Iðnaðarráðuneyti

308/2004

Reglugerð um Orkustofnun. - Brottfallin

Felld brott með:

1. gr.

Orkustofnun er sérstök ríkisstofnun, sem heyrir undir yfirstjórn iðnaðarráðherra.


2. gr.

Hlutverk Orkustofnunar er:

1. að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um orkumál og önnur auðlindamál, sem stofnuninni eru falin með lögum, og veita stjórnvöldum ráðgjöf og umsagnir um þau mál,
2. að standa fyrir rannsóknum á orku- og auðlindabúskap þjóðarinnar, á orkulindum landsins og hafsbotnsins og á öðrum jarðrænum auðlindum, þannig að unnt sé að meta þær og veita stjórnvöldum ráðgjöf um skynsamlega og hagkvæma nýtingu þeirra,
3. að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orku- og auðlindabúskap landsmanna, varðveita þau og miðla upplýsingum til stjórnvalda og landsmanna,
4. að vinna að áætlanagerð til langs tíma um orku- og auðlindabúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins og hafsbotnsins,
5. að stuðla að samvinnu þeirra, sem sinna orku- og auðlindarannsóknum og samræmingu á rannsóknarverkefnum,
6. að fylgjast í umboði ráðherra með framkvæmd opinberra leyfa, sem gefin eru út til rannsóknar og nýtingar jarðrænna auðlinda og reksturs orkuvera og annarra meiri háttar orkumannvirkja,
7. að annast daglega umsýslu Orkusjóðs,
8. að annast eftirlit skv. raforkulögum,
9. að annast önnur stjórnsýsluverkefni, sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.


Orkustofnun er heimilt að gera samninga við fyrirtæki eða stofnanir um framkvæmd skilgreindra verkefna, sbr. 2. og 3. tl. 1. mgr. Leita skal staðfestingar ráðherra á samningum, sem gerðir eru til lengri tíma en tveggja ára. Stofnuninni er einnig heimilt að hafa samvinnu við stofnanir eða fyrirtæki um þjónustustarfsemi, svo sem rekstur húsnæðis, símvörslu og bókhalds-, starfsmanna- og tölvuþjónustu.


3. gr.

Ráðherra skipar forstöðumann Orkustofnunar, orkumálastjóra, til fimm ára í senn. Orkumálastjóri fer með stjórn og daglegan rekstur Orkustofnunar. Hann skal skipta fjárveitingum í samræmi við 2. mgr. 4. gr. og sjá til þess, að starfsemi stofnunarinnar sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða og innan þess fjárhagsramma sem fjárlög afmarka hverju sinni; að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi og meðferð fjármuna stofnunarinnar. Orkumálastjóri kemur fram fyrir hönd Orkustofnunar. Orkumálastjóri ræður annað starfslið stofnunarinnar.

Nánar skal kveðið á um verksvið og skyldur orkumálastjóra í erindisbréfi.


4. gr.

Starfsemi Orkustofnunar skiptist í þrjú fagsvið, auk skrifstofu orkumálastjóra og sameiginlegrar þjónustu, með eftirfarandi hætti:

· Skrifstofa orkumálastjóra, sbr. 5. gr.
· Orkumálasvið, sbr. 6. gr.
· Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sbr. 7. gr.
· Vatnamælingar, sbr. 8. gr.
· Sameiginleg þjónusta, sbr. 9. gr.

Hver þáttur er sérstök rekstrareining og skulu þær vera fjárhagslega aðgreindar eða aðskildar, eftir því sem við á. Hver eining fyrir sig skal standa undir þeim kostnaði, sem af henni hlýst, þar með talið þjónustu, sem keypt er af öðrum rekstrareiningum, sameiginlegri þjónustu stofnunarinnar og þjónustu annarra aðila.

Fjárveitingum til Orkustofnunar af fjárlögum skal varið til reksturs skrifstofu orkumálastjóra og orkumálasviðs, svo og til rannsókna á orku- og auðlindum í samræmi við ákvæði fjárlaga. Endurgreiðslu framkvæmdaraðila á útlögðum rannsóknar- og áætlunarkostnaði af ríkisfé skal jafnframt varið til rannsókna, sbr. 2. tl. 1. mgr. 2. gr.

Orkumálastjóri gerir starfslýsingar yfirmanna rekstrareininga og starfsmanna skrifstofu orkumálastjóra í samráði við þá. Yfirmenn skulu gera tillögur að starfslýsingum starfsmanna sinna eininga í samráði við þá. Starfslýsingar skulu staðfestar af orkumálastjóra.


5. gr.
Skrifstofa orkumálastjóra.

Skrifstofa orkumálastjóra annast sameiginleg málefni stofnunarinnar, s.s. varðandi kynningarmál, lögfræðileg málefni, rekstrarumsjón og samræmingu gagnamála.

Skrifstofa orkumálastjóra ber ábyrgð á umsögnum stofnunarinnar til stjórnvalda og annarra.


6. gr.
Orkumálasvið.

Hlutverk orkumálasviðs er einkum að sinna verkefnum skv. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar þessarar.

Helstu verkefni orkumálasviðs í auðlindamálum eru:

1. Að hafa umsjón með verkefnum Orkustofnunar varðandi jarðrænar auðlindir til lands og sjávar.
2. Að hafa frumkvæði að rannsóknum á jarðrænum auðlindum í eigu ríkisins.
3. Að varðveita gögn ríkisins um jarðrænar auðlindir og skilaskyld gögn annarra.
4. Að aðstoða stjórnvöld við veitingu rannsóknarleyfa, nýtingarleyfa og virkjanaleyfa.
5. Að miðla upplýsingum um auðlindamál.


Helstu verkefni orkumálasviðs í orkumálum eru:

1. Söfnun gagna um orkuvinnslu, innflutning eldsneytis, orkunotkun og verðlag orku.
2. Tölfræði- og hagfræðileg úrvinnsla gagna.
3. Gerð orkuspáa.
4. Eftirlit með sérleyfisþáttum í raforkugeiranum: Flutningi og dreifingu raforku.
5. Umsjón með niðurgreiðslum vegna húshitunarkostnaðar.
6. Þjónusta við orkuráð og umsjón með Orkusjóði.
7. Að stuðla að skilvirkri orkunotkun og nýtingu nýrra orkugjafa.
8. Að miðla upplýsingum um orkumál.


7. gr.
Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna.

Jarðhitaskóli skal starfræktur samkvæmt samningi við Háskóla Sameinuðu þjóðanna, eftir því sem fé er veitt til skólans eða hann aflar. Aðalstarfsemi Jarðhitaskólans er sex mánaða sérhæfð námskeið og starfsþjálfun í jarðhitafræðum fyrir nemendur með háskólapróf sem einkum koma frá þróunarlöndunum á vegum Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Skólinn heldur einnig styttri námskeið innanlands og utan og tekur þátt í alþjóðasamstarfi á sínu sviði. Við skólann starfar námsráð sem forstöðumaður skipar. Jarðhitaskólanum er heimilt að hafa umsjón með og veita styrki til framhaldsnáms og meistaraprófs (MSc) í jarðhitafræðum í samstarfi við þar til bæra háskóla.


8. gr.
Vatnamælingar.

Helstu verkefni Vatnamælinga eru:

1. að annast langtímarannsóknir á vatnafari og rannsóknir á vatnsauðlindinni, eðli hennar og skilyrðum til nýtingar samkvæmt samningi við þá, sem slíkar rannsóknir kosta, þ. á m. orkumálasvið stofnunarinnar, orkufyrirtæki o.fl.,
2. að vinna að sérstökum verkefnum fyrir orkumálasvið, sem miða að því að uppfylla hlutverk þess,
3. aðrar rannsóknir á umhverfis- og auðlindasviði sem fallið geta að hlutverki Vatnamælinga,
4. að markaðsfæra þekkingu Orkustofnunar í vatnafarsrannsóknum, enda sé ekki tekin meiri áhætta en samrýmist fjárhagslegri getu Vatnamælinga,
5. að finna upp, þróa og aðlaga aðferðir og tæki til rannsókna á vatnafari í samræmi við fjárhag Vatnamælinga hverju sinni.

Þessi verkefni rækja Vatnamælingar m.a. með því:

1. að hafa í þjónustu sinni hæfa sérfræðinga með nægilega fagþekkingu og viðhalda henni,
2. að hafa tiltækan tækjabúnað, sem nauðsynlegur er til að beita fremstu rannsóknartækni, eftir því sem fjárhagur leyfir og við verður komið á hverjum tíma,
3. að taka þátt í samstarfi á sviði vatnafræða í umboði orkumálastjóra.


Verkefni sem Vatnamælingar annast, fyrir orkumálasvið sem og aðra, skulu standa undir sér fjárhagslega og verðlagning taka mið af markaðsverði, þegar slíkt á við.

Rekstrarafgangi Vatnamælinga skal í samráði við orkumálastjóra ráðstafa til að efla rannsóknarfærni Vatnamælinga.


9. gr.
Sameiginleg þjónusta.

Helstu verkefni sameiginlegrar þjónustu eru:

1. Að annast fjármál, greiðslu gjalda og innheimtu tekna Orkustofnunar, auk bókhalds og almennrar skrifstofuþjónustu.
2. Að annast starfsmannamál og afgreiðslu launa.
3. Að annast tölvumál, símsvörun, bókasafn og skjalasafn Orkustofnunar.
4. Að annast rekstur húsnæðis og mötuneytis.


Sameiginlegri þjónustu Orkustofnunar er heimilt að veita öðrum stofnunum þá þjónustu sem getið er í 1. mgr. hér að framan, enda skal þess gætt að full greiðsla komi fyrir veitta þjónustu.

Aðrar rekstrareiningar Orkustofnunar greiða sameiginlegri þjónustu skv. samþykktum um skiptingu kostnaðar.


10. gr.

Orkustofnun skal gera framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn um þau verkefni, sem stofnunin vinnur að skv. 2. og 3. tl. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar þessarar. Hafa skal samráð við orkuráð um gerð þessarar áætlunar og hún síðan lögð fyrir ráðherra til staðfestingar. Áætlunin skal endurskoðuð árlega.


11. gr.

Orkustofnun annast daglega umsýslu Orkusjóðs. Hjá Orkustofnun starfar orkuráð, sbr. 6. gr. laga um Orkustofnun, sem gerir tillögur til ráðherra um lánveitingar og greiðslur úr Orkusjóði. Um Orkusjóð og orkuráð vísast til reglugerðar um Orkusjóð nr. 514/2003.


12. gr.

Setja skal Orkustofnun skipurit, þar sem nánar er kveðið á um innra skipulag hennar í samræmi við reglugerð þessa.


13. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 9. gr. laga um Orkustofnun nr. 87/2003. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 632 frá 6. desember 1996.


Iðnaðarráðuneytinu, 22. mars 2004.

Valgerður Sverrisdóttir.
Kristján Skarphéðinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica