Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

4/2003

Reglugerð um breytingu á reglugerð um ökuskírteini, nr. 501 11. ágúst 1997. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

1. gr.

Á eftir 56. gr. komi grein, 56. gr. a, er orðist svo:
Áður en fullnaðarskírteini er gefið út eða bráðabirgðaskírteini er endurnýjað skal ökumaður fara í akstursmat, sbr. ákvæði VIII. viðauka. Í akstursmati felst að kannað er hvort mat ökumanns á eigin aksturshæfni, akstursháttum og öryggi í umferðinni er í samræmi við raunverulega getu hans.

Hafi ökumaður haft bráðabirgðaskírteini samfellt í eitt ár og ekki á síðustu 12 mánuðum fyrir umsókn um fullnaðarskírteini fengið punkta í punktakerfi vegna umferðarlagabrota getur hann fengið útgefið fullnaðarskírteini enda fari hann áður í akstursmat, sbr. 1. mgr.

Akstursmat má við útgáfu ökuskírteinis ekki vera eldra en sex mánaða. Fari ökumaður í akstursmat, þarf að líða mánuður þar til ökumaður má fara í akstursmat að nýju.


2. gr.

84. gr., sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 249 27. mars 2002, breytist þannig:

a. Við greinina bætist ný málsgrein er orðist svo:
Fyrir hvert akstursmat skal greiða sérstakt gjald samkvæmt gjaldskrá þess aðila er annast akstursmatið.
b. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Gjöld fyrir próf og akstursmat.


3. gr.

Á eftir VII. viðauka kemur nýr viðauki, svohljóðandi:


VIII. VIÐAUKI
Akstursmat.
1. Markmið.

Markmið akstursmats er að ökumaðurinn geri sér grein fyrir hæfni sinni og getu í umferðinni með tilliti til umferðaröryggis.


2. Tilhögun.
Akstursmat fer þannig fram að ökumaður lýsir fyrir ökukennara eigin mati á aksturshæfni sinni og öryggi í umferðinni. Að því loknu skal ökumaður aka og skal ökukennari fylgjast með akstrinum og skrá hjá sér athugasemdir um þau atriði sem hann telur jákvæð og neikvæð í akstrinum.

Aksturinn skal fara fram þar sem reynir á sem flesta þætti sem upp geta komið í daglegri umferð. Hæfni ökumanns í umferð skal metin á vegum í þéttbýli, við mismikinn umferðarþunga, þar sem akstursskilyrði geta talist dæmigerð fyrir þá erfiðleika sem geta orðið á vegi ökumanna, þannig að verulega reyni á ökuhæfni ökumannsins. Ökukennarinn ákveður hluta akstursleiðarinnar og hluta ákveður ökumaðurinn.

Að akstrinum loknum lýsir ökumaðurinn fyrir ökukennaranum hvernig honum finnst að sér hafi til tekist og hvað hefði betur mátt fara. Ökukennarinn ber lýsingu ökumannsins saman við sínar niðurstöður og ræðir misræmi sem kann að vera þar á við ökumanninn. Að því loknu gefur ökukennarinn umsögn um hæfni ökumannsins.

Gert er ráð fyrir að akstursmat taki 50 mínútur, þar af aksturinn 30 mínútur og úrvinnsla og niðurstaða 15 mínútur þar sem ökumaðurinn og ökukennarinn ræða hvernig bæta megi öryggi ökumannsins.


3. Umsjón.
Löggiltir ökukennarar annast akstursmat. Umferðarstofa setur reglur um akstursmat, meðal annars um þjálfun ökukennara, gefur út nánari leiðbeiningar um framkvæmd þess og annast eftirlit með framkvæmdinni.


4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 52. gr. umferðarlaga nr. 50 30. mars 1987, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 83/2002 og 5. gr. laga nr. 138/1996, öðlast þegar gildi.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 7. janúar 2003.

Sólveig Pétursdóttir.
Björn Friðfinnsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica