Leita
Hreinsa Um leit

Iðnaðarráðuneyti

259/1997

Reglugerð fyrir Landsvirkjun.

I. KAFLI.

1. gr.

Eigendur, stofnun.

                Landsvirkjun er sameignarfyrirtæki ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Fyrirtækið var stofnsett hinn 1. júlí 1965 á grundvelli laga nr. 59 20. maí 1965 um Landsvirkjun, með sameignarsamningi dags. þann dag milli ríkisstjórnar Íslands og borgarstjórnar Reykjavíkur, og voru ríkissjóður og Reykjavíkurborg stofnendur fyrirtækisins og eigendur þess að jöfnum hlutum.

                Með sameignarsamningi milli ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, dags. 27. febrúar 1981, er gekk í gildi hinn 1. júlí 1983 og kom í stað hins fyrri sameignarsamnings hefur virkjanafyrirtækið Laxárvirkjun, sem var eign Akureyrarbæjar og ríkissjóðs á grundvelli laga nr. 60 20. maí 1965 um Laxárvirkjun, verið sameinað Landsvirkjun og Akureyrarbær jafnframt orðið eignaraðili að Landsvirkjun ásamt ríkissjóði og Reykjavíkurborg.

                Með samningi, dags. 11. ágúst 1982, milli ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar um yfirtöku á byggðalínum og um virkjunarheimildir norðanlands og austan, sem veittar voru Landsvirkjun á grundvelli laga nr. 60 4. júní 1981 um raforkuver, hefur orkusvæði Landsvirkjunar verið fært út þannig, að það nái til allra landshluta.

                Þann 23. mars 1983 voru staðfest frá Alþingi lög nr. 42 1983 um Landsvirkjun. Lögin tóku gildi hinn 15. apríl 1983, og féllu lög nr. 59 20. maí 1965 um Landsvirkjun úr gildi sama dag og lög nr. 60 20. maí 1965 um Laxárvirkjun hinn 1. júlí 1983. Féllu þá einnig úr gildi önnur ákvæði í lögum og reglugerðum sem brjóta í bága við hin nýju lög, en Landsvirkjun er nú skipulögð og rekin í samræmi við ákvæði þeirra með breytingum sem á lögunum voru gerðar með lögum nr. 74 frá 18. maí 1990, lögum nr. 108 frá 29. desember 1988 og lögum nr. 9 frá 26. febrúar 1997.

                Landsvirkjun er sjálfstæður réttaraðili og hefur sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Heimili fyrirtækisins, varnarþing og aðalskrifstofa er í Reykjavík. Eignarhlutdeild eigenda í fyrirtækinu er þannig, frá og með 1. júlí 1983:

                Ríkissjóður Íslands              50,000%

                Reykjavíkurborg   44,525%

                Akureyrarbær       5,475%

                Hver eigandi um sig er í einfaldri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins, en um innbyrðis ábyrgð þeirra fer eftir eignarhlutföllum.

                Eiganda er óheimilt að ganga úr fyrirtækinu án samþykkis meðeigendanna.

 

2. gr.

Tilgangur og verkefni.

                Tilgangur og verkefni Landsvirkjunar eru:

1.             Að vinna, flytja og selja í heildsölu raforku til almenningsrafveitna svo og til iðjufyrirtækja samkvæmt sérstökum samningum að svo miklu leyti sem almenningsrafveitur hafa ekki milligöngu um slíka raforkusölu. Einnig að selja varmaorku frá aflstöðvum sínum þar sem hún fellur til.

2.             Að byggja og reka raforkuver og meginstofnlínukerfi landsins.

3.             Að annast áætlanagerð um ný raforkuver og stofnlínur á orkusvæði Landsvirkjunar.

4.             Að vinna að því, í samvinnu við rafveitur á orkusvæði sínu, að raforka komi í stað annarra orkugjafa eftir því sem hagkvæmt er talið.

5.             Að hafa með viðunandi öryggi tiltæka nægilega raforku til þess að anna þörfum viðskiptavina sinna á hverjum tíma.

                Landsvirkjun ber að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tilgangi fyrirtækisins verði náð.

                Við áætlanagerð um nýjar aflstöðvar samkvæmt 3. tölul. hefur Landsvirkjun samvinnu við Orkustofnun, sem skal í aðalatriðum vera þannig að Orkustofnun annist grundvallarathuganir og almennar rannsóknir til undirbúnings ákvarðana um virkjunarstaði, en Landsvirkjun ákveður að fengnum nauðsynlegum heimildum hvar virkjað skuli og hvenær, og hún annast frekari rannsóknir á virkjunarstað, áætlanagerð og framkvæmdir.

                Landsvirkjun er heimilt að hagnýta þá þekkingu og búnað sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála til verkefna erlendis með því að taka að sér verkefni fyrir fyrirtæki eða stofna og eiga hlut í erlendum fyrirtækjum sem annast rannsóknir, ráðgjöf eða aðra þjónustu á sviði orkumála eða aðra starfsemi tengda orkumálum.

                Landsvirkjun ber að gera skammtíma- og langtímaáætlanir um virkjanaframkvæmdir sínar, fjármögnun þeirra og rekstur fyrirtækisins í heild.

 

3. gr.

Orkusvæði.

                Orkusvæði Landsvirkjunar er landið allt eftir því sem raforkuver hennar og stofnlínukerfi spanna.

                Landsvirkjun annast alla raforkuvinnslu fyrir orkusvæði sitt að undanskilinni þeirri raforkuvinnslu, sem öðrum aðilum er heimiluð lögum samkvæmt.

                Afhendingarstaðir rafmagns frá Landsvirkjun eru þessir:

a.             Aflstöðvar fyrirtækisins:

                                Aflstöðvar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu

                                Aflstöðvar við Sog

                                Aflstöð við Blöndu

                                Aflstöðvar við Laxá

                                Aflstöð í Bjarnarflagi

                                Aflstöð við Kröflu

b.             Eftirfarandi spennistöðvar, sem Landsvirkjun á og rekur að hluta eða öllu leyti:

                                Spennistöð á Nesjavöllum í Þingvallasveit

                                Spennistöðin Hamranes við Hafnarfjörð

                                Spennistöðin Korpa hjá Reykjavík

                                Spennistöð á Brennimel í Hvalfirði

                                Spennistöð við Vatnshamra í Borgarfirði

                                Spennistöð við Hrútatungu í Hrútafirði

                                Spennistöð við Laxárvatn í Húnavatnssýslu

                                Spennistöð við Varmahlíð í Skagafirði

                                Spennistöð á Rangárvöllum, Akureyri

                                Spennistöð á Hryggstekk í Skriðdal

                                Spennistöð við Hóla í Hornafirði

                                Spennistöð við Glerárskóga í Dalasýslu

                                Spennistöð í Geiradal í Austur-Barðastrandasýslu

                                Spennistöð við Mjólká í Arnarfirði

                                Spennistöð við Prestbakka hjá Kirkjubæjarklaustri

                                Spennistöð Rafmagnsveitna Reykjavíkur við Jórukleif í Grafningi

                                Spennistöð Rafmagnsveitna Reykjavíkur við Reykjahlíð í Mosfellsbæ

                                Spennistöð Rafmagnsveitna Reykjavíkur við Elliðaár í Reykjavík

c.             Spennistöð Rafmagnsveitna ríkisins við Teigarhorn í Berufirði

d.             Spennistöð ÍSAL í Straumsvík

                Spennistöð Íslenska járnblendifélagsins hf. á Grundartanga

e.             Aðrir afhendingarstaðir, eftir því sem stjórn Landsvirkjunar ákveður

                Stjórn Landsvirkjunar ákveður breytingar á afhendingarstöðum, og er Landsvirkjun heimilt að reisa og reka orkuveitur til að tengja orkuver sín við landskerfið og bæta við þær eftir þörfum.

                Landsvirkjun er heimilt með samningum að kaupa raforkuver og stofnlínukerfi af öðrum aðilum og starfrækja þessi mannvirki.

                Landsvirkjun ber að hafa forgöngu um virkjanir á orkusvæði sínu svo að tryggt verði að afl- og orkuþörf viðskiptavina fyrirtækisins verði ávallt fullnægt. Einnig ber Landsvirkjun að kappkosta styrkingu og frekari uppbyggingu meginstofnlínukerfis síns með það fyrir augum að tryggja sem best rekstraröryggi Landsvirkjunarkerfisins í heild.

 

4. gr.

Eignir.

                Landsvirkjun er eigandi raforkuvera, stofnlína, annarra mannvirkja, vatnsréttinda, landsréttinda og búnaðar ýmis konar, sem fyrirtækið hefur sjálft komið upp á starfsferli sínum eða eignast með eftirfarandi hætti fyrir tilhlutan eignaraðila eða með samningum við þá:

a.             Með yfirtöku á eignum Sogsvirkjunar, vatnsréttindum við Sog og í Þjórsá og Tungnaá og fleiri eignum, sem lagðar voru fram við stofnun fyrirtækisins og vegna virkjana í Tungnaá samkvæmt sameignarsamningi stofnenda frá 1. júlí 1965 og lögum nr. 59/1965 um Landsvirkjun.

b.             Við sameiningu Laxárvirkjunar við Landsvirkjun samkvæmt sameignarsamningi frá 27. febrúar 1981 milli ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar.

c.             Við yfirtöku á byggðalínum, aðveitustöðvum og undirbúningi að virkjanaframkvæmdum samkvæmt samningi milli ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar frá 11. ágúst 1982.

d.             Með framkvæmdum og kaupum eftir 1. júlí 1983.

 

5. gr.

Leyfi ráðherra til framkvæmda.

                Til byggingar nýrra raforkuvera og meginstofnlína þarf Landsvirkjun leyfi ráðherra þess sem fer með orkumál. Áður en byrjað er á nýjum mannvirkjum, hvort heldur eru raforkuver eða meginstofnlínur, skal Landsvirkjun senda ráðherra þeim, sem fer með orkumál, uppdrætti af hinum fyrirhuguðu mannvirkjum, ásamt lýsingu á þeim.

                Getur ráðherra krafist þeirra breytinga á fyrirhugaðri tilhögun mannvirkja sem nauðsynlegar kunna að þykja vegna almenningshagsmuna.

 

II. KAFLI

6. gr.

Stjórn.

                Stjórn Landsvirkjunar skal skipuð sjö mönnum. Ráðherra orkumála skipar þrjá stjórnarmenn, borgarstjórn Reykjavíkur kýs þrjá stjórnarmenn og bæjarstjórn Akureyrar kýs einn. Ráðherra orkumála skipar formann stjórnarinnar úr hópi þeirra stjórnarmanna sem hann skipar.

                Varamenn, jafnmargir, skulu kosnir og skipaðir á sama hátt.

                Kjörtímabil stjórnarinnar skal vera eitt ár í senn, frá ársfundi Landsvirkjunar á viðkomandi ári til ársfundar á næsta ári.

                Stjórnarmenn Landsvirkjunar hafa réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna.

 

7. gr.

Stjórnarfundir.

                Stjórn Landsvirkjunar ákveður sjálf starfshætti sína eða fundarhöld. Stjórnarfundir skulu haldnir eftir þörfum. Skylt er að halda fund, þegar tveir stjórnarmenn eða einhver eignaraðila óskar þess. Stjórnarfundur er lögmætur, ef formaður sækir hann og þrír aðrir stjórnarmenn. Nú verður fundur ólögmætur og skal þá boða fund á ný innan 14 daga og geta þess í fundarboði, að hann verði haldinn í stað þess fundar, er áður var boðað til og eigi varð lögmætur. Er hinn síðari fundur þá lögmætur og ályktunarfær um þau mál, er ræða átti á fyrri fundinum. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum máls. Atkvæði stjórnarformanns vegur tvöfalt.

                Forstjóri og aðstoðarforstjóri skulu sitja stjórnarfundi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

                Halda skal sérstaka gerðabók um fundi stjórnar Landsvirkjunar og er heimilt að ráða sérstakan mann utan stjórnar til að færa gerðabókina. Í gerðabók skal getið, hvar og hvenær fundur sé haldinn svo og hverjir sitji fundinn. Þar skal og greint í stuttu máli frá þeim málum, sem tekin eru fyrir á fundi og hverja afgreiðslu þau fá. Hver stjórnarmaður á rétt á því, að sérstaklega séu bókaðar eftir honum stuttar athugasemdir svo og forstjóri og aðstoðarforstjóri. Fundargerðir skulu bornar upp til samþykktar og undirritaðar af þeim stjórnarmönnum, sem fund sitja.

                Ársfundur Landsvirkjunar ákveður þóknun til stjórnarmanna fyrir liðið kjörtímabil.

 

8. gr.

Verksvið stjórnar.

                Stjórn Landsvirkjunar fer með málefni fyrirtækisins og skal annast um að skipulag Landsvirkjunar og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn og forstjóri fara saman með stjórn fyrirtækisins. Í verksviði stjórnar felst meðal annars:

1.             Að gæta hagsmuna fyrirtækisins í hvívetna og marka heildarstefnu þess á hverjum tíma.

2.             Að ákveða heildarskipulag Landsvirkjunar og ráða forstjóra hennar og aðra fyrirsvarsmenn fyrirtækisins, sbr. 9. gr. þessarar reglugerðar.

3.             Að taka ákvarðanir um byggingu nýrra aflstöðva og aðalorkuveitna og um aðrar framkvæmdir og starfsemi Landsvirkjunar.

4.             Að taka lán og gefa út skuldabréf í innlendri og erlendri mynt og gefa út aðrar ábyrgðaryfirlýsingar í þágu fyrirtækisins og veðsetja eignir þess í sama skyni svo sem lög heimila hverju sinni.

5.             Að marka fjármálastefnu Landsvirkjunar og ákveða heildsöluverð hennar á rafmagni, sbr. 13. gr. þessarar reglugerðar. Stjórn Landsvirkjunar setur gjaldskrá og almenna skilmála um sölu háspennts rafmagns og gerir rafmagnssamninga við viðskiptavini hennar, sbr. 16. gr. þessarar reglugerðar.

6.             Að annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna Landsvirkjunar.

                Til að skuldbinda fyrirtækið þarf undirskrift stjórnarformanns og þriggja stjórnarmanna. Þó getur stjórnin veitt færri stjórnarmönnum svo og mönnum utan stjórnar umboð til að skuldbinda fyrirtækið, þegar sérstaklega stendur á.

                Stjórn Landsvirkjunar veitir prókúruumboð fyrir Landsvirkjun. Forstjóri skal hafa slíkt umboð, en heimilt er einnig að veita öðrum starfsmönnum fyrirtækisins prókúruumboð ef þörf krefur að dómi stjórnarinnar. Prókúruumboð þessi skulu skráð.

 

9. gr.

Fastráðnir starfsmenn.

                Stjórn Landsvirkjunar ræður forstjóra, er veitir fyrirtækinu forstöðu, og setur honum erindisbréf. Hún ræður einnig aðstoðarforstjóra fyrirtækisins, framkvæmdastjóra fjármála- og markaðssviðs, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs og framkvæmdastjóra verkfræði- og framkvæmdasviðs svo og aðra hliðstæða starfsmenn þess að fengnum tillögum forstjóra. Aðstoðarforstjóri er staðgengill forstjóra í forföllum hans.

                Forstjóri ræður aðra starfsmenn Landsvirkjunar. Stjórnin setur starfsreglur fyrir starfsmenn að fengnum tillögum forstjóra og semur um starfskjör þeirra.

                Fastráðnir starfsmenn Landsvirkjunar hafa réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna.

 

10. gr.

Verksvið forstjóra.

                Forstjóri fer ásamt stjórn Landsvirkjunar með stjórn fyrirtækisins. Forstjóri annast daglegan rekstur fyrirtækisins og skal í þeim efnum fara eftir markaðri stefnu stjórnar og stjórnarákvörðunum. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur forstjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi fyrirtækisins. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Forstjóri skal sjá um að bókhald fyrirtækisins sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna fyrirtækisins sé með tryggilegum hætti. Forstjóri skal ekki taka að sér störf í þágu annarra en Landsvirkjunar, nema með leyfi stjórnar. Hann getur falið öðrum aðilum framkvæmd tiltekinna verkefna í umboði sínu og í samræmi við þær reglur, sem stjórnin kann að setja um slíkt. Forstjórinn skal eiga sæti á stjórnarfundum og hafa þar málfrelsi og tillögurétt, nema tekin séu fyrir mál, sem varða hann persónulega. Forstjóri ræður starfsmenn Landsvirkjunar og segir þeim upp, sbr. 9. gr.

 

11. gr.

Ársfundur.

                Halda skal í aprílmánuði ár hvert ársfund Landsvirkjunar. Stjórn fyrirtækisins ákveður fundardag og fundarstað og boðar til fundarins með eigi minna en 30 daga fyrirvara, með bréfi eða skeyti til eignaraðila.

                Rétt til setu á ársfundi eiga einn fulltrúi hvers eignaraðila, stjórn og forstjóri Landsvirkjunar og löggiltur endurskoðandi fyrirtækisins svo og þeir sem eignaraðilar og stjórn fyrirtækisins bjóða sérstaklega til fundarins. Ráðherra orkumála tilnefnir fulltrúa ríkissjóðs á ársfundinum. Atkvæðisréttur eignaraðila á ársfundi skal vera í samræmi við eignarhluta hvers þeirra.

                Á ársfundi Landsvirkjunar skulu tekin fyrir þessi mál:

1.             Skýrsla stjórnar um starfsemi Landsvirkjunar síðastliðið starfsár.

2.             Ársreikningur Landsvirkjunar fyrir liðið reikningsár ásamt skýrslu endurskoðanda fyrirtækisins lagður fram til staðfestingar.

3.             Ákvörðun um arðgreiðslur til eigenda Landsvirkjunar og um aðra meðferð hagnaðar eða taps Landsvirkjunar á reikningsárinu.

4.             Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir liðið kjörtímabil.

5.             Lýst kjöri stjórnar.

6.             Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarfélags.

7.             Umræður um önnur mál.

                Ársfundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað. Stjórnarformaður setur fundinn og stýrir kjöri fundarstjóra og fundarritara. Halda skal gerðabók fyrir ársfundinn þar sem getið er hvar og hvenær fundur sé haldinn og hverjir sitji hann og greint í stuttu máli frá þeim umræðum, sem fara fram á fundinum og ákvörðunum sem þar eru teknar.

 

12. gr.

Samráðsfundur.

                Halda skal sérstakan samráðsfund Landsvirkjunar þegar að loknum ársfundi fyrirtækisins ár hvert. Skal fundurinn haldinn sama dag og ársfundur Landsvirkjunar er haldinn eða svo fljótt þar á eftir sem við verður komið. Stjórn Landsvirkjunar ákveður fundardag og fundarstað og boðar til fundarins með eigi minna en 30 daga fyrirvara, með bréfi eða skeyti til þeirra aðila, er skipa fulltrúa á fundinn.

                Fulltrúar á samráðsfundi skulu vera fjórir menn tilnefndir af ráðherra orkumála, fjórir menn kosnir af Reykjavíkurborg og fjórir kosnir af Akureyrarbæ. Þá skulu hver hinna einstöku landshlutasamtaka sveitarfélaga eiga rétt á að kjósa á aðalfundi sínum fjóra menn til setu á samráðsfundinum. Skal kosning eða tilnefning vera til eins árs og fara fram svo tímanlega, að unnt sé að tilkynna stjórn Landsvirkjunar nöfn fulltrúanna eigi síðar en 14 dögum fyrir fundinn.

                Varamenn jafnmargir skulu skipaðir eða kosnir á sama hátt og aðalfulltrúar.

                Landsvirkjun greiðir kostnað við samráðsfundinn eftir nánari ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar.

                Stjórn Landsvirkjunar og forstjóri og fráfarandi stjórn skulu sitja samráðsfundinn svo og þeir sem stjórnin býður sérstaklega til fundarins. Í þeim hópi skal vera a.m.k. einn fulltrúi frá hverjum þingflokki. Ennfremur skulu sitja samráðsfundinn þeir starfsmenn Landsvirkjunar sem forstjóri tilnefnir.

                Á samráðsfundinum skal gera grein fyrir framkvæmdum á næstliðnu og yfirstandandi ári, kynna afkomu Landsvirkjunar og þær framkvæmda- og markmiðsáætlanir sem unnið er eftir og ræða þau atriði er þar koma fram. Skal þar sérstaklega fjalla um mál er varða öryggi í vinnslu og flutning raforku um landið, svo og atriði er varða raforkuverð.

                Á fundinum skal, eftir því sem ástæða er til, ræða virkjun orkulinda landsins eða einstakra landshluta og um dreifingu og nýtingu raforkuframleiðslunnar.

                Loks skal taka fyrir önnur mál.

                Óski fulltrúi á samráðsfundi að taka til meðferðar sérstakt umræðuefni, undir dagskrárliðnum önnur mál, er varðar málefni Landsvirkjunar, skal hann tilkynna það skrifstofu Landsvirkjunar með minnst 1 viku fyrirvara og skal þá geta þess í dagskrá fundarins, sem dreifa skal á fundinum.

                Samráðsfundur gerir ekki ályktanir.

                Samráðsfundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað. Stjórnarformaður setur fundinn og stýrir kjöri fundarstjóra og fundarritara. Halda skal gerðabók fyrir samráðsfundinn þar sem getið er hvar og hvenær fundur sé haldinn og hverjir sitji hann og greint í stuttu máli frá þeim umræðum, sem fara fram á fundinum.

 

III. KAFLI

13. gr.

Fjármálaákvæði.

                Stjórn Landsvirkjunar setur gjaldskrá fyrir Landsvirkjun. Í gjaldskrá skal raforkuverðið við það miðað að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins. Einnig skal að því stefnt að fyrirtækið skili nægilegum greiðsluafgangi til þess að það geti jafnan með eigin fjármagni og hæfilegum lántökum tryggt notendum sínum næga raforku. Sama gjaldskrá skal gilda um sölu rafmagns til almenningsrafveitna á öllum afhendingarstöðum Landsvirkjunar.

                Ársfundur Landsvirkjunar tekur ákvörðun um meðferð hagnaðar eða taps Landsvirkjunar samkvæmt ársreikningi. Landsvirkjun greiðir eigendum sínum arð af eigendaframlögum sem þeir hafa lagt fram og munu leggja fram til fyrirtækisins, sbr. 5. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun og 14. gr. sameignarsamnings frá 27. febrúar 1981 með áorðnum breytingum. Eigendaframlög sem eigendur Landsvirkjunar hafa lagt fram, svo sem þau hafa verið endurmetin miðað við 31. desember 1995, sbr. samning eignaraðila frá 28. október 1996 um breytingu á sameignarsamningi aðila, og eigendaframlög, er síðar kunna að verða lögð fram, skulu framreiknuð til verðlags hvers tíma samkvæmt byggingarvísitölu og ákveður ársfundur Landsvirkjunar, að fenginni tillögu stjórnar, arðgreiðslu sem hundraðshluta þeirrar fjárhæðar. Arðgreiðslan skal ákveðin með hliðsjón af afkomu fyrirtækisins og yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum.

                Stjórn Landsvirkjunar ákveður afskriftartíma eigna og er heimilt að ákveða afskriftir með hliðsjón af endurnýjunarverði og taka tillit til afborgana lána við ákvörðun heildsöluverðs á rafmagni frá Landsvirkjun, ef afborganir eru hærri en afskriftir. Við gjaldskrárákvarðanir og í samningum um raforkuverð ber stjórn Landsvirkjunar að reikna vexti af eigin fé fyrirtækisins.

                Forstjóri semur fyrir hvert reikningsár fjárhagsáætlun fyrir Landsvirkjun og leggur hana fyrir stjórnina til samþykktar eigi síðar en 1. nóvember árið áður, en stjórnin sendir samþykkta áætlun til eigenda Landsvirkjunar eigi síðar en 1. desember.

 

14. gr.

Lántökur.

                Landsvirkjun er heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og að taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni, sbr. 4. tölul. 8. gr. Að því leyti, sem nýjar skuldbindingar og ábyrgðir fara fram úr 5% af höfuðstól (bókfærðu eigin fé í lok næstliðins árs) á ári hverju, þarf Landsvirkjun að leita samþykkis eignaraðila til að tryggja ábyrgð þeirra skv. 1. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun.

                Af hálfu ríkisins þurfa ráðherrar orku- og fjármála að staðfesta slíkt samþykki.

 

15. gr.

Ársreikningur og endurskoðun.

                Starfsár Landsvirkjunar og reikningsár er almanaksárið.

                Stjórn Landsvirkjunar og forstjóri skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár og skal hann gerður samkvæmt lögum og góðri reikningsskilavenju og skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, yfirlit um sjóðstreymi og skýringar. Í ársreikningi skal greina að vinnslu, flutning og aðra starfsemi.

                Ársfundur Landsvirkjunar kýs löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til að endurskoða reikninga fyrirtækisins samkvæmt tillögu Ríkisendurskoðunar, borgarendurskoðunar Reykjavíkur og endurskoðanda Akureyrarbæjar.

                Endurskoðandi skal endurskoða ársreikning Landsvirkjunar í samræmi við lög og góða endurskoðunarvenju og í því sambandi kanna bókhaldsgögn fyrirtækisins og aðra þætti er varða rekstur þess og stöðu. Endurskoðandi skal að lokinni endurskoðun árita ársreikninginn og skal áritunin fylgja ársreikningnum sem skýrsla hans.

 

IV. KAFLI

16. gr.

Gjaldskrá, orkusölusamningar, samrekstrarsamningar og

almennir skilmálar um sölu háspennts rafmagns.

                Stjórn Landsvirkjunar setur gjaldskrá og almenna orkusöluskilmála fyrir fyrirtækið. Í orkusöluskilmála skal setja ákvæði um heimild Landsvirkjunar til almennra takmarkana á afhendingu rafmagns, um rekstrartruflanir og rekstrarstöðvanir og um skaðabótaskyldu og takmarkanir hennar.

                Landsvirkjun gerir orkusölusamninga við almenningsrafveitur og iðjuver í samræmi við gjaldskrá sína (sbr. 13. gr.), almenna skilmála um sölu háspennts rafmagns og reglugerð þessa.

                Landsvirkjun gerir samrekstrarsamninga við raforkuframleiðendur, sem tengjast stofnlínukerfi fyrirtækisins.

 

17. gr.

Opinber gjöld.

                Landsvirkjun er undanþegin tekjuskatti, eignarskatti, stimpilgjöldum vegna lána, sem fyrirtækið tekur, eða vegna eignaafsala til fyrirtækisins, útsvari, svo og öðrum gjöldum til sýslusjóða og sveitarfélaga. Þó skal Landsvirkjun greiða til sveitarfélaga þau opinberu gjöld sem þeim er gert að greiða af húseignum Landsvirkjunar skv. öðrum lagafyrirmælum.

 

18. gr.

Eignarnám.

                Að fengnu leyfi ráðherra getur Landsvirkjun tekið eignarnámi vatnsréttindi, lönd, mannvirki og önnur réttindi, sem nauðsynleg eru til framkvæmda á vegum Landsvirkjunar. Um framkvæmd eignarnámsins skal fara eftir lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

19. gr.

Fjölgun eignaraðila.

                Sýslufélögum, sveitarfélögum, samtökum þessara aðila og sameignarfélögum þeirra er heimilt að gerast eignaraðilar að Landsvirkjun með tilteknum skilyrðum eins og á er kveðið í 17. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun. Komi til fjölgunar eignaraðila samkvæmt þeirri heimild eða með öðrum hætti, skal taka reglugerð þessa til endurskoðunar.

 

20. gr.

Gildistaka.

                Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 20. gr., sbr. 8.-11. gr. laga nr. 42 23. mars 1983 um Landsvirkjun, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi og kemur í stað reglugerðar fyrir Landsvirkjun nr. 760 frá 16. nóvember 1983.

 

Iðnaðarráðuneytinu, 23. apríl 1997.

 

Finnur Ingólfsson.

Halldór J. Kristjánsson.

 

 

Reglugerð sem fellur brott:
Þetta vefsvæði byggir á Eplica