Iðnaðarráðuneyti

459/1979

Reglugerð um hitaveitu Egilsstaðahrepps og Fella - Brottfallin

1. gr.

Sveitarfélögin Egilsstaðahreppur í Suður-Múlasýslu og Fellahreppur í Norður-Múlasýslu eiga og reka saman fyrirtæki, sem nefnist Hitaveita Egilsstaðahrepps og Fella og á heimili og varnarþing í Fellahreppi f Norður-Múlasýslu.

Fyrirtækið er stofnað með sameignarsamningi gerðum milli sveitarfélaganna hinn 22. mars 1979, þar sem kveðið er á um stjórn þess og skipulag. Er fyrirtækið sjálf­stæður réttaraðili og hefur sjálfstæðan fjárhag og reikningshald.

Veitusvæði fyrirtækisins tekur yfir lögsagnarumdæmi beggja sveitarfélaganna, og gildir reglugerð þessi um allt veitusvæðið, nema annars sé sérstaklega getið.

 

2. gr.

Hitaveita Egilsstaðahrepps og Fella hefur einkaleyfi til dreifingar og sölu á heitu vatni á veitusvæði fyrirtækisins.

Stjórn fyrirtækisins getur þó heimilað einstaklingum og félögum fjarhitun á tilteknum svæðum undir yfirstjórn hitaveitunnar.

 

3. gr.

Hitaveita Egilsstaðahrepps og Fella lætur leggja allar utanhússlagnir, aðalæðar, dreifiæðar og heimæðar. Hafa skal samráð við sveitarstjórn um skipulag dreifikerfis og leitað staðfestingar hennar á staðsetningu lagna.

Í húsinu leggur hitaveitan lögnina inn fyrir hemlagrind. Heimilt er hitaveit­unni að setja nánari ákvæði um lögn heimæða í ný byggðahverfi f skilmála þá er fylgja lóðarúthlutun.

Húseigandi skal sjá fyrir inntaksstað fyrir hitaveitu við útvegg kjallara eða 1. hæðar ef hús er kjallaralaust, ásamt nauðsynlegu rými fyrir vatnshemla og annað tilheyrandi tengingu við veituna. Þar skal vera niðurfall í gólfi og skal sá staður ætíð vera aðgengilegur starfsmönnum hitaveitunnar.

Ef inntak hitaveitu og mælir eða hemill eru ekki í sama herbergi skal lögn þar á milli vera óhulin.

 

4. gr.

Hitaveita Egilsstaðahrepps og Fella hefur eignarrétt og viðhaldsskyldu á lögnum, sem hún lætur leggja. Hitaveitan getur endurkrafið húseigendur um kostnað vegna tjóns á kerfi eða tækjum eftir almennum skaðabótareglum.

 

5. gr.

Þeim, sem húseign á við götu eða veg innan veitusvæðis Hitaveitu Egilsstaðahrepps og Fella þar sem vatnsæð hitaveitu liggur, er skylt að láta tengja hitunarkerfi hússins og lagnir fyrir heitt kranavatn við hitaveituæðina.

Af húsnæði, sem tengist hitaveitu eftir að það hefur verið tekið í notkun, gjaldfalla 50% heimæðagjalds þegar hafin er lagning dreifiæða og götuæða veitukerfis, sem bundin er ákveðnum framkvæmdaáföngum í viðkomandi hverfum, en eftirstöðvar gjaldsins gjaldfalla þegar tengingu heimæðar er lokið. Að því er varðar íbúðarhús með þilofna- eða rafgeislahitun er heimilt að fella niður eftirstöðvar gjaldsins, ef hitunarkerfi hússins er breytt og það tengt hitaveitu innan 5 ára frá lagningu heimæðar og tengingu kranavatns við veitukerfið. Að þeim tíma liðnum gjaldfalla eftirstöðvar gjaldsins og reiknast þá sem 50% af gildandi heimæðagjaldi fyrir tilsvarandi húsnæði. Heimilt er þó hitaveitunni að veita lengri frest til að greiða eftirstöðvar gjaldsins og tengja hitunarkerfi hússins eða fella niður skyldu um tengingu. Af nýju húsnæði og breytingum eða endurbyggingu á húsnæði, sem húseigendur geta miðað við að tengja hitaveitunni áður en það er tekið í notkun, gjaldfellur heimæðagjald, samkvæmt gildandi verðskrá, við lóðaveitingu eða veitingu byggingarleyfis.

 

6. gr.

Sú hitaorka, sem hitaveitan lætur í té, er ætluð til upphitunar húsa og almennra heimilisnota.

Óheimilt er með öllu að tengja annað en neysluvatnslögn við greiningu þá, sem til þess er ætluð. Nú kemur fram ósk um að nota hitaorku til annarra þarfa en greinir í 1. mgr. og þarf þá til þess heimild hitaveitustjórnar.

 

7. gr.

Réttur húseiganda til afnota af hitaorku skuldbindur ekki hitaveituna til þess að tryggja að þrýstingur í dreifiæð sé ávallt nægilegur.

Stöðvun á rekstri veitunnar eða hluta hennar vegna viðhalds og tengingar skal tilkynna fyrirfram ef unnt er, og koma skal á eðlilegum rekstri aftur svo fljótt sem verða má.

 

8. gr.

Hitaveitan ber ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni, er leiða kann af rekstrartruflunum, er verða á henni vegna frosta, rafmagnstruflana, náttúruhamfara eða annarra óviðráðanlegra atvika.

Sama gildir, ef rennsli í æð er stöðvað um stundarsakir vegna viðgerða og annarra nauðsynlegra aðgerða veitunnar sjálfrar.

 

9. gr.

Hitaveitunni er heimilt að nota aftur vatn, sem runnið hefur gegnum hitakerfi húss. Ef hitaveitan óskar ekki eftir að nota slíkt afrennslisvatn er heimilt að nota það til upphitunar á gróðurhúsum, bílastæðum, gangstígum o.s.frv. þar til öðruvísi verði ákveðið. Skal húseigandi sjá um að leiða afrennslisvatnið í frárennsliskerfi hússins. Nýting hitakerfis húsa skal vera það góð að hitastig afrennslisvatnsins frá kerfinu sé ekki hærri en 35°. Hitaveitustjórn getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði varðandi eldri hitakerfi.

 

10. gr.

Áður en ný kerfi eru lögð eða eldri kerfum breytt, skal húseigandi með minnst 7 daga fyrirvara senda umsókn um það til hitaveitustjóra eða umboðsmanns hans, og skulu teikningar fylgja.

Umsókn skal rituð á eyðublað, sem skrifstofa hitaveitunnar lætur í té, og skal hún undirrituð af eiganda hússins eða fullgildum umboðsmanni hans ásamt þeim, sem verkið á að annast. Umsókn á að fylgja uppdráttur af lögninni í þríriti.

 

11. gr.

Uppdráttur skal gerður af sérmenntuðum verkfræðingi eða tæknifræðingi. Ber hann ábyrgð á því, að uppdráttur sé réttur og í samræmi við reglur og lög, er gilda um byggingarmál.

Stjórn Hitaveitu Egilsstaðahrepps og Fella getur heimilað öðrum aðilum að gera uppdrætti með sömu skilmálum. Samþykktur uppdráttur skal ávallt liggja fyrir áður en bygging húss er hafin.

 

12. gr.

Uppdrættir skulu vera skýrir og greinilegir og gerðir á haldgóðan pappír og þannig frá gengið, að ekki máist drættir eða letur við geymslu. Stærð þeirra skal vera skv. íslenskum staðli ÍST 1, þó ekki stærri en A1. Uppdrættir eiga að sýna allar lagnir, raufar og göt í steypu fyrir slíkar lagnir og allt fyrirkomulag í hitunarherbergi. Nota skal tákn skv. íslenskum staðli ÍST 64.

Ef hitaveitustjóri telur ástæðu til, getur hann krafist þess, að útreikningar verði lagðir fram.

 

13. gr.

Ef uppdrættir eru ekki til af gömlum hitalögnum, sem breyta á, getur hitaveitu­stjóri krafist þess, að þeir séu gerðir, eftir því sem nauðsynlegt er, og ber húseig­andi allan kostnað af því.

 

14. gr.

Þegar hitaveitustjóri hefur samþykkt uppdrátt, skal hann árita 3 eintök hans, eitt eintak skal varðveita í skjalasafni viðkomandi sveitarfélags, annað í skjalasafni hitaveitunnar, en hið þriðja skal afhent umsækjanda.

Sá er verkið á að vinna skal áður en hann hefst handa rita nafn sitt á þau eintök, er verða varðveitt í skjalasöfnunum.

Áritaður uppdráttur skal jafnan vera tiltækur á vinnustað.

Með áritun tekur hitaveitustjóri enga ábyrgð á því, að unnt sé að framkvæma viðkomandi verk eða kerfið sé rétt útreiknað.

 

15. gr.

Um rétt manna til að annast hitalagnir fer eftir lögum um iðju og iðnað. Þeir, sem hitalagnir framkvæma, bera ábyrgð á að allar lagnir séu í samræmi við reglugerð þessa og samþykkta uppdrætti, svo og nánari fyrirmæli, er sett kunna að verða.

Ef skipt er um ábyrgðarmenn, meðan á verki stendur, skal það tilkynnt hita­veitustjóra skriflega og lætur hann þá fara fram úttekt á þeim hluta verks, sem lokið er.

Óheimilt er að halda áfram framkvæmdum fyrr en annar aðili með fullum starfsréttindum hefur tekið við verkinu.

Hitaveitustjóri getur áskilið, að þeir einir megi annast suðuvinnu á pípum samkvæmt reglugerð þessari, er staðist hafa sérstakt hæfnispróf í logsuðu og/eða rafsuðu.

Engir aðrir en þeir, sem full réttindi hafa, mega taka að sér lagnir eða breytingará hitakerfum sem tengjast eiga dreifikerfi hitaveitunnar.

Nú brýtur pípulagningameistari í bága við fyrirmæli reglugerðar þessarar eða aðrar reglur, sem honum ber að hlíta í starfi sínu, eða brot er framið af starfs­mönnum, sem hann ber ábyrgð á, og getur þá hitaveitustjóri veitt honum áminningu. Ennfremur getur hitaveitustjórn samþykkt, að hann fái ekki að annast teng­ingu, ef um miklar sakir er að ræða eða ítrekað brot.

 

16. gr.

Hitaveitustjóri eða eftirlitsmaður hans skal hafa eftirlit með því að nýlagnir, breytingar á eldri lögnum og tenging húskerfa við hitaveitu sé í samræmi við reglugerð þessa, samþykkta uppdrætti, og aðrar reglur og lög er gilda um byggingarmál.

Pípulagningameistari skal annast prófun hitalagna og reynslukyndingu og vera viðstaddur, þegar hitaveitu er hleypt á hitakerfi, og skal þá ganga úr skugga um að kerfið hitni jafnt og eðlilega, með mælingum á frárennslishitastigi allra ofna og hitatækja, og nauðsynlegum stillingum, einnig skal tryggja að stjórntæki starfi eðlilega.

Álíti eftirlitsmaður að verk sé eigi framkvæmt samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, eða öðrum reglum er settar kunna að verða, getur hann stöðvað verkið, þar til bætt hefur verið úr því, sem áfátt kann að vera.

 

17 gr.

Eftirlitsmaður hitaveitustjóra skal jafnan hafa frjálsan aðgang að hitalögnum bæði innan húss og utan. Húseiganda er skylt að láta honum í té allar þær upplýsingar er máli geta skipt um hitun hússins. Er húseiganda skylt að hlíta tafarlaust fyrirmælum hans um viðgerð á bilunum og sérhverjar ráðstafanir til varnar misnotkun heita vatnsins.

 

18. gr.

Þar sem hús eru hituð með hitaveituvatni, ber húseiganda að hafa á hitakerfinu sjálfvirkan loka, sem tryggir, að þrýstingur á húskerfinu verði ekki of mikill, og að nýting vatnsins verði nægjanleg.

Þrýstiprófa skal hitalagnir fyrir 8 kg/cm2 áður en þær eru teknar út. Hitaveitustjórn er heimilt að ákveða lægri þrýsting á eldri lögnum.

 

19. gr.

Stjórn Hitaveitu Egilsstaðahrepps og Fella setur hitaveitunni gjaldskrá í samræmi við ákvæði sameignarsamnings, og skal hún lögð fyrir ráðherra til staðfestingar.

Heimæðagjöld verða gjaldkræf eftir því sem segir í 5. gr., en neyslugjöld eftir ákvæðum gjaldskrár.

Gjalddagi hitaveitugjalda er við framvísun reiknings eða tilkynningar um reikningsupphæð. Reikninginn ber gjaldanda að greiða þar sem hitaveitan ákveður.

Það eru vanskil ef gjöldin eru ekki greidd innan 14 daga frá gjalddaga. Hitaveitan hefur rétt til að loka aðrennsli heita vatnsins að húsi eða íbúð viðskipta­manns, sem vanrækir að greiða hitaveitugjöld. Heimilt er að loka aðrennsli að húsi, sem vangreitt er af.

Fyrirætlun um lokun ber að tilkynna með 5 daga fyrirvara.

Sá, sem vanskilum veldur, greiðir allan kostnað af lokun og opnun á ný, samkvæmt gjaldskrá hverju sinni.

 

20. gr.

Á öllum hitakerfum tengdum hitaveitu skulu vera þrýstimælar og öryggisloki samkvæmt fyrirmælum hitaveitustjóra. Ekki þarf þó öryggisloka, ef hitakerfið hefur síopna útrás um yfirfall (slaufa) og rennsli er stýrt á innrennsli eingöngu.

Á hitakerfum, tengdum einföldu dreifikerfi hitaveitu, skal nota sjálfvirka loka á afrennsli, sem halda hæfilegum þrýstingi á hitakerfinu, samkvæmt nánari fyrirmælum hitaveitustjóra.

Heimilt er einnig að leiða afrennsli upp fyrir efstu ofna kerfisins í sérstakri afrennslispípu (slaufu), og sé á efsta hluta hennar þensluker, hæfilega stórt að dómi hitaveitustjóra. Skal það tengt frárennsliskerfi hússins með yfirfallspípu úr zinkhúðuðu efni eða öðru jafngóðu, sem myndi vatnslás við kerfið. Frá þenslukerum skal vera loftpípa lögð út úr húsi.

 

21. gr.

Hitaveitustjóri ákveður stærð og gerð hemla sem nota skal og lætur setja þá á inntakspípur húsa sem tengd eru kerfi veitunnar og innsiglar þá. Hemlar þessir eru í eigu og umsjá veitunnar og ber húseiganda að tilkynna tafarlaust, ef vart verður bilana á þeim.

Nú verður hemill fyrir óvenjulegu hnjaski eða skemmdum og er þá heimilt að skylda notanda til að greiða kostnað við viðgerð eða endurnýjun. Sama gildir, ef hemill eyðileggst af völdum frosta.

Ef maður rýfur innsigli hemils varðar það refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum. Notandi hemils er sá, sem skráður er fyrir vatnsnotkun þess hitakerfis, sem hemillinn er fyrir. Skal hann bera ábyrgð á hemlinum svo og vatnsnotkun hitakerfisins þar til hann lætur af notkun hans og hefur sagt hitaveitunni upp eða tilkynnir flutning. Uppsögn eða flutning skal tilkynna innheimtuskrifstofu með hálfs mánaðar fyrirvara.

Ef notandi óskar að hemill sé leiðréttur, skal hann senda skriflega beiðni til hitaveitunnar. Ef þá kemur í ljós við athugun hemils að mesta skekkja sé +/- 5 %  eða minni, er heimilt að gera notanda að greiða kostnað við prófunina. Sé skekkjan meiri skal hitaveitan bera kostnað við prófunina og lækka reikning notanda í samræmi við niðurstöðu hennar, ef notandi fékk minna vatn, en um var samið, þó ekki fyrir lengra tímabil en 2 mánuði.

Ö11 þau ákvæði sem hér eru talin, um hemla, skulu gilda jafnt um mæla, ef selt er samkvæmt mælataxta, að því undanskildu að reynist mælir mæla skakkt, skal leiðrétta reikninga í samræmi við það, þó ekki lengur en 2 mánuði, nema sannað sé, að skekkjan hafi verið í lengri tíma.

 

22. gr.

Brot á reglugerð þessari varða sektum allt að 500 000 krónum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál út af slíkum brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Nú vanrækir maður að vinna verk, sem hitaveitustjóri hefur fyrirskipað, samkvæmt reglugerð þessari, eða verk er ekki unnið á viðunandi hátt, og er hitaveitustjóra þá heimilt að láta vinna það, sem þörf krefur, á kostnað aðila. Skal þá greiða kostnaðinn til bráðabirgða úr sjóði hitaveitunnar en innheimta síðan hjá aðila.

 

Reglugerð þessi, sem samin er og samþykkt af stjórn Hitaveitu Egilsstaðahrepps og Fella og hreppsnefndum Egilsstaðahrepps og Fellahrepps, staðfestist hér með samkvæmt orkulög,um nr. 58 29. apríl 1967 til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

 

Iðnaðarráðuneytið, 1. nóvember 1979.

 

Bragi Sigurjónsson.

Páll Flygenring.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica