnum tún, ræktunarland, engjar eða girt beitiland og skal þá veghaldari girða báðum megin vegarins eða leggja til ristarhlið ásamt grindarhliði ef hann telur það hentugra. Sama gildir, ef girðing er lögð umhverfis slík lönd, er vegur liggur um. Veghaldara er heimilt að girða með vegum sínum, þótt þess sé ekki krafist af landeiganda. Skal veghaldara þá skylt að setja hlið að minnsta kosti á einum stað á slíka girðingu.

Vegagerðinni er heimilt að taka þátt í stofnkostnaði girðinga sem reistar eru til að friða svæði sem vegur liggur um og girðingar með vegum þar með ónauðsynlegar. Skilyrði fyrir slíkri þátttöku er að viðkomandi sveitarfélag banni lausagöngu búfjár á því svæði sem friðað er. Kostnaður Vegagerðarinnar skal takmarkaður við lengd þeirra girðinga með vegum sem komist verður hjá að girða með þessum hætti.

Áður en girðingar samkvæmt þessari grein eru reistar skal haft samráð við viðkomandi sveitarstjórn.

2. gr. 

 Viðhald girðinga.

Landeigandi skal annast viðhald girðinga með vegum í landi sínu. Skal þess ávallt gætt að halda girðingum þannig við að þær hafi fullt vörslugildi og séu ekki hættulegar eða til óprýði. Viðhald girðinga skal að jafnaði fara fram að vori.

Sveitarstjórn hefur eftirlit með viðhaldi girðinga í sveitarfélaginu. Sé viðhaldi girðinga ábótavant eða girðing bersýnilega óþörf og til mikillar óprýði er sveitarstjórn heimilt að halda girðingunni við eða fjarlægja hana á kostnað landeiganda, sbr. þó 1. mgr. 3. gr.

Sveitarfélag annast viðhald girðinga sem reistar eru til að friða svæði sem vegur liggur um og girðingar með vegum þar með ónauðsynlegar, sbr. 2. mgr. 1. gr.

3. gr. 

 Greiðsla viðhaldskostnaðar.

Viðhaldskostnaður girðinga með stofnvegum og tengivegum greiðist að jöfnu af veghaldara og landeiganda. Við uppgjör vegna kostnaðarþátttöku veghaldara skal við það miðað að viðhaldskostnaður nemi 4% af stofnkostnaði girðinga. Þó skal miða við að viðhaldskostnaður nemi allt að 7% af stofnkostnaði í erfiðu girðingalandi eða vegna snjóþyngsla og skal slíkt metið af fulltrúa Bændasamtaka Íslands og veghaldara. Stofnkostnaður girðinga skal ákveðinn árlega með sérstöku samkomulagi Bændasamtaka Íslands og Vegagerðarinnar. Þegar landeigandi hefur lokið árlegu viðhaldi girðinga með stofnvegum og tengivegum, skal hann tilkynna það til viðkomandi sveitarstjórnar sem sannreynir ásamt veghaldara að viðhald sé fullnægjandi áður en greiðsla á hlut veghaldara er innt af hendi, þ.e. 2% eða allt að 3,5% af stofnkostnaði girðinga samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar.

Veghaldari skal greiða allan viðhaldskostnað ef girðingin er reist eingöngu til þess að fría vegsvæði frá búfé, það er á afréttum og öðrum sameiginlegum sumarbeitilöndum búfjár, sbr. 3. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986 með síðari breytingum.

Viðhaldskostnaður girðinga með safnvegum og landsvegum greiðist af landeiganda.

Viðhaldskostnaður girðinga skv. 2. mgr. 1. gr. greiðist að jöfnu af viðkomandi sveitarfélagi og veghaldara, nema um annað sé samið.

Þegar girðing verður fyrir skemmdum vegna snjóruðnings skal veghaldari greiða allan viðgerðarkostnað.

4. gr. 

 Gildistaka o.fl.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum og skal farið með slík mál að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi, sem öðlast þegar gildi, er sett samkvæmt vegalögum nr. 45/1994 með síðari breytingum og staðfestist hér með til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Samgönguráðuneytið, 2. júní 1995.

Halldór Blöndal.

Jón Birgir Jónsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica