Fara beint í efnið

Prentað þann 19. mars 2024

Stofnreglugerð

504/1990

Reglugerð um Selfossveitur

I. KAFLI STJÓRN OG REKSTUR.

1. gr.

Skilgreining. Selfossveitur, skammstafað SV, er fyrirtæki sem Selfosskaupstaður á og starfrækir.

2. gr. Tilgangur.

Tilgangur SV er að annast á orkuveitusvæði sínu öflun, dreifingu og sölu á raf- og hitaorku, svo og aðra starfsemi sem því tengist. SV annast einnig rekstur vatnsveitu samkvæmt gildandi reglugerðum um Vatnsveitu Selfoss.

3. gr. Veitusvæði og einkaréttur.

Orkuveitusvæði SV er lögsagnarumdæmi Selfosskaupstaðar og sá hluti nágrennis kaupstaðarins sem bæjarstjórn ákveður og iðnaðarráðherra samþykkir. SV hafa einkarétt til dreifingar og sölu á raf- og hitaorku á orkuveitusvæði sínu.

4. gr. Yfirstjórn.

Yfirstjórn SV er í höndum bæjarstjórnar en framkvæmdastjórn þeirra skal falin stjórn veitustofnana ásamt framkvæmdastjóra.

5. gr. Stjórn.

Stjórn skipa fimm menn og fimm til vara sem kosnir eru af bæjarstjórn. Kjörtímabil hennar skal vera hið sama og bæjarstjórnar. Bæjarstjórn velur formann en stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Geti stjórnarmaður ekki sótt fund skal hann að jafnaði boða varamann sinn, eða hlutast til um að varamaður verði boðaður.

6. gr. Ákvörðunartaka.

Stjórn er ákvörðunarbær þegar meirihluti hennar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi átt þess kost að fjalla um málið. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum.

7. gr. Verksvið stjórnar.

Hlutverk stjórnar er:

  1. að hafa eftirlit með því að skipulag og starfsemi SV sé jafnan í réttu og góðu horfi
  2. að semja framkvæmda- og fjárhagsáætlanir og leggja fyrir bæjarstjórn
  3. að semja verðskrá fyrir SV og leggja hana fyrir bæjarstjórn
  4. að ákveða framkvæmdir á orkuveitusvæði SV í samræmi við samþykktir bæjarstjórnar og ákvæði sveitarstjórnarlaga
  5. að undirbúa samninga um orkukaup og orkusölu
  6. að ráða forstöðumenn aðaldeilda og aðra fasta starfsmenn að fengnum tillögum framkvæmdastjóra. Verði ágreiningur um ráðninguna skal henni skotið til úrskurðar bæjarráðs eða bæjarstjórnar skv. ákvæðum bæjarmálasamþykktar
  7. að gefa bæjarstjórn þær skýrslur sem hún óskar eftir
  8. að semja nánari reglur um einstök framkvæmdaratriði þessarar reglugerðar eftir því sem þörf er á og leggja þær fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

8. gr. Framkvæmdastjóri.

Bæjarstjórn ræður framkvæmdastjóra SV að fengnum tillögum stjórnar og setur honum erindisbréf.

Framkvæmdastjóri

  1. annast allan daglegan rekstur og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn setur fram
  2. situr fundi stjórnar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt
  3. gerir tillögur til stjórnar um lausn verkefna skv. 7. gr.
  4. ræður aðra starfsmenn en þá sem taldir eru upp í 6. lið 7. gr.
  5. undirbýr fundi í samráði við formann stjórnar. Hann sér um að boðað sé til fundar með skriflegu fundarboði ásamt dagskrá a.m.k. tveimur sólarhringum fyrir fund.

9. gr. Reikningshald.

SV skulu hafa sjálfstæðan fjárhag og sjálfstætt reikningshald. Reikningsár SV er almanaksárið og skulu endurskoðaðir reikningar þeirra fylgja reikningum bæjarfélagsins. Tekjum SV skal fyrst og fremst varið til að standa straum af nauðsynlegum rekstrarkostnaði og fjárfestingum þannig að öruggur rekstur SV sé tryggður, þar með talin greiðsla afborgana og vaxta af skuldum þeirra. Ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps skal ákveðin af bæjarstjórn að fengnum tillögum stjórnar.

II. KAFLI VERÐSKRÁ OG INNHEIMTA.

10. gr. Verðskrá.

  1. Verðskrá.

    Verð á orku/vatni skal ákveða í verðskrá (gjaldskrá). Skal verðskrá við það miðuð að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins. Skal fyrirtækinu þannig vera kleyft með eigin fjármagni og hæfilegum lántökum að tryggja viðskiptavinum sínum næga orku á hagkvæmasta verði.

    Viðskiptavinir SV skulu greiða SV orkukaupin samkvæmt gildandi verðskrá á hverjum tíma. Við verðbreytingar skal reikningsfæra notkun í beinu hlutfalli við gildistíma hverrar verðskrár á því tímabili sem reikningurinn tekur til.

    Í verðskrá skal kveðið á um verð fyrir raforku, heitt vatn, heimtaugar/heimæðar, gjalddaga, eindaga og innheimtu þessara gjalda; viðurlög við vanskilum og annað sem kemur gjaldtökunni við.

    Verðskrá sem hlotið hefur samþykki bæjarstjórnar skal lögð fyrir iðnaðarráðuneytið, til staðfestingar og skal hún birt í B-deild Stjórnartíðinda.

  2. Áætlun, álestur og uppgjör.

    SV mega grundvalla orkureikninga á áætlun um orkunotkun notanda og innheimta reglulega samkvæmt slíkri áætlun en í henni sé orkunotkuninni jafnað niður á daga. Reikningar, sem byggjast á sannreyndri orkunotkun, nefnast álestrarreikningar en reikningar, sem byggjast á áætlaðri orkunotkun, nefnast áætlunarreikningar.

    Raunverulega orkunotkun skal sannreyna eigi sjaldnar en á u.þ.b. 12 mánaða fresti. Þegar orkunotkun hefur verið sannreynd skal hún reikningsfærð og gerð upp fyrir tímabilið á milli álestra.

    Sérhverjum viðskiptavini SV er heimilt að skila inn á skrifstofu SV eigin álestri á því tímabili sem áætlun um orkunotkun er viðhöfð. Skal hann greiða samkvæmt þeim álestri. Viðskiptavinur SV getur, gegn greiðslu aukagjalds, krafist aukaálesturs og uppgjörs miðað við sannreynda notkun. Ennfremur getur hann óskað eftir breytingu á áætlun um notkun vegna nýrra forsendna.

  3. Reikningar, gjalddagi og vextir.

    Reikninga skal senda út reglulega og eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Þeir skulu sendir orkukaupanda á notkunarstað eða á annan stað sem hann tiltekur.

    Gjalddagi er við útgáfu reiknings. Eindagi er samkvæmt ákvæðum í gjaldskrá hverju sinni.

    Inneignarvextir skulu greiddir ef notkun orkukaupanda reynist minni en áætlað var. Skulu þeir greiddir fyrir reikningstímabil sem tilgreint er á reikningi. Vanskilavextir (dráttarvextir) skulu innheimtir vegna skuldar orkukaupanda; skulu þeir reiknaðir frá þeim degi sem tilgreindur er á reikningi

11. gr. Stöðvun orkuafhendingar.

  1. Lokunaraðvörun.

    Sé orkureikningur ekki greiddur á eindaga, eða ef notandi vanefnir skyldur sínar samkvæmt reglugerð þessari eða skriflegum samningi um orkukaup, mega SV stöðva orkuafhendingu til notanda að undangenginni skriflegri aðvörun sem sendist honum með minnst 5 daga fyrirvara.

  2. Innheimtuaðgerðir.

    Vanskil á greiðslu áætlunarreikninga heimila SV sömu aðgerðir til innheimtu og stöðvunar orkuafhendingar og vanskil á álestrarreikningum. SV bera ekki ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum slíkrar stöðvunar.

    Beri kaupandi ábyrgð á orkukaupum um fleiri en eina veitu (mæli) má stöðva orkuafhendingu um hverja þeirra sem er, eða allar, vegna vanskila eða vanefnda í sambandi við eina þeirra.

  3. Greiðsluskylda á lokunartíma.

    Stöðvun orkuafhendingar vegna vanskila hefur engin áhrif á greiðsluskyldu notanda á skuldum við SV né heldur greiðsluskyldu á fastagjaldi, aflgjaldi og tækjaleigu á lokunartíma. SV hafa rétt til þess að krefja notanda um greiðslu kostnaðar við undirbúning að stöðvun

    orkuafhendingar (lokun), ennfremur við framkvæmd lokunar, svo og opnun veitunnar.

  4. Stöðvun orkuafhendingar.

    SV mega stöðva orkuafhendingu með hverjum þeim hætti sem henta þykir. SV er ekki skylt að tilkynna notanda um sjálfa stöðvun orkuafhendingarinnar enda sé ekki óeðlilega langur tími liðinn frá viðvörun um hana.

  5. Opnun lokaðrar veitu.

    Sé lokað fyrir veitu vegna skulda skal hún að jafnaði ekki opnuð aftur nema skuldin sé að fullu greidd og/eða trygging sé sett fyrir skilvísri greiðslu framvegis.

  6. Óleyfileg tenging veitu.

    Enginn má rjúfa straum né endurtengja veitu nema þeir sem SV hefur veitt til þess umboð hverju sinni. Óleyfilega tengda veitu mega SV rjúfa fyrirvaralaust.

III. KAFLI HÚSVEITUR OG TENGING ÞEIRRA.

Almenn ákvæði.

12. gr. Eigandanotandi veitu.

Eigandi húsveitu, eða annarrar veitu, sem tengist veitukerfi SV, nefnist húseigandi (veitueigandi). Kaupandi orku, eða sá sem ber ábyrgð á greiðslu hennar, nefnist notandi. Sjá nánar um ábyrgð húseiganda við notendaskipti í gr. 14,d).

13. gr. Umsókn um heimtaug/heimæð.

  1. Skuldbinding húseiganda

    Umsókn um heimtaug/heimæð eða breytingu á þeim skal undirrituð af húseiganda er skuldbindur sig til þess, með undirskrift sinni, að greiða tilskilin gjöld sem ákveðin eru í verðskrá SV og að hlíta settum reglum um kaup á orku frá SV. SV geta krafist þess að skrifleg greinagerð, byggð á tækniþekkingu, sé lögð fram varðandi áætlun um afl- og orkunotkun.

  2. Óvenjulegar aðstæður.

    Sé um óskipulagt svæði að ræða, eða aðstæður óvenjulegar að því er varðar fjarlægð húsveitu frá veitukerfi eða fyrirhugaða orkunotkun húsveitunnar, skal heimtaugar-/heimæðargjald ákveðið samkvæmt sérstökum samningi hverju sinni þar sem hliðsjón er höfð af stofnkostnaði við framkvæmdir.

  3. Lágmarksgjald.

    SV er heimilt að krefjast lágmarksgjalds vegna notkunar um heimtaug/heimæð.

  4. Frosin jörð.

    Heimilt er að krefja húseiganda um greiðslu aukakostnaðar vegna lagningar heimtaugar/ heimæðar að ósk hans í frosna jörð.

14. gr. Mælitæki.

  1. Uppsetning mælitækja.

    SV setja upp nauðsynleg mælitæki og ákveður fjölda þeirra, tegund og staðsetningu. Mælitækin má ekki flytja án samþykkis SV. SV geta krafist flutnings þeirra ef það þykir hentugra að mati framkvæmdastjóra.

  2. Notandi.

    Notandi mælitækis er sá sem skráður er fyrir orkunotkun þeirrar veitu sem mælitækið er skráð fyrir. Skal hann bera ábyrgð á mælitækjum og orkunotkun veitunnar þar til hann lætur af notkun hennar og tilkynnir SV um það. Um ábyrgð húseiganda, sjá lið d) hér á eftir.

    Breyting á skráningu notanda fyrir sameiginlegri notkun orku um mælitæki verður því aðeins gerð að allir notendur hinnar sameiginlegu notkunar fari fram á það skriflega.

  3. Notendaskipti.

    Hætti skráður notandi notkun skal hann tilkynna það til SV, sem annast lokaálestur. Hafi eigi annar notandi sótt um að fá mælitækið skráð á sitt nafn skal loka því og eigi skal hefja orkusölu um tækið á ný fyrr en nafn og kennitala nýs notanda hefur verið tilkynnt.

  4. Ábyrgð húseiganda við notendaskipti.

    Húseigandi er ábyrgur fyrir tilkynningu til SV um notendaskipti. Vanræki húseigandi tilkynningarskyldu sína er heimilt að gera hann ábyrgan fyrir ógreiddri orkunotkun þess aðila er áður var notandi viðkomandi veitu.

  5. Viðhald.

    SV annast venjulegt viðhald mælitækjanna á sinn kostnað en verði mælitæki fyrir óvenjulegu hnjaski eða skemmdum er heimilt að skylda notanda til að greiða kostnað við viðhald og endurnýjun þess.

  6. Mælaleiga.

    Notandi greiðir leigu fyrir afnot mælitækja skv. verðskrá SV á hverjum tíma.

  7. Prófun mælitækis.

    Óski notandi að mælitæki verði prófað skal beiðni um það vera skrifleg. Reynist skekkja +/- 5 % eða minni er heimilt að gera notanda að greiða kostnað við prófun.

    SV hafa heimild til þess að láta prófa mælitæki ef líkur benda til mæliskekkju.

  8. Greiðsla/endurgreiðsla vegna mæliskekkju.

    Ef fram kemur við prófun, sem SV framkvæmir, að mælitækið hafi mælt 5 % of lítið eða þaðan af minna skal notandi greiða það sem vanmælt var.

    Hafi mælitæki mælt 5 % of mikið eða þaðan af meira skal endurgreiða notandanum mismuninn með frádrætti á næsta orkureikningi eða í reiðufé.

    SV geta ekki krafist viðbótargreiðslu fyrir lengra tímabil en 1 ár, og sama gildir um kröfu notanda til endurgreiðslu.

    Við endurreiknun orkunotkunar skal taka tillit til fyrri notkunar viðkomandi aðila og annarra aðstæðna sem gefið gætu vísbendingu um það hvenær mælitækið bilaði. Eigi skal reikna vexti af umfram- eða vangreiðslum sem að framan greinir.

  9. Véfenging á niðurstöðum prófunar.

    Ef notandi véfengir niðurstöður prófunar á mælitæki skal leita úrskurðar viðurkenndra úrskurðaraðila og er hann bindandi fyrir báða aðila.

  10. Notkun vegna galla á veitu.

    Þótt orkunotkun verði rakin til galla á veitu eða tækjum, er SV ekki skylt að áætla frádrátt á reikningum notanda af þeim sökum.

  11. Leiðrétting á reikningsfjárhæð.

    Ef svo reynist að notkun hefur orðið meiri en álestur sýnir eða álestur eða útreikningur á reikningsfjárhæð verið skakkur áskilur SV sér rétt til að leiðrétta þessa skekkju undir eins og vitað er um hana.

  12. Óleyfileg notkun.

    Verði uppvíst að rafmagn/heitt vatn sé notað á annan hátt en um er samið eða að raskað hafi verið mælitækjum eða breytt tengingum, þannig að öll notkun komi ekki fram skulu SV áætla þá notkun sem fram hefur farið óleyfilega og skal notandi greiða fyrir hana eftir gildandi verðskrá fyrir allan tímann sem liðinn er frá síðustu skoðun veitunnar og þar til leiðrétt er.

    Ef ekki liggja fyrir sérstakar upplýsingar um líklega notkun á veitunni má við matið hafa hliðsjón af stærð á mæli - eða varbúnaði þeim sem fyrir veitunni eru.

15. gr. Innsigli.

  1. Innsiglun mælitækja, o.fl.

    Starfsmenn SV hafa heimild til að innsigla mælitæki, sem orkukaup eru gerð um, svo sem kWh-mæla, straumspenna, magnmæla, hemla o.þ.h. Einnig mega starfsmann SV innsigla hluta veitu sem ómæld orka fer um. Þessi innsigli mega engir aðrir rjúfa en starfsmenn SV. Önnur innsigli SV mega faglega ábyrgir aðilar rjúfa að fengnu leyfi SV hverju sinni.

    Ef skjótra aðgerða er þörf vegna hættuástands er heimilt að rjúfa innsigli en þá skal viðkomandi eigi síðar en næsta virkan dag á eftir tilkynna SV skriflega málsatvik.

    Veiti notandi eða faglega ábyrgur aðili því athygli að innsigli sé rofið eða vanti er hann skyldur að tilkynna SV slíkt án tafar.

  2. Óleyfilegar tengingar.

    Séu gerðar óleyfilegar tengingar eða breytingar á veitu eða tækjum, eða sýnt hirðuleysi í meðferð eða viðhaldi veitu eða tækj a, skal farið með það sem galla á veitu og er heimilt að gera eiganda að greiða þann kostnað sem aukið eftirlit með veitunni hefur í för með sér. Framkvæmdastjóri getur látið taka veitu eða tæki úr sambandi, meðan galli er á veitunni eða tækjunum, þar til úr er bætt.

16. gr. Eftirlit.

  1. Aðgangsréttur SV.

    Starfsmenn SV eiga rétt til þess að hafa óhindraðan aðgang til skoðunar á veitum, jafnt fullgerðum sem ófullgerðum, hvort sem er:

    1. til athugunar á öryggi þeirra, þ.m.t neyslutæki
    2. til athugunar á mælitækjum og því hvort öll notkun komi rétt til mælis samkvæmt gjaldskrá
    3. til álestrar á mælitæki
    4. til lokunar vegna vanskila og til annarra þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru samkvæmt réttindum og skyldum SV.
  2. Tengiskilyrði.

    Setja má í sérstakri reglugerð staðfestri af ráðherra sérákvæði um nánari tæknileg tengiskilyrði.

IV. KAFLI HÚSVEITUR OG TENGING ÞEIRRA.

Sérákvæði - rafveita.

17. gr. Rafverktakaleyfi.

  1. Öflun leyfis.

    Framkvæmdastjóri eða rafverktakaleyfisnefnd veitir þeim rafverktakaleyfi sem fullnægja skilyrðum og skilmálum rafverktakaleyfisnefndar og gildandi sérskilmálum SV.

  2. Heimild til vinnu við raforkuvirki.

    Skylt er að láta löggilta rafverktaka og/eða SV, ef þær taka slík verk að sér, framkvæma vinnu við raflagnir og raftæki, hvort heldur um er að ræða nýjar raflagnir , breytingar eða viðgerðir á raflögnum eða raftækjum sem tengjast eiga eða tengd eru við húsveituna. Aðrir mega ekki taka ábyrgð á né vinna nokkurt slíkt verk.

  3. Upplýsingaskylda.

    Löggiltir rafverktakar eru skyldir til að veita SV upplýsingar um húsveitur og raftæki sem þeir vinna við og bera ábyrgð á.

18. gr. Úttekt.

  1. Úttekt og skoðun.

    SV annast úttekt og skoðun á raflögnum skv. reglugerð Rafmagnseftirlits ríkisins um raforkuvirki, svo og skv. beiðni eða að eigin frumkvæði. SV geta gert eiganda veitu að greiða kostnað þeirra verka, sem SV innir af hendi við úttekt raflagna, skoðunaraðgerðir og annað eftirlitsstarf sitt.

  2. Spennusetning.

    Engir aðrir en umboðsmenn SV mega setja spennu á veitu eða hluta af veitu í fyrsta sinn eftir úttekt. Sé út af þessu brugðið varðar það þann sektum sem verkið er unnið fyrir, þann sem setur spennu á veituna og hinn löggilta rafverktaka er um verkið sá.

  3. Ábyrgð.

    SV taka ekki á sig ábyrgð á veitu með úttekt eða tengingum.

19. gr. Húsveitur.

  1. Kröfur til húsveitna.

    Sérhver húsveita að meðtöldum neyslutækjum skal fullnægja kröfum þeim sem settar eru í reglugerð Rafmagnseftirlits ríkisins og tæknireglum SV. Það telst óleyfilegt, sem ekki fullnægir þessum kröfum. Efni í veitu eða tæki skal vera viðurkennt af sömu aðilum.

  2. Stofntaugar.

    Húseiganda er skylt að sjá um að stofntaugar í húsveitu hans séu ávallt nægilega gildar fyrir notkun veitunnar.

  3. Kostnaður vegna aukningar veitukerfis.

    Sé um tiltölulega mikla notkun að ræða og SV þurfa, til þess að fullnægja henni sérstaklega, að auka háspennukerfi, auka afl spennistöðvar eða gera meiriháttar viðbætur á lágspennukerfi, er framkvæmdastjóra heimilt að gera umsækjanda að taka þátt í kostnaði.

  4. Eigandi heimtaugar.

    Heimtaugar með stofnvari eru eign SV, enda þótt heimtaugargjald hafi verið greitt, nema um annað hafi sérstaklega verið samið.

  5. Breyting á heimtaug.

    SV annast viðhald og endurnýjun heimtauga sinna án sérstaks endurgjalds nema heimtaug þurfi að breyta vegna breytinga á húsi eða lóð. Skal húseigandi greiða kostnaðinn við þá breytingu. Ef loftlínuheimtaug er breytt í jarðstrengsheimtaug skal húseigandi greiða kostnaðarmun sem ákveðinn er í gjaldskrá.

  6. Vélar og tæki.

    Vélar og önnur tæki skulu vera þannig sett og þannig útbúin að þau starfi án þess að truflun valdi á ljósum eða annarri notkun. Misbrest á þessu eða aðra galla á veitu eða tækjum skal húseigandi/notandi þegar í stað og á sinn kostnað, láta löggiltan rafverktaka lagfæra. Komi í ljós við skoðun húsveitu, sem framkvæmd er af SV, Rafmagnseftirliti ríkisins eða löggiltum rafverktaka, að galli er á veitu eða tækjum, er eigandi veitunnar eða tækjanna skyldur til þess að láta, á sinn kostnað, löggiltan rafverktaka gera við gallana.

Sérákvæði - hitaveita.

20. gr. Umsóknir og áhleyping.

  1. Umsókn um orkukaup.

    Áður en hafist er handa um lögn nýrra hitunarkerfa eða breytinga á eldri kerfum skal sækja um orkukaupin eða breytinguna til SV á þar til gerðum eyðublöðum sem skrifstofa SV lætur í té.

    Umsóknin skal undirrituð af eiganda hússins eða fullgildum umboðsmanni hans ásamt pípulagningarmeistara þeim sem verkið á að annast. Umsókn skulu fylgja teikningar samþykktar af byggingarfulltrúa bæjarins. Staðsetning inntaks skal greinilega mörkuð á uppdrætti.

  2. Tenging húsveitu.

    Áhleypingu (tengingu) skal sækja um til SV með minnst fjögurra daga fyrirvara.

    Engir aðrir en umboðsmenn SV mega hleypa vatni úr kerfi veitunnar á hitakerfi húsa í fyrsta sinn eftir tengingu.

    Sé húsveita tengd veitukerfi SV í heimildarleysi, getur SV aftengt húsveituna fyrirvaralaust.

  3. Heimæðarlögn og inntak.

    SV er heimilt að leggja heimæð eða sameiginlega heimæð um lóð og húseigandi skal sjá fyrir inntaksstað fyrir hitaveitu við útvegg kjallara eða fyrstu hæðar, ef húsið er kjallaralaust, ásamt nauðsynlegu rými fyrir mælagrindur og annað tilheyrandi tengingu við veituna. Þar skal vera niðurfall í gólfi og það húsrými vera aðgengilegt starfsmönnum SV.

21. gr. Teikningar.

Teikningar skulu uppfylla almennar reglur um hönnun heitavatnslagna, lofthitunarkerfa og loftræstikerfa, reglur byggingarsamþykktar og byggingarskilmála. Þær skulu gerðar af sérmenntuðum verkfræðingi, tæknifræðingi, pípulagningarmeistara eða öðrum þeim sem hlotið hefur löggildingu til slíkra starfa, og ber hann ábyrgð á því að uppdráttur sé réttur og í samræmi við reglur þessar, sérteikningar SV, svo og aðrar reglur og lög sem gilda um byggingarmál.

Bæjarstjórn getur falið SV umsjón og eftirlit allra mála sem snerta hitalagnir.

22. gr. Eftirlit.

SV skulu hafa aðgang að pípulögnum bæði innanhúss og utan. Húseiganda/kaupanda er skylt að láta í té upplýsingar um hitun hússins og heitt kranavatn sé þess óskað.

Komi í ljós að verk sé eigi framkvæmt samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, reglugerð um hitalagnir, eða öðrum reglum er settar kunna að verða, geta SV stöðvað verkið þar til úr því verður bætt.

Pípulagningarmeistari skal annast prófun hitalagna og vera viðstaddur þegar vatni er hleypt á hitakerfið.

23. gr. Skuldbindingar húseiganda.

Húseigandi/kaupandi ber ábyrgð á meðferð búnaðar og lagna innanhúss sem eru í eigu SV.

Húseiganda/kaupanda ber að tilkynna tafarlaust til SV ef vart verður bilunar á búnaði og tækjum þeirra.

Húseigandi/kaupandi greiðir kostnað við viðgerð eða endurnýjun búnaðar, sem verður fyrir skemmdum af völdum notanda.

V. KAFLI SKILMÁLAR FYRIR ORKUSÖLU.

Raforkusala.

24. gr. Tímabil sölusamnings.

Upphaf og lok samnings um orkukaup eru við skráningu tilkynningar þess efnis hjá SV.

25. gr. Umsókn um tengingu.

Skilyrði raforkusölu er að samþykkt hafi verið umsókn um tengingu viðeigandi húsveitu við rafveitukerfi SV.

26. gr. Raforkusala.

  1. Skilmálar um raforkusölu.

    SV selja raforku á orkuveitusvæði sínu, þar sem veitukerfi nær til, með þeim skilmálum sem ákveðnir eru í reglugerð þessari, sérreglum um raforkuvirki á orkuveitusvæði þeirra og verðskrá á hverjum tíma.

  2. Umsókn um raforkukaup.

    SV geta krafist þess að hver sem óskar að gerast notandi raforku sæki um það skriflega og geri nána grein fyrir afl- og orkunotkun og til hverra nota raforkan sé ætluð, sbr. einnig 13. gr.

  3. Takmörkuð flutningsgeta.

    Á þeim stöðum í veitukerfinu þar sem flutningsgeta þess leyfir ekki umbeðið afl án sérstakra ráðstafana, ákveður framkvæmdastjóri nánari skilmála.

  4. Takmörkun sölu vegna rafhitunar.

    SV geta takmarkað sölu samkvæmt sérstökum töxtum vegna rafhitunar.

  5. Sérstök spennistöð.

    Ef SV telja nauðsynlegt að komið verði fyrir raforkuvirkjum á viðkomandi lóð í því skyni að sala raforku geti farið þar fram, skal SV látin í té nauðsynlegur lóðarflötur eða húsnæði fyrir spennistöð, með sérstökum samningi, og nauðsynlegan lóðarflöt eða aðstöðu fyrir jarðstrengi, tengiskápa, stólpa og festur fyrir loftlínur, án endurgjalds.

    SV er heimilt að láta öðrum notendum í té raforku frá spennistöðinni. Kvöð um uppsetningu og rekstur hennar og annarra raforkuvirkja, má þinglýsa á viðkomandi húseign.

  6. Spennubreyting.

    Óski SV eftir spennubreytingu á húsveitu er húseiganda skylt að hlýta því. Stjórn ásamt framkvæmdastjóra setja nánari reglur um framkvæmd.

    Húseigendur bera kostnað af spennubreytingu húsveitu sem þeir sjálfir hafa óskað eftir og SV samþykkt, nema sérstakt samkomulag náist um skiptingu kostnaðar.

  7. Endursala á raforku.

    Endursala til annarra á raforku, sem keypt er af SV, er óheimil án leyfis SV.

27. gr. Rekstrartruflanir.

  1. Skaðabótaskylda SV.

    Stöðvun á rekstri, eða truflanir vegna bilunar eða takmarkana á raforkuvinnslu hefur ekki í för með sér neina skaðabótaskyldu á hendur SV en koma skal á reglulegum rekstri aftur eins fljótt og auðið er. Notendur eiga ekki rétt til endurgreiðslu þótt stöðvun verði vegna bilana eða annarra óviðráðanlegra atvika um langan eða skamman tíma, sbr. þó síðustu málsgrein 27. gr.

    SV bera ekki ábyrgð á spennubreytingum undir slíkum kringumstæðum né afleiðingum af þeim né heldur bruna eða slysum sem verða kunna af völdum rafmagns frá veitum rafmagnsnotanda.

  2. Réttur til rofs.

    SV áskilja sér rétt til þess að taka rafmagn af veitu vegna viðgerða og viðhalds eða eftirlits þegar þörf gerist.

    Meðan verið er að leggja heimtaugar er SV heimilt að taka rafmagn af því svæði sem nauðsynlegt er til þess að framkvæma tengingar.

  3. Takmörkun á orkuafhendingu.

    Komi það fyrir að takmarka þurfi notkun á rafmagni um langan eða skamman tíma ákveða SV hvernig takmörkun skuli hagað.

    Stöðvun á rekstri skal tilkynna fyrirfram, ef unnt er, en þó eiga notendur enga skaðabótakröfu á hendur SV þótt straumur hafi rofnað fyrirvaralaust.

    Notendur, sem greiða aflgjald, eiga rétt á að fá sem svarar 1/300 hluta aflgjaldsins endurgreiddan fyrir hvern heilan dag er þeir missa raforkuna vegna stöðvunar eða truflana á rekstri, þó eigi fyrir skemmri tíma en tvo sólarhringa. Þetta gildir ekki varðandi lokun vegna vanskila.

28. gr. Samningsbundinn taxti.

Umsaminn taxti.

Sérhver rafmagnsnotkun er rafmagnsnotandi byrjar á samkvæmt tilteknum taxta SV er bindandi fyrir hann í að minnsta kosti 1 ár. Þó getur framkvæmdastjóri leyst notanda undan þessari skuldbindingu.

Verði breyting á notkun, þannig að hún falli undir annan taxta, skal umsókn um það send SV með eins mánaðar fyrirvara.

SV áskilja sér rétt til að segja upp sölu eftir tilteknum taxta með eins mánaðar fyrirvara ef í ljós kemur að notkunin á að falla undir annan taxta.

Skilmálar fyrir sölu á heitu vatni.

29. gr. Orkukaup (heitt vatn).

  1. Tilkynning um orkukaup.

    Upphaf og lok samningstíma um kaup á heitu vatni eru við skráningu tilkynninga hjá SV þess efnis.

    Skilyrði fyrir sölu á heitu vatni er að í gildi sé samþykkt umsókn um tengingu viðeigandi húsveitu við veitukerfi SV.

  2. Rekstrartruflanir.

    SV bera ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni, sem leiða kann af rekstrartruflunum er verða vegna frosta, rafmagnstruflana, náttúruhamfara eða annarra óviðráðanlegra atvika. Sama gildir ef rennsli í vatnsæð er stöðvað um stundarsakir vegna viðgerða eða annarra nauðsynlegra framkvæmda veitnanna.

    Þurfi að takmarka notkun hitaorku um lengri eða skemmri tíma ákveða SV hvar og hvernig hún skuli takmörkuð. Takmörkunin hefur ekki áhrif á greiðslu fastagjalds (fasts aflgjalds eða mælagjalds).

    Stöðvun á rekstri veitunnar eða hluta hennar vegna viðhalds eða tenginga skal tilkynna fyrirfram ef unnt er og koma á eðlilegum rekstri aftur svo fljótt sem verða má.

30. gr. Mæling.

  1. Mælar.

    SV ákveða stærð og gerð mæla sem notaðir eru í mælagrind, hvort sem um er að ræða nýja mælagrind eða við endurnýjun búnaðar í mælagrind.

  2. Takmörkun afhendingar.

    Kaupendur sem hafa hemil eiga ekki rétt á endurgreiðslu á föstu aflgjaldi þótt þeir hafi ekki getað náð því afli, sem fasta greiðslan er miðuð við, en SV er skylt að leiðrétta skekkju hemilsins svo fljótt sem við verður komið.

    SV er ekki skylt að greiða bætur vegna takmörkunar á afhendingu varmaorku og/eða lækkunar á hitastigi.

31. gr. Sérstakir sölusamningar.

SV er heimilt að semja sérstaklega um sölu á heitu vatni utan almennra söluskilmála. Slíkir samningar skulu háðir samþykki bæjarstjórnar Selfoss.

32. gr. Bakrennsli.

  1. Nýting bakrennslis.

    Hitaveituvatn sem runnið hefur í gegnum hitunarkerfi húss (bakrennsli) er eign SV. SV geta heimilað notkun þess til upphitunar í gróðurhúsum, bílastæðum og öðrum þeim stöðum, sem ekki þurfa ákveðið hitastig. Frágangur lagna og búnaðar vegna slíkrar notkunar skal vera samkvæmt fyrirmælum SV. SV geta afturkallað slík leyfi.

  2. Óheimil tenging.

    Óheimilt er að tengja vatnsdælur, varmadælur og/eða annan slíkan búnað við bakrennslið, nema að áður fengnu samþykki SV.

33. gr. Upplýsingaskylda og ábyrgð.

Hitaorkunni er miðlað í formi heits vatns. SV skulu gefa kaupendum og húseigendum upplýsingar um þrýsting, hitastig og önnur tæknileg atriði, sé þess óskað.

Óviðráðanlegar breytingar á þrýstingi, hitastigi eða magni orkumiðilsins eru án ábyrgðar SV. Um breytingar sem stafa af öðrum ástæðum, skulu SV tilkynna notendum með hæfilegum fyrirvara.

34. gr. Óheimil endursala.

Kaupendum er óheimil endursala hitaorkunnar án samþykkis SV.

35. gr. Lagnir veitukerfis.

SV láta leggja og eiga allar lagnir veitukerfisins, aðveituæðar, stofnæðar, dreifiæðar, götuæðar svo og heimæðar og lagnir innanhúss, að og frá mælagrindum, ásamt tilheyrandi búnaði, og annast rekstur og viðhald hans.

36. gr. Skyldutenging.

Húseiganda innan lögsagnarumdæmis Selfosskaupstaðar, þar sem veitukerfið liggur er skylt að láta tengja hús sitt við hitaveituna. Heimilt er þó að veita undanþágu frá þessu ákvæði.

37. gr. Tenging húsveitu.

SV annast lagningu eigin veitukerfis og tengingu við húsveitu kaupanda. Við slíka framkvæmd skulu SV halda raski í lágmarki og ganga þrifalega um. Jafnframt skulu SV færa allt til fyrra horfs eins og við verður komið.

SV ákveða staðsetningu mælagrindar og inntaks í samráði við húseiganda. Húseigandi á ekki kröfu um sérstaka greiðslu fyrir óþægindi vegna lagningar veitukerfisins.

38. gr. Skipting kostnaðar.

SV kosta lagningu eigin veitukerfis, en húseigandi greiðir stofn- og mælagrindargjald samkvæmt gjaldskrá.

39. gr. Breytingar.

Kostnaður vegna breytingar á húsveitu eða hitunarkerfi húss vegna tengingar við S V skal húseigandi/kaupandi standa straum af.

Húseigandi/kaupandi kostar breytingar á heimæðum sem nauðsynlegar eru vegna framkvæmda hans.

Húseigandi skal fyrirfram sækja um leyfi til hverra þeirra framkvæmda, sem kunna að hafa í för með sér röskun á veitukerfi SV.

40. gr. Eftirlit.

SV hafa rétt til aðgangs að húsnæði því, sem veitukerfi þeirra liggur um til viðhalds, eftirlits og breytinga.

Ef inntak hitaveitu og mælagrind eru ekki í sama herbergi skal lögn þar á milli vera óhulin eða í stokk sem auðvelt er að opna.

VI. KAFLI ÝMIS ÁKVÆÐI.

41. gr. Lögtak.

Öll gjöld samkvæmt reglugerð þessari svo og verðskrá settri skv. henni má innheimta með lögtaki.

42. gr. Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við að lögum.

43. gr. Málarekstur.

Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

44. gr. Samþykki og staðfesting.

Reglugerð þessi, sem samin er og samþykkt af bæjarstjórn Selfosskaupstaðar er hér með staðfest samkvæmt vatnalögum nr. 15, 20. júní 1923 og orkulögum nr. 58, 29. apríl 1967 til að öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð um breytingar á bráðabirgðareglugerð fyrir Selfossveitur nr. 57, 9. febrúar 1989, með síðari breytingum.

Iðnaðarráðuneytið, 27. nóvember 1990.

Jón Sigurðsson.

Björn Friðfinnsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.