Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Breytingareglugerð

794/2014

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 527/1997, um mælingu skipa með lengd allt að 24 metrum.

1. gr. Breyting á reglugerð vegna nýrra samgöngustofnana.

Hvar sem orðin "Siglingastofnun" eða "Siglingastofnun Íslands", í hvers konar beygingarfalli, koma fyrir í reglugerðinni kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Samgöngustofa.

2. gr.

Á eftir orðunum "afbrigðilegrar gerðar" í lok ákvæðis 1.4 við 1. gr. reglugerðarinnar bætist: eða til mjög sérhæfðra nota.

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. reglugerðarinnar:

a. Annar og þriðji málsl. í ákvæði 2.4 falla brott.
b. Á eftir ákvæði 2.6 bætast þrjú ný ákvæði sem orðast svo:
2.7 Svalir er pallur eða svæði aftan við aftari enda mælipunkts skráningarlengdar, sem nota má til þess að bera afla, veiðarfæri eða annan búnað, og er fasttengdur skipinu.
2.8 Síðustokkar eru geymar sem settir eru utan á síður skipa til þess að auka burðargetu eða stöðugleika þeirra.
2.9 Mesta lengd, Lm, er heildarlengd skips sem lögð er til grundvallar við stærðarmælingu þess samkvæmt reglum þessum.

4. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. reglugerðarinnar:

a. Á eftir orðunum "eftirgreindar teikningar" í síðari málsl. í ákvæði 3.3 bætist: og önnur gögn.
b. Við upptalningu í ákvæði 3.3 bætist nýr liður sem orðast svo:
- mæliskýrsla þess aðila sem er ábyrgur fyrir mælingu skipsins og tilgreinir með hvaða hætti mælingar voru framkvæmdar um borð í skipi og gerir Samgöngustofu mögulegt að sannreyna framkvæmd og niðurstöður mælinga.
c. Ákvæði 3.4 orðast svo:
Allar teikningar og mæligögn skal varðveita hjá Samgöngustofu, sem fylgiskjal með mæliskýrslum.
d. Ákvæði 3.5 orðast svo:
Samgöngustofa getur gert kröfu um viðbótarteikningar eða nánari upplýsingar um framkvæmd mælinga og skráningu mæligilda ef framangreindar teikningar og gögn teljast ófullnægjandi.
e. Á eftir ákvæði 3.5 bætast þrjú ný ákvæði sem orðast svo:
3.6 Skutgeymar mælast ekki með í skráningarlengd skips, enda sé form þeirra og fyrirkomulag samkvæmt nánari fyrirmælum Samgöngustofu. Skutgeymar mælast undir öllum kringumstæðum með í mestu lengd.
3.7 Svalir mælast ekki með í skráningarlengd skips, enda sé form þeirra og fyrirkomulag samkvæmt nánari fyrirmælum Samgöngustofu. Svalir mælast undir öllum kringumstæðum með í mestu lengd.
3.8 Samgöngustofu er heimilt að setja verklagsreglur er kveða nánar á um framkvæmd og túlkun á ákvæðum þessarar reglugerðar.

5. gr.

Ákvæði 4.2 við 4. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Samgöngustofa getur heimilað yfirvöldum annarra ríkja og öðrum hæfum aðilum, sem hafa fengið til þess umboð hennar, að gefa út mælibréf samkvæmt reglum þessum.

6. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. reglugerðarinnar:

a. Ákvæði 5.2 orðast svo:
Skráningarlengd, Ls, skal mæld sem hér greinir:
- Á opnum skipum skal skráningarlengdin mæld frá ytri brún spónfars eða ytri hlið plötustefnis að framan, að ytri brún spónfars eða ytri hlið plötustefnis að aftan. Skráningarlengdin skal mæld við efri brún borðstokks eða við samsetningu á bol og borðstokki á bátum úr trefjaplasti, nema bolur nái fram eða aftur fyrir borðstokkinn eða samsetninguna. Sjá mynd 1 A, myndir 2 A og B og 3 A og B.
- Á þilfarsskipum með mestu lengd allt að 15 metrum, skal skráningarlengdin, Ls, mæld á milli þeirra punkta þar sem neðri hlið mælingarþilfars mætir ytri hlið súðar við fram- og afturstefni eða ytri hlið plötustefna. Nái bolur skips eða einhver lokaður hluti skips fram eða aftur fyrir framangreinda punkta skal skráningarlengdin mæld á milli ystu punkta þeirra skipshluta í skut og stefni sem veita eða geta veitt skipinu aukið særými og aukna burðargetu. Á skipum með hluta þilfarsins lyftu, skoðast báðir hlutar þess sem mælingarþilfar. Þó skal mæla fram að samsetningu á hvalbak og bol þar sem lyftiþilfarið myndar hvalbak. Sjá mynd 1 B, myndir 4 A og B og 5 A og B. Þegar þilfar er með þrepi sem ekki myndar hvalbak skal við ákvörðun þeirra punkta sem að ofan getur miða við þann punkt þar sem framhaldslína þess þilfarshluta sem lengri er, mætir ytri hlið súðar. Skipshlutar sem mynda opin en umlukt rými og sem af þeim sökum mælast ekki með í skráningarlengd skips skulu vera þannig úr garði gerð að ekki sé með einföldum hætti mögulegt að loka þessum skipshlutum, ef lokunin hefði áhrif á skráningarlengdina.
- Á þilfarsskipum með mestu lengd 15 metra eða meiri, skal skráningarlengdin vera 96% af heildarlengd sjólínu við 85% af minnstu mótuðu dýpt, mældri frá efri brún kjalar, eða lengdin frá fremri brún stefnis að miðju stýrisáss á sömu sjólínu, ef hún er stærri. Á skipum, sem hönnuð eru með kjalarhalla, skal sjólínan, sem lengd þessi mælist á, vera samhliða hannaðri sjólínu. Sjá mynd 6.
b. Við ákvæði 5.3 bætist nýr málsliður sem orðast svo:
Samgöngustofa mælir nánar fyrir í verklagsreglu um skilyrði þess að fastir hlutar skips teljist ekki hluti mestu lengdar skips.
c. Við ákvæði 5.4 bætist nýr málsliður sem orðast svo:
Þegar bætt er utan á bol skipsins síðustokkum eða rýmum sem veita aukna burðargetu eða bættan stöðugleika, skal mæla breidd til ytri marka slíkra skipahluta, ef stokkarnir ná út fyrir byrðing skipsins.

7. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. reglugerðarinnar:

a. Ákvæði 6.2 orðast svo:
Brúttótonnatala, BT, skal reiknuð sem hér greinir:
BT = (Lt)² x Bs x 0,031 þar sem:
Lt = tonnalengd = Lm x 0,96, en skal þó aldrei vera minni en skráningarlengdin Ls skv. gr. 5.2.
Bs = skráningarbreidd skv. gr. 5.4.
Lm = mesta lengd skips samkvæmt gr. 2.9.
b. Ákvæði 6.3 orðast svo:
Nettótonnatala, NT, skal reiknuð sem hér greinir:
NT = BT x 0,3, þar sem:
BT = brúttótonnatala skv. gr. 6.2.
c. Fyrirsögn greinarinnar verður:
Mæling opinna skipa og mæling þilfarsskipa styttri en 15 metrar að mestu lengd.

8. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. reglugerðarinnar:

a. Ákvæði 7.1 orðast svo:
Ákvæðin í kafla þessum gilda um mælingu þilfarsskipa 15 metra að mestu lengd eða lengri.
b. Fyrirsögn greinarinnar verður:
Mæling skipa 15 metrar að mestu lengd eða lengri.

9. gr.

Ákvæði 8.1 við 8. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 146/2002, um skipamælingar, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

10. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 146/2002, um skipamælingar, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 6. ágúst 2014.

Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.