Iðnaðarráðuneyti

1051/2004

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 511/2003 um framkvæmd raforkulaga. - Brottfallin

1. gr.

1. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til vinnslu, flutnings, dreifingar og viðskipta með raforku á íslensku forráðasvæði.


2. gr.

2. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Skilgreiningar.
1. Afhendingarstaður: Staður í flutnings- eða dreifikerfi þar sem innmötun eða úttekt raforku fer fram.
2. Dreifikerfi: Raflínur sem ekki teljast til flutningskerfisins ásamt mannvirkjum og búnaði þeim tengdum til og með heimtaug. Enn fremur mælar og mælabúnaður hjá notendum.
3. Dreifiveita: Fyrirtæki sem hefur leyfi til dreifingar raforku á afmörkuðu svæði.
4. Dreifiveitusvæði: Landsvæði þar sem dreifiveita hefur einkarétt og skyldu til dreifingar raforku.
5. Endurnýjanlegar orkulindir: Orkulindir sem geta endurnýjað sig í sífellu, svo sem fallvötn, jarðhiti, vindorka, sjávarföll og sólarorka.
6. Raforkuskerðing/ekki afhent orka: Áætlað magn raforku sem ekki var unnt að afhenda notanda eða dreifiveitu vegna bilunar í raforkukerfinu, viðhaldsvinnu eða breytinga á því.
7. Flutningsfyrirtæki: Fyrirtæki sem stýrir rekstri flutningskerfisins og annast kerfisstjórnun.
8. Flutningskerfi: Raflínur og mannvirki þeim tengd sem nauðsynleg eru til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna á þeim afhendingarstöðum sem taldir eru upp í viðauka með raforkulögum nr. 65/2003, sbr. lög nr. 89/2004. Það nær frá háspennuhlið stöðvarspenna virkjana sem tengjast því, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna, að háspennuhlið aðveituspenna stórnotenda eða dreifiveitna.
9. Flutningsvirki: Raflína og búnaður henni tengdur til flutnings raforku.
10. Heimtaugargjald: Almennt gjald fyrir tengingu nýs notanda við dreifikerfi.
11. Kerfisframlag: Hlutdeild viðskiptavinar í fjárfestingu vegna nýrrar tengingar eða styrkingar á flutnings- eða dreifikerfi.
12. Launafl: Raffræðilegt hugtak á hliðrun straums og spennu í riðstraumskerfi.
13. Notandi: Sá sem kaupir raforku til eigin nota.
14. Notkunarferill: Mismunur heildarorkuúttektar dreifiveitu á klukkustund annars vegar, og tímamældrar notkunar einstakra notenda og taps í dreifikerfinu hins vegar.
15. Orkulind: Náttúruleg uppspretta orku á ákveðnu formi, svo sem vatnsfall, jarðhitageymir, sjávarföll, vindur, sólarljós, en einnig olíu- og gaslindir og kolanámur.
16. Raflína: Samsafn af leiðurum, einangrandi efni og tengdum búnaði til að flytja raforku milli tveggja staða innan raforkukerfisins.
17. Raforkukerfi: Allur sá búnaður sem notaður er við vinnslu, flutning og dreifingu raforku og myndar starfræna heild.
18. Raforkuver/virkjun: Mannvirki sem notað er til vinnslu raforku. Tvær eða fleiri einingar sem mynda eðlilega heild og tengjast flutningskerfinu eða dreifikerfi gegnum sameiginleg tengivirki teljast ein virkjun.
19. Raforkuviðskipti/viðskipti: Kaup og sala raforku.
20. Sölufyrirtæki: Fyrirtæki sem selur raforku eða annast raforkuviðskipti, hvort sem er í heildsölu eða smásölu.
21. Stórnotandi: Notandi sem notar á einum stað a.m.k. 14 MW afl með árlegum nýtingartíma 8.000 stundir eða meira.
22. Tekjumörk: Hámark leyfilegra árlegra tekna flutningsfyrirtækis og dreifiveitna til að mæta kostnaði.
23. Varaaflsstöð: Virkjun sem einungis vinnur raforku tímabundið vegna bilunar eða truflunar í flutningskerfinu að beiðni kerfisstjóra.
24. Vinnsla/raforkuvinnsla: Umbreyting orku, svo sem vatnsorku, jarðvarma eða efnaorku í raforku.
25. Vinnslufyrirtæki: Fyrirtæki sem stundar vinnslu á raforku eða hefur fengið virkjunarleyfi.
26. Virkjunarleyfi: Leyfi sem veitt er samkvæmt raforkulögum til að reisa og reka raforkuver.


3. gr.

1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar orðist svo:
Leyfi ráðherra þarf til að reisa og reka raforkuver. Þó þarf ekki slíkt leyfi vegna raforkuvera með uppsettu afli sem er undir 1 MW nema orka frá raforkuveri sé afhent inn á dreifikerfi dreifiveitna eða flutningskerfið. Eigendur virkjana með uppsett afl 30–1.000 kW skulu skila Orkustofnun tæknilegum upplýsingum um virkjun. Einnig er skylt að tilkynna Orkustofnun árlega um heildarraforkuvinnslu raforkuvera með uppsettu afli yfir 100 kW.


4. gr.

3. mgr. 5. gr. orðist svo:
Tengja skal leyfisskylda virkjun flutningskerfinu, sbr. þó 2. mgr. 11. gr. raforkulaga.Virkjanir sem eru 7 MW eða stærri skulu tengjast flutningskerfinu beint en minni virkjunum er heimilt að tengjast því um dreifiveitu. Samningur við flutningsfyrirtækið eða dreifiveitu á því dreifiveitusvæði sem virkjunin er á skal liggja fyrir þegar sótt er um virkjunarleyfi.


5. gr.

10. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Rekstur flutningskerfisins.

Eitt fyrirtæki, Landsnet hf., skal annast flutning raforku og kerfisstjórnun flutningskerfisins. Um kerfisstjórnun fer samkvæmt reglugerð um kerfisstjórnun í raforkukerfinu.

Flutningsfyrirtækið skal gæta jafnræðis við starfrækslu sína.

Flutningsfyrirtækið skal hafa aðgang að öllum upplýsingum hjá vinnslufyrirtækjum, dreifiveitum og raforkusölum sem nauðsynlegar eru til að fyrirtækið geti rækt hlutverk sitt. Skal flutningsfyrirtækið gæta trúnaðar um upplýsingar sem fyrirtækið fær í hendur og varða viðskiptahagsmuni og aðrar þær upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Ber flutningsfyrirtækinu að setja sér verklagsreglur um stjórnun upplýsingaöryggis. Skal starfsmönnum flutningsfyrirtækisins gert að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að þeir muni gæta fyllsta trúnaðar um upplýsingar sem þeir fá í starfi sínu.

Flutningsfyrirtækinu er skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku.

Rísi ágreiningur um hvort fyrirtækinu sé skylt að veita umbeðnar upplýsingar sker Orkustofnun úr. Úrskurður Orkustofnunar í þessu efni sætir kæru til úrskurðarnefndar raforkumála.


6. gr.

Liður 4.6 í 11. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

4.6. Eftirlit með álagi flutningskerfisins. Ef um umfangsmikla rekstrartruflun er að ræða skal flutningsfyrirtækið senda Orkustofnun skýrslu um atvikið innan 14 daga frá því hún var lagfærð. Orkustofnun skal skilgreina hvað telst umfangsmikil rekstrartruflun í þessu sambandi.


7. gr.

Við reglugerðina bætist ný 13. gr. Síðari greinanúmer breytast til samræmis:


Tekjumörk flutningsfyrirtækis.

Orkustofnun skal setja flutningsfyrirtækinu tekjumörk vegna kostnaðar við flutning á raforku til dreifiveitna annars vegar og vegna flutnings til stórnotenda hins vegar. Við setningu tekjumarka skal taka tillit til þess hvort tenging stórnotenda leiði eða hafi leitt til hagkvæmari uppbyggingar og nýtingar flutningskerfisins en ella væri.

Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:

1. Kostnaði sem tengist starfsemi fyrirtækisins, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, afskrifta á nauðsynlegum eignum til reksturs kerfisins, leigukostnaði vegna flutningsvirkja, kostnaði við orkutap, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun.
2. Arðsemi flutningsfyrirtækisins skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemi reiknast sem hlutfall hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og bókfærðs verðs fastafjármuna sem nauðsynlegir eru til reksturs flutningskerfis. Fastafjármunir þessir skulu vera þeir sem nýttir eru þann 31. desember 2004 og miðað við bókfært virði þann dag, ásamt nauðsynlegum nýjum fastafjármunum, sem síðar kunna að koma til. Við setningu tekjumarka flutningsfyrirtækisins vegna flutnings raforku til dreifiveitna skal Orkustofnun í upphafi miða við að arðsemi sé helmingur af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Hækka skal arðsemisviðmiðunina á fimm árum í þá ávöxtun sem kveðið er á um hér að ofan, þó skal hækkun arðsemisviðmiðunar ekki valda meiri hækkun tekjumarka en næst með hagræðingarkröfu.
3. Hagræðingarkröfu sem skal taka mið af eðlilegum kostnaði samkvæmt mati Orkustofnunar að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem fyrirtækið veitir.

Orkustofnun ákveður viðmiðunarár sem lögð eru til grundvallar við mat á grunnstærðum til ákvörðunar tekjumarka til þriggja ára í senn. Kostnaður vegna taps skal reiknaður miðað við matsvirði raforku, ákvarðað af Orkustofnun. Aðrar grunnstærðir skulu verðbólguleiðréttar.

Flutningsfyrirtækinu er heimilt að breyta bókfærðu verðmæti eigna, sem lagt er til grundvallar við setningu tekjumarka, sbr. 2. tl. 2. mgr. þessarar greinar, í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 31. desember 2004 eða þeim degi sem síðar tilkomnar eignir eru teknar í notkun.

Eigendaskipti á eignum sem nauðsynlegar eru til reksturs flutnings- eða dreifikerfis skulu ekki leiða til breytinga á tekjumörkum flutnings- og dreififyrirtækja, þrátt fyrir að bókfært virði breytist til hækkunar eða lækkunar. Tekjumörk skulu miðuð við bókfært virði eigna fyrir eigendaskipti og breytingar á virði til hækkunar eða lækkunar vegna eigendaskipta ekki hækka samanlögð tekjumörk viðkomandi aðila.

Tekið skal tillit til kostnaðar vegna nýframkvæmda að frádregnu kerfisframlagi á grundvelli umsóknar frá flutningsfyrirtækinu sem samþykkt hefur verið af Orkustofnun. Afskriftatími fasteigna og háspennulína skal vera 50 ár, tengivirkja 40 ár að undanskildum hjálparbúnaði sem afskrifa má á 20 árum. Hrakvirði eigna skal miða við 10% stofnkostnaðar. Heimilt er að endurskoða tekjumörk árlega ef forsendur breytast verulega að mati Orkustofnunar.

Hagræðingarkrafa skal samanstanda af annars vegar almennri hagræðingarkröfu sem gildir einnig fyrir dreifiveitur og hins vegar fyrirtækjaháðri kröfu sem fundin er með samanburði við sambærileg fyrirtæki.

Komi í ljós að arðsemi flutningsfyrirtækisins síðastliðin þrjú ár nær ekki helmingi af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa né heldur er hagnaður af rekstri fyrirtækisins skal taka tillit til þess við setningu tekjumarka og gerð gjaldskrár næsta árs. Sama á við komi í ljós að arðsemi flutningsfyrirtækisins síðastliðin þrjú ár er meira en þriðjungi yfir sömu ávöxtun.


8. gr.

Við reglugerðina bætist ný 14. gr. Síðari greinanúmer breytast til samræmis:


Tilflutningur tekjumarka.

Flutningsfyrirtæki og dreifiveitum er heimilt að semja sín á milli um skiptingu tekjumarka vegna breyttra forsendna, s.s tilfærslu eigna eða rekstrarkostnaðar milli fyrirtækja. Það er þó skilyrði að slíkur tilflutningur leiði ekki til hækkunar samanlagðra tekjumarka viðkomandi fyrirtækja. Fyrirtækjum sem komast að slíku samkomulagi ber innan 2 vikna frá undirritun þess að leita staðfestingar Orkustofnunar. Fallist Orkustofnun á að breytingar séu heimilar, skal stofnunin staðfesta breytinguna og breyta tekjumörkum viðkomandi fyrirtækja innan 4 vikna frá móttöku beiðnar um slíkt.


9. gr.

15. gr. reglugerðarinnar orðist svo:


Gjaldskrá vegna flutnings raforku.

Flutningsfyrirtækið skal setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk skv. 13. gr. Við setningu gjaldskrár skal gætt jafnræðis og byggt á hlutlægum og gegnsæjum sjónarmiðum.

Gjaldskrá skal gilda annars vegar fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi og hins vegar fyrir úttekt stórnotenda. Úttektargjald dreifiveitna skal miðast við heildarmagn raforku sem flutt er til dreifiveitusvæðis auk þess sem úttekið er beint frá virkjun innan dreifiveitusvæðisins.

Gjaldtaka fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi skal miðast við heildarmagn raforku sem flutt er til dreifiveitusvæðisins auk þess sem móttekið er beint frá virkjun innan dreifiveitusvæðisins, sbr. þó 4. mgr. Ekki skal greitt af notkun í einangruðum kerfum innan dreifiveitusvæða sem ekki njóta tengingar við flutningskerfið.

Sama gjaldskrá skal vera fyrir innmötun virkjana á flutningskerfið. Þar sem virkjanir tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu skal innmötunargjaldið renna til dreifiveitunnar. Greiða skal úttektargjald vegna framleiðslu slíkrar virkjunar til flutningsfyrirtækisins sem hér segir:

1. Vegna þeirrar orku sem framleidd er í virkjun sem er undir 1 MW skal ekki greiða úttektargjald til flutningsfyrirtækisins.
2. Vegna orku sem framleidd er í virkjunum á stærðarbilinu 1–3,1 MW skal ekki greiða úttektargjald við neðri stærðarmörkin en síðan skal gjaldið fara hlutfallslega hækkandi þar til það nemur 75% fulls úttektargjalds við efri mörkin.
3. Vegna orku frá virkjun sem er 3,1–7 MW skal greiða 75% fulls úttektargjalds.

Tekjur vegna flutnings raforku skulu standa undir kostnaði sem er í beinum og efnislegum tengslum við flutning raforku, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds og afskrifta á nauðsynlegum eignum til reksturs kerfisins, leigukostnaði vegna flutningsvirkja, kostnaði við orkutap, almennum rekstrarkostnaði, kostnaði við kerfisstjórnun, opinberum álögum og gjöldum eftir því sem við á og arðsemi eins og kveðið er á um í raforkulögum.

Flutningsfyrirtækið skal skilgreina gjald fyrir tengingu við flutningskerfið og gjald fyrir innmötun annars vegar og úttekt hins vegar í sérhverjum afhendingarstað flutningskerfisins. Sama gjaldskrá skal gilda fyrir innmötun og úttekt í öllum afhendingarstöðum.

Gjaldskrá fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi á afhendingarstöðum skal miðast við að raforka sé afhent á 66 kV spennu. Ef raforka frá flutningskerfi er afhent á hærri spennu ber að lækka gjaldskrá með tilliti til þess. Með sama hætti skal taka tillit til annars mismunar á afhendingarþjónustu við gjaldtöku fyrir úttekt á einstökum afhendingarstöðum, s.s. skert afhendingaröryggi og tíðar truflanir.

Gjaldskrá skal vera þannig uppbyggð að hún hvetji til bættrar nýtingar flutningskerfis. Flutningsfyrirtækinu er heimilt að veita afslátt af flutningsgjaldi raforku sem skerða má með skömmum fyrirvara vegna takmarkana í flutningskerfinu. Flutningsfyrirtækið skal sammæla afhendingarstaði inn á dreifiveitusvæði sem rekið er samtengt, enda geti hver afhendingarstaður annað a.m.k. 1/(n-1)*100% af heildaraflþörf svæðisins, þar sem n er fjöldi afhendingarstaða.

Varaaflsstöðvar sem nýttar eru þegar truflanir koma upp í raforkukerfinu skulu undanþegnar greiðslum til flutningskerfisins.

Sama gjaldskrá skal gilda fyrir öll vinnslufyrirtæki vegna innmötunar. Þar sem virkjanir tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu skal gjaldinu skipt milli flutningsfyrirtækisins og viðkomandi dreifiveitu eftir skiptireglu sem ákveðin skal af Orkustofnun að fenginni tillögu aðila.

Krefjast skal kerfisframlags ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda við flutningskerfið veldur auknum tilkostnaði annarra notenda í kerfinu. Með sama hætti skal taka tillit til þess ef tenging leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar flutningskerfisins. Ennfremur má krefjast greiðslu kerfisframlags við styrkingu á raforkukerfi þegar forsendur viðskipta breytast verulega til dæmis þegar notandi fer fram á aukin afköst tengingar eða aukin gæði sem veldur þörf á styrkingu. Greiðslu skal ákvarða út frá nauðsynlegum kostnaði við tengingu eða styrkingu. Flutningsfyrirtækið skal fyrirfram upplýsa viðskiptavininn um hvort farið sé fram á kerfisframlag og forsendur fyrir útreikningum.

Gjöld vegna kerfisstjórnunar skulu standa undir kostnaði sem er í beinum og efnislegum tengslum við kerfisstjórnun, sjá reglugerð um kerfisstjórn í raforkukerfinu, nr. 513/2003.

Flutningsfyrirtækið skal setja gjaldskrá fyrir launafl. Gjald fyrir launafl skal byggja á raunkostnaði sem fyrirtækið ber vegna þess. Heimilt er að setja mörk fyrir launaflsúttekt. Ekki skal innheimt fyrir launaflsúttekt sem er innan þeirra, en úttekt utan markanna skal gerð upp samkvæmt gjaldskrá fyrir launafl.

Að minnsta kosti tveimur mánuðum áður en gjaldskrá á að taka gildi skal hún send Orkustofnun og dreifiveitum. Telji Orkustofnun framlagða gjaldskrá brjóta í bága við ákvæði raforkulaga eða reglugerða skal hún koma athugasemdum á framfæri við flutningsfyrirtækið innan sex vikna frá móttöku. Gjaldskrá tekur ekki gildi fyrr en bætt hefur verið úr að mati Orkustofnunar.

Flutningsfyrirtækið skal birta gjaldskrár opinberlega og upplýsa viðskiptavini um eftirlitshlutverk Orkustofnunar.


10. gr.

Núverandi 20. gr. reglugerðarinnar, sem verður 22. gr., orðist svo:


Starfsemi og skyldur dreifiveitna.

Dreifiveita annast dreifingu raforku og kerfisstjórnun á dreifiveitusvæði sínu. Hún skal viðhalda, endurbæta og byggja dreifikerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku.

Dreifiveitu er m.a. skylt að:

1. Tengja alla sem eftir því sækjast við dreifikerfið að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
1.1. Neysluveitur skulu uppfylla skilyrði auglýsingar um tæknilega tengiskilmála nr. 129/1997.
1.2. Virkjanir skulu uppfylla tæknileg skilyrði sem fram koma í tengisamningi.
1.3. Þeir sem óska tengingar skulu greiða tengigjald sem skal tilgreint í gjaldskrá dreifiveitu.
Þó er heimilt að synja nýjum aðilum um aðgang að kerfinu á grundvelli sjónarmiða um flutningsgetu dreifikerfisins, öryggi og gæði þess. Synjun skal vera skrifleg og rökstudd. Sá sem synjað er um tengingu getur farið fram á upplýsingar um með hvaða hætti og innan hvaða tíma gera megi breytingar á kerfinu sem leiði til þess að unnt sé að tengja hann.
2. Dreifiveitur skulu setja sér reglur til þess að tryggja áreiðanleika í rekstri dreifikerfisins og sem skulu a.m.k. kveða á um eftirfarandi atriði:
2.1. Hönnun kerfisins og uppbyggingu þess.
2.2. Viðhald kerfisins.
2.3. Reglubundið eftirlit með ástandi kerfisins.
2.4. Eftirlit með verndarbúnaði og stillingu verndarliða.
2.5. Skráningu truflana ásamt mati á orku sem ekki er afhent.
2.6. Eftirlit með álagi dreifikerfisins. Ef um umfangsmikla rekstrartruflun er að ræða skal dreifiveita senda Orkustofnun skýrslu um atvikið innan 14 daga frá því hún var lagfærð. Orkustofnun skal skilgreina hvað telst umfangsmikil rekstrartruflun í þessu sambandi.
3. Útvega rafmagn í stað þess sem tapast í kerfinu.
4. Útvega launafl fyrir kerfið til að nýta flutningsgetu og tryggja spennugæði.
5. Mæla eða láta mæla með nákvæmum hætti þá raforku sem hún afhendir eða tekur við í samræmi við ákvæði sem sett hafa verið í reglugerð um viðkomandi dreifiveitu, sbr. 5. mgr.
6. Veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort hún fullnægi skyldum sínum.
7. Gæta jafnræðis við starfrækslu sína og trúnaðar um upplýsingar er varða viðskiptahagsmuni og aðrar þær upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.

Ef ófyrirséð og óviðráðanleg atvik valda því að framboð raforku fullnægir ekki eftirspurn á dreifiveitusvæði ber viðkomandi dreifiveitu að grípa til skömmtunar raforku til notenda. Dreifiveitur skulu setja sér reglur um hvernig skömmtun skuli háttað. Við setningu reglna um skömmtun skal gæta jafnræðis og leitast við að tryggja að skömmtun valdi sem minnstri röskun á samfélagslegum hagsmunum. Skal m.a. leitast við að tryggja raforku til þeirra fyrirtækja og stofnana sem veita almenningi bráðaþjónustu og tryggja öryggi borgara og allsherjarreglu.

Um starfsemi og skyldur dreifiveitna, þ.á m. tengingu við kerfið, mælingar, uppgjör og stöðvun orkuafhendingar fer að öðru leyti samkvæmt efni reglugerða um viðkomandi dreifiveitur, sem í gildi eru við gildistöku reglugerðar þessarar.

Dreifiveitur skulu, innan hæfilegra tímamarka og ef eftir því er leitað, veita stjórnvöldum og viðskiptavinum upplýsingar um forsendur gjaldskrárliða og aðra viðskiptaskilmála.

Rísi ágreiningur um hvort fyrirtækinu sé skylt að veita umbeðnar upplýsingar sker Orkustofnun úr. Úrskurður Orkustofnunar sætir kæru til úrskurðarnefndar raforkumála.


11. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, sem verður 23. gr., svohjóðandi. Önnur greinanúmer breytast til samræmis.

Tekjumörk dreifiveitna.

Orkustofnun skal setja dreifiveitum tekjumörk vegna kostnaðar við dreifingu raforku. Ef heimilað er að hafa í gildi sérstaka gjaldskrá á dreifbýlissvæði, sbr. 24. gr., skulu sérstök tekjumörk sett vegna dreifingar raforku í þéttbýli annars vegar og í dreifbýli hins vegar.

Tekjumörkin skulu ákveðin út frá eftirfarandi viðmiðum:

1. Kostnaði sem tengist starfsemi dreifiveitu, þ.m.t. kostnaði vegna viðhalds, afskrifta á nauðsynlegum eignum til reksturs kerfisins, kostnaði vegna flutnings um flutningskerfið, kostnaði við orkutap, almennum rekstrarkostnaði og kostnaði við kerfisstjórnun í dreifikerfinu.
2. Arðsemi dreifiveitu skal vera sem næst markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemi reiknast sem hlutfall hagnaðar fyrir fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) og bókfærðs verðs fastafjármuna, sem nauðsynlegir eru til reksturs dreifikerfis þann 31. desember 2004 og miðað við bókfært virði þann dag, ásamt nauðsynlegum nýjum fastafjármunum, sem síðar kunna að koma til. Við setningu tekjumarka dreifiveitna skal Orkustofnun í upphafi miða við að arðsemi sé helmingur af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Hækka skal arðsemisviðmiðunina á fimm árum í þá ávöxtun sem kveðið er á um hér að ofan, þó skal hækkun arðsemisviðmiðunar ekki valda meiri hækkun tekjumarka en næst með hagræðingarkröfu.
3. Hagræðingarkröfu sem skal taka mið af eðlilegum kostnaði samkvæmt mati Orkustofnunar að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem dreifiveitan veitir.

Tekjumörk skulu ákveðin til þriggja ára í senn. Þó er heimilt að endurskoða tekjumörk árlega ef forsendur breytast verulega að mati Orkustofnunar.

Orkustofnun ákveður rekstrarár sem lögð eru til grundvallar við mat á grunnstærðum til ákvörðunar tekjumarka til þriggja ára í senn. Kostnaður vegna taps skal reiknaður miðað við matsvirði raforku ákvarðað af Orkustofnun. Aðrar grunnstærðir skulu leiðréttar til samræmis við verðbólgu árlega miðað við vísitölu neysluverðs.

Við þetta bætist kostnaður greiddur flutningsfyrirtækinu vegna flutnings um flutningskerfið og kostnaður vegna nýframkvæmda að frádregnu kerfisframlagi á grundvelli umsóknar frá dreifiveitu sem samþykkt hefur verið af Orkustofnun. Afskriftir skulu vera samkvæmt samræmdum reglum dreifiveitna, sem samþykktar skulu af Orkustofnun. Heimilt er að endurskoða tekjumörk árlega ef forsendur breytast verulega að mati Orkustofnunar.

Dreifiveitum er heimilt að breyta bókfærðu verðmæti eigna, sem lagt er til grundvallar við setningu tekjumarka, sbr. 2. tl. 2. mgr. greinar þessarar í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 31. desember 2004, eða þeim degi sem síðar tilkomnar eignir eru teknar í notkun.

Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr., er dreifiveitum heimilt að endurmeta eignir til 1. janúar 2007 að fengnu samþykki Orkustofnunar. Endurmat skal ekki leiða til hærra verðs en sem nemur endurstofnverði að frádregnum framreiknuðum afskriftum sem bókfærðar hafa verið vegna viðkomandi eignar.

Eigendaskipti á eignum sem nauðsynlegar eru til reksturs flutnings- eða dreifikerfis skulu ekki leiða til breytinga á tekjumörkum flutnings- og dreififyrirtækja, þrátt fyrir að bókfært virði breytist til hækkunar eða lækkunar. Tekjumörk skulu miðuð við bókfært virði eigna fyrir eigendaskipti og breytingar á virði til hækkunar eða lækkunar vegna eigendaskipta ekki hækka samanlögð tekjumörk viðkomandi aðila.

Hagræðingarkrafa skal samanstanda af annars vegar almennri hagræðingarkröfu sem gildir fyrir allar dreifiveitur og hins vegar fyrirtækjaháðri kröfu sem fundin er með samanburði við sambærileg fyrirtæki.

Komi í ljós að arðsemi dreifiveitu síðastliðin þrjú ár nær ekki helmingi af markaðsávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa né heldur er hagnaður af rekstri veitunnar skal taka tillit til þess við setningu tekjumarka og gerð gjaldskrár næsta árs. Sama á við komi í ljós að arðsemi dreifiveitu síðastliðin þrjú ár er meira en þriðjungi yfir sömu ávöxtun.


12. gr.

Núverandi 21. gr. reglugerðarinnar, sem verður 24. gr., orðist svo:


Gjaldskrá vegna dreifingar raforku.

Dreifiveita skal setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk, skv. 10. gr. Við setningu gjaldskrár skal gætt jafnræðis og byggt á hlutlægum og gegnsæjum sjónarmiðum. Sama gjaldskrá skal gilda á veitusvæði hverrar dreifiveitu fyrir úttekt á lágspennu, þ.e. 230–400V spennu, sjá þó 7. mgr. þessarar greinar. Ef orka frá dreifiveitu er afhent á annarri spennu er heimilt að taka tillit til þess í gjaldskrá. Með sama hætti er við gjaldtöku heimilt að taka tillit til annars mismunar á þjónustu, s.s. ef búið er við tíðar truflanir eða bilanir í kerfinu.

Gjaldskrá skal vera þannig uppbyggð að hún hvetji til bættrar nýtingar dreifikerfis utan álagstíma t.d. með tímaháðum taxta. Heimilt er að bjóða upp á lægri taxta gegn skertum afhendingargæðum.

Uppgjör við notendur í dreifikerfinu, sem ekki kaupa samkvæmt afltaxta á að vera samkvæmt föstum þætti og orkuþætti þannig að:

a) Fastur þáttur standi undir mælingar- og umsýslukostnaði vegna viðkomandi notanda og hluta af öðrum föstum kostnaði í dreifikerfinu.
b) Orkuþáttur standi undir kostnaði vegna taps og geti þar að auki fjármagnað hluta af öðrum kostnaði sem ekki er sóttur gegnum fastan þátt gjaldskrárinnar.

Notendur sem gert er upp við samkvæmt afltaxta í dreifikerfinu skulu greiða samkvæmt föstum þætti, orkuþætti og aflþætti.

a) Fastur þáttur á að lágmarki að standa straum af mælingar- og umsýslukostnaði vegna viðkomandi notanda.
b) Orkuþáttur á að lágmarki að standa straum af kostnaði við meðaltap í netkerfinu.
c) Aflþáttur má byggja á aflúttaki notanda í skilgreindum lotum og hluta af föstum kostnaði.

Heimilt er að setja afltaxta fyrir ómælda notkun, t.d. utanhússlýsingu eða aðra litla notkun þar sem illframkvæmanlegt eða óhagkvæmt er að koma við mælingu á raforku.

Dreifiveitum er heimilt að sækja um leyfi til Orkustofnunar til að hafa sérstaka gjaldskrá á dreifbýlissvæðum þar sem kostnaður vegna dreifingar er sannanlega hærri en í þéttbýli. Dreifbýlissvæði sem til greina koma eru:

1. Svæði sem skilgreind eru sem strjálbýli samkvæmt Hagstofu Íslands auk húsa utan gatna á svæðum sem sýnd eru á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags.
2. Staðir þar sem færri en 200 manns búa og njóta ekki tengingar við flutningskerfi eða stofnkerfi. Stofnkerfi teljast í þessu samhengi kerfiseiningar dreifiveitu sem þjóna bæði innanbæjarkerfum og sveitakerfum.

Það er skilyrði fyrir heimild til sérstakrar dreifbýlisgjaldskrár að notkun á viðkomandi dreifbýlissvæði sé a.m.k. 5% af heildarnotkun dreifiveitusvæðisins. Með umsókn um skiptingu gjaldskrár skulu fylgja upplýsingar um landfræðilega afmörkun svæða, landnotkun og fjölda íbúa á viðkomandi svæði, auk gagna sem sýna fram á að kostnaður við dreifingu til notenda á svæðinu sé hærri en til annarra. Leyfi Orkustofnunar fyrir dreifbýlisgjaldskrár gildir í 3 ár, jafn lengi tekjumörkum skv. 10. gr. reglugerðar þessarar. Við setningu nýrra tekjumarka ber að fjalla að nýju um forsendur dreifbýlisgjaldskrár og ber þá dreifiveitu að skila inn gögnum skv. 2. ml. að framan.

Dreifiveitum er heimilt að setja almenn ákvæði vegna heimtauga í gjaldskrá.

Standi væntanlegar tekjur dreifiveitu af nýjum viðskiptavini ekki undir eðlilegum stofn- eða rekstrarkostnaði er heimilt að krefja hann um greiðslu kerfisframlags. Ennfremur má krefjast greiðslu kerfisframlags við styrkingu á eða tengingu við raforkukerfi þegar forsendur viðskipta breytast verulega til dæmis þegar notandi fer fram á aukin afköst tengingar eða aukin gæði sem veldur þörf á styrkingu. Kerfisframlag má að hámarki vera kostnaður við framkvæmd ákvarðaður út frá nauðsynlegum kostnaði við tengingu eða styrkingu að frádregnu heimtaugargjaldi.

Dreifiveita getur deilt viðbótarkostnaði kerfishluta milli notenda sem nýta kerfishlutann, þó ekki lengur en 10 ár eftir að hún er tilbúin. Skiptinguna má framkvæma sem eftiráuppgjör og endurgreiðslu, þegar nýir notendur eru tengdir eða með því að dreifiveitan beri fjárfestingarkostnaðinn tímabundið. Dreifiveitan skal fyrirfram upplýsa notandann um hvort farið sé fram á kerfisframlag og forsendur fyrir útreikningum.

Dreifiveitur skulu, ef eftir því er leitað, bjóða eigendafélögum íbúða, fyrirtækjagörðum, búseturéttarfélögum, húsbyggingarfélögum og álíka stofnunum, einmælingu og gjaldskrár fyrir dreifingu um sameiginlega heimtaug enda komi viðkomandi félag fram sem einn lögaðili. Kostnaður við að koma sameiginlegum mæli fyrir greiðist af húseigendum.

Dreifiveitur skulu setja í gjaldskrá ákvæði um gjöld fyrir sérstakar mælingar hjá notendum s.s. tímamælingar hjá þeim sem krefjast slíks.

Dreifiveitum er heimilt að innheimta gjöld til að mæta raunkostnaði við mismunandi innheimtuleiðir. Slík gjöld skulu birt í gjaldskrá.

Dreifiveitum er óheimilt að innheimta gjald af notanda vegna skipta á söluaðila.

Dreifiveitur skulu setja gjaldskrárákvæði fyrir launafl. Gjald fyrir launafl skal byggja á raunkostnaði sem veitan ber vegna þess, þ.e. kostnaði við kaup á launafli frá flutningskerfinu og/eða kostnaði veitunnar við að afla sér launafls á annan hátt.

Heimilt er að setja mörk fyrir hámark leyfilegrar launaflsúttektar. Launaflsúttekt sem er undir þeim skal vera innifalin í almennum töxtum. Úttekt yfir mörkum er gerð upp samkvæmt sérstakri gjaldskrá fyrir launafl.

Dreifiveitu er skylt að greiða virkjun sem tengist henni og er undir 3,1 MW þann ávinning, að hluta eða að fullu, sem felst í því að þurfa ekki að greiða úttektargjald að fullu til flutningskerfisins, sbr. ákvæði 4. mgr. 13. gr., með eftirfarandi hætti:

1. Greiða skal virkjun undir 0,3 MW að fullu hreinan ávinning veitunnar af niðurfellingu úttektargjaldsins.
2. Fyrir virkjun sem er 0,3–3,1 MW skal minnka greiðsluna hlutfallslega þar til ekkert er greitt sé virkjunin 3,1 MW eða stærri.

Tveimur mánuðum áður en gjaldskrá á að taka gildi skal hún send Orkustofnun. Telji stofnunin framlagða gjaldskrá brjóta í bága við ákvæði raforkulaga eða reglugerða skal hún koma athugasemdum á framfæri við dreifiveitu innan sex vikna frá móttöku. Gjaldskrá tekur ekki gildi fyrr en bætt hefur verið úr að mati Orkustofnunar. Dreifiveitur skulu birta gjaldskrár opinberlega og upplýsa viðskiptavini um eftirlitshlutverk Orkustofnunar.


13. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í raforkulögum nr. 65/2003, öðlast þegar gildi.


Iðnaðarráðuneytinu, 23. desember 2004.

F. h. r.
Kristján Skarphéðinsson.
Helgi Bjarnason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica