Iðnaðarráðuneyti

256/1997

Reglugerð um breyting á reglugerð fyrir Rafmagnsveitur ríkisins nr. 122/1992.

1. gr.

                Á eftir 5. gr. bætist við ný grein sem verður 6. gr. og færast aðrar greinar aftur sem því nemur. Greinin hljóðar svo:

Ársfundur.

                Halda skal ársfund á vegum Rafmagnsveitna ríkisins fyrir júnílok ár hvert. Stjórn Rafmagnsveitna ríkisins ákveður fundardag og fundarstað og boðar til fundarins með eigi minna en 45 daga fyrirvara, með bréfi til þeirra aðila, er skipa fulltrúa á fundinn. Í bréfinu skal dagskrá fundarins kynnt. Ársfundinn sitja eftirtaldir aðilar:

1.             Stjórn Rafmagnsveitna ríkisins.

2.             Aðrir fulltrúar Rafmagnsveitna ríkisins valdir af rafmagnsveitustjóra.

3.             Tveir fulltrúar valdir af iðnaðarráðherra.

4.             Einn fulltrúi valinn af fjármálaráðherra.

5.             Einn fulltrúi frá hverjum þingflokki.

6.             Fulltrúar orkukaupenda sem skulu valdir þannig:

                o              Einn fulltrúi frá hverri héraðsnefnd á orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins.

o              Einn fulltrúi frá hverri bæjarstjórn þeirra kaupstaða á orkuveitusvæði Rafmagnsveitnanna sem ekki eru aðilar að héraðsnefndum.

                o              Einn fulltrúi frá hverri almenningsveitu, sem kaupir orku af Rafmagnsveitunum.

7.             Aðrir gestir sem rafmagnsveitustjóri býður til fundarins.

                Kosningu eða tilnefningu skal tilkynna stjórn Rafmagnsveitna ríkisins eigi síðar en 14 dögum fyrir fundinn.

                Á ársfundi skal leggja fram til kynningar skýrslu um starfsemi og ársreikning Rafmagnsveitna ríksins fyrir liðið ár og kynna fjárhagsafkomu fyrirtækisins. Einnig skal gera grein fyrir markaðsmálum og öðrum málum sem varða samskipti Rafmagnsveitnanna og orkukaupenda og ræða þau atriði.

 

2. gr.

                6. gr. reglugerðarinnar sem verður 7. gr. orðist svo:

Stjórn.

                Ráðherra skipar á ársfundi fimm menn í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins, rafmagnsveitustjóra til ráðuneytis til eins árs í senn auk eins áheyrnarfulltrúa úr starfsliði ráðuneytisins með málfrelsi og tillögurétt. Stefnt skal að því að stjórnarmenn komi frá mismunandi landshlutum og af orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins. Hlutverk stjórnar er að fylgjast með að skipulag og starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins sé jafnan í réttu og góðu horfi. Þá fjallar stjórnin um meginstefnu í starfsemi fyrirtækisins og skal rafmagnsveitustjóri kynna stjórninni þau málefni sem talist geta haft veruleg áhrif á starfsemi og afkomu fyrirtækisins, áður en ákvörðun er tekin um þau. Meðal þeirra mála sem þar geta fallið undir eru framkvæmdaáætlanir, gjaldskrármál, skipulagsmál og framtíðarstefnumörkun. Um starfskjör stjórnarmanna fer samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

 

3. gr.

                Reglugerð þessi, sem samþykkt er af stjórn Rafmagnsveitna ríkisins, er hér með staðfest samkvæmt vatnalögum nr. 15/1923 og orkulögum nr. 58/1967 til að öðlast gildi þegar í stað.

 

Iðnaðarráðuneytinu, 23. apríl 1997.

 

Finnur Ingólfsson.

Halldór J. Kristjánsson.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica