Iðnaðarráðuneyti

305/2000

Reglugerð fyrir Hitaveitu Þorlákshafnar. - Brottfallin

REGLUGERÐ

fyrir Hitaveitu Þorlákshafnar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um allt veitusvæði Hitaveitu Þorlákshafnar.

Veitusvæði Hitaveitu Þorlákshafnar er: Þorlákshöfn og þeir bæir sem aðveituæð hitaveitunnar fer um.

2. gr.

Stjórn hitaveitunnar.

Hitaveita Þorlákshafnar, hér eftir nefnd hitaveitan, er eign Orkuveitu Reykjavíkur í umboði Reykjavíkurborgar og rekin sem fjárhagslega sjálfstætt fyrirtæki undir yfirstjórn stjórnar veitustofnana Reykjavíkur og borgarráðs Reykjavíkur.

Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur fer með framkvæmdastjórn veitunnar í umboði stjórnar veitustofnana og borgarráðs. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur ræður hitaveitustjóra sem sér um daglega starfsemi, en hitaveitustjóri aðra starfsmenn eftir því sem þörf krefur.

3. gr.

Bókhald og fjárreiður.

Orkuveita Reykjavíkur annast bókhald og fjárreiður hitaveitunnar og sér um innheimtu hitaveitugjalda. Bókhaldi hitaveitunnar skal halda aðskildu frá bókhaldi annarra rekstrarþátta Orkuveitu Reykjavíkur.

Reikningsár hitaveitunnar er almanaksárið og skulu reikningar hennar fylgja reikningum Orkuveitu Reykjavíkur ár hvert og vera endurskoðaðir af endurskoðanda hennar.

4. gr.

Verkefni hitaveitunnar.

Verkefni hitaveitunnar er að virkja jarðhita og sjá um gerð og rekstur hitaveitu fyrir Þorlákshöfn svo og aðra hluta Sveitarfélagsins Ölfuss, eftir því sem hagkvæmt er og stjórn veitustofnana og borgarráð ákveða.

Í þessu skyni skal hitaveitan leita eftir samningum um borunar- og virkjunarrétt og láta bora eftir heitu vatni og virkja þegar hagkvæmt þykir, leggja veitukerfi hitaveitu og annast sölu á heitu vatni til notenda.

Einnig skal hitaveitan reisa og reka önnur mannvirki sem nauðsynleg og hagkvæm eru á hverjum tíma.

5. gr.

Hitaveitugjöld.

Til þess að standa straum af kostnaði við hitaveituna innheimtir hún hitaveitugjöld svo sem orkugjald og heimæðagjald, samkvæmt nánari ákvæðum í gjaldskrá er stjórn veitustofnana og borgarráð setja. Stefnt skal að því að tekjur skv. gjaldskrá standi undir reksturskostnaði og fjármagnskostnaði hitaveitunnar. Orkuveitu Reykjavíkur í umboði Reykjavíkurborgar er heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri hitaveitunnar, sbr. 5. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

Hitaveitan hefur rétt til að loka aðrennsli heita vatnsins að húsi eða íbúð viðskiptamanns sem vanrækir að greiða hitaveitugjöld en henni ber að tilkynna fyrirætlun um lokun með 5 daga fyrirvara.

Kostnað af opnun á ný greiðir sá sem vanskilum veldur, samkvæmt gjaldskrá.

Öll gjöld samkvæmt gjaldskrá má taka lögtaki á kostnað gjaldanda.

6. gr.

Einkaleyfi hitaveitunnar.

Hitaveita Þorlákshafnar hefur einkaleyfi til reksturs hitaveitu og dreifingar og sölu á heitu vatni á veitusvæði sínu sbr. 1. gr. Hitaveitan getur þó heimilað einstaklingum og félögum að annast fjarhitun á tilteknum svæðum undir stjórn hitaveitunnar.

7. gr.

Lagnir veitukerfis.

Hitaveitan lætur leggja og á allar lagnir veitukerfisins: Aðveituæðar, stofnæðar, dreifiæðar, götuæðar svo og heimæðar og lagnir innanhúss að hemlagrindum, ásamt grindunum sjálfum með tilheyrandi búnaði.

8. gr.

Kvöð um tengingu við hitaveitu.

Þeim sem húseign á við götu eða veg innan veitusvæðis hitaveitunnar þar sem vatnsæð hitaveitu liggur er skylt að láta tengja hitunarkerfi og lagnir fyrir heitt kranavatn við hitaveituæðina. Heimilt er þó að veita undanþágu frá þessu ákvæði.

9. gr.

Eignarréttur hitaveitu og viðhaldsskylda.

Hitaveitan hefur eignarrétt og viðhaldsskyldu á aðveituæðum, stofnæðum, dreifiæðum og götuæðum veitunnar, svo og heimæðum og lögnum innanhúss að og með hemlagrindum, ásamt tilheyrandi búnaði er tengja vatnskerfi hússins við veituna og telst dreifikerfið ná þangað. En tenging vatnshitunarkerfis húss við hemlagrind svo og nauðsynlegar breytingar á innanhússlögnum og hitunarkerfi húss vegna tengingar við hitaveituna skal húseigandi annast og kosta. Ef húseigandi æskir þess að mælagrind sé færð frá inntaksstað leggur hitaveitan til efni en húseigandi greiðir annan kostnað og sér um viðhald.

10. gr.

Afnot varmaorku.

Varmi sá sem hitaveitan lætur í té er ætlaður til upphitunar húss og almennra heimilisnota.

Óheimilt er með öllu að tengja annað en neysluvatnslögn við greiningu þá á hemlagrind sem til þess er ætluð.

Nú kemur fram ósk um að nota heita vatnið til annarra þarfa en greinir í 1. mgr. og þarf þá til þess heimild hitaveitunnar sem hún getur bundið nánari skilyrðum og fyrirmælum hverju sinni.

11. gr.

Ábyrgð hitaveitunnar.

Hitaveitan ber ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni er leiða kann af rekstartruflunum er verða á veitunni vegna frosta, rafmagnstruflana, náttúruhamfara eða annarra óviðráðanlegra atvika. Sama gildir ef rennsli í vatnsæð er stöðvað um stundarsakir vegna viðgerða og annarra nauðsynlegra framkvæmda veitunnar.

Hitaveitan er ekki skuldbundin gagnvart húseiganda til þess að tryggja að þrýstingur í vatnsæðum sé ávallt nægilegur. Stöðvun á rekstri veitunnar eða hluta hennar vegna viðhalds eða tenginga skal tilkynna fyrirfram, ef unnt er, og koma á eðlilegum rekstri aftur svo fljótt sem verða má.

12. gr.

Afrennslisvatn frá húskerfum.

Hitaveitunni er heimilt að nota aftur vatn sem runnið hefur gegnum hitunarkerfi húss. Húsráðendum er heimilt að nota afrennslisvatnið til upphitunar á gróðurhúsum, bílastæðum, gangstígum o.s.frv. en skulu skila afrennslisvatninu aftur ef hitaveitan þarf á því að halda. Skal húsráðandi annast og kosta að leiða afrennslisvatnið í frárennsli hússins. Óheimilt er að leiða það þangað heitara en 50°C.

Ef húseigendur nota hitaveituvatn til hitunar bílastæða, gangstíga o.s.frv. og hitunarkerfin eru beint tengd veitunni þá getur hitaveitan krafist þess að þessi kerfi séu þrýstiprófuð fyrir 8 kg/cm2 við þann hita sem gert er ráð fyrir að notaður verði.

13. gr.

Uppdrættir og réttur til að annast hitalagnir og gerð uppdrátta.

Við gerð uppdrátta skal miða við almennar reglur um hönnun vatnshitalagna lofthitunarkerfa og loftræstikerfa, reglur byggingarsamþykktar, byggingarskilmála sveitarstjórnar og aðrar þær reglur er hitaveitan og byggingareftirlit sveitarfélagsins kunna að setja.

Rétt til að hanna hitalagnir og gera af þeim uppdrætti eða annast hitalagnir hafa þeir einir er til þess hafa menntun og réttindi, eins og almennt er krafist, og getur byggingarnefnd í samráði við stjórn hitaveitunnar sett um það nánari fyrirmæli og reglur.

14. gr.

Tenging við hitaveituna.

Áður en hitunarkerfi húss eða lagnir fyrir heitt kranavatn eru tengdar hitaveitukerfinu skal liggja fyrir uppdráttur samþykktur af hitaveitustjóra og gildir það jafnt um þegar gerðar lagnir sem nýlagnir og viðbætur við eða breytingar á eldri lögnum.

Ef uppdrættir eru ekki til af gömlum hitunarkerfum þá getur hitaveitustjóri krafist þess að þeir séu þegar gerðir eftir því sem nauðsynlegt er og ber húseigandi allan kostnað af því.

Heimilt er Orkuveitu Reykjavíkur að setja nánari ákvæði um lögn heimæða í byggingarskilmála fyrir nýjum lóðum.

Húseigandi skal heimila að leggja heimæð eða sameiginlega heimæð um lóð og sjá fyrir inntaksstað fyrir hitaveitu við útvegg kjallara eða 1. hæðar ef hús er kjallaralaust, ásamt nauðsynlegu rými fyrir hemlagrind og annað tilheyrandi tengingu við veituna. Þar skal vera niðurfall í gólfi og skal sá staður ætíð vera aðgengilegur starfsmönnum hitaveitu.

Ef inntak hitaveitu og hemlagrind eru ekki í sama herbergi skal lögn þar á milli vera óhulin eða í stokk sem auðvelt er að opna. Óheimilt er að tengja vatnsdælur við heimæðar nema með fengnu leyfi hitaveitunnar.

15. gr.

Eftirlit.

Hitaveitustjóri og starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur hafa eftirlit með því að hitunarkerfi og lagnir fyrir heitt kranavatn, bæði nýlagnir og eldri lagnir og viðbætur við þær, og breytingar séu í samræmi við samþykktan uppdrátt. Húseiganda er skylt að láta þrýstiprófa nýjar hitalagnir sem og gamlar samkvæmt fyrirmælum hitaveitustjóra. Hitaveitustjóri og/eða starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur skulu taka út tengingu við veitukerfið áður en hitaveituvatnið er tekið inn á húskerfið, en starfsmenn hitaveitunnar eða Orkuveitu Reykjavíkur stilla rennslishemla og mega einir breyta stillingu á þeim.

Starfsmenn hitaveitu og Orkuveitu Reykjavíkur skulu jafnan hafa frjálsan aðgang að pípulögnum bæði innan húss og utan. Húsráðanda er skylt að láta þeim í té þær upplýsingar, sem máli geta skipt um hitun hússins og heitt kranavatn.

16. gr.

Skyldur húseiganda og ábyrgð.

Húseiganda er skylt að hlíta þeim reglum og fyrirmælum sem hitaveitan setur um gerð og búnað neysluvatnslagna og hitunarkerfis hússins, m.a. er skylt að nota varmaskipta á hitunarkerfi og heitt kranavatn.

Húsráðandi ber ábyrgð á þeim búnaði og lögnum innanhúss sem eru í eigu og umsjá hitaveitunnar. Húsráðanda ber að tilkynna tafarlaust til hitaveitunnar er vart verður bilunar á búnaði og tækjum og skal hann hlíta fyrirmælum um viðgerð á bilunum og gera ráðstafanir til varnar misnotkun á hitaveituvatninu.

Nú verða tæki eða annar búnaður fyrir óvenjulegu hnjaski eða skemmdum og er þá heimilt að skylda notanda til að greiða kostnað við viðgerð eða endurnýjun.

17. gr.

Viðurlög við brotum.

Brot á reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Nú vanrækir maður að láta vinna verk sem hitaveitan hefur fyrirskipað samkvæmt reglugerð þessari, eða verk er ekki unnið á viðeigandi hátt, og er þá hitaveitunni heimilt að láta vinna það sem þörf krefur á kostnað eiganda.

Öll gjöld vegna heits vatns þ.m.t. heimæðargjald samkvæmt reglugerð þessari og gjaldskrá má innheimta með fjárnámi, skv. 10. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, og 79. gr. orkulaga nr. 58/1967, með síðari breytingum.

Reglugerð þessi, sem samin er og samþykkt af borgarstjórn Reykjavíkur, er hér með staðfest samkvæmt orkulögum nr. 58, 29. apríl 1967, með síðari breytingum, til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð fyrir Hitaveitu Þorlákshafnar, nr. 268, 28. maí 1980.

Iðnaðarráðuneytinu, 26. apríl 2000.

Valgerður Sverrisdóttir.

Þorgeir Örlygsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica