Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. des. 2023

989/2016

Reglugerð um skipsbúnað.

1. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirtaldar gerðir Evrópusambandsins:

  1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/90/ESB frá 23. júlí 2014, um búnað um borð í skipum og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 96/98/EB (tilskipunin), skv. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 163/2016 frá 26. ágúst 2016. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 52, 22. september 2014, bls. 647-686.
  2. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2023/1667 frá 8. ágúst 2023 um reglur um beitingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/90/ESB að því er varðar hönnunar-, smíða- og nothæfiskröfur sem og prófunarstaðla fyrir búnað um borð í skipum og um niðurfellingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2022/1157. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 79 frá 2. nóvember 2023, bls. 737-1037.
  3. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/414 frá 9. janúar 2018 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/90/ESB að því er varðar auðkenningu tiltekinna hluta búnaðar um borð í skipum sem mögulegt er að merkja með rafrænum hætti.
  4. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/608 frá 19. apríl 2018, um tæknilegar viðmiðanir fyrir rafræn merki fyrir búnað um borð í skipum. Framkvæmdarreglugerðin var felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 224/2018 frá 5. desember 2018. Framkvæmdarreglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 85, 20. desember 2018, bls. 106.
  5. Framseld tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1206 frá 30. apríl 2021 um breytingu á III. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/90/ESB um búnað um borð í skipum að því er varðar gildandi staðal fyrir prófunarstofur sem samræmismatsstofur nota fyrir búnað um borð í skipum. Tilskipunin var felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 347/2021 frá 10. desember 2021. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 10, frá 17. febrúar 2022, bls. 814-815.

2. gr. Framkvæmd þessarar reglugerðar.

  1. Samgöngustofa annast framkvæmd og eftirlit þessarar reglugerðar að því leyti sem ekki er kveðið öðruvísi á í þessari reglugerð.
  2. Faggildingarsvið Einkaleyfastofu sinnir mati og vöktun tilkynntra aðila.
  3. Um tilkynningu samræmismatsaðila og eftirlit með þeim fer eftir lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., með síðari breytingum. Tilkynntir aðilar skulu vaktaðir annað hvert ár.
  4. Skilyrði fyrir tilkynningu er að samræmismatsaðili uppfylli þau skilyrði sem mælt er fyrir um í III. viðauka við tilskipunina.
  5. Faggildingarsvið Einkaleyfastofu skal einnig hafa eftirlit með að tilkynntir aðilar uppfylli kröfur sem gerðar eru í 20. gr., 1. mgr. 24. gr. og 2. mgr. 34. gr. tilskipunarinnar.

3. gr. Málsmeðferð og viðurlög.

  1. Um málsmeðferð, ákvarðanir og réttarúrræði Samgöngustofu fer skv. lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum og lögum nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, með síðari breytingum.
  2. Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum skv. 29. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum.

4. gr. Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 4. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur brott reglugerð nr. 589/2004, um skipsbúnað, með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.