Iðnaðarráðuneyti

125/1999

Reglugerð um breytingu á reglugerð fyrir Akranesveitu nr. 665 27. desember 1995. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

REGLUGERÐ

um breytingu á reglugerð fyrir Akranesveitu nr. 665 27. desember 1995.

1. gr.

33. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Hitastig og leiðréttingar.

AV selur heitt vatn í smásölu samkvæmt magnmælingu um rennslismæla.

AV leiðréttir gjald fyrir vatnsnotkun með tilliti til hitastigs, þannig að fyrir hverja gráðu á Celsius, sem reiknað hitastig við húsvegg víkur frá 77°C, breytist gjaldið um 2% til lækkunar sé hiti lægri en 77°C, en annars til hækkunar.

Útreikningarnir miðast við að ná meðalleiðréttingu hjá notendum. Þannig verði sama magn ofleiðrétt og vanleiðrétt.

Við útteikninga er gengið út frá eðlilegu jafnvægisástandi í aðveitu og dreifikerfi. Ekki er leiðrétt vegna tímabundinna hitasveiflna í aðveitu, en búast má við hærri vatnshita í þurrviðri og lægri hita í bleytutíð.

Hjá þeim notendum, sem einungis kaupa neysluvatn og þar sem notkun er lítil eða mjög óregluleg, skal leiðrétting vera meðalleiðrétting viðkomandi sveitarfélags.

Fastagjald greiðist af öllu hituðu húsnæði. Fastagjaldið miðast við flatarmál samkvæmt fasteignamati. Fastagjald er ekki greitt af bifreiðageymslum nema þær séu nýttar í annað. Heimilt er að veita undanþágu frá þessu ákvæði, en þeir sem ekki greiða fastagjald þetta skulu greiða 33,33% hærra verð fyrir hvern rúmmetra vatns.

Fyrir hvern mæli skal greiða fast gjald á mánuði, mælaleigu, háð stærð mælis.

Af húsi sem tengist hitaveitunni skal greiða stofngjald. Viðbótarstofngjald skal greiða af viðbyggingum húsa.

Fyrir heimæðar, sem eru lengri en 25 m innan lóðarmarka, skal greiða sérstakt gjald.

Ef óskað er fleiri en einnar mælagrindar í húsi, þar sem greitt hefur verið sameiginlegt stofngjald, skal greiða sérstakt mælagrindargjald á hverja mælagrind sem bætist við.

2. gr.

Reglugerðarbreyting þessi, sem stjórn Akranesveitu og bæjarstjórn Akraness hafa samþykkt, staðfestist hér með samkvæmt orkulögum nr. 58 29. apríl 1967, til þess að öðlast gildi 1. mars 1999 og birtist til eftirbreytni öllum sem hlut eiga að máli.

Iðnaðarráðuneytinu, 17. febrúar 1999.

F. h. r.

Jón Ingimarsson.

_________________

Katrín Jóhannsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica