Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 9. feb. 2001

144/1994

Reglugerð um rafföng til notkunar á sprengihættustöðum með eða án tiltekinnar varnartilhögunar

1. gr. Gildissvið.

1.1. Þessi reglugerð á við rafföng hæf til notkunar á sprengihættustöðum, þar með talin rafföng til notkunar neðanjarðar þar sem getur myndast eldfimt gas sem hætta kann að stafa af.

1.2 Reglugerðin tekur einnig til raffanga sem hafa varnartilhögun af einni eða fleiri af eftirtöldum gerðum:

1) olíufylling "o",

2) yfirþrýstingsumlykja "p",

3) sallafylling "q",

4) sprengitraust umlykja "d",

5) aukið öryggi "e",

6) sjálftrygg útfærsla "i".

7) innsteypt útfærsla "m".

1.3 Við uppsetningu og notkun raffanga skal fylja ákvæðum reglugerðar um raforkuvirki nr. 264/1971 með síðari breytingum.

2. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:

Raffang: Sérhver hluti af raflögn eða öðrum rafbúnaði.

Rafföng í hópi I: Rafföng til notkunar í námum, þar sem sprengifimt gas getur verið til staðar.

Rafföng í hópi II: Rafföng til notkunar á öðrum stöðum en í námum, þar sem sprengifimt gas getur verið til staðar.

Samhæfðir staðlar: Staðlar sem samdir hafa verið með hliðsjón af grunnkröfum og samþykktir af Staðlasamtökum Evrópu (CEN) eða Rafstaðlasamtökum Evrópu (CENELEC), í umboði EB og EFTA.

Samræmisvottorð: Vottorð um að raffang uppfylli ákvæði samhæfðra staðla

Samþykktaraðili: Þar til bær aðili með heimild stjórnvalda til að gerðarprófa raffang og votta öryggi þess.

Skoðunarvottorð: Vottorð um að prófun raffangs hafi leitt í ljós að það uppfylli öryggiskröfur.

Sprengihættusvæði: Rými þar sem hættulegt magn eldfimra efna getur komið fyrir sem gas, gufa, þoka eða ryk sem sameinast getur lofti þannig að sprengifim blanda myndist.

Tilnefndur aðili: Prófunar-, vottunar- eða eftirlitsaðili sem er óháður aðilum að því er varðar viðkomandi viðfangsefni og sem stjórnvöld hafa tilnefnt til að annast samræmismat.

Tækniákvæði: Skjal, þar sem settar eru tæknilegar kröfur, sem vara, ferli eða þjónusta þurfa að uppfylla.

3. gr. Markaðssetning.

3.1 Óheimilt er að banna af öryggisástæðum vegna hættu á að kvikni í eldfimu gasi sölu, frjálsan flutning eða notkun í tilætluðum tilgangi á raffangi sem getið er í 1. gr., ef:

1) samræmi við samhæfða staðla1* er vottað með samræmisvottorði sem gefið er út með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í 4. gr. og staðfest með áfestu einkennismerki eins og kveðið er á um í 7. gr., eða

2) það víkur frá samhæfðum stöðlum vegna þess að engin ákvæði voru í slíkum stöðlum um hönnun þess og framleiðslu, en staðfesting og prófun hefur leitt í ljós að öryggi þess er að minnsta kosti jafngilt því sem gert er ráð fyrir í viðkomandi stöðlum, og þetta er vottað með skoðunarvottorði sem gefið er út samkvæmt þeim skilyrðum sem sett eru í 5. gr., og staðfest með ásetningu einkennismerkis sem kveðið er á um í 7. gr.

3.2 Í reglugerð þessari merkir "notkun í tilætluðum tilgangi" notkun raffangsins, eins og kveðið er á um í samhæfðum framleiðslustöðlum og skráð í samræmisvottorð eða skoðunarvottorð, á stöðum þar sem hætta er á að eldfimt gas myndi sprengifima loftblöndu.

3.3 Ef skilyrði um uppsetningu og notkun heyra ekki undir önnur ákvæði Evrópsks efnahagssvæðis skulu þau áfram heyra undir íslensk lög og stjórnsýslufyrirmæli.

4. gr. Samræmisvottorð.

4.1. Samræmisvottorðið sem getið er um í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. skal gefið út af tilnefndum aðila sem skal votta að viðkomandi gerð raffangs sé í samræmi við samhæfða staðla.

4.2 Tilnefndur aðili sem gefur út samræmisvottorðið má afturkalla það ef hann telur að ekki hefði átt að gefa það út eða þau skilyrði sem tilnefndi aðilinn hefur sett hafa ekki verið uppfyllt. Enn fremur má hann afturkalla samræmisvottorðið ef framleiðandi setur á markað rafföng sem ekki eru í samræmi við það gerðareintak sem samræmisvottorðið var gefið út fyrir.

Tilnefndi aðilinn skal senda afrit af afturköllunarskjalinu til eftirlitsstofnunar EFTA og aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins sem skulu sjá um að senda það öðrum tilnefndum aðilum.

Ástæður fyrir afturköllun skulu nákvæmlega tilgreindar. Tilkynning um afturköllunina skal birt í samræmi við 4. mgr. 4 gr.

Afturköllun eða synjun um útgáfu samræmisvottorðs skal þegar í stað tilkynnt hlutaðeigandi aðila með tilvísun til þeirra úrræða sem honum standa til boða samkvæmt gildandi lögum í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og þess frests sem gefinn er til að beita þessum úrræðum.

4.3 Öll skjöl sem notuð eru við vottun raffanga verða að geymast hjá útgefanda og skal, ef nauðsyn krefur, afhenda eftirlitsstofnun EFTA og hinum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins vegna sérstakra athugana er varða öryggi. Farið skal með skjöl þessi sem trúnaðarmál.

_______________________

* Í skilningi þessarar reglugerðar eru hinir samhæfðu staðlar þeir sem taldir eru upp í viðauka I og breytt samkvæmt viðauka II.

4.4 Viðeigandi útdrættir úr þessum samræmisvottorðum verða birtir í EES deild Stjórnartíðinda Evrópubandalagsins.

5. gr. Skoðunarvottorð.

5.1 Skoðunarvottorðið sem getið er um í gr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. skal gefið út af tilnefndum aðila eða samþykktri prófunarstofu, hér eftir nefndir samþykktaraðilar, sem skal votta að gerð raffangsins hafi að minnsta kosti jafngilt öryggi til að bera og raffang sem er í samræmi við hina samhæfðu staðla.

5.2 Áður en hlutaðeigandi samþykktaraðili gefur út skoðunarvottorð skal, að frumkvæði hans, senda skjölin sem notuð hafa verið við vottun raffangsins, það er tækniákvæði þess, prófunarskýrslur samþykktaraðila og drög að skoðunarvottorði til eftirlitsstofnunar EFTA og til hinna aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins sem skulu sjá um að senda þau til þeirra aðila sem þau hafa samþykkt. Þessum aðildarríkjum er heimilt, innan fjögurra mánaða frá því að þau fá upplýsingarnar, að leggja fram mótmæli við samþykkt raffangsins.

5.3 Afrit af skoðunarvottorðinu skal senda eftirlitsstofnun EFTA og aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins innan mánaðar frá útgáfu þess. Aðildarríkin skulu sjá um að senda það þeim aðilum sem þau hafa samþykkt. Samþykktaraðili sem hefur sannreynt og prófað raffangið skal gera lokaskýrslu. Hún skal vera tiltæk aðildarríkjunum.

5.4 Samþykktaraðili sem gefur út skoðunarvottorðið má afturkalla það ef hann telur að ekki hefði átt að gefa það út eða ef settum skilyrðum hefur ekki verið fullnægt. Enn fremur má hann afturkalla vottorðið ef framleiðandinn setur á markað rafföng sem ekki eru í samræmi við það gerðareintak sem skoðunarvottorðið var gefið út fyrir.

Samþykktaraðilinn skal senda afrit af afturköllunarskjalinu til eftirlitsstofnunar EFTA og allra aðildarríkjanna sem sjá um að senda það hinum samþykktu aðilum.

Ástæður fyrir afturköllun skulu nákvæmlega tilgreindar. Tilkynning um afturköllunina skal birt í samræmi við 6. mgr.

Afturköllun eða synjun um útgáfu skoðunarvottorðs skal þegar í stað tilkynnt hlutaðeigandi aðila með tilvísun til þeirra úrræða sem honum standa til boða samkvæmt gildandi lögum í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og þess frests sem gefinn er til að beita þessum úrræðum.

5.5 Öll skjöl sem notuð eru við vottun raffanga skulu vera í vörslu útgefanda og, ef nauðsyn krefur, skulu afhent eftirlitsstofnun EFTA og hinum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins vegna sérstakra athugana er varða öryggi. Farið skal með skjöl þessi sem trúnaðarmál.

5.6 Viðeigandi útdrættir úr þessum skoðunarvottorðum verða birtir í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópubandalagsins.

6. gr. Afrit samræmis- og skoðunarvottorða.

Afrit samræmisvottorða sbr. 3. mgr. 4. gr. og skoðunarvottorða sbr. 5. mgr. 5 gr. skulu send handhafa vottorðsins ef hann óskar þess. Honum skal frjálst að nota þau svo sem hann kýs.

7. gr. Einkennismerki.

7.1 Einkennismerki sem framleiðandi setur á rafföng táknar að búnaðurinn samræmist þeirri gerð sem hlotið hefur samræmis- eða skoðunarvottorð og fengið almenna staðfestingu og staðist prófanir eins og gert er ráð fyrir í samhæfðum stöðlum þegar um er að ræða útgáfu samræmisvottorðs eða vísað er til þess í sjálfu skoðunarvottorðinu.

Fyrirmynd að einkennismerkinu er sýnd í lið 1 í viðauka III. Merkið skal sett á þannig að það sé sýnilegt, læsilegt og þolið.

7.2 Gera skal viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að framleiðandinn setji því aðeins einkennismerki á að hann hafi undir höndum viðeigandi samræmis- eða skoðunarvottorð. Einnig skal gera allar viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að framleiðandinn setji á búnað sem ekki hefur fengið samræmis- eða skoðunarvottorð merki eða áletranir sem hætta er á að villast megi á fyrir umrætt einkennismerki.

7.3 Í samræmis- eða skoðunarvottorði mega vera fyrirmæli um að raffangi skuli fylgja leiðbeiningar sem útskýra sérstök notkunarskilyrði þess.

7.4 Hafi skoðunarvottorð samkvæmt 5. gr. verið gefið út fyrir gerð raffangs sem ekki er í samræmi við samhæfðu staðlana verður auk einkennismerkisins að vera á því merkingin sem tilgreind er í lið 2 í viðauka III.

7.5 Fyrirmyndin að samræmisvottorðinu er í viðauka IV.

8. gr. Eftirlit.

Gera skal allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja fullnægjandi eftirlit með framleiðslu raffanga sem heyra undir þessa reglugerð.

9.gr. Bann við sölu.

Ef komist verður að þeirri niðurstöðu, á grundvelli ítarlegrar rannsóknar, að raffang sé hættulegt, enda þótt það sé í samræmi við gerð raffangs sem hlotið hefur samræmisvottorð eða skoðunarvottorð er heimilt að banna tímabundið sölu þess eða gera hana háða sérstökum skilyrðum. Það skal þegar í stað tilkynna þetta hinum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og eftirlitsstofnun EFTA og tilgreina ástæðurnar fyrir ákvörðuninni.

10. gr. Skráning aðila.

Rafmagnseftirlit ríkisins hefur skrá yfir þá aðila, svo og póstföng þeirra sem samþykktir hafa verið af aðildarríkjum hins Evrópska efnahagssvæðis til að sannreyna og prófa rafföng og/eða gefa út samræmisvottorð og skoðunarvottorð, sbr. 4. og 5.gr.

11. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum um Rafmagnseftirlit ríkisins nr. 60/1979 og með hliðsjón af ákvæði samnings um Evrópska efnahagssvæðið, sem vísað er til í X. kafla II. viðauka, tilskipun ráðsins 82/130/EBE frá 15. febrúar 1982 um samræmingu laga aðildarríkja EES um rafföng til notkunar á sprengihættustöðum í námum þar sem eldfimt gas getur myndast, tilskipun ráðsins 76/117/EBE frá 18. desember 1975 um samræmingu laga aðildarríkja EES um rafföng til notkunar á sprengihættustöðum og tilskipun ráðsins 79/196/EBE frá 6. febrúar 1979 um samræmingu laga aðildarríkja EES um rafföng með tiltekna varnartilhögun til notkunar á sprengihættustöðum, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af II. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.