Samgönguráðuneyti

527/1997

Reglugerð um mælingu skipa með lengd allt að 24 metrum.

1. Gildissvið.

1.1 Reglur þessar gilda um öll skráningarskyld skip með skráningarlengd allt að 24 metrum.

1.2 Reglurnar gilda um skip sem hafin er smíði á eða eru keypt til landsins eftir gildistöku reglnanna.

1.3 Reglurnar gilda einnig um skip sem hafin var smíði á fyrir gildistöku reglnanna, að því marki sem hér greinir:

- þegar gerðar hafa verið breytingar á skipum, sem hafa áhrif á mælingu þeirra;

- ef skipin hafa skutgeymi sem ekki er mældur með í mestu lengd;

- ef eigendur óska eftir endurmælingu.

1.4 Siglingastofnun Íslands er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum þessara reglna, þegar um er að ræða skip afbrigðilegrar gerðar.

2. Orðskýringar.

2.1 Brúttótonnatala er heildarstærð skipsins, mælt samkvæmt reglum þessum.

2.2 Skráningarlengd er sú lengd skips, sem lögð er til grundvallar við stærðarmælingu þess samkvæmt reglum þessum.

2.3 Skráningarbreidd er sú breidd, sem lögð er til grundvallar við stærðarmælingu þess samkvæmt reglum þessum.

2.4 Skutgeymir er geymir sem settur er aftan á skip og virkar aðeins sem flotholt, en nýtist ekki að öðru leyti. Skutgeymar mælast ekki með í skráningarlengd, enda sé form þeirra samkvæmt nánari fyrirmælum Siglingastofnunar. Skutgeymar mælast undir öllum kringumstæðum með í mestu lengd.

2.5 Skriðbretti eru plötur sem festar eru á skut og ætlað er að auka ganghraða skipa.

2.6 Jafnvægisstýri eru stillanlegar plötur á skut, sem ætlaðar eru til að stjórna stafnhalla eða draga úr halla meðan skipið er á ferð.

3. Almennt.

3.1 Áður en smíði skips hefst, eða svo fljótt sem verða má eftir að smíði hefst, skal eigandi eða skipasmiðastöð senda Siglingastofnun útreikninga á brúttó- og nettótonnatölu skipsins.

3.2 Þegar sótt er um skráningu skips, skulu liggja fyrir útreikningar á stærð skipsins.

3.3 Útreikningar á brúttó- og nettótonnatölu skipa skulu á skýran hátt sýna staðsetningu þverskurða, öll mæligildi og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að ganga úr skugga um rétta stærð skipsins. Útreikningunum skulu fylgja eftirgreindar teikningar, eftir því sem við á:

- aðalfyrirkomulag

- línu- eða bandateikning

- miðbandsteikning

- langskurðarteikning

- teikningar af yfirbyggingum og öðru sem áhrif hefur á mælingu ofan þilfars.

3.4 Teikningarnar skulu varðveittar hjá Siglingastofnun, sem fylgiskjal með mælingaskýrslum.

3.5 Siglingastofnun getur gert kröfu um aðrar teikningar ef framangreindar teikningar teljast ófullnægjandi.

4. Mælibréf.

4.1 Skip sem reglur þessar ná til, skulu hafa um borð íslenskt mælibréf útgefið af Siglingastofnun.

4.2 Siglingastofnun getur heimilað yfirvöldum annarra ríkja og öðrum hæfum aðilum sem hafa fengið viðurkenningu stofnunarinnar, að gefa út mælibréf samkvæmt reglum þessum, í umboði Siglingastofnunar.

5. Aðalmál.

5.1 Aðalmál skipa skulu mæld á þann veg sem greinir í kafla þessum. Sjá einnig myndir aftast í reglunum.

5.2 Skráningarlengd, Ls, skal mæld sem hér greinir:

- Á opnum skipum skal lengdin mæld frá ytri brún spónfars eða ytri hlið plötustefnis að framan, að ytri brún spónfars eða ytri hlið plötustefnis að aftan. Lengdin skal mæld við efri brún borðstokks eða við samsetningu á bol og borðstokki á bátum úr trefjaplasti, nema bolur nái fram- eða aftur fyrir borðstokkinn eða samsetninguna. Sjá mynd 1 A, myndir 2 A og B og 3 A og B.

- Á þilfarsskipum með mestu lengd allt að 15 metrum, skal lengdin mæld á milli þeirra punkta sem neðri hlið mælingarþilfars mætir ytri hlið súðar við fram- og afturstefni eða ytri hlið plötustefna, nema bolur nái fram- eða aftur fyrir framangreinda punkta. Á skipum með hluta þilfarsins lyftu, skoðast báðir hlutar þess sem mælingarþilfar. Þó skal mæla fram að samsetningu á hvalbak og bol þar sem lyftiþilfarið myndar hvalbak. Sjá mynd 1 B, myndir 4 A og B og 5 A og B.

- Á þilfarsskipum með mestu lengd 15 metra eða meiri, skal lengdin vera 96% af heildarlengd sjólínu við 85% af minnstu mótuðu dýpt, mældri frá efri brún kjalar, eða lengdin frá fremri brún stefnis að miðju stýrisáss á sömu sjólínu, ef hún er stærri. Á skipum, sem hönnuð eru með kjalarhalla, skal sjólínan, sem lengd þessi mælist á, vera samhliða hannaðri sjólínu. Sjá mynd 6.

5.3 Mesta lengd, Lm, er heildarlengd skipsins, þar með taldir allir fastir hlutar bolsins, svo sem skriðbretti, perustefni, skutgeymar og hlífðarlistar sem teljast hluti bolsins. Hins vegar skal ekki mæla gúm- eða trélista til hlífðar, stýrisfjaðrir, utanborðsvélar eða utanborðsdrif né annan auðlosanlegan búnað svo sem handrið, jafnvægisstýri, hlífðargrindur við utanborðsdrif og þess háttar.

5.4 Skráningarbreidd skips, Bs, skal mæld í þilfarshæð eða þar sem breidd þess er mest neðan þilfars á þilfarsskipum en þar sem breidd bolsins er mest á opnum skipum. Breiddin skal mæld á innri hlið síðu á skipum með málmbyrðing, en ytri hlið á skipum úr öðru efni. Sjá myndir 6 og 7.

5.5 Mótuð dýpt skips, D, skal mæld lóðrétt á miðri skráningarlengd skipsins sem hér greinir:

- Á skipum án þilfars, skal dýptin mæld frá efri brún borðstokks að efri brún spónfars á kilinum eða innri hlið plötukjalar, nema á tréskipum, þar skal mælt niður að neðri brún spónfars á kilinum. Sjá myndir 6 og 7.

- Á þilfarsskipum skal dýptin mæld frá neðri hlið þilfars við skipshlið að efri brún spónfars á kilinum eða innri hlið plötukjalar, nema á tréskipum, þar skal mælt niður að neðri brún spónfars á kilinum. Sjá myndir 6 og 7.

Á skipum með tvö þilför, skal mæla frá því þilfari sem ætlað er að mæta ágangi veðra og sjávar, sem almennt er efra þilfarið. Á skipum með mestu lengd 15 metra eða meiri, með aðeins hluta þilfarsins lyftu, skal lægri hluti þilfarsins og lína í framhaldi af honum samsíða lyfta hlutanum, skoðast sem mælingarþilfar.

Ef formið á botni skips við kjölinn er ávalt, án skarpra skila, skal dýpt þess mæld að þeim punkti, sem framlengd lína frá efri hlið flata hluta botnsins, sker framlengda línu innri hliðar kjalarins. Sama gildir á þilfarsskipum með ávala þröm, þar skal mæla að þeim punkti sem framlengd lína neðri hliðar þilfarsins, sker framlengda línu flata hluta síðunnar.

6. Mæling opinna skipa og þilfarsskipa styttri en 15 metrar.

6.1 Ákvæðin í kafla þessum gilda um mælingu á opnum skipum með skráningarlengd allt að 24 metrum og þilfarsskipum með mestu lengd allt að 15 metrum. Siglingastofnun getur þó heimilað að opin skip lengri en 24 metrar séu mæld samkvæmt reglum þessum.

6.2 Brúttótonnatala, BT, skal reiknuð sem hér greinir:

BT = Ls2 _ Bs _ 0,031, þar sem

Ls = skráningarlengd skv. gr. 5.2.

Bs = skráningarbreidd skv. gr. 5.4.

6.3 Nettótonnatala, NT, skal reiknuð sem hér greinir:

NT = BT _ 0,3, þar sem

BT = brúttótonnatala skv. gr. 6.2.

7. Mæling skipa 15 m að lengd eða lengri.

7.1 Ákvæðin í kafla þessum gilda um mælingu þilfarsskipa 15 metra að lengd eða lengri.

7.2 Við mælingu skal fara eftir ákvæðum í viðauka 1 í Alþjóðasamþykkt um skipamælingar, sem undirrituð var í London 23. júní 1969.

7.3 Brúttótonnatala, BT, skal reiknuð sem hér greinir:

BT = K1 _ V, þar sem

K1 = 0,2 + 0,02 _ log 10 V

V = heildarrúmmál allra lokaðra rýma skipsins í metrum.

7.4 Nettótonnatala, NT, skal reiknuð sem hér greinir:

NT = BT _ 0,3, þar sem

BT = brúttótonnatala skv. gr. 7.3.

8. Gildistaka.

8.1 Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt lögum nr. 50/1970 um skipamælingar, sbr. lög nr. 34/1984, staðfestast hér með til að öðlast þegar gildi og birtast til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 433/1990 um mælingar skipa undir 24 m að lengd.

Samgönguráðuneytinu, 18. ágúst 1997.

Halldór Blöndal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Sjá myndir 1-7 í Stjórnartíðindum

B-68-73, bls. 1184-1190.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica