Iðnaðarráðuneyti

514/1995

Reglugerð um vinnslu og nýtingu vikurs.

I. KAFLI - Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til vinnslu og nýtingar vikurs, sem unnin er úr jarðmyndunum, á landsvæðum í eigu ríkisins og þeim landsvæðum sem ríkið hefur rétt til jarðefna á grundvelli 1. mgr. 2. gr. námulaga nr. 24/1973.

2. gr.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér greinir:

Frákastsefni: Efni sem leyfishafi fjarlægir ofan af námusvæði eða af öðrum ástæðum er ekki talið nýtanlegt.

Námusvæði: Svæði, eða hluti svæðis, sem leyfi til vinnslu og nýtingar vikurs tekur til.

Leyfishafi: Sá er fengið hefur leyfi til námuvinnslu á þeim landsvæðum sem um getur í 1. gr.

Vinnsluteigur: Hluti námusvæðis sem tekið er til vinnslu sem ein heild.

Vikur: Ljós líparítvikur og dökkur basaltvikur.

II. KAFLI - Ný námusvæði.

3. gr.

Áður en leyfishafi hefur vinnslu á nýju námusvæði skal hann afmarka það nákvæmlega að undangenginni könnun á efnismagni og efnisgæðum á námusvæðinu. Við kannanir skal forðast að spilla landi. Ef grafnar eru gryfjur til athugunar á efni skal moka aftur ofan í þær og slétta yfir. Forðast skal að spilla gróðri og leggja ökuslóðir að óþörfu um námusvæði.

4. gr.

Gera skal uppdrátt af fyrirhuguðu námusvæði og næsta nágrenni, þannig að fram komi helstu landslagseinkenni, mannvirki á svæðinu svo og annað er máli kann að skipta. Uppdráttur þessi skal vera hnitsettur, annað hvort í samræmi við landshnitakerfi eða staðbundið kerfi. Koma skal upp vönduðum fastmerkjum við námusvæðið, þannig að auðvelt sé að mæla inn vinnsluteiga og ástunda aðrar þær mælingar sem nauðsynlegar kunna að vera á svæðinu.

5. gr.

Námusvæðið skal vera reglulegt að lögun og ekki er heimilt að sleppa vinnslu á einstökum hlutum þess vegna staðbundinna aðstæðna eins og t.d. þykkra yfirborðslaga eða þunnra vikurlaga.

Skipta skal námusvæðinu í afmarkaða vinnsluteiga og gera áætlun um vinnsluröð þeirra og vinnslutilhögun, vegagerð og tengingu við vegakerfi, aðstöðu á staðnum, vinnslu efna svo sem hörpun, þvott og önnur atriði er máli skipta um vinnslu og nýtingu námusvæðisins. Hver vinnsluteigur skal að hámarki samsvara eins árs áætlaðri námuvinnslu leyfishafa. Allar staðsetningar skal sýna á uppdrætti.

Vinnsluteigar og námusvæði skulu vera skilgreind og afmörkuð með hnitum.

6. gr.

Leyfishafi skal framkvæma allar ofangreindar aðgerðir og allur kostnaður vegna þeirra borinn af honum. Áður en til námuvinnslu kemur skal leyfishafi leggja fram vinnsluáætlanir sínar og afla samþykktar af iðnaðarráðherra.

III. KAFLI - Reglubundin vinnsla.

7. gr.

Vinna skal hvern vinnsluteig skipulega og samfellt og fullvinna skal hvern vinnsluteig áður en vinnsla er hafin í þeim næsta.

Vinna skal öll vikurlög sem eru 0,3 m eða meira að þykkt, einnig þau vikurlög sem eru á milli ónothæfra jarðlaga eins og fokmoldar og foksands.

Þegar um er að ræða basaltvikur í lögum sem eru 0,3 m eða meira að þykkt skal leyfishafi gera hið ýtrasta til að halda honum aðskildum frá öðrum frákastsefnum og haugsetja sér og ganga þannig frá að unnt sé að nýta hann síðar.

Sé, að mati iðnaðarráðherra, einsýnt að basaltvikur í yfirborðslögum verði til einskis nýtur er heimilt að víkja frá ákvæðum 2. og 3. mgr. þessarar gr. og skal þá heimilað að fjarlægja ónýtanleg yfirborðslög í einu lagi.

Staðsetning hauga skal ákveðin í samráði við iðnaðarráðherra. Lögun og hæð hauga skal vera þannig að þeir falli sem best að landslagi eftir að vinnslu er lokið í viðkomandi vinnsluteig.

8. gr.

Botn í vinnsluteig skal vinna með gröfu þannig að hvergi verði þar eftir þykkara lag af vikri en 0,3 m. Þar sem botn er mjög mishæðóttur og lengd á milli hæða undirliggjandi jarðlags er minna en 3 m er, að fengnu samþykki iðnaðarráðherra, heimilt að víkja frá þessu, enda séu fullnægjandi vinnslutæknileg rök fyrir slíku.

Þegar lokið er vinnslu í tilteknum vinnsluteig skal með úttekt kanna botn hans, að því marki sem iðnaðarráðherra ákveður. Leyfishafi skal leggja til verksins gröfu af hæfilegri stærð og stjórnanda hennar iðnaðarráðherra að kostnaðarlausu. Komi í ljós við úttekt að þykkt vikurs sé meiri en kveðið er á um í 1. mgr. þessarar gr. skal botninn endurunninn þar til viðmiðunarmörkum er náð, sbr. 1. mgr.

Óheimilt er að leggja frákastsefni eða basaltvikur í botn fyrr en samþykkt til þess hefur fengist að undangenginni úttekt á botni.

Leyfishafi skal boða til úttektar á botni vinnslureits strax að vinnslu lokinni og ekki síðar en þrem mánuðum eftir að vinnslu þar lauk. Tilkynning um úttekt skal send iðnaðarráðherra a.m.k. fjórum vikum fyrir úttektardag. Gera skal skriflegar úttektargerðir.

Vanræki leyfishafi að kalla til botnúttektar eða lokaúttektar, sbr. 12. gr. getur iðnaðarráðherra látið viðkomandi úttekt fara fram og flytja á staðinn nauðsynleg tæki til þess að kanna námubotn á kostnað leyfishafa.

9. gr.

Leyfishafi skal reglulega kanna magn vikurs í frákastshaugum með sýnatöku og viðeigandi rannsóknum. Sýni skal ekki taka nær yfirborði en 0,5 m. Leyfishafi skal bera kostnað vegna töku og rannsókna á sex sýnum á ári, en iðnaðarráðherra skal bera kostnað við frekari sýnatöku og rannsóknir, enda séu þær gerðar að kröfu hans.

Sýni vinnslureynsla, að í frákasti sé meira en 20% af vikri miðað við þyngd þess hluta efnisins sem er grófara en 2 mm, skal endurvinna hauga, eða breyta vinnsluaðferðum þar til úrkast inniheldur minna en 15% af vikri miðað við þyngd sama hluta. Þetta ákvæði gildir ekki ef heildarmagn frákasts er minna en 10% af heildarútgreftri í viðkomandi vinnsluteig.

IV. KAFLI - Endurvinnsla á námum.

10. gr.

Leyfishafi skal fela sérfróðum, óháðum aðila að gera úttekt á þeim námusvæðum, sem leyfi hans tekur til og unnin hafa verið fyrir gildistöku þessarar reglugerðar. Tilgangur úttektar þessarar er að staðreyna hvort nýta megi frekar efnisnámu eða frákastsefni. Niðurstöður úttektarinnar skulu vera í skriflegu formi og skal leyfishafi afhenda iðnaðarráðherra úttektina fyrir árslok 1995.

Telji iðnaðarráðherra, á grundvelli úttektar frá leyfishafa eða samkvæmt öðrum athugnum sem hann lætur gera, að nýta megi námusvæði eða frákastsefni betur skal hann beina þeim fyrirmælum til leyfishafa að endurvinna viðkomandi svæði.

Um endurvinnslu námusvæða skulu gilda sömu reglur og um reglubundna vinnslu, sbr. III. kafla reglugerðar þessarar.

Endurvinnsla námusvæða, sem tekin voru til vinnslu fyrir gildistöku reglugerðar þessarar, skal lokið fyrir árslok 1996. Áætlanir leyfishafa um endurvinnslu námusvæða skv. grein þessari skulu lagðar fyrir iðnaðarráðherra til samþykktar.

Leyfishafi skal bera kostnað við sýnatöku og rannsóknir til að ganga úr skugga um að ákvæðum þessum sé fullnægt.

V. KAFLI - Frágangur vinnsluteiga og námusvæða.

11. gr.

Vinnsluteigar og námusvæði skulu þannig frá gengin að mönnum og dýrum stafi ekki hætta af þeim.

Nota skal frákastsefni til þess að fylla upp í gjótur og dældir sem myndast við vikurnámið. Ef kostur er skal sjá til þess að vatn standi ekki uppi í námum heldur hafi eðlilega framrás.

Jafna skal allt laust efni í vinnsluteigum og á námasvæðum og miða við það að efnisrastir verði ekki hærri en 0,1 m. Slóðdraga skal svæði sem blasa við frá alfaraleið. Hauga af vikri sem leyfishafi hefur ekki nýtt skal snyrta og jafna yfirborð þeirra. Fláar skulu ekki vera brattari en 1 lóðrétt á móti 4 lárétt.

Ef gróðurlendi hefur verið spillt skal leyfishafi bæta úr því með því að sá í minnst jafnstórt svæði skv. leiðbeiningum iðnaðarráðherra. Til viðmiðunar skal að því stefnt að hið nýja gróðursvæði sé til frambúðar að gæðum jafngilt því sem spillt var.

Fjarlægja skal öll mannvirki, tæki og annan búnað. Jafna skal út alla vegi og fjarlægja ræsisrör. Þó getur iðnaðarráðherra ákveðið að tilteknir vegir standi óhreyfðir.

Þegar leyfishafi hefur lokið vinnslu og frágangi á tilteknu námasvæði eða vinnsluteig skal hann senda skriflega tilkynningu þess efnis til iðnaðarráðherra. Telji iðnaðarráðherra að frágangi svæðis sé að einhverju leyti ábótavant skal hann beina fyrirmælum til leyfishafa þar sem tilgreint skal skýrlega hverra úrbóta sé þörf og hvenær þeim skuli lokið.

12. gr.

Þegar vinnslu er lokið og frágangi á námusvæði í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar skal leyfishafi boða til lokaúttektar á frágangi svæðisins. Tilkynning um úttekt skal send iðnaðarráðherra a.m.k. fjórum vikum fyrir úttektardag.

Lokaúttekt námusvæðis skal fara fram eigi síðar en sex mánuðum eftir að vinnslu í teignum eða á svæðinu lauk. Gera skal skriflegar úttektargerðir.

Sé frágangi, að mati iðnaðarráðherra, áfátt skal leyfishafi bæta úr því án ástæðulausra tafa og boða aftur til lokaúttektar.

Að lokinni lokaúttekt skal leyfishafi skila iðnaðarráðherra uppdrætti af námusvæðinu sem sýni unnið svæði og helstu efnishauga sem skildir hafa verið eftir til síðari nota.

VI. KAFLI - Upplýsingaskylda o.fl.

13. gr.

Leyfishafi skal mánaðarlega senda iðnaðarráðherra skriflegar yfirlýsingar um heildarmagna grafins efnis úr hverjum vinnsluteig og skiptingu þess eftir jarðmyndunum. Í yfirlýsingu skal einnig getið um magn fjarlægðs efnis, hvort heldur það er til nota innanlands eða til útflutnings. Gera skal grein fyrir, hvert efnið er flutt og til hvaða nota það er ætlað.

14. gr.

Iðnaðarráðherra getur afturkallað leyfi ef leyfishafi brýtur gegn ákvæðum námulaga og reglugerðar þessarar.

Brot gegn reglugerð þessari varða fésektum eða varðhaldi samkvæmt 15. gr. námulaga nr. 24/1973.

15. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í námulögum nr. 24/1973 til þess að öðlast gildi við birtingu og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Iðnaðarráðuneytið, 15. september 1995.

Finnur Ingólfsson.

Sveinn Þorgrímsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica