Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. apríl 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 10. des. 1999

122/1992

Reglugerð um Rafmagnsveitur ríkisins

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Stjórn og rekstur.

1. gr. Markmið Rafmagnsveitna ríkisins

Rafmagnsveitur ríkisins er fyrirtæki, sem ríkisstjórnin stofnaði og starfrækir samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1967. Rafmagnsveiturnar eru eign ríkisins, en reknar sem sjálfstætt fyrirtæki.

Tilgangur Rafmagnsveitnanna er að annast á orkuveitusvæði sínu öflun, dreifingu og sölu raforku og varmaorku, svo og aðra starfsemi sem því tengist.

2. gr. Verksvið.

Rafmagnsveitur ríkisins afla orku með því að vinna hana í eigin orkuverum eða orkuverum, sem þær eru meðeigendur að, eða kaupa hana af öðrum orkuframleiðendum. Þær flytja orkuna um eigin aðalorkuveitur eða orkuveitur annarra til rekstrarsvæðanna. Þær selja raforku í heildsölu til rafveitna og dreifa raforku og varmaorku um eigin orkuveitusvæði og selja hana þar einstökum notendum í smásölu.

3. gr. Einkaréttur og orkuveitusvæði.

Rafmagnsveiturnar hafa einkarétt til raforkudreifingar á núverandi orkuveitusvæði þeirra.

Rafmagnsveiturnar hafa einkarétt til dreifingar og sölu á heitu vatns í lögsagnarumdæmum Siglufjarðarkaupstaðar, bæjarfélagsins Hafnar í Hornafirði og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Ráðherra ákveður staðarmörk orkuveitusvæðis Rafmagnsveitnanna.

4. gr. Rekstrarsvæði.

Orkuveitusvæðum Rafmagnsveitna ríkisins er skipt í rekstrarsvæði. Annast sérstakur svæðisrafveitustjóri daglegan rekstur veitukerfis eins eða fleiri þessara svæða, undir yfirstjórn rafmagnsveitustjóra ríkisins.

5. gr. Yfirstjórn.

Yfirstjórn Rafmagnsveitna ríkisins er í höndum þess ráðherra sem fer með orkumál.

Rafmagnsveitustjóri er forstjóri Rafmagnsveitnanna og hefur, í umboði ráðherra, á hendi stjórn á rekstri þeirra og framkvæmdum.

Þeim háttum, sem hagkvæmt þykir að sameina í rekstri hinna einstöku rekstrarsvæða, er stjórnað og þeir framkvæmdir frá aðalskrifstofu Rafmagnsveitnanna.

6. gr. Ársfundur.

Halda skal ársfund á vegum Rafmagnsveitna ríkisins fyrir júnílok ár hvert. Stjórn Rafmagnsveitna ríkisins ákveður fundardag og fundarstað og boðar til fundarins með eigi minna en 45 daga fyrirvara, með bréfi til þeirra aðila, er skipa fulltrúa á fundinn. Í bréfinu skal dagskrá fundarins kynnt. Ársfundinn sitja eftirtaldir aðilar:

  1. Stjórn Rafmagnsveitna ríkisins.
  2. Aðrir fulltrúar Rafmagnsveitna ríkisins valdir af rafmagnsveitustjóra.
  3. Tveir fulltrúar valdir af iðnaðarráðherra.
  4. Einn fulltrúi valinn af fjármálaráðherra.
  5. Einn fulltrúi frá hverjum þingflokki.
  6. Fulltrúar orkukaupenda sem skulu valdir þannig:

    1. Einn fulltrúi frá hverri héraðsnefnd á orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins.
    2. Einn fulltrúi frá hverri bæjarstjórn þeirra kaupstaða á orkuveitusvæði Rafmagnsveitnanna sem ekki eru aðilar að héraðsnefndum.
    3. Einn fulltrúi frá hverri almenningsveitu, sem kaupir orku af Rafmagnsveitunum.
  7. Aðrir gestir sem rafmagnsveitustjóri býður til fundarins.

Kosningu eða tilnefningu skal tilkynna stjórn Rafmagnsveitna ríkisins eigi síðar en 14 dögum fyrir fundinn.

Á ársfundi skal leggja fram til kynningar skýrslu um starfsemi og ársreikning Rafmagnsveitna ríksins fyrir liðið ár og kynna fjárhagsafkomu fyrirtækisins. Einnig skal gera grein fyrir markaðsmálum og öðrum málum sem varða samskipti Rafmagnsveitnanna og orkukaupenda og ræða þau atriði.

7. gr. Stjórn.

Ráðherra skipar á ársfundi sjö menn í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins, rafmagnsveitustjóra til ráðuneytis til eins árs í senn. Stefnt skal að því að stjórnarmenn komi frá mismunandi landshlutum og af orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins. Hlutverk stjórnar er að fylgjast með að skipulag og starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins sé jafnan í réttu og góðu horfi. Þá fjallar stjórnin um meginstefnu í starfsemi fyrirtækisins og skal rafmagnsveitustjóri kynna stjórninni þau málefni sem talist geta haft veruleg áhrif á starfsemi og afkomu fyrirtækisins, áður en ákvörðun er tekin um þau. Meðal þeirra mála sem þar geta fallið undir eru framkvæmdaáætlanir, gjaldskrármál, skipulagsmál og framtíðarstefnumörkun. Um starfskjör stjórnarmanna fer samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

Nú lætur stjórnarmaður af störfum á skipunartíma og skal ráðherra þá þegar skipa annan mann í hans stað.

8. gr. Verksvið rafmagnsveitustjóra.

Rafmagnsveitustjóri stjórnar rekstri Rafmagnsveitna ríkisins, sér um viðhald og umbætur, og allt er að rekstri þeirra lýtur, kaup og sölu orku, fjárhald og reikningsskil. Hann ræður starfsmenn Rafmagnsveitnanna. Hann skipuleggur verkaskiptingu starfsmanna.

Rafmagnsveitustjóri semur árlega skýrslu um starfsemi Rafmagnsveitnanna og sendir ráðherra, ásamt efnahags- og rekstrarreikningi þeirra og kostnaðarreikningi yfir mannvirki í smíðum, svo og aðrar skýrslur, sem ráðherra kann að óska eftir. Hann gerir og árlega fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og sendir ráðherra svo snemma, að fylgt geti fjárlagafrumvarpi til Alþingis. Hann gerir tillögur um nýjar orkuveitur og orkuver og aukningu eldri virkja. Á fjárhagsáætlun skal taka upp tillögur um lántöku og fjáröflun til framkvæmda og um ráðstöfun á eigin fé Rafmagnsveitnanna. Áður en ráðist er í að koma upp orkuveitu eða reisa orkuver, gerir rafmagnsveitustjóri, að undangenginni rannsókn, nákvæmar áætlanir um tekjur og gjöld af þeim.

Rafmagnsveitustjóri gerir tillögur um gjaldskrár fyrir Rafmagnsveiturnar og sendir ráðherra til staðfestingar.

9. gr. Reikningshald og ráðstöfun tekna.

Rafmagnsveitur ríkisins skulu hafa sjálfstæðan fjárhag og sjálfstætt reikningshald. Reikningsár Rafmagnsveitnanna er almanaksárið og skulu endurskoðaðir reikningar fylgja ríkisreikningi.

Gjaldskrá skal við það miðuð að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins. Einnig skal að því stefnt að fyrirtækið skili nægilegum greiðsluafgangi til þess að það geti jafnan með eigin fjármagni og hæfilegum lántökum tryggt notendum sínum næga orku á hagkvæmasta verði.

Tekjum Rafmagnsveitna ríkisins skal fyrst og fremst varið til að standa straum af nauðsynlegum rekstrarkostnaði og fjárfestingu þannig að öruggur rekstur veitunnar sé tryggður, þar með talin greiðsla afborgana og vaxta af skuldum hennar. Ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps skal ákveðin í samræmi við lög og reglugerðir. Heimilt er að leggja allt að 10% af tekjum í varasjóð.

A. Rafmagnsveita.

II. KAFLI Húsveitur og tenging þeirra.

10. gr. Eigandi - notandi veitu.

Eigandi húsveitu eða annarrar veitu, sem tengist veitukerfi Rafmagnsveitna ríkisins, nefnist húseigandi (veitueigandi). Kaupandi orku, sá sem ber ábyrgð á greiðslu hennar, nefnist notandi.

11. gr. Umsókn um heimtaug

Umsókn um heimtaug eða breytingu á heimtaug skal undirrituð af húseiganda er skuldbindur sig til þess með undirskrift sinni að greiða tengigjald það sem ákveðið er í verðskrá Rafmagnsveitna ríkisins og að hlíta settum reglum um kaup á raforku frá Rafmagnsveitunum. Skal í umsókninni skýrt frá hve mikið afl þarf og til hvers það er ætlað.

Rafmagnsveiturnar geta krafist þess að skrifleg greinargerð, byggð á tækniþekkingu, sé lögð fram varðandi áætlun um afl- og orkunotkun.

Sé um tiltölulega mikla notkun að ræða og Rafmagnsveiturnar þurfa, til þess að fullnægja henni sérstaklega, að auka háspennukerfi, auka afl spennistöðvar eða gera meiriháttar viðbætur á lágspennukerfi, er Rafmagnsveitunum heimilt að gera umsækjanda að taka þátt í kostnaði.

Sé um óskipulegt svæði að ræða eða aðstæður óvenjulegar að því er varðar fjarlægð húsveitu frá veitukerfi eða fyrirhugaða raforkunotkun húsveitunnar skal tengigjald ákveðið samkvæmt sérstökum samningi hverju sinni þar sem hliðsjón er höfð af stofnkostnaði við framkvæmdir.

Rafmagnsveitunum er heimilt að krefja húseiganda um greiðslu aukakostnaðar vegna lagningar heimtaugar að ósk hans í frosna jörð.

Heimtaugar með stofnvari eru eign Rafmagnsveitnanna, enda þótt tengigjald hafi verið greitt, nema um annað hafi verið sérstaklega samið.

Rafmagnsveiturnar annast viðhald og endurnýjun heimtauga sinna án sérstaks endurgjalds, nema heimtaug þurfi að breyta vegna breytinga á húsi eða lóð. Skal húseigandi greiða kostnaðinn við þá breytingu. Ef loftlínuheimtaug er breytt í jarðstrengsheimtaug skal húseigandi greiða kostnaðarmun sem ákveðinn er í verðskrá.

12. gr. Rafverktakar.

Rafmagnsveitur ríkisins eða rafverktakaleyfisnefnd, veitir þeim rafverktakaleyfi sem fullnægja skilyrðum og skilmálum Rafmagnsveitnanna.

Skylt er að láta löggilta rafverktaka og/eða Rafmagnsveiturnar, ef þær taka slík verk að sér, framkvæma vinnu við raflagnir og raftæki, hvort heldur er um að ræða nýjar raflagnir, breytingar eða viðgerðir á raflögnum eða raftækjum sem tengjast eiga eða tengd eru við húsveituna. Aðrir mega ekki taka ábyrgð á né vinna nokkurt slíkt verk.

Löggiltir rafverktakar eru skyldir til að veita Rafmagnsveitunum upplýsingar um húsveitur og raftæki sem þeir vinna við og bera ábyrgð á.

13. gr. Eftirlit og úttektir k raflögnum.

Rafmagnsveitur ríkisins hafa eftirlit með raflögnum notenda á orkuveitusvæði sínu. Rafmagnsveiturnar annast úttekt og skoðun á raflögnum skv. reglugerð Rafmagnseftirlits ríkisins um raforkuvirki, svo og skv. beiðni eða að eigin frumkvæði.

Rafmagnsveiturnar geta gert eiganda veitu að greiða kostnað þeirra verka, sem Rafmagnsveiturnar inna af hendi við úttekt raflagna, skoðunargerðir og annað eftirlitsstarf sitt.

Engir aðrir en umboðsmenn Rafmagnsveitna ríkisins mega setja spennu á veitu eða hluta af veitu í fyrsta sinn eftir úttekt. Sé út af þessu brugðið varðar það þann sektum sem verkið er unnið fyrir, þann sem setur spennu á veituna og hinn löggilta rafverktaka er um verkið sá.

Rafmagnsveiturnar taka ekki á sig ábyrgð á veitu með úttekt eða tengingum.

14. gr. Eftirlit með húsveitum og tækjum - Gallar á húsveitum.

Sérhver húsveita að meðtöldum neyslutækjum skal fullnægja kröfum þeim sem settar eru í reglugerð Rafmagnseftirlits ríkisins og tæknireglum Rafmagnsveitna ríkisins. Það telst óleyfilegt, sem ekki fullnægir þessum kröfum. Efni í veitu eða tæki skal viðurkennt af sömu aðilum.

Húseiganda er skylt að sjá um að stofntaugar í húsveitu hans séu ávallt nægilega gildar fyrir notkun veitunnar.

Vélar og önnur tæki skulu vera þannig sett og þannig útbúin að þau starfi án þess að truflun valdi á ljósum eða annarri notkun. Misbrest á þessu eða aðra galla á veitu eða tækjum skal húseigandi eða notandi þegar í stað og á sinn kostnað, láta löggiltan rafverktaka lagfæra.

Komi í ljós við skoðun húsveitu, sem framkvæmd er af Rafmagnsveitum ríkisins, Rafmagnseftirliti ríkisins eða löggiltum rafverktaka, að galli er á veitu eða tækjum skal eigandi veitunnar eða tækjanna skyldur til þess að láta, á sinn kostnað, löggiltan rafverktaka gera við gallana.

Séu gerðar óleyfilegar tengingar eða breytingar á veitu eða tækjum eða sýnt hirðuleysi í meðferð eða viðhaldi veitu eða tækja skal farið með það sem galla á veitu og er heimilt að gera eiganda að greiða þann kostnað sem aukið eftirlit með veitunni hefur í för með sér. Rafmagnsveitustjóri getur látið taka veituna eða tæki úr sambandi, meðan galli er á veitunni eða tækjunum, þar til úr er bætt.

Starfsmenn Rafmagnsveitnanna eiga rétt til þess að hafa óhindraðan aðgang til skoðunar á veitum, jafnt fullgerðum sem ófullgerðum, hvort sem er:

- til athugunar á öryggi þeirra, þ.m.t. neyslutæki.

- til athugunar á mælitækjum og því hvort öll notkun komi rétt til mælis samkvæmt verðskrá.

- til álestrar á mælitæki.

- til lokunar- vegna vanskila og til annarra þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru samkvæmt réttindum og skyldum Rafmagnsveitnanna.

Í sérstakri reglugerð sem staðfest er af iðnaðarráðherra eru sérákvæði um nánari tæknileg tengiskilyrði.

Við eftirlitsstörf sín skulu starfsmenn Rafmagnsveitnanna bera sérstök skilríki sem sýni á vegum hvers þeir eru.

15. gr. Mælitæki.

Rafmagnsveitur ríkisins setja upp nauðsynleg mælitæki og ákveða fjölda þeirra, tegund og staðsetningu. Mælitækin má ekki flytja til án samþykkis Rafmagnsveitnanna en þær geta krafist flutnings þeirra ef það þykir hentugra að dómi rafmagnsveitustjóra.

Notandi mælitækis er sá sem skráður er fyrir raforkunotkun þeirrar veitu sem mælitækið er fyrir. Skal hann bera ábyrgð á mælitækjum og raforkunotkun veitunnar þar til hann lætur af notkun hennar og tilkynnir Rafmagnsveitunum um það.

Rafmagnsveiturnar annast venjulegt viðhald mælitækjanna á sinn kostnað en verði mælitæki fyrir óvenjulegu hnjaski eða skemmdum er heimilt að skylda notanda til að greiða kostnað við viðhald eða endurnýjun þess.

Notandi greiðir leigu fyrir afnot mælitækja skv. verðskrá Rafmagnsveitnanna á hverjum tíma.

Þar sem eitt mælitæki er sett fyrir sameiginlegri notkun fleiri aðila ber notandi, sem skráður er fyrir mælitækinu, ábyrgð á greiðslum vegna hinnar sameiginlegu notkunar. Aðrir notendur bera hver um sig ábyrgð in solidum á greiðslum þessum með hinum skráða notanda.

Breyting á skráningu notanda fyrir sameiginlegri notkun orku um mælitæki verður því aðeins gerð að allir notendur hinnar sameiginlegu notkunar fari fram á það skriflega.

Hætti skráður notandi notkun skal hann í tæka tíð tilkynna það til Rafmagnsveitnanna sem annast lokaálestur. Hafi eigi annar notandi sótt um að fá mælitækið skráð á sitt nafn skal loka því og eigi skal hefja orkusölu á ný um tækið fyrr en tilkynnt hefur verið um nafn og kennitölu nýs notanda.

16. gr. Prófun mælitækja.

Óski notandi að mælitæki verði prófað skal beiðni um það vera skrifleg. Reynist skekkja 4% eða minni er heimilt að gera notanda að greiða kostnað við prófun.

Ef fram kemur við prófun, sem Rafmagnsveiturnar framkvæma, að mælitækið hafi mælt 4% of lítið eða þaðan af minna skal notandinn greiða það sem vanmælt var.

Hafi tækið mælt 4% of mikið eða þaðan af meira skal endurgreiða notandanum mismuninn með frádrætti á næsta orkureikningi eða í reiðufé.

Við prófun mælitækja skal nota mælitæki sem hlotið hafa viðurkenningu viðurkenndra prófunarstofnana.

Rafmagnsveitur ríkisins geta ekki krafist viðbótargreiðslu fyrir lengra tímabil en 1 ár, og sama gildir um kröfu notanda til endurgreiðslu.

Við endurreiknun orkunotkunar skal taka tillit til fyrri notkunar viðkomandi aðila eða annarra aðstæðna sem gefið gætu vísbendingu um það hvenær mælitækið bilaði. Eigi skal reikna vexti af umfram- eða vangreiðslum sem að framan greinir.

Notendur, sem hafa aflmarksmæli eða rofa, eiga ekki rétt á neinni endurgreiðslu á föstu verði, þótt þeir telji sig ekki hafa getað náð því afli, sem fasta greiðslan er miðuð við, en Rafmagnsveitunum er skylt að leiðrétta skekkju mælisins eða rofans, svo fljótt sem við verður komið.

Ef notandi véfengir niðurstöður prófunar á mælitæki skal leita úrskurðar Rafmagnseftirlits ríkisins og er hann bindandi fyrir báða aðila.

Verði raforkunotkun rakin til galla á veitu eða tækjum í eigu notanda, er Rafmagnsveitunum ekki skylt að áætla frádrátt á reikningum notanda af þeim sökum.

Ef svo reynist að notkun hefur orðið meiri en álestur sýnir eða útreikningur á reikningsfjárhæð verið skakkur áskilja Rafmagnsveiturnar sér rétt til að leiðrétta þessa skekkju eftir á undir eins og vitað er um hana.

17. gr. Innsiglun mælitækja.

Starfsmenn Rafmagnsveitna ríkisins hafa heimild til að innsigla mælitæki, sem raforkukaup eru gerð um, svo sem kWh mæla, straumspenna o.þ.h. Einnig mega starfsmenn Rafmagnsveitnanna innsigla hluta veitu sem ómæld orka fer um. Þessi innsigli mega engir aðrir rjúfa en starfsmenn Rafmagnsveitnanna. Önnur innsigli Rafmagnsveitnanna mega rafverktakar rjúfa að fengnu leyfi Rafmagnsveitnanna hverju sinni.

Ef skjótra aðgerða er þörf vegna hættuástands er heimilt að rjúfa innsigli en skal viðkomandi eigi síðar en næsta virkan dag á eftir tilkynna Rafmagnsveitunum skriflega málsatvik.

Veiti notandi eða rafverktaki því athygli að innsigli sé rofið eða vanti, er hann skyldur að tilkynna Rafmagnsveitum ríkisins slíkt án tafar.

B. Hitaveita.

III. KAFLI Húsveitur og tenging þeirra.

18. gr. Eigandi - notandi veitu.

Eigandi húsveitu eða annarrar veitu, sem tengist hitaveitukerfi Rafmagnsveitna ríkisins nefnist húseigandi.

Notandi varma er sá aðili, sem skráður er fyrir mæligrind og ber hann ábyrgð á greiðslum hitaveitugjalda.

19. gr. Val á orkugjafa.

Á þeim hluta orkuveitusvæðis Rafmagnsveitna ríkisins þar sem Rafmagnsveiturnar annast dreifingu á bæði raforku og varmaorku ákveða Rafmagnsveiturnar hvort hús skuli tengd hitaveitukerfi eða hituð með rafhitun.

20. gr. Afhending og notkun varmans.

Varminn er afhentur um veitukerfi Rafmagnsveitnanna samkvæmt gildandi reglugerð og gjaldskrá.

Rafmagnsveitustjóra er heimilt að semja sérstaklega um sölu varma utan almennra söluskilmála til annarra veitna og stórnotenda.

Vatnið (varmagjafinn) sem runnið hefur í gegnum hitunarkerfi húss (bakrennsli) er eign Rafmagnsveitnanna.

Óheimilt er að tengja hvers kyns annan búnað við hina lokuðu varmarás en hitunar- og neysluvatnskerfi húss.

21. gr. Upplýsingaskylda og ábyrgð Rafmagnsveitna ríkisins.

Varmanum er miðlað í formi heits vatns. Rafmagnsveitur ríkisins skulu gefa notendum og húseigendum upplýsingar um þrýsting, hitastig og þess háttar.

Óviðráðanlegar breytingar á þrýstingi, hitastigi eða magni orkumiðilsins eru án ábyrgðar Rafmagnsveitnanna. Um breytingar sem stafa af öðrum ástæðum, skulu Rafmagnsveiturnar tilkynna notendum með hæfilegum fyrirvara.

IV. KAFLI Veitukerfið.

22. gr. Eignarhald og rekstur veitukerfisins.

Rafmagnsveitur ríkisins láta leggja og eiga allar lagnir veitukerfisins, aðveituæðar, stofnæðar, dreifiæðar, götuæðar svo og heimæðar og lagnir innanhúss að og með mæligrindum ásamt tilheyrandi búnaði og annast rekstur og viðhald hans.

23. gr. Tenging við veitukerfið.

Rafmagnsveitur ríkisins annast lagningu eigin veitukerfis og tengingu við húsveitu notanda. Við slíka framkvæmd skulu Rafmagnsveiturnar halda raski í lágmarki og ganga þrifalega um. Jafnframt skulu Rafmagnsveiturnar færa allt til fyrra horfs eins og við verður komið.

Rafmagnsveitum ríkisins er heimilt að leggja heimæð eða sameiginlega heimæð um lóð og húseigandi skal sjá fyrir inntaksstað fyrir hitaveituna við útvegg kjallara eða fyrstu hæðar ef húsið er kjallaralaust, ásamt nauðsynlegu rými fyrir mælagrindur og annað tilheyrandi tengingu við heitavatnskerfið. Þar skal vera niðurfall í gólfi og það húsrými vera aðgengilegt starfsmönnum Rafmagnsveitnanna.

Rafmagnsveiturnar ákveða staðsetningu mælagrindar og inntaks í samráði við húseiganda. Húseigandi á ekki kröfu um sérstaka greiðslu fyrir óþægindi vegna lagningar veitukerfisins.

Rafmagnsveiturnar kosta lagningu eigin veitukerfis, en húseigandi greiðir tengi- og mælagrindargjald samkvæmt gjaldskrá.

24. gr. Breytingar á veitukerfi.

Kostnað við breytingar á húsveitu eða hitunarkerfi húss vegna tengingar við Rafmagnsveitur ríkisins skal húseigandi annast og kosta.

Húseigandi kostar breytingar á heimæðum sem nauðsynlegar eru vegna framkvæmda hans.

Húseigandi skal fyrirfram sækja um leyfi til hverra þeirra framkvæmda, sem kunna að hafa í för með sér röskun á veitukerfi Rafmagnsveitnanna.

25. gr. Aðgangur að húsnæði.

Rafmagnsveitur ríkisins hafa rétt til aðgangs að húsnæði því, sem veitukerfi þeirra liggur um til viðhalds, eftirlits og breytinga.

Ef inntak Rafmagnsveitnanna og mælagrind eru ekki í sama herbergi skal lögn þar á milli vera óhulin eða í stokk sem auðvelt er að opna.

V. KAFLI Húsveitur og tenging þeirra við Rafmagnsveitur ríkisins.

26. gr. Umsókn um húsveitu.

Áður en hafist er handa um lögn nýrra hitunarkerfa eða breytingar á eldri kerfum, skal sækja um varmakaupin eða breytinguna til Rafmagnsveitna ríkisins á þar til gerðum eyðublöðum. Umsóknin skal undirrituð af eiganda hússins eða fullgildum umboðsmanni hans ásamt pípulagningarmeistara þeim sem verkið á að annast. Umsókn skulu fylgja teikningar samþykktar af hlutaðeigandi byggingar- og skipulagsnefnd.

Teikningar skulu uppfylla almennar reglur um hönnun heitavatnslagna, lofthitunarkerfa og loftræstikerfa, reglur byggingasamþykkta og byggingaskilmála.

Komi í ljós að verk sé eigi framkvæmt samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, reglugerð um hitalagnir, eða öðrum reglum er settar kunna að verða, geta Rafmagnsveitur ríkisins stöðvað verkið þar til úr því verður bætt.

27. gr. Mælitæki og prófun þeirra.

Rafmagnsveitur ríkisins ákveða stærð og gerð mæla sem notaðir eru í mælagrind.

Ef notandi óskar að mælir sé prófaður skal hann senda skriflega beiðni þar um til Rafmagnsveitnanna. Komi í ljós við þá athugun að frávik sé 5% eða minna, er heimilt að gera notanda að greiða mælaálestrargjald. Sé frávik meira skulu Rafmagnsveiturnar greiða kostnað við prófunina og leiðrétta reikning notanda í samræmi við niðurstöður hennar, þó ekki fyrir lengra tímabil en tvo mánuði, nema að notandi eða Rafmagnsveiturnar eftir því sem við á, geti sannað að um lengra tímabil hafi verið að ræða, þó lengst fjögur ár.

28. gr. Aðgangur að pípulögnum.

Rafmagnsveitur ríkisins skulu hafa aðgang að hitalögnum bæði innanhúss og utan. Húseiganda/notanda er skylt að láta í té upplýsingar um hitun hússins og heitt neysluvatn sé þess óskað.

29. gr. Prófun pípulagna og tenging hitaveitu.

Pípulagningameistari skal annast prófun hitalagna og vera viðstaddur þegar vatni er hleypt á hitakerfið.

Um tengingu (áhleypingu) skal sækja til Rafmagnsveitna ríkisins með minnst fjögurra daga fyrirvara.

Engir aðrir en umboðsmenn Rafmagnsveitnanna mega hleypa vatni úr veitukerfinu á hitakerfi húsa í fyrsta sinn eftir tengingu.

Sé húsveita tengd veitukerfi Rafmagnsveitnanna í heimildarleysi, geta Rafmagnsveiturnar aftengt húsveituna fyrirvaralaust.

30. gr. Ábyrgð og tilkynningarskylda húseiganda og notanda.

Húseiganda og notanda ber að tilkynna tafarlaust til Rafmagnsveitna ríkisins ef vart verður bilunar á búnaði og tækjum hennar.

Húseigandi og notandi, ef ekki er um sama aðilann að ræða, bera, in solidum ábyrgð á meðferð búnaðar og lagna innanhúss sem eru í eigu Rafmagnsveitnanna og þar með þeim kostnaði við viðgerð eða endurnýjun þess búnaðar, sem verður fyrir skemmdum af völdum notanda.

C. Almenn ákvæði.

VI. KAFLI Skilmálar fyrir orkusölu.

31. gr. Upphaf og lok orkukaupa.

Upphaf og lok samningstíma um orkukaup eru við skráningu tilkynningar þess efnis hjá Rafmagnsveitum ríkisins.

32. gr. Skilyrði orkusölu.

Skilyrði orkusölu er að samþykkt hafi verið umsókn um tengingu viðeigandi húsveitu við veitukerfi Rafmagnsveitnanna.

33. gr. Orkusölusamningar.

Rafmagnsveitur ríkisins selja orku á orkuveitusvæði sínu, þar sem veitukerfi hennar nær til, með þeim skilmálum sem ákveðnir eru í reglugerð þessari, sérreglum um orkuvirki á orkuveitusvæði hennar og gjaldskrá hennar á hverjum tíma.

Rafmagnsveiturnar geta krafist þess að hver sem óskar að gerast notandi orku sæki um það skriflega og geri grein fyrir afl- og orkunotkun og til hverra nota orkan sé ætluð, sbr. einnig 10. gr.

Rafmagnsveiturnar skulu leiðbeina notendum um hagkvæm kaup og notkun raforku sé eftir því leitað.

Á þeim stöðum í veitukerfinu þar sem flutningsgeta þess leyfir ekki umbeðið afl án sérstakra ráðstafana ákveða Rafmagnsveiturnar nánari skilmála.

Rafmagnsveiturnar geta takmarkað sölu samkvæmt sérstökum töxtum vegna rafhitunar. Ef Rafmagnsveiturnar telja nauðsynlegt að komið verði fyrir raforkuvirkjum á viðkomandi lóð í því skyni að sala raforku geti farið þar fram, skal Rafmagnsveitunum látin í té nauðsynleg lóð eða húsnæði fyrir spennistöð, með sérstökum samningi og nauðsynleg lóð eða aðstaða fyrir jarðstrengi, tengiskápa, stólpa og festur fyrir loftlínur, án endurgjalds. Rafmagnsveitunum er heimilt að láta öðrum notendum í té raforku frá spennistöðinni. Kvöð um uppsetningu og rekstur hennar og annarra raforkuvirkja, má þinglýsa á viðkomandi húseign.

Orkuafhendingu má binda því skilyrði að kostnaður vegna sérstakrar fjarlægðar sé greiddur af umsækjanda.

Óski Rafmagnsveiturnar eftir spennubreytingu á húsveitu er húseigendum skylt að hlíta því enda sé breytingin gerð á kostnað Rafmagnsveitnanna. Á sama hátt skulu húseigendur bera kostnað af spennubreytingu á húsveitu, sem þeir hafa óskað eftir og Rafmagnsveiturnar hafa samþykkt, nema sérstakt samkomulag náist um skiptingu kostnaðar.

Framsal til annarra á orku, sem keypt er af Rafmagnsveitunum, er óheimil án leyfis þeirra.

34. gr. Orkureikningar.

Verð á orku skal ákveða í verðskrá. Notandi skal greiða Rafmagnsveitum ríkisins orkukaupin samkvæmt gildandi verðskrá á hverjum tíma. Við verðbreytingar á orku skal reikningsfæra notkun í beinu hlutfalli við gildistíma hverrar verðskrár á því tímabili sem reikningurinn tekur til.

Rafmagnsveiturnar mega grundvalla orkureikninga á áætlun um orkunotkun notanda og innheimta reglulega samkvæmt slíkri áætlun en í henni sé orkunotkuninni jafnað niður á daga. Reikningar, sem byggjast á staðreyndri orkunotkun, nefnast álestrarreikningar en reikningar, sem byggjast á áætlaðri orkunotkun, nefnast áætlunarreikningar.

Raunverulega orkunotkun skal staðreyna ekki sjaldnar en á u.þ.b. 12 mánaða fresti. Þegar orkunotkun hefur verið staðreynd skal hún reikningsfærð og gerð upp fyrir tímabilið milli álestra. Notandi getur jafnan, gegn greiðslu aukagjalds, krafist aukaálestrar og uppgjörs miðað við staðreynda notkun. Ennfremur getur hann óskað eftir breytingu á áætlun um orkunotkun vegna nýrra forsendna.

Reikninga skal senda orkukaupanda á notkunarstað eða annan stað sem hann tiltekur. Rafmagnsveitur ríkisins ákveða gjalddaga reikninga. Útgáfudag reiknings, gjalddaga og greiðslustað skal tilgreina á reikningi.

Verði greiðslufall á reikningi, hvort sem um er að ræða áætlunarreikning eða álestrarreikning, mega Rafmagnsveiturnar áskilja sér og innheimta allan kostnað vegna vanskilanna og dráttarvexti frá og með gjalddaga reiknings til greiðsludags.

35. gr. Vanskil orkureikninga.

Sé orkureikningur ekki greiddur á gjalddaga, eða ef notandi vanefnir skyldur sínar samkvæmt reglugerð þessari eða skriflegum samningi um orkukaup, mega Rafmagnsveiturnar stöðva orkuafhendingu til notanda að undangenginni skriflegri viðvörun sem sendist honum með minnst fimm daga fyrirvara.

Vanskil á greiðslu áætlunarreikninga heimila Rafmagnsveitunum sömu aðgerðir til innheimtu og stöðvunar á orkuafhendingu og vanskil á álestrarreikningum. Rafmagnsveiturnar bera ekki ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum slíkrar stöðvunar.

Beri kaupandi ábyrgð á orkukaupum um fleiri en eina veitu (mæli) má stöðva orkuafhendingu um hverja þeirra sem er, eða allar, vegna vanskila eða vanefnda í sambandi við eina þeirra.

Stöðvun orkuafhendingar vegna vanskila hefur engin áhrif á greiðsluskyldu notanda á skuldum við Rafmagnsveiturnar né heldur greiðsluskyldu á fastagjaldi, aflgjaldi og tækjaleigu á lokunartíma.

Rafmagnsveitur ríkisins hafa rétt til þess að krefja notanda um greiðslu kostnaðar við undirbúning að stöðvun orkuafhendingar (lokun), ennfremur við framkvæmd lokunar, svo og opnun veitunnar.

Rafmagnsveiturnar mega stöðva orkuafhendingu með hverjum þeim hætti sem henta þykir, með rofi á orkuflæði í íbúð eða húsnæði notanda eða utanhúss. Rafmagnsveitunum er ekki skylt að tilkynna notanda um sjálfa stöðvun orkuafhendingarinnar enda sé ekki óeðlilega langur tími liðinn frá viðvörun um hana.

Sé lokað fyrir veitu vegna skulda skal að jafnaði ekki opna aftur nema skuldin sé að fullu greidd og/eða trygging sé sett fyrir skilvísri greiðslu framvegis.

Enginn má rjúfa straum né endurtengja veitu nema þeir, sem Rafmagnsveiturnar hafa veitt umboð til þess hverju sinni. Óleyfilega tengda veitu mega Rafmagnsveiturnar rjúfa fyrirvaralaust.

36. gr. Rekstrartruflanir.

Stöðvun á rekstri eða truflanir vegna bilunar eða takmarkana á orkuvinnslu hefur ekki í för með sér neina skaðabótaskyldu á hendur Rafmagnsveitunum en koma skal á reglulegum rekstri aftur eins fljótt og auðið er. Notendur eiga ekki rétt til endurgreiðslu þótt stöðvun verði vegna bilana eða annarra óviðráðanlegra atvika um langan eða skamman tíma, sbr. þó síðustu mgr. greinar þessarar.

Rafmagnsveiturnar bera ekki ábyrgð á spennubreytingum undir slíkum kringumstæðum né afleiðingum af þeim né heldur af bruna eða slysum sem verða kunna af völdum rafmagns frá veitu rafmagnsnotanda.

Rafmagnsveiturnar áskilja sér rétt til þess að stöðva orkuflutning um veitu vegna viðgerða eða viðhalds eða eftirlits þegar þörf gerist.

Meðan verið er að leggja heimtaug er Rafmagnsveitunum heimilt að stöðva orkuflutning á því svæði sem nauðsynlegt er til þess að framkvæma tengingar.

Komi það fyrir að takmarka þurfi notkun á orku um langan eða skamman tíma ákveða Rafmagnsveiturnar hvernig takmörkun skuli hagað.

Stöðvun á rekstri skal tilkynna fyrirfram, ef unnt er, en þó eiga notendur enga skaðabótakröfu á hendur Rafmagnsveitunum þótt orkuflæði hafi rofnað fyrirvaralaust. Notendur, sem greiða aflgjald, eiga rétt á að fá sem svarar 1/300 hluta aflgjaldsins endurgreiddan fyrir hvern heilan dag er þeir missa raforkuna vegna stöðvunar eða truflana á rekstri, þó eigi fyrir skemmri tíma en tvo sólarhringa. Þetta gildir ekki varðandi lokun vegna vanskila.

37. gr. Breytingar á notkun.

Sérhver orkunotkun, er notandi byrjar á skv. tilteknum taxta (verðskrárlið) Rafmagnsveitna ríkisins, er bindandi fyrir hann í að minnsta kosti 1 ár. Þó geta Rafmagnsveiturnar leyst notanda undan þessari skuldbindingu.

Verði breyting á notkun, þannig að hún geti fallið undir annan taxta, skal umsókn um það send Rafmagnsveitunum með eins mánaðar fyrirvara.

Rafmagnsveiturnar áskilja sér rétt til að segja upp sölu eftir tilteknum taxta með eins mánaðar fyrirvara ef í ljós kemur að notkunin falli undir annan taxta.

38. gr. Ábyrgð notanda.

Notandi ber ábyrgð á notkun um þá veitu, sem hann er skráður fyrir, þar til hann hættir notkuninni og hefur sagt henni upp með tilkynningu til Rafmagnsveitnanna með eðlilegum fyrirvara.

Húseigandi er ábyrgur fyrir tilkynningu til Rafmagnsveitnanna um notendaskipti. Vanræki húseigandi þessa tilkynningaskyldu sína er heimilt að gera hann ábyrgan fyrir ógreiddri orkunotkun þess aðila er áður var notandi viðkomandi veitu.

Rafmagnsveitunum er alltaf skylt að tilkynna húseiganda ef vanskil notanda hafa varað lengur en 6 mánuði.

39. gr. Óleyfileg notkun.

Verði uppvíst að orka sé notuð á annan hátt en um er samið eða að raskað hafi verið mælitækjum eða breytt tengingu, þannig að öll notkun komi ekki fram skulu Rafmagnsveiturnar áætla þá notkun sem fram hefur farið óleyfilega og skal notandi gjalda fyrir hana allt að þreföldu verði eftir verðskrá fyrir allan tímann sem liðinn er frá síðustu skoðun veitunnar og þar til leiðrétt er.

VII. KAFLI Réttarfars- og refsiákvæði.

40. gr. Lögtaksréttur.

Öll gjöld samkvæmt reglugerð þessari og gjaldskrá má innheimta með lögtaki.

41. gr. Refsing.

Brot á reglugerð þessari varða sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum.

42. gr. Málssókn.

Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

43. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem samþykkt er af stjórn Rafmagnsveitna ríkisins er hér með staðfest samkvæmt vatnalögum nr. 15/1923 og orkulögum nr. 58/1967 til að öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt eru felldar úr gildi reglugerðir nr. 112/1968 um Rafmagnsveitur ríkisins, .nr. 244/ 1977 um Hitaveitu Siglufjarðar, nr. 184/1988 um Hitaveitu Hafnar og nr. 561/1981 um Hitaveitu Seyðisfjarðar.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.