Leita
Hreinsa Um leit

Innanríkisráðuneyti

866/2011

Reglugerð um öryggisstjórnun vegamannvirkja.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Markmið öryggisstjórnunar vegamannvirkja er að fækka umferðarslysum með því að fylgja ákveðinni aðferðafræði sem hefur umferðaröryggi að leiðarljósi við undirbúning og lagningu nýrra vega sem og við úttektir á vegum sem þegar hafa verið teknir í notkun.

Reglugerðin gildir um vegi sem eru hluti af samevrópska vegakerfinu hér á landi, hvort sem þeir eru á hönnunarstigi, á framkvæmdastigi eða í notkun.

Reglugerðin gildir ekki um jarðgöng sem falla undir reglugerð nr. 992/2007 um öryggis­kröfur fyrir jarðgöng.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari eru eftirfarandi hugtök skilgreind sem hér segir:

Samevrópska vegakerfið: Vegakerfið sem skilgreint er í 2. þætti I. viðauka við ákvörðun nr. 1692/96/EB og skýrt með kortum og/eða lýst í II. viðauka við þá ákvörðun.

Umferðaröryggismat: Skipuleg samanburðargreining á áhrifum nýs vegar, eða veru­legrar breytingar á núverandi vegakerfi, á öryggi vegakerfisins.

Umferðaröryggisrýni: Sjálfstæð, ítarleg, kerfisbundin og tæknileg öryggisskoðun í tengslum við hönnunarþætti vegamannvirkja sem tekur til allra stiga, frá forhönnun þar til þau hafa verið tekin í notkun.

Röðun vegarkafla þar sem slys eru mörg eða slysatíðni er há: Aðferð til að finna, greina og raða köflum vegakerfisins sem hafa verið í notkun í meira en þrjú ár og þar sem orðið hafa mörg banaslys og alvarleg slys miðað við umferðarmagn. Jafnframt eru greindir möguleikar á að auka öryggi og draga úr slysakostnaði.

Umferðaröryggisúttekt: Reglubundin skoðun á eiginleikum vegamannvirkja í notkun í þeim tilgangi að finna ágalla sem krefjast lagfæringa.

3. gr.

Umferðaröryggismat á verkefnum á sviði vegamannvirkja.

Vegagerðin skal láta fara fram umferðaröryggismat við undirbúning framkvæmda á vegum sem eru hluti af samevrópska vegakerfinu.

Umferðaröryggismatið skal fara fram á frumstigi hönnunar áður en verkefnið er sam­þykkt.

Í umferðaröryggismati skal tilgreina þau umferðaröryggissjónarmið sem urðu til þess að viðkomandi lausn var valin. Þar skal einnig gerð grein fyrir forsendum kostnaðar- og ábatagreiningar mismunandi valkosta sem metnir voru.

4. gr.

Umferðaröryggisrýni á verkefnum á sviði vegamannvirkja.

Vegagerðin skal láta fara fram umferðaröryggisrýni á vegum sem eru hluti af sam­evrópska vegakerfinu.

Umferðaröryggisrýnin sbr. 1. mgr. skal vera óaðskiljanlegur hluti af hönnunarferli verk­efna á sviði vegamannvirkja á mismunandi stigum, þ.e. forhönnunarstigi, verkhönn­unar­stigi, áður en þau eru tekin í notkun og innan árs frá því að þau voru tekin í notkun.

Rýnir skal gera grein fyrir þeim hönnunarþáttum, sem eru mikilvægir að því er varðar öryggi, í rýniskýrslu fyrir hvert stig verkefna á sviði vegamannvirkja. Ef ekki er farið að tillögum rýna í einstaka tilvikum skal tilgreina ástæður fyrir því í viðauka við skýrsluna í lok hvers hönnunarstigs.

5. gr.

Röðun og lagfæring vegarkafla þar sem slys eru mörg eða slysatíðni er há.

Vegagerðin skal raða köflum vega sem eru hluti af samevrópska vegakerfinu eftir fjölda slysa og slysatíðni.

Vegagerðin skal sjá til þess að vegarkaflar, þar sem flest slys verða eða hæst slysatíðni, séu metnir af sérfræðingum að lokinni vettvangsskoðun og að þeir þættir verði greindir sem valda slysum.

6. gr.

Umferðaröryggisúttektir.

Umferðaröryggisúttektir skulu framkvæmdar á samevrópska vegakerfinu í þeim tilgangi að greina þætti sem tengjast umferðaröryggi og koma í veg fyrir slys.

Umferðaröryggisúttektir skulu fela í sér reglubundnar úttektir á vegakerfinu og einnig kannanir á hugsanlegum áhrifum vegaframkvæmda á öryggi umferðar. Slíkar úttektir skulu vera nægjanlega tíðar til að tryggja fullnægjandi öryggi fyrir vegamannvirkið sem um ræðir.

7. gr.

Umferðaröryggisrýnir.

Til að öðlast starfsleyfi sem umferðaröryggisrýnir skal viðkomandi gangast undir þjálfun í samræmi við námskrá sem Vegagerðin hefur látið semja.

Hann skal viðhalda þekkingu sinni með því að taka reglulega þátt í endur­menntunar­námskeiðum.

Á þeim tíma sem rýni fer fram má rýnir ekki taka þátt í hugmyndavinnu eða rekstri við­komandi vegamannvirkis.

Frá og með 1. október 2013 skal umferðaröryggisrýni einungis framkvæmd af rýnum sem gengist hafa undir þjálfun, sbr. 1. mgr.

8. gr.

Verklagsreglur.

Vegagerðin skal semja verklagsreglur til nánari útfærslu á reglugerð þessari, sem ná skulu yfir eftirfarandi þætti:

  1. Umferðaröryggismat á verkefnum á sviði vegamannvirkja;
  2. Umferðaröryggisrýni á verkefnum á sviði vegamannvirkja;
  3. Röðun og lagfæring vegarkafla þar sem slys eru mörg eða slysatíðni er há;
  4. Umferðaröryggisúttektir.

9. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2008/96/EB frá 19. nóvember 2008 um öryggisstjórnun vegamannvirkja, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 63/2009, sem birt er í EES-viðbæti nr. 20, 7. apríl 2011.

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með vísan til 2. mgr. 46. gr. vegalaga nr. 80/2007 og öðlast gildi 1. október 2011.

Innanríkisráðuneytinu, 5. september 2011.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica