Iðnaðarráðuneyti

84/1998

Reglugerð um starfsábyrgðartryggingu bifreiðasala. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um starfsábyrgðartryggingu bifreiðasala.

1. gr.

                Í reglugerð þessari merkir:

1.             Viðskiptamaður: Einstakling eða lögaðila sem bifreiðasali hefur annast milligöngu um kaup eða sölu skráningarskylds ökutækis fyrir.

2.             Tjónsatvik: Hvert einstakt skaðabótaskylt atvik er hefur tjón í för með sér.

3.             Trygging: Vátryggingu gegn skaðabótaábyrgð sem vátryggður kann að baka sér gagnvart þriðja manni (tjónþola) vegna atvika sem hafa tjón í för með sér og hann ber ábyrgð á. Tjónþoli nýtur ekki góðs af ábyrgðartryggingu nema hann eigi skaðabótakröfu á hendur vátryggðum. Bankaábyrgð eða önnur trygging sem viðskiptaráðuneytið metur gilda fellur einnig undir skilgreiningu þessa.

2. gr.

                Bifreiðasala ber eftir almennum reglum skaðabótaréttar að bæta viðskiptamönnum sínum það tjón sem hann kann að baka þeim með störfum sínum.

3. gr.

                Leyfi til bifreiðasölu er háð því skilyrði að fullnægjandi tryggingar séu í gildi, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 69/1994, með síðari breytingum, um sölu notaðra ökutækja.

                Tryggingarskyldu getur bifreiðasali aðeins uppfyllt ef hann:

1.             Kaupir vátryggingu hjá viðurkenndu vátryggingarfélagi eða

2.             aflar sér ábyrgðar hjá viðskiptabanka eða sparisjóði eða

3.             leggur fram annars konar tryggingu sem viðskiptaráðuneytið metur gilda.

                Falli vátrygging skv. 1. tl. 2. mgr., bankaábyrgð skv. 2. tl. 2. mgr. eða trygging skv. 3. tl. 2. mgr. úr gildi skulu hlutaðeigandi vátryggingafélag, viðskiptabanki eða sparisjóður eða ábyrgðaraðili með sannanlegum hætti tilkynna það viðskiptaráðuneytinu þegar í stað. Vátryggingartíma eða ábyrgðartíma telst þó eigi lokið fyrr en átta vikur eru liðnar frá því viðskiptaráðuneytinu var tilkynnt um brottfall tryggingarinnar. Að þeim tíma liðnum telst leyfi til bifreiðasölu úr gildi fallið nema önnur fullnægjandi trygging hafi verið sett.

4. gr.

                Trygging bifreiðasala skv. 3. gr. skal bæta viðskiptamanni hans fjárhagstjón sem leitt verður af gáleysi í störfum hans eða starfsmanns hans. Trygging skal nema minnst kr. 3.000.000 vegna hvers einstaks tjónsatviks. Heildarfjárhæð tryggingarbóta innan hvers tólf mánaða vátryggingartímabils skal nema kr. 9.000.000 hið minnsta. Fjárhæðir þessar skulu fylgja vísitölu neysluverðs og breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingar á henni. Grunnvísitala er vísitala janúarmánaðar 1998. Tryggingin skal taka til starfsemi bifreiðasalans hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins.

                Vátryggingafélagi, viðskiptabanka eða sparisjóði eða ábyrgðarveitanda, sbr. 3. gr., er heimilt að endurkrefja hvern þann sem valdið hefur tjóni af stórkostlegu gáleysi.

                Heimilt er þeim er tryggingu veitir að áskilja sjálfsáhættu bifreiðasalans en slíkt ákvæði má ekki skerða réttarstöðu þriðja aðila. Tilhögun eigin áhættu skal getið í skilmálum tryggingarinnar. Sé tryggingin í formi vátryggingar er jafnframt heimilt að geta eigin áhættu í skírteini eða iðgjaldskvittun.

5. gr.

                Skilmálar trygginga skv. reglugerð þessari skulu kynntir viðskiptaráðuneyti, og Vátryggingaeftirliti sé um vátryggingu að ræða, áður en þeir eru boðnir bifreiðasölum.

6. gr.

                Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. gr. laga nr. 69/1994, með síðari breytingum, um sölu notaðra ökutækja, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 406/1994, um tryggingaskyldu við sölu notaðra ökutækja.

Viðskiptaráðuneytinu, 5. febrúar 1998.

Finnur Ingólfsson.

Halldór J. Kristjánsson.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica