Innanríkisráðuneyti

48/2012

Reglugerð um sameiginlegar reglur um flugrekstur og flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins.

1. gr.

Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að kveða á um sameiginlegar reglur um veitingu flug­rekstrar­leyfa, opin aðgang flugrekenda innan Evrópska efnahagssvæðisins að sameigin­legum markaði og samræmdar reglur um far- og farmgjöld í flugþjónustu.

2. gr.

Lögbært yfirvald.

Flugmálastjórn Íslands telst lögbært yfirvald samkvæmt reglugerð þessari og sér um tilkynningar, söfnun og miðlun upplýsinga sem og eftirlit með framkvæmd reglu­gerðar­innar.

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, er heimilt að beina bindandi tilmælum til Flugmálastjórnar Íslands um leiðréttandi aðgerðir, afturköllun eða takmörkun rekstrarleyfis telji stofnunin að flugrekandi hér á landi uppfylli ekki skilyrði til flugrekstrar.

3. gr.

Um veitingu heimilda.

Flugmálastjórn Íslands leggur mat á hvort flugrekandi uppfylli skilyrði reglugerðarinnar þ.m.t. um eignarhald, tryggingar, fjárhagslega stöðu og rekstrarhæfni til að öðlast flugrekstrarleyfi og fer með framkvæmd, veitingu og endurmat á útgáfu þess.

Flugmálastjórn Íslands getur synjað flugrekanda eða bundið skilyrðum nýtingu réttinda til starfrækslu á ákveðnum leiðum í takmarkaðan tíma og getur gripið til nauðsynlegra ráðstafana til lausnar á óvæntum, tímabundnum vanda.

Flugrekandi frá þriðja ríki getur öðlast flugrekstrarleyfi innan EES þrátt fyrir að skilyrði reglugerðarinnar um eignarhald sé ekki uppfyllt enda liggi því til grundvallar samningur sem aðildarríki EES-samningsins eru aðilar að þar sem kveðið er á um slíka undanþágu og samþykki sameiginlegu EES-nefndarinnar þess efnis liggur fyrir.

Ráðuneyti flugmála getur að undangengnu samráði og tilkynningum, kveðið á um skyldu um opinbera þjónustu í áætlunarflugi í allt að 5 ár í senn. Um málsmeðferð og útboð á þjónustunni fer að öðru leyti í samræmi við reglur innleiddar á grundvelli reglugerðar þessarar.

4. gr.

Flugþjónusta á leiðum innan EES.

Flugrekandi innan EES með gilt flugrekstrarleyfi getur boðið þjónustu á EES-svæðinu án frekari leyfis eða takmarkana.

5. gr.

Verðlagning.

Far- og farmgjöld skulu frjáls vegna flugþjónustu innan EES-svæðisins og til þriðju ríkja þar sem samningar um gagnkvæmni heimila slíkt.

6. gr.

Far- og farmgjöld.

Far- og farmgjöld sem standa almenningi til boða skulu tilgreina öll skilyrði flutningsins og endanlegt verð til neytanda. Í söluferlinu skal heildarverð ávallt vera sýnilegt kaupanda og skulu opinber gjöld og skattar birt sérgreind frá öðrum gjöldum, kostnaði og þóknun rekstraraðilans þ.m.t. eldsneytisgjaldi. Valkvæður viðbótarkostnaður skal ávallt vera sýnilegur við upphaf söluferlisins.

Óheimilt er að mismuna neytendum á grundvelli þess hver hann er, hvaðan flutningur á sér stað eða er keyptur.

Í söluferli skal tilgreina þau gjöld er fáist endurgreidd komi farþegi ekki til innritunar í flug sem farþegi á staðfesta farskráningu með, þ.m.t. opinber gjöld, skattar og annar sér­greindur kostnaður. Þá skulu vera sýnilegar upplýsingar um þjónustugjöld rekstrar­aðila komi til breytinga á farskráningu vegna atvika er varða farþega.

7. gr.

Málskotsréttur.

Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands sæta kæru samkvæmt almennum reglum stjórn­sýslu­laga.

8. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

9. gr.

Innleiðing gerða.

Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirfarandi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1008/2008 um sameiginlegar reglur um flugrekstur innan sambandsins frá 24. september 2008, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 55, 7. október 2011, bls. 595, sbr. ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 90/2011 frá 19. júlí 2011, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54, 6. október 2011, bls. 78.

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 3. gr., 80. gr., 85. gr. a., 7. mgr. 125. gr. og 146. gr. a., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Með reglugerð þessari fellur úr gildi reglugerð nr. 969/2008 um veitingu flugrekstrarleyfa, markaðsaðgang flugrekenda, fargjöld og farmgjöld í flugþjónustu innan Evrópska efna­hags­svæðisins.

Innanríkisráðuneytinu, 11. janúar 2012.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica