Iðnaðarráðuneyti

178/1962

Reglugerð um verkstjóranámskeið.

I.Námskeið fyrir starfandi verkstjóra.

Almenn námskeið.

1. gr.

Verkstjóri samkvæmt reglugerð þessari er hver sá, sem stjórnar og ber ábyrgð á daglegri vinnu annarra.

2. gr.

Inntökuskilyrði.

Þátttakandi skal hafa starfað a. m. k. þrjú ár við starfsgrein sína og vera starfandi verkstjóri.

3. gr.

Námsgreinar skulu m. a. vera: Verkstjórn, sálfræði, undirstöðuatriði vinnuhagræðingar, hollustuhættir og slysavarnir á vinnustöðum, reksturshagfræði, vinnulöggjöf og kaupsamningar.

4. gr

Námskeiðin skulu haldin einu sinni á ári eða oftar, eftir því sem þörf krefur að dómi stjórnar námskeiðanna. Skulu þau vera dagnámskeið, um 100 klst. að lengd. Námskeiðin skulu haldin í Reykjavík, en heimilt skal að halda styttri námskeið úti á landi.

5. gr.

Í lok hvers námskeiðs skal þeim þátttakendum, sem sýnt hafa ástundun, iðni og hæfni, afhent þátttökuskírteini, undirritað af forstöðumanni og námskeiðisstjórn.

6. gr.

Þátttökugjald skal vera 1.000.00 fyrir hvern, en heimilt er að ákveða annað gjald, með samþykki ráðherra, ef sérstaklega stendur á.

Sérnámskeið.

7. gr.

Þáttakendum í almennum námskeiðum skal gefinn kostur á, eftir því sem unnt reynist, að sækja sérnámskeið fyrir verkstjóra í einstökum starfsgreinum eða sérstökum greinum verksstjórafræða.

8. gr.

Slík námskeið skulu skipulögð í samstarfi við samtök og stofnanir, sem hagsmuna hafa að gæta hverju sinni, og skal námsefni og tilhögun ákveðin í samráði við þessa aðila.

9. gr.

Þátttökuskírteini skulu gefin út á sama hátt og í almennum námskeiðum, sbr. 5. gr.

10. gr.

Námskeiðisstjórn ákveður þátttökugjald hverju sinni, og skal það miðast við námsstundafjölda, með hliðsjón af 4. og 6. gr.

II. Námskeið fyrir verkstjóraefni.

11. gr.

Sérstök reglugerð skal sett um námskeið fyrir verkstjóraefni, er til slíkrar kennslu verður stofnað, samkvæmt lögum um verkstjóranámskeið, nr. 49/1961.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum um verkstjóranámskeið, nr. 49 23. marz 1961, til að öðlast þegar gildi, og britist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Iðnaðarmálaráðuneytið, 17. október 1962.

Bjarni Benediktsson.

__________________

Brynjólfur Ingólfsson.

               


Þetta vefsvæði byggir á Eplica