Iðnaðarráðuneyti

897/2000

Reglugerð Hitaveitu Dalabyggðar ehf.

I. KAFLI

Rekstrarform, tilgangur o.fl.

 

Eignarhald.

1. gr.

Hitaveita Dalabyggðar ehf., kt. 600799-2159, hér eftir nefnt hitaveitan, starfrækir hitaveitu í Dalabyggð.  Heimilisfang hennar er að Miðbraut 11, 370 Búðardalur.

 

Tilgangur.

2. gr.

Tilgangur hitaveitunnar er bygging og rekstur hitaveitu, orkuvinnsla, flutningur og sala á heitu vatni í Dalabyggð og reka aðra þá starfsemi sem því tengist.

 

Veitusvæði.

3. gr.

Starfssvæði hitaveitunnar tekur annars vegar til þeirra sem tengjast veitunni á leið stofnlagnar frá Reykjadal að Búðardal og hins vegar íbúa í Búðardal.  Hitaveitan hefur einkaleyfi á dreifingu og sölu á heitu vatni á þessu svæði.

Einkaleyfi þetta fékk hitaveitan framselt frá Dalabyggð til 25 ára samkvæmt yfirlýsingu dags. 26. október 2000.

 

4. gr.

Um stjórn og framkvæmdastjórn Hitaveitu Dalabyggðar ehf. fer eftir samþykktum félagsins.

 

II. KAFLI

Almenn ákvæði.

 

Húsveita, kaupandi o.fl.

5. gr.

Eigandi húsveitu eða annarrar veitu sem tengist veitukerfi hitaveitunnar nefnist húseigandi.  Kaupandi heits vatns, eða sá sem ber ábyrgð á greiðslu fyrir það, nefnist notandi.

 

Afhending og meðferð vatns, eignaréttur o.fl.

6. gr.

Hitaveitan afhendir heitt vatn um veitukerfi hitaveitunnar samkvæmt gildandi reglugerð og gjaldskrá á hverjum tíma. Hitaveitunni er heimilt að semja sérstaklega um sölu á heitu vatni utan almennra söluskilmála. 

Hitaveituvatn, sem runnið hefur í gegnum hitaveitukerfi húss, bakrennslisvatn, er eign hitaveitunnar. Hitaveitan getur heimilað notkun þess til upphitunar í gróðurhúsum, bílastæðum, gangstéttum og fleiri stöðum. Húseigandi skal sækja um slíka notkun sérstaklega til hitaveitunnar. Frágangur lagna og búnaðar vegna slíkrar notkunar skal vera samkvæmt fyrirmælum hitaveitunnar. Hitaveitan getur afturkallað slík leyfi.

Hitaveitan ber enga ábyrgð á tjóni er kann að leiða af notkun bakrennslisvatns, s.s. frostskemmdum o.þ.h.

Óheimilt er að tengja vatnsdælur, varmadælur eða annan slíkan búnað við bakrennslið, nema að áður fengnu samþykki hitaveitunnar.

 

Breytingar á þrýstingi, magni o.fl.

7. gr.

Óviðráðanlegar breytingar á þrýstingi, hitastigi eða magni heita vatnsins eru án ábyrgðar hitaveitunnar. Um breytingar er stafa af öðrum ástæðum skal hitaveitan tilkynna notendum með hæfilegum fyrirvara, sé þess nokkur kostur.

Þar sem svo hagar til að þrýstingsmunur er umtalsverður á kerfum hita- og vatnsveitu kann að vera nauðsynlegt að setja þrýstiminnkara á húskerfi til að jafna þrýsting. Húseiganda ber að setja slíkan búnað upp á sinn kostnað telji pípulagningameistari hússins, byggingarfulltrúi eða hitaveitan það nauðsynlegt.

 

Rekstrartruflanir o.fl.

8. gr.

Ef nauðsyn krefur, vegna viðgerða á dælustöðvum, vatnsgeymum, vatnsæðum og öðrum lögnum veitukerfa hitaveitunnar eða af öðrum ástæðum, getur hitaveitan fyrirskipað takmörkun á vatnsnotkun, takmarkað vatnsrennsli eða lokað fyrir það, eftir því sem þörf krefur hverju sinni, enda tilkynni hitaveita fyrirfram um slíkar takmarkanir, ef unnt er, og kappkostar að koma á eðlilegum rekstri svo fljótt sem verða má.

Hitaveitan ber ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni sem leiða kann af slíkum rekstrartruflunum er kunna að verða á veitukerfunum.  Sama á við um truflanir vegna frosta, rafmagnstruflana, náttúruhamfara eða annarra óviðráðanlegra atvika.

Takmörkun á vatnsafhendingu um skamman tíma hefur ekki áhrif á skyldu notenda til greiðslu á fasta- og hemlagjöldum.

Hitaveitunni er ekki skylt að greiða bætur vegna takmörkunar á vatnsafhendingu eða vegna tímabundinnar lækkunar á hitastigi heita vatnsins.

 

Viðhald húsveitu.

9. gr.

Í samræmi við skyldur samkvæmt byggingarlögum og reglugerðum er húseigendum skylt að halda vel við vatnslögnum og vatnstækjum innanhúss.

Húseigandi/notandi ber ábyrgð á meðferð búnaðar og lagna innanhúss, sem eru í eigu hitaveitunnar. Hann greiðir kostnað við viðgerð eða endurnýjun búnaðar sem verður fyrir skemmdum af hans völdum eða þeirra aðila sem hann ber ábyrgð á.

Húseiganda/notanda ber tafarlaust að tilkynna til hitaveitunnar ef vart verður bilunar á búnaði og tækjum veitunnar.

 

Endursala.

10. gr.

Kaupendum er óheimil endursala á heita vatninu nema um það sé sérstaklega samið hverju sinni.

 

III. KAFLI

Lagning veitukerfa, viðhald o.fl.

 

Veitukerfið.

11. gr.

Hitaveitan leggur, kostar og á allar lagnir veitukerfisins og annast rekstur þeirra og viðhald.

Með veitukerfi er átt við aðveituæðar, stofnæðar, dreifiæðar, götuæðar svo og heimæðar og lagnir innanhúss að og með tengigrind, ásamt tilheyrandi búnaði, sbr. 15. gr. 

 

Heimæðar - umsóknir um tengingu eða breytingar.

12. gr.

Um lögn nýrra hitunarkerfa og breytinga á eldri kerfum gilda ákvæði byggingarreglugerðar.  Áður en hafist er handa um lögn nýrra hitunarkerfa eða breytingu á eldri kerfum skal sækja um vatnskaupin eða breytinguna til hitaveitunnar á þar til gerðum eyðublöðum, sem hitaveitan lætur í té.

Umsóknin skal undirrituð af eiganda hússins eða fullgildum umboðsmanni hans ásamt pípulagningarmeistara þeim sem verkið á að annast.

Umsókn skulu fylgja teikningar samþykktar af byggingaryfirvöldum Dalabyggðar og skal á þeim gerð grein fyrir afstöðu húss/mannvirkis og væntanlegum inntaksstað fyrir heitt vatn.

Hönnuðir skulu hafa samráð við hitaveituna um væntanlega legu lagna á lóð og gera grein fyrir þeim á teikningum.

 

Tengigrindur.

13. gr.

Tengigrind fyrir almennan notanda samanstendur af stofnloka, síu og hemli.

Tengigrind fyrir stórnotanda samanstendur af stofnloka, síu og magnmæli.

Aðrir hlutar inntaksbúnaðar, svo sem varmaskiptar fyrir hitakerfi, þrýstijafnarar, mælar, eru lagðir til og settir upp af húseiganda og verða í hans eigu og ábyrgð. Húseigandi annast rekstur þeirra og viðhald.

 

Um lagningu heimæða og gerð inntaksrýmis.

14.  gr.

Við hönnun húsa skal gera ráð fyrir og staðsetja á uppdrætti rými fyrir stofnloka heimæðar og tengigrind og annan nauðsynlegan búnað í eigu veitunnar. Inntaksrými skal uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar. Tengja skal öryggisloka hitakerfis við frárennslislagnir. Inntaksrými skal vera aðgengilegt starfsmönnun veitunnar.

Áður en hafist er handa um lagningu heimæðar skal lóð vera komin í sem næst rétta hæð og gluggar og hurðir húss lokanlegar. 

Hitaveitan annast lagningu eigin veitukerfis og tengingu við húsveitur. Þó skal húseigandi/ húsbyggjandi koma fyrir inntaksvinklum og/eða ídráttarinntaksbeygjum í samráði við hitaveituna.

Hitaveitan ákveður staðsetningu tengigrindar og inntaks í samráði við húseiganda.

Hitaveitunni er heimilt að leggja heimæð eða sameiginlega heimæð um lóð og húseigandi skal sjá fyrir inntaksstað fyrir heitt  vatn við útvegg kjallara eða fyrstu hæðar, ef húsið er kjallaralaust, ásamt nauðsynlegu rými fyrir tengigrind og annað tilheyrandi tengingu við veituna.

Við framkvæmdir skal hitaveitan halda raski í lágmarki og ganga þrifalega um. Jafnframt skal veitan færa allt til fyrra horfs, eftir því sem við verður komið.

Húseigandi á ekki kröfu til sérstakrar greiðslu vegna lagningar veitukerfa veitunnar.

 

Kostnaður við tengingu.

15. gr.

Hitaveitan kostar lagningu eigin veitukerfis. Húseigandi greiðir tengigjald samkvæmt gjaldskrá fyrir hverja heimæð.

Hitaveitunni er ekki skylt að leggja heimæðar meðan jörð er frosin. Óski húseigandi eftir því skal hann greiða þann aukakostnað sem af því hlýst.

 

Kostnaður við breytingar.

16. gr.

Kostnað við breytingar á húsveitu eða hitunarkerfi húss vegna tengingar við hitaveituna skal húseigandi/notandi annast og kosta.

Húseigandi/notandi kostar breytingar á heimæðum sem nauðsynlegar eru vegna framkvæmda hans. Húseigandi skal fyrirfram sækja um leyfi til hitaveitunnar til hverra þeirra framkvæmda, sem kunna að hafa í för með sér röskun á veitukerfi hitaveitunnar.

 

Áhleypingar.

17. gr.

Áhleypingu skal sækja um til hitaveitunnar með minnst fjögurra daga fyrirvara.  Engir aðrir en umboðsmenn hitaveitunnar mega hleypa vatni úr kerfi veitunnar á hitakerfi húsa í fyrsta sinn eftir tengingu.

Pípulagningameistari skal annast prófun hitalagna í samráði við byggingarfulltrúa, sem sér um úttekt kerfisins, og vera viðstaddur þegar vatni er hleypt á hitakerfið.

Komi í ljós að verk hefur ekki verið framkvæmt samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar, byggingarreglugerðar, eða annarra reglna er settar kunna að verða, getur hitaveitan stöðvað verkið, þar til úr því verður bætt.

 

Aðgangur að veitukerfi, lögnum o.fl.

18. gr.

Hitaveitan hefur rétt til aðgangs að húsnæði því sem veitukerfi hennar liggur um til viðhalds, eftirlits, breytinga og lokunar vegna vanskila eða annarra þeirra aðgerða, sem nauðsynlegar eru samkvæmt réttindum og skyldum hitaveitunnar. Eftirlitsmanni Hitaveitu Dalabyggðar ehf. skal veittur hvenær sem er frjáls aðgangur að öllum hitakerfum, sem tengd eru við hitaveituna. Er húseiganda skylt að hlíta tafarlaust fyrirmælum hans um viðgerð á bilunum og sérhverjum ráðstöfunum til varnar gegn misnotkun heita vatnsins.

Ef inntak hitaveitu og tengigrind eru ekki í sama herbergi skal lögn þar á milli vera óhulin eða í stokk sem auðvelt er að opna. Húseigandi ber ábyrgð á tjóni er leki á slíkri millilögn kann að valda.

Óheimilt er að hylja tengigrind á þann hátt að það valdi erfiðleikum við viðhald og viðgerðir og eigi má setja hillur eða annað ofan við hana þannig að það hindri nauðsynlega vinnu við hana, og getur veitan krafist úrbóta sé frágangur umhverfis tengigrind ekki í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Hitaveitan getur lagfært slíka ágalla á kostnað húseiganda verði dráttur á úrbótum, sbr. 29. gr.

Húseiganda/notanda er skylt að láta í té upplýsingar um hitun hússins og hita neysluvatns sé þess óskað.

 

Viðhald heimæða.

19. gr.

Við viðhald heimæðar skulu starfsmenn veitunnar halda raski í lágmarki og ganga snyrtilega um.

Sé nauðsynlegt vegna bilunar eða endurnýjunar á heimæð að grafa upp heimæðina er starfsmönnum veitunnar það heimilt, en færa skulu þeir lóð til fyrra horfs eins og unnt er.

Starfsmönnum veitunnar er heimilt vegna endurnýjunar heimæðar að leggja hana á öðrum stað frá dreifiæð í hús, telji þeir það heppilegra til að forðast skemmdir. Enn fremur er starfsmönnum heimilt, að höfðu samráði við húseiganda, að fara með heimæð inn í hús á öðrum stað, ef ekki er unnt að nota þann stað sem fyrir er, nema valda miklu og/eða óbætanlegu tjóni.

Hafi húseigandi gróðursett trjáplöntur, steypt veggi, stéttar, bifreiðastæði, eða annað sambærilegt yfir heimæð, eða lagt yfir hana snjóbræðslukerfi, ber hitaveitan ekki ábyrgð á því tjóni sem kann að verða vegna nauðsynlegra aðgerða veitunnar, nema tjónið verði rakið til gáleysis starfsmanna hennar.

Húseigandi á ekki kröfu á sérstakri greiðslu fyrir óþægindi vegna viðhalds eða endurnýjunar heimæðar.

 

IV. KAFLI

Gjaldskrá og söluskilmálar.

 

Gild umsókn um tengingu húsveitu.

20. gr.

Skilyrði fyrir sölu á vatni er að í gildi sé samþykkt umsókn um tengingu viðkomandi húsveitu við veitukerfi hitaveitunnar. Sækja skal um tengingu á þar til gerðu eyðublaði.

 

Samningur um kaup á heitu vatni, notendaskipti.

21. gr.

Upphaf og lok samningsins um vatnskaup eru við skráningu tilkynninga hjá hitaveitunni þess efnis.

Húseigandi ber ábyrgð á tilkynningu um notendaskipti.

Tilkynningin skal undirrituð af báðum aðilum, þ.e.a.s. þeim er hyggst hætta viðskiptum og þeim er tekur við. Vanræki húseigandi tilkynningarskyldu sína er heimilt að gera hann ábyrgan fyrir vatnsnotkun sem til fellur eftir að fyrri notandi yfirgaf húseignina.

 

Hemlar, stærð, gerð, prófanir o.fl.

22. gr.

Hitaveitan lætur hverju húsi, sem er í sambandi við vatnsæðar hennar, í té vatnsmagn er ætla má að nægi til upphitunar á því.

Hitaveitan lætur setja stillanlegan hemil fyrir hámarksrennsli til hvers upphitunarkerfis í íbúðarhúsum, sumarhúsum, stofnunum og lögbýlum, þ.e.a.s. hjá almennum notendum, og miðast gjald hitaveitunnar fyrir selt vatn við það hámark sem hemillinn er stilltur á.

Hitaveitan lætur setja magnmæli í inntaksgrind stórnotenda og miðast gjald hitaveitunnar við mælt magn skv. mælinum fyrir hvert tímabil.

Hitaveitan ræður gerð hemla og magnmæla og annast rekstur og viðhald þeirra.

Starfsmenn hitaveitunnar mega einir innsigla hemla og magnmæla. Ef rofið er innsigli á búnaði hitaveitunnar varðar það refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum.

Hitaveitan stillir hemilinn eftir óskum húseiganda fyrir árið sem hús hans er tengt við hitakerfið, en síðan verður hemilsstillingu að jafnaði breytt aðeins einu sinni á ári og skal skrifleg beiðni um breytingu koma fram við hitaveituna fyrir 1. september ár hvert. Hámarksstilling hemils gildir allt árið þótt vatnsnotkun verði minni hluta úr ári.

Minnsta sala gegnum hemil skal vera 1 mínútulítri. Selt vatnsmagn skal ávallt standa á heilum mínútulítra. 

Ef notandi óskar eftir að hemill eða magnmælir sé prófaður skal hann senda skriflega beiðni þar um til hitaveitunnar. Komi í ljós við þá athugun að frávik sé 5% eða minna er heimilt að gera notanda að greiða álestrargjald. Sé frávik meira skal hitaveitan greiða kostnað við prófunina og leiðrétta reikning notanda við niðurstöður hennar, þó ekki fyrir lengra tímabil en tvo mánuði nema notandi eða hitaveitan, eftir því sem við á, geti sannað að um lengra tímabil hafi verið að ræða, þó lengst fjögur ár.

 

Fastagjald og gjald fyrir notkun.

23. gr.

Hjá almennum notendum er gjaldi vegna kaupa á heitu vatni skipt í fastagjald og gjald eftir hemli, hemlagjald (kr./lítra á mínútu) samkvæmt innstilltu magni.

Hjá stórnotendum er gjaldi vegna kaupa á heitu vatni skipt í fastagjald og gjald eftir hemli, hemlagjald (kr./lítra á mínútu) samkvæmt innstilltu magni eða gjald eftir magnmæli, rúmmetragjald (kr./m3) samkvæmt mældri notkun.

Greiðsla fastagjalds hefst þegar uppsetningu tengigrindar er lokið, óháð því hvenær vatnskaup hefjast.

Greiðsla hemlagjalds hefst þegar hleypt hefur verið vatni á heimæðina.

Kaupandi skal greiða fastagjaldið þrátt fyrir stöðvun á vatnsafhendingu vegna vanskila eða annarra vanefnda kaupanda, þar til samningur um kaup á heitu vatni er úr gildi fallinn vegna uppsagnar.

 

Reikningar, uppgjör o.fl.

24. gr.

Kaupandi skal greiða hitaveitunni fyrir heitt vatn samkvæmt gildandi gjaldskrá veitunnar.

Við breytingar á gjaldskrá skal reikningsfæra notkun í beinu hlutfalli við gildistíma hverrar gjaldskrár á því tímabili, sem reikningurinn tekur til.

Hitaveitan má byggja reikninga til stórnotenda á áætlun um vatnskaup og innheimta reglulega samkvæmt slíkri áætlun.

Reikningar sem byggja á staðreyndri vatnsnotkun nefnast álestrarreikningar, en reikningar sem byggjast á áætlaðri vatnsnotkun nefnast áætlunarreikningar.

Stórnotandi getur þó jafnan gegn greiðslu álestrargjalds óskað eftir breytingu á áætlun um vatnsnotkun vegna nýrra forsendna.

Ef hemill eða mælir bilar eða vatnskaup eru leyfð tímabundið án mælitækis, áætlar hitaveitan vatnsnotkun með hliðsjón af hitaþörf hússins. 

Reikninga skal senda notanda á notkunarstað eða annan stað sem hann tiltekur. Gjalddagi reikninga er útgáfudagur.

Reikninga ber að greiða á tilgreindum gjalddaga og eigi síðar en á eindaga. Eindagi er 15 dögum síðar og skal hann tilgreindur á reikningi. Einnig skal tilgreina greiðslustað.

Sé reikningur eigi greiddur innan tilgreinds frests (fyrir eindaga) reiknast dráttarvextir frá gjalddaga. Útsending reikninga fyrir vatnsnotkun skal fara fram eigi sjaldnar en annan hvern mánuð.

Heimilt er að skipta reikningi vegna vatnskaupa um einn hemil. Sé það gert bera kaupendur um þann hemil allir fyrir einn og einn fyrir alla ábyrgð á greiðslu hvers reiknings.

 

V. KAFLI

Innheimta vanskila, viðurlög við brotum o.fl.

 

Um stöðvun vatnsafhendingar vegna vanskila.

25. gr.

Hitaveitan hefur rétt til að stöðva afhendingu á heitu vatni til húsveitu notanda, sem greiðir ekki áætlunar- eða álestrarreikning eða vanrækir skyldur sínar samkvæmt reglugerð þessari.

Beri notandi ábyrgð á vatnskaupum um fleiri en eina veitu má stöðva vatnsafhendingu um hverja þeirra sem er, eða allar, vegna vanskila eða vanefnda í sambandi við eina þeirra.

Til slíkra aðgerða má þó fyrst grípa eftir eindaga og að undangenginni skriflegri viðvörun, sem sendist notanda með fimm daga fyrirvara.

Hitaveitunni er ekki skylt að tilkynna notanda um sjálfa stöðvun vatnsafhendingarinnar, enda sé hún gerð innan 20 daga frá viðvörun um hana.

Hitaveitan ber ekki ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum slíkrar lokunar. Notanda ber að greiða fastagjöld samkvæmt gjaldskrá þó lokað hafi verið fyrir heita vatnið.

Hitaveitan hefur rétt til að krefja notandann um greiðslu kostnaðar skv. gjaldskrá við undirbúning að stöðvun vatnsafhendingar, framkvæmd stöðvunarinnar, svo og opnun veitunnar á ný áður en heitavatnsafhending hefst á ný.

Þótt ekki komi til stöðvunar á afhendingu á heitu vatni er hitaveitunni heimilt að krefja notandann um greiðslu gjalds skv. gjaldskrá vegna undirbúnings að stöðvun vatnsafhendingar.

 

Innsigli, ólögmæt vatnsnotkun o.fl.

26. gr.

Starfsmenn hitaveitunnar innsigla hemla svo og annan þann inntaksbúnað í eigu hitaveitunnar eins og þurfa þykir. Þessi innsigli mega engir aðrir en starfsmenn hitaveitunnar rjúfa. Ef rofið er innsigli á búnaði hitaveitunnar varðar það refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum, sama á við um ólögmæta vatnsnotkun (vatnsstuld).

Um ólögmæta vatnsnotkun er að ræða þegar uppvíst verður um að heitt vatn hafi verið notað á annan hátt en um er samið, að raskað hafi verið mælitækjum eða tengingum breytt þannig að ekki komi fram öll notkun.

Þegar ólögmæt vatnsnotkun hefur átt sér stað skal hitaveitan áætla það vatnsmagn sem notað var með ólögmætum hætti og skal notandi greiða fyrir það á allt að þreföldu verði samkvæmt gjaldskrá fyrir allan tímann sem liðinn er frá síðustu skoðun veitunnar þar til leiðrétt er.

Ef skjótra aðgerða er þörf vegna hættuástands er heimilt að rjúfa innsigli en þá skal viðkomandi strax tilkynna hitaveitunni um atvikið (neyðartilvik).

Enginn má af- eða endurtengja hitaveituna nema þeir sem hitaveitan hefir veitt umboð til þess. Sé brotið gegn þessu skal fara með það sem ólögmæta vatnsnotkun.

Sé húsveita tengd heitavatnskerfi hitaveitunnar í heimildarleysi getur hitaveitan aftengt húsveituna fyrirvaralaust. Fara skal með slíkt brot sem ólögmæta vatnsnotkun.

 

Vanræksla.

27. gr.

Vanræki húseigandi að vinna verk sem honum ber samkvæmt reglugerð þessari að framkvæma, eða sé verk ekki unnið á viðunandi hátt, er hitaveitunni heimilt að láta vinna það á hans kostnað, hafi hann ekki orðið við tilmælum um að vinna verkið innan tiltekins frests.

 

Aðför - Fjárnám.

28. gr.

Öll gjöld samkvæmt reglugerð þessari og gjaldskrá má innheimta með fjárnámi, sbr. 10. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989, sbr. 79. gr. orkulaga nr. 58/1967.

 

Viðurlög.

29. gr.

Brot á reglugerð þessari varða sektum, nema þyngri refsing liggi við að lögum.

Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

 

Gildistaka o.fl.

30. gr.

Reglugerð þessi, sem er unnin og samþykkt af stjórn Hitaveitu Dalabyggðar ehf. og hefur jafnframt verið samþykkt af sveitarstjórn Dalabyggðar, er hér með staðfest samkvæmt orkulögum nr. 58 frá 29. apríl 1967, með síðari breytingum, og öðlast gildi þegar í stað.

 

Iðnaðarráðuneytinu, 24. nóvember 2000.

 

Valgerður Sverrisdóttir.

Þorgeir Örlygsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica