Fara beint í efnið

Prentað þann 16. apríl 2024

Stofnreglugerð

155/2013

Reglugerð um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum.

1. gr. Réttur til undirskriftar.

Aðeins þeir sem hafa kosningarrétt í viðkomandi sveitarfélagi samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 eiga rétt á að óska almennrar atkvæðagreiðslu um einstök málefni sveitarfélagsins með undirskrift sinni. Miða skal við þá einstaklinga sem uppfylla skilyrði 2. gr. laganna þann dag sem undirskriftasöfnun lýkur.

2. gr. Tilkynning um undirskriftasöfnun.

Tilkynna skal sveitarstjórn ef fyrirhuguð er undirskriftasöfnun í sveitarfélaginu þar sem óskað er eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekið mál er varðar sveitarfélagið. Tilkynninguna skulu undirrita a.m.k. þrír einstaklingar sem uppfylla skilyrði 1. gr. og í tilkynningunni skal geta tilefnis undirskriftasöfnunar og ábyrgðaraðila hennar. Upplýsingar um nafn, kennitölu og heimilisfang ábyrgðaraðila skulu koma fram í tilkynningu. Ábyrgðaraðili undirskriftasöfnunar skal vera einstaklingur, einn eða fleiri. Með ábyrgðaraðila er átt við þann aðila sem stendur fyrir undirskriftasöfnun.

Ef undirskriftasöfnun lýtur að ósk um atkvæðagreiðslu um tiltekna ákvörðun sem sveitarstjórn hefur þegar tekið skal frestur til þess að tilkynna um fyrirhugaða undirskriftasöfnun vera fjórar vikur frá því að ákvörðunin var birt.

3. gr. Mat og tilkynning sveitarstjórnar.

Eftir að sveitarstjórn hefur fengið tilkynningu um fyrirhugaða undirskriftasöfnun, þá skal hún innan fjögurra vikna meta hvort ákvæði 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga hamli því að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um málið og tilkynna ábyrgðaraðila um niðurstöðu sína án tafar.

Sveitarstjórn skal leiðbeina ábyrgðaraðila um orðalag tilkynningarinnar og önnur framkvæmdaratriði eftir því sem þörf er á og veita honum frest til að bæta úr annmörkum, sé tilefni til.

Telji sveitarstjórn að undirskriftasöfnun samrýmist ekki 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga skal beiðninni hafnað. Unnt er að kæra þá ákvörðun til ráðuneytisins, sbr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga.

Sveitarstjórn skal birta tilkynningu um fyrirhugaða undirskriftasöfnun á sama hátt og hún birtir tilkynningar sínar svo sem á heimasíðu sinni, öðrum vefmiðlum og/eða í héraðsfjölmiðlum. Í tilkynningunni skal gera grein fyrir tilefni undirskriftasöfnunarinnar, tilgreina ábyrgðaraðila og hvenær henni skal vera lokið. Jafnframt skal sveitarstjórn tilkynna Þjóðskrá Íslands um fyrirhugaða undirskriftasöfnun.

4. gr. Söfnun undirskrifta.

Undirskriftasöfnun má hefja á þeim degi sem ákvörðun sveitarstjórnar er heimilar hana liggur fyrir, þó eigi síðar en innan tveggja vikna. Skal undirskriftasöfnun lokið innan fjögurra vikna frá því að hún hefst.

Sé undirskriftum safnað á pappír rita íbúar nafn sitt, dagsetningu undirskriftar, kennitölu og lögheimili. Á hverju blaði skal gert ráð fyrir sama fjölda undirskrifta.

Sé undirskriftum safnað rafrænt skal jafnframt gefinn kostur á að safna undirskriftum á þar til gerð eyðublöð sem sveitarstjórn lætur ábyrgðaraðila í té.

Í báðum tilvikum skal tilgreina með skýrum hætti upplýsingar um tilefni undirskriftasöfnunarinnar, hvenær henni ljúki og hverjir séu ábyrgðarmenn hennar.

Ábyrgðaraðili felur Þjóðskrá Íslands að sjá um rafræna söfnun undirskrifta. Þjóðskrá Íslands leggur til vettvang sem felur meðal annars í sér vefsvæði, auðkenningu, uppflettingu í þjóðskrá, skráningu undirskrifta og talningu.

Til þess að skrá nafn sitt á undirskriftalista með rafrænum hætti skal íbúi staðfesta kennitölu sína og þar með nafn, lögheimili og dagsetningu.

Hver einstaklingur getur einungis skráð nafn sitt einu sinni á undirskriftalista hverrar undirskriftasöfnunar.

5. gr. Hlutverk ábyrgðaraðila.

Ábyrgðaraðili undirskriftasöfnunar skal gera samning við Þjóðskrá Íslands um framkvæmdina og tryggir þar með að söfnun undirskrifta uppfylli kröfur um auðkenningu íbúa og öryggi söfnunar.

Ábyrgðaraðili undirskriftasöfnunar skal við framkvæmd undirskriftasöfnunarinnar leitast við að veita íbúum sem bestar upplýsingar um tilefni hennar.

Ábyrgðaraðili skal sjá um að yfirfæra pappírslista yfir á rafrænt form og afhenda Þjóðskrá Íslands ásamt frumriti listanna.

6. gr. Afhending undirskrifta.

Þegar undirskriftasöfnun er lokið skal ábyrgðaraðili fela Þjóðskrá Íslands úrvinnslu, meðal annars að kanna hvort þeir sem ljáð hafa málefni undirskrift sína uppfylli ákvæði 1. gr. um rétt til þátttöku.

Þjóðskrá Íslands afhendir ábyrgðaraðila niðurstöður undirskriftasöfnunarinnar og undirskriftalista á pdf-formi, rafrænt undirritað.

Framkvæmdastjóri sveitarfélags eða oddviti tekur við undirskriftum frá ábyrgðaraðila ásamt staðfestingu Þjóðskrár Íslands og staðfestir móttöku þeirra.

7. gr. Ákvörðun um atkvæðagreiðslu.

Sveitarstjórn skal eftir móttöku undirskrifta staðfesta að tilskildu hlutfalli íbúa skv. 108. gr. sveitarstjórnarlaga hafi verið náð. Framkvæmdastjóri sveitarfélagsins eða oddviti tilkynnir ábyrgðaraðila um niðurstöðuna um leið og hún liggur fyrir.

Ábyrgðaraðila er heimilt að afla viðbótarundirskrifta til mótvægis þeim nöfnum sem kunna að verða tekin út af listanum þar sem þeir einstaklingar uppfylla ekki ákvæði 1. gr. Skal frestur til þess vera ein vika.

Verði niðurstaða sveitarstjórnar sú að almenn atkvæðagreiðsla skuli fara fram ber sveitarstjórn að ákveða hvenær atkvæðagreiðslan fer fram og hefja undirbúning hennar, sbr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga.

Almenna atkvæðagreiðslu skal halda innan árs frá því að slík ósk berst, sbr. 2. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga.

8. gr. Lagastoð.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 4. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 29. janúar 2013.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.