Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

326/1996

Reglugerð um könnun hjónavígsluskilyrða. - Brottfallin

I. KAFLI

Framkvæmd könnunar á hjónavígsluskilyrðum.

1. gr.

                Þeir sem löggildingu hafa til hjónavígslu samkvæmt ákvæðum hjúskaparlaga framkvæma könnun hjónavígsluskilyrða.

                Könnun fer fram í lögsagnarumdæmi þar sem annað hjónaefna á lögheimili. Nú á hvorugt hjónaefna lögheimili hér á landi og fer könnun þá fram í umdæmi þar sem annað þeirra dvelst.

               

2. gr.

                                Þegar hjónaefni óska eftir könnun á hjónavígsluskilyrðum skulu þau leggja fyrir vígslumann, sem kannar hjónavígsluskilyrði, eftirtalin gögn:

1.             Fæðingarvottorð svo og persónuskilríki, sem færa sönnur á nafn hjónaefnis og fæðingardag, svo sem nafnskírteini, vegabréf eða ökuskírteini.

2.             Vottorð frá Hagstofu Íslands, þjóðskrá, um hjúskaparstöðu eða sambærilegt vottorð frá erlendu yfirvaldi ef unnt er. Vottorð má ekki vera eldra en fjögurra vikna.

 

3. gr.

                Vígslumaður, sem kannar hjónavígsluskilyrði, skal láta hjónaefnum í té sérstakt eyðublað, hjónavígsluskýrslu sem er jafnframt könnunarvottorð og svaramannavottorð, þar sem veittar skulu eftirfarandi upplýsingar:

1.             Fullt nafn hjónaefnis, fæðingarstaður, starf, lögheimili og kennitala eða fæðingardagur og ár eftir því sem við á.

2.             Ríkisfang hjónaefnis.

3.             Trúfélag.

4.             Hvern hjónaefni ætlar að ganga að eiga.

5.             Hvort hjónaefni hefur áður stofnað til hjúskapar eða staðfestrar samvistar.

6.             Hvort hjónaefni er svipt lögræði.

7.             Hvort hjónaefni eru skyld í beinan legg eða systkin.

8.             Hvort annað hjónaefna hefur verið ættleitt af hinu.

                               

4. gr.

                Ef hjónaefni er yngra en 18 ára skal það leggja fram leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til undanþágu frá hjúskaparaldri.

 

5. gr.

                Ef hjónaefni er svipt lögræði skal það leggja fram gögn um skipun lögráðamanns og yfirlýsingu frá lögráðamanni sínum um að hann sé samþykkur ráðahagnum. Yfirlýsingin má ekki vera eldri en fjögurra vikna.

                Hafi lögráðamaður neitað að veita samþykki sitt skal leggja fram leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til hjónavígslunnar.

 

6. gr.

                Hafi hjónaefni áður verið í hjúskap skal það færa sönnur á, með framlagningu viðeigandi gagna, að hjónabandinu sé slitið með lögskilnaði, ógildingu eða með andláti fyrri maka.

                Hafi fyrra hjónabandi lokið með útgáfu lögskilnaðarleyfis hér á landi skal leggja fram leyfisbréfið því til sönnunar, frumrit eða staðfest endurrit. Ef tveggja mánaða kærufrestur er ekki liðinn skal fylgja skrifleg yfirlýsing fyrri maka hjónaefnis um að hann falli frá kæru.

                Hafi fyrra hjónabandi verið slitið með lögskilnaðar- eða ógildingardómi hér á landi skal leggja fram því til sönnunar endurrit af dóminum. Ef um héraðsdóm er að ræða og þriggja mánaða áfrýjunarfrestur er ekki liðinn skal leggja fram skriflega yfirlýsingu frá gagnaðila þess efnis að fallið sé frá áfrýjun dómsins.

                Hafi fyrra hjónabandi lokið með útgáfu lögskilnaðarleyfis í Danmörku skal leggja fram leyfisbréfið því til sönnunar, frumrit eða staðfest endurrit. Hafi fyrra hjónabandi lokið með því að veitt hefur verið leyfi til lögskilnaðar í Noregi skal leggja fram því til sönnunar leyfisbréfið í frumriti eða vottorð norska dómsmálaráðuneytisins eða viðkomandi fylkismanns um að leyfi til lögskilnaðar hafi verið veitt á ákveðnum degi. Staðfestingar á undirskriftum er ekki krafist.

                Hafi fyrra hjónabandi lokið með ógildingar- eða lögskilnaðardómi í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð skal leggja fram því til sönnunar endurrit dómsins með áritun um að hann hafi full réttaráhrif. Þessa yfirlýsingu gefur viðkomandi dómstóll í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð og dómsmálaráðuneytið eða viðkomandi dómstóll í Finnlandi. Staðfestingar á undirskriftum er ekki krafist.

                Hafi lögskilnaður verið veittur í landi utan Norðurlandanna skal málið fengið dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til úrlausnar að því er varðar gildi skilnaðarins og gögn til þess að leggja fram því til sönnunar.

                Nú er fyrri maki látinn og skulu þá færðar sönnur á það með dánarvottorði. Hafi maki látist erlendis skal lagt fram dánarvottorð sem gefið er út af viðkomandi erlendu yfirvaldi. Skýrslur sendiráðs eða ræðismanna Íslands í viðkomandi löndum má einnig leggja til grundvallar.

                Hafi lát fyrri maka borið að með þeim hætti sem segir í lögum um horfna menn, nr. 44/1981, skal leggja fram því til sönnunar staðfest endurrit dómsins. Ef um héraðsdóm er að ræða og þriggja mánaða áfrýjunarfrestur er ekki liðinn skal leggja fram skriflega yfirlýsingu frá gagnaðila og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þess efnis að fallið sé frá áfrýjun dómsins.

                Ef ekki er unnt að færa sönnur á lát fyrri maka með þeim hætti sem tilskilinn er skv. 7. og 8. mgr., skal málið fengið dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til úrlausnar.

                Ákvæði greinar þessarar gilda einnig um sönnun á lokum staðfestrar samvistar.

 

7. gr.

                                Hjónaefni, sem hefur áður verið í hjúskap er lokið hefur með lögskilnaði eða ógildingardómi, skal leggja fram eftirfarandi gögn, eftir því sem við á, til sönnunar því að fjárslitum eftir þann hjúskap sé lokið:

1.             Gögn sem sanna að fjárslitum eftir fyrri hjúskap hafi verið lokið með fjárskiptasamningi, staðfestum fyrir sýslumanni eða dómara, eða yfirlýsingu um eignaleysi, eða

2.             endurrit dóms Hæstaréttar eða úrskurðar héraðsdómara um að opinber skipti til fjárslita milli hjónaefnis og fyrri maka séu hafin og tveggja vikna kærufrestur sé liðinn eða með fylgi skrifleg yfirlýsing gagnaðila um að hann falli frá kæru, eða

3.             endurrit dóms til lögskilnaðar, skilnaðar að borði og sæng eða ógildingar hjúskapar eða leyfisbréf til lögskilnaðar eða skilnaðar að borði og sæng, þar sem tekið hefur verið upp ákvæði þess efnis að fjárskiptum sé lokið. Ef um héraðsdóm er að ræða skal þriggja mánaða áfrýjunarfrestur vera liðinn, eða með fylgi skrifleg yfirlýsing gagnaðila um að hann falli frá áfrýjun, eða

4.             skráðan kaupmála þess efnis að fullkomin séreignaskipan hafi verið í fyrri hjúskap, eða

5.             undanþágu frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu skv. 12. gr. hjúskaparlaga.

                Hafi fyrra hjónabandi lokið með andláti annars hjóna, skal hjónaefni leggja fram eftirfarandi gögn eftir því sem við á:

1.             Vottorð úr dánarskrá sýslumanns um að skiptum á dánarbúi hins látna maka sé lokið, eða

2.             endurrit úrskurðar héraðsdómara um að opinber skipti til skipta á dánarbúi hins látna maka séu hafin, eða

3.             þinglýstan kaupmála þess efnis að fullkomin séreignaskipan hafi verið í fyrri hjúskap, eða

4.             undanþágu frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu skv. 12. gr. hjúskaparlaga.

                Ákvæði greinar þessarar gilda einnig um sönnun varðandi fjárslit við lok staðfestrar samvistar.

 

8. gr.

                Sá sem kannar hjónavígsluskilyrði getur krafist þess að hjónaefni leggi fram löggilta þýðingu á vottorðum og skilríkjum sem eru á erlendum tungumálum.

 

9. gr.

                Nú vilja hjónaefni sem hafa fengið lögskilnað aftur ganga saman í hjúskap og gilda þá venjulegar reglur um könnun hjónavígsluskilyrða.

 

10. gr.

                Sé öllum hjónavígsluskilyrðum fullnægt gefur sá sem annast könnun þeirra út sérstakt vottorð því til staðfestingar að vígsla megi fara fram. Vottorðið skal afhent þeim er annast vígsluna ef það er annar en sá sem kannaði hjónavígsluskilyrðin.

                Könnunarvottorð má ekki vera eldra en fjögurra mánaða gamalt þegar hjónavígsla fer fram.

                Nú synjar vígslumaður um útgáfu könnunarvottorðs og getur hvort hjónaefna um sig þá skotið úrlausn hans til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sbr. 14. gr. hjúskaparlaga.

 

II. KAFLI

Könnun hjónavígsluskilyrða ef hjónaefni hefur

erlendan ríkisborgararétt eða er búsett erlendis.

11. gr.

                Nú eru hjónaefni, annað eða bæði, með erlendan ríkisborgararétt eða búsett erlendis en vilja stofna til hjúskapar hér á landi og gilda þá ákvæði I. kafla, sbr. þó 2.-5. mgr.

                Samþykki lögráðamanns skv. 5. gr. er ekki nauðsynlegt ef slíks samþykkis er ekki krafist í lögum þess ríkis þar sem hjónaefni á lögheimili. Skal hjónaefni gera fullnægjandi grein fyrir lögum heimalands síns um þetta atriði sé þess krafist.

                Nú er hjónaefni erlendur ríkisborgari eða búsett erlendis og getur þá sá sem kannar hjónavígsluskilyrði krafist þess að það leggi fram gögn frá því landi sem það hefur ríkisborgararétt eða er búsett í til sönnunar því að hjónavígsluskilyrði séu uppfyllt.

                Nú hefur átt sér stað könnun í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð á hjónavígsluskilyrðum fyrir hjónaefni sem ekki hefur ríkisborgararétt í neinu þessara ríkja og þarf þá ekki að fara fram könnun að nýju hér á landi fyrir hjónaefnið.

                Um könnun á hjónavígsluskilyrðum fyrir hjónaefni með ríkisborgararétt í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð gilda ákvæði III. kafla.

 

III. KAFLI

Könnun hjónavígsluskilyrða ef hjónaefni hefur

danskan, finnskan, norskan eða sænskan ríkisborgararétt.

12. gr.

                Hafi hjónaefni, annað eða bæði, ríkisborgararétt í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, skal kanna rétt þess til að stofna til hjúskapar eftir íslenskum lögum ef annað hjónaefna á lögheimili hér á landi en ella eftir lögum þess ríkis þar sem hjónaefnið hefur ríkisfang. Ávallt skal þó beita lögum þess ríkis þar sem hjónaefnið hefur ríkisfang, ef það óskar þess.

 

13. gr.

                Nú skal kanna rétt til að stofna til hjúskapar eftir lögum þess ríkis, þar sem hjónaefni hefur ríkisfang og getur þá sá sem kannar hjónavígsluskilyrði, krafist þess að rétturinn til að stofna til hjúskapar sé sannaður með vottorði viðkomandi stjórnvalds í því ríki. Ef slíkt vottorð er lagt fram þarf ekki að framkvæma frekari könnun á rétti hjónaefnis til að ganga í hjónaband

                Vottorð um að hjónavígsluskilyrði séu uppfyllt gefa út:

1.             Í Danmörku: Viðkomandi sveitarstjórnaryfirvald (í Kaupmannahöfn: Magestratens 1. afdeling).

2.             Í Finnlandi: Skráningaryfirvald (borgaralegt eða kirkjulegt).

3.             Í Noregi: Dómsmálaráðuneytið, borgaralegur vígslumaður, sendiráð eða ræðismannsskrifstofa.

4.             Í Svíþjóð: Skattyfirvald, sendiherra, ræðismaður eða deildarstjóri lagadeildar utanríkisráðuneytisins.

                Vottorðið má ekki vera meira en fjögurra mánaða gamalt, nema annað sé ákveðið í vottorðinu sjálfu.

 

IV. KAFLI

Könnun skilyrða fyrir staðfestri samvist.

14. gr.

                Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra kanna skilyrði fyrir staðfestri samvist samkvæmt lögum um staðfesta samvist.

                Sá sem kannar skilyrði staðfestrar samvistar skal láta væntanlegum samvistarmaka í té sérstakt eyðublað, skýrslu um staðfesta samvist sem er jafnframt könnunarvottorð og svaramannavottorð.

 

15. gr.

                Hafi væntanlegur samvistarmaki áður verið í staðfestri samvist eða hjúskap gilda reglur 6. gr. um sönnun þess að fyrri staðfestri samvist eða hjúskap sé slitið og reglur 7. gr. um sönnun þess að fjárslitum sé lokið.

               

16. gr.

                Ákvæði I. kafla reglugerðar þessarar gilda að öðru leyti um framkvæmd könnunar á skilyrðum fyrir staðfestri samvist, að frátöldum þó 2. málsl. 2. mgr. 1. gr.

 

17. gr.

                Ákvæði II. og III. kafla reglugerðar þessarar gilda ekki um staðfesta samvist, að frátalinni 3. mgr. 11. gr.

 

V. KAFLI

Gildistaka.

18. gr.

                Reglugerð þessi sem er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 13. gr. hjúskaparlaga, nr. 31 14. apríl 1993, og 3. mgr. 3. gr. laga um staðfesta samvist, nr. 87 12. júní 1996, öðlast gildi 27. júní 1996. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um könnun hjónavígsluskilyrða, nr. 155 8. Júní 1973.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 20. júní 1996.

 

Þorsteinn Pálsson.

Þorsteinn Geirsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica