Innanríkisráðuneyti

1044/2013

Reglugerð um skírteini flugumferðarstjóra og starfsleyfi þjálfunarfyrirtækja. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að auka kröfur um öryggi og bæta starfrækslu flug­stjórnarþjónustu með samræmdum kröfum um skírteini flugumferðarstjóra.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um skírteini nema í flugumferðarstjórn og flugumferðarstjóra sem sinna verkefnum sínum á ábyrgð veitanda flugleiðsöguþjónustu.

Reglugerð þessari til nánari fyllingar gilda ákvæði í reglugerð um skírteini útgefin af Flug­mála­stjórn Íslands nr. 400/2008.

3. gr.

Lögbært yfirvald og framkvæmd.

Samgöngustofa telst lögbært yfirvald samkvæmt reglugerð þessari og sér um fram­kvæmd hennar.

II. KAFLI

Undanþágur frá ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 805/2011, sbr. 31. gr. hennar.

4. gr.

Viðbótaráritun fyrir úthafsstjórnun (OCN) skal fylgja áritun fyrir huglæga svæðisstjórnun án kögunarbúnaðar (ACP) sé handhafa áritunarinnar ætlað að veita huglæga svæðis­stjórnun án kögunarbúnaðar í úthafsstjórnunarsvæði.

5. gr.

Skírteinishafa er eigi rétt að starfa sem flugumferðarstjóri eftir að hann hefur náð 60 ára aldri. Heimilt er þó að framlengja þennan hámarksaldur um allt að 3 ár.

III. KAFLI

Heilbrigðiskröfur.

6. gr.

Umsækjendur um skírteini flugumferðarstjóranema eða skírteini flugumferðarstjóra skulu vera handhafar 3. flokks heilbrigðisvottorðs og uppfylla þær heilbrigðiskröfur sem fram koma í viðauka við reglugerð þessa.

IV. KAFLI

Lokaákvæði.

7. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 805/2011 frá 10. ágúst 2011 um ítarlegar reglur um skírteini flugumferðarstjóra og tiltekin vottorð og heimildir samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008, með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af XIII. viðauka EES-samn­ingsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 127/2013 frá 14. júlí 2013. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 37 frá 27. júní 2013, bls. 162.

8. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

9. gr.

Viðauki.

Viðauki sem fylgir reglugerð þessari skal vera hluti hennar.

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 57. gr. a, sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Um leið fellur reglugerð nr. 404/2008, um skírteini flugumferðarstjóra, úr gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 11. nóvember 2013.

Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica