Iðnaðarráðuneyti

241/1990

Reglugerð um bæjarveitur Vestmannaeyja

I. KAFLI

Stjórn og rekstur.

 

1. gr.

Skilgreining.

Bæjarveitur Vestmannaeyja, skammstafað BV, er sjálfstætt fyrirtæki sem Vestmanna­eyjabær á og starfrækir.

 

2. gr.

Markmið.

Tilgangur BV er að annast á veitusvæði sínu öflun, dreifingu og sölu raforku og varmaorku og aðra starfsemi sem því tengist. Einnig að sjá um rekstur vatnsveitu samkv. Reglugerð fyrir vatnsveitu Vestmannaeyja nr. 148 árið 1961.

 

3. gr.

Veitusvæði, einkaréttur.

Veitusvæði BV er skipulagssvæði Vestmannaeyjakaupstaðar og sá hluti nágrennis þess sem bæjarstjórn ákveður og ráðherra samþykkir.

BV hefir einkarétt til dreifingar og sölu á raforku og varmaorku á veitusvæði sínu.

 

4. gr.

Yfirstjórn.

Yfirstjórn BV er í höndum bæjarstjórnar Vestmannaeyjakaupstaðar en framkvæmdastjórn hennar skal falin stjórn ásamt veitustjóra.

 

5. gr.

Stjórn.

Stjórn skipa fimm menn, þar með talinn bæjarstjóri, sem er formaður stjórnar, og fjórir til vara sem kosnir eru af bæjarstjórn. Kjörtímabil hennar skal vera hið sama og bæjarstjórnar. Stjórnin skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum.

 

6. gr.

Ákvörðunartaka.

Stjórn er ákvörðunarbær þegar meirihluti hennar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi átt þess kost að fjalla um málið. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum.

 

7. gr.

Verksvið stjórnar.

Hlutverk stjórnar er:

1) að hafa eftirlit með að skipulag BV og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi,

2) að ákveða framkvæmdir á veitusvæðinu í samræmi við samþykktir bæjarstjórnar og ákvæði sveitarstjórnarlaga,

3) að semja verðskrá (gjaldskrá) fyrir BV og leggja hana fyrir bæjarstjórn, 4) að undirbúa samninga um orkukaup og orkusölu,

5) að semja fjárhagsáætlanir og leggja fyrir bæjarstjórn,

6) að ráða forstöðumenn aðaldeilda að fengnum tillögum veitustjóra, 7) að gefa bæjarstjórn þær skýrslur sem hún óskar eftir,

8) að semja nánari reglur um einstök framkvæmda atriði þessarar reglugerðar, eftir því sem þörf gerist, og leggja þær fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

 

8. gr.

Verksvið veitustjóra.

Bæjarstjórn ræður veitustjóra BV að fengnum tillögum stjórnar.

Veitustjóri annast allan daglegan rekstur og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn gefur.

Veitustjóri, ásamt formanni, undirbýr fundi. Boða skal til fundar með skriflegu fundarboði ásamt dagskrá a.m.k. 24 tímum fyrir fund.

Veitustjóri situr fundi stjórnar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt. Veitustjóri gerir tillögur til stjórnar um lausn verkefna skv. 7. gr. Veitustjóri ræður aðra starfsmenn en þá sem taldir eru í 7. gr. 6. tl.

 

9. gr.

Reikningshald.

BV skal hafa sjálfstæðan fjárhag og sjálfstætt reikningshald. Reikningsár veitunnar er almanaksárið og skulu endurskoðaðir reikningar hennar fylgja reikningum sveitarfé­lagsins.

Verðskrá skal við það miðuð að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins. Einnig skal að því stefnt að fyrirtækið skili nægilegum greiðsluafgangi til þess að það geti jafnan, með eigin fjármagni og hæfilegum lántökum, tryggt notendum sínum næga orku/neysluvatn á hagkvæmasta verði.

Tekjum BV skal fyrst og fremst varið til að standa straum af nauðsynlegum rekstrarkostnaði og fjárfestingu þannig að öruggur rekstur veitunnar sé tryggður, þar með talin greiðsla afborgana og vaxta af skuldum hennar. Ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps skal ákveðin af bæjarstjórn að fengnum tillögum stjórnar.

 

II. KAFLI

Verðskrá - innheimta

10. gr.

Verðskrá.

Verð á orku/vatni skal ákveða í verðskrá.

Notandi skal greiða BV orku/vatnskaupin samkvæmt gildandi verðskrá á hverjum tíma. Við verðbreytingar skal reikningsfæra notkun í beinu hlutfalli við gildistíma hverrar verðskrár á því tímabili sem reikningurinn tekur til.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja setur BV verðskrá. Skal þar kveðið á um verð fyrir raforku, varmaorku, heimæðar, heitt og kalt vatn, gjalddaga, eindaga og innheimtu þessara gjalda, viðurlög við vanskilum og annað sem kemur gjaldtökunni við.

Heimilt er bæjarstjórn að ákveða, í verðskrá, að gjöld til B V skuli breytast í samræmi við vísitölu byggingakostnaðar eða eftir atvikum að hluta í samræmi við breytingu á olíuverði og verði raforku frá Landsvirkjun/Rarik.

Verðskráin skal lögð fyrir iðnaðarráðuneytið, til staðfestingar, og skal hún birt í B- deild Stjórnartíðinda.

 

Áætlun, álestur.

BV má grundvalla orku-/vatnsreikninga á áætlun um orkunotkun notanda, og innheimta reglulega samkvæmt slíkri áætlun, en í henni sé notkuninni jafnað niður á daga. Reikningar, sem byggjast á staðreyndri orkunotkun, nefnast álestrarreikningar en reikningar, sem byggjast á áætlaðri notkun, nefnast áætlunarreikningar.

 

Uppgjör.

Raunverulega orku-/vatnsnotkun skal staðreyna ekki sjaldnar en á u.þ.b. 12 mánaða fresti. Þegar notkun hefur verið staðreynd skal hún reikningsfærð og gerð upp fyrir tímabilið milli álestra. Notandi getur jafnan, gegn greiðslu aukagjalds, krafist aukaálestr­ar og uppgjörs miðað við staðreynda notkun. Ennfremur getur hann óskað eftir breytingu á áætlun um notkun vegna nýrra forsendna.

 

Sending reikninga.

Reikninga skal senda orku-/vatnskaupanda á notkunarstað eða annan stað sem hann tiltekur.

 

Gjalddagi, eindagi.

Gjalddagi er við útgáfu reiknings. Eindagi er samkvæmt ákvæðum í gjaldskrá hverju sinni.

 

Vanskilavextir.

Verði greiðslufall á reikningi, hvort sem um er að ræða áætlunar- eða álestrarreikn­ing, hefur BV rétt til að áskilja sér og innheimta vanskilavexti sem reiknast frá þeim degi sem tilgreindur er í gjaldskrá hverju sinni.

 

11. gr.

Stöðvun orkuvatnsafhendingar.

Sé reikningur ekki greiddur á eindaga, eða ef notandi vanefnir skyldur sínar samkvæmt reglugerð þessari eða skriflegum samningi um orku-/vatnskaup, má BV stöðva afhendingu orku/vatns til notanda að undangenginni skriflegri viðvörun sem sendist honum með minnst þriggja daga fyrirvara.

 

Innheimtuaðgerðir.

Vanskil á greiðslu áætlunarreikninga heimila BV sömu aðgerðir til innheimtu og stöðvunar á orku-/vatnsafhendingu og vanskil á álestrarreikningum. BV ber ekki ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum slíkrar stöðvunar.

 

Notandi með fleiri en eina veitu.

Beri kaupandi ábyrgð á orku-/vatnskaupum um fleiri en eina veitu (mæli) má stöðva afhendingu um hverja þeirra sem er, eða allar, vegna vanskila eða vanefnda í sambandi við eina þeirra.


 

Greiðsluskylda á lokunartíma.

Stöðvun orku-/vatnsafhendingar vegna vanskila hefur engin áhrif á greiðsluskyldu notanda á skuldum við BV né heldur greiðsluskyldu á fastagjaldi, aflgjaldi og tækjaleigu á lokunartíma.

 

Innheimtugjald.

BV hefur rétt til þess að krefja notanda um greiðslu kostnaðar við undirbúning að stöðvun orku-/vatnsafhendingar (lokun), ennfremur við framkvæmd lokunar, svo og opnun veitunnar.

 

Stöðvun orku-/vatnsafhendingar.

BV má stöðva orku-/vatnsafhendingu með hverjum þeim hætti sem henta þykir, með rofi í íbúð eða húsnæði notanda eða utanhúss. BV er ekki skylt að tilkynna notanda um sjálfa stöðvun orku-/vatnsafhendingarinnar enda sé ekki óeðlilega langur tími liðinn frá viðvörun um hana.

 

Opnun.

Sé lokað fyrir veitu vegna skulda skal, að jafnaði, ekki opnað aftur nema skuldin sé að fullu greidd og/eða trygging sett fyrir skilvísri greiðslu framvegis.

 

Óleyfileg tenging veitu.

Enginn má rjúfa, né endurtengja veitu, nema þeir sem BV hefur veitt umboð til þess hverju sinni. Óleyfilega tengda veitu má BV rjúfa fyrirvaralaust.

 

III. KAFLI

Rafveitukerfi - húsveitur og tenging þeirra.

12. gr.

Eigandi/notandi veitu.

Eigandi húsveitu, eða annarrar veitu, sem tengist rafveitukerfi BV, nefnist húseig­andi (veitueigandi).

Kaupandi raforku, eða sá sem ber ábyrgð á greiðslu hennar, nefnist notandi.

 

13. gr.

Umsókn um heimtaug.

Umsókn um heimtaug eða breytingu á heimtaug skal undirrituð af húseiganda er skuldbindur sig til þess, með undirskrift sinni, að greiða heimtaugargjald það sem ákveðið er í verðskrá BV og að hlíta settum reglum um kaup á raforku frá BV. Skal í umsókninni skýrt frá hve mikið afl þarf og til hvers það er ætlað. BV getur krafist þess að skrifleg greinargerð, byggð á tækniþekkingu, sé lögð fram varðandi áætlun um afl- og orkunotkun.

 

Kostnaður vegna aukningar veitukerfis.

Sé um tiltölulega mikla notkun að ræða og BV þarf, til þess að fullnægja henni sérstaklega, að auka háspennukerfi, auka afl spennistöðvar eða gera meiriháttar viðbætur á lágspennukerfi, er veitustjóra heimilt að gera umsækjanda að taka þátt í kostnaði.

 

Óvenjulegar aðstæður.

Sé um óskipulagt svæði að ræða, eða aðstæður óvenjulegar að því er varðar fjarlægð húsveitu frá veitukerfi eða fyrirhugaða raforkunotkun húsveitunnar, skal heimtaugar­gjald ákveðið samkvæmt sérstökum samningi hverju sinni þar sem hliðsjón er höfð af stofnkostnaði við framkvæmdir.


 

Lágmarksgjald.

BV er heimilt að krefjast lágmarksgjalds vegna notkunar um heimtaug.

 

Frosin jörð.

Heimilt er að krefja húseiganda um greiðslu aukakostnaðar vegna lagningar heimtaugar, að ósk hans, í frosna jörð.

 

Eigandi heimtaugar.

Heimtaugar með stofnvari eru eign BV, enda þótt heimtaugargjald hafi verið greitt, nema um annað hafi verið sérstaklega samið.

 

Breyting á heimtaug.

BV annast viðhald og endurnýjun heimtauga sinna, án sérstaks endurgjalds, nema heimtaug þurfi að breyta vegna breytinga á húsi eða lóð. Skal húseigandi greiða kostnaðinn við þá breytingu. Ef loftlínuheimtaug er breytt í jarðstrengsheimtaug skal húseigandi greiða kostnaðarmun sem ákveðinn er í verðskrá.

 

14. gr.

Rafverktakaleyfi.

Veitustjóri eða rafverktakaleyfisnefnd veitir þeim rafverktaka leyfi sem fullnægja skilyrðum og skilmálum BV.

Heimild til vinnu við raforkuvirki.

Skylt er að láta löggilta rafverktaka og/eða BV, ef hún tekur slík verk að sér, framkvæma vinnu við raflagnir og raftæki, hvort heldur er um að ræða nýjar raflagnir, breytingar eða viðgerðir á raflögnum eða raftækjum sem tengjast eiga eða tengd eru við húsveituna. Aðrir mega ekki taka ábyrgð á né vinna nokkurt slíkt verk.

 

Upplýsingaskylda.

Löggiltir rafverktakar eru skyldir til að veita BV upplýsingar um húsveitur og raftæki sem þeir vinna við og bera ábyrgð á.

 

15. gr.

Úttekt.

BV annast úttekt og skoðun á raflögnum skv. reglugerð Rafmagnseftirlits ríkisins um raforkuvirki, svo og skv. beiðni eða að eigin frumkvæði.

 

Greiðsla fyrir skoðun.

BV getur gert eiganda veitu að greiða kostnað þeirra verka sem veitan innir af hendi við úttekt raflagna, skoðunargerðir og annað eftirlitsstarf sitt.

 

Spennusetning.

Engir aðrir en umboðsmenn BV mega setja spennu á veitu eða hluta af veitu í fyrsta sinn eftir úttekt. Sé út af þessu brugðið varðar það þann sektum sem verkið er unnið fyrir, þann sem setur spennu á veituna og hinn löggilta rafverktaka er um verkið sá.

 

Ábyrgð.

BV tekur ekki á sig ábyrgð á veitu með úttekt eða tengingum.


 

16. gr.

Húsveitur.

Sérhver húsveita, að meðtöldum neyslutækjum, skal fullnægja kröfum þeim sem settar eru í reglugerð Rafmagnseftirlits ríkisins og tæknireglum BV. Það sem ekki fullnægir þessum kröfum telst óleyfilegt. Efni í veitu eða tæki skal vera viðurkennt af sömu aðilum.

 

Stofntaugar.

Húseiganda er skylt að sjá um að stofntaugar í húsveitu hans séu ávallt nægilega gildar fyrir notkun veitunnar.

 

Gallar á veitu og tækjum.

Vélar og önnur tæki skulu vera þannig sett og þannig útbúin að þau starfi án þess að truflun valdi á ljósum eða annarri notkun.

Misbrest á þessu eða aðra galla á veitu eða tækjum skal húseigandi/notandi þegar í stað, og á sinn kostnað, láta löggiltan rafverktaka lagfæra.

 

Úrbætur á göllum.

Komi í ljós við skoðun húsveitu, sem framkvæmd er af BV, Rafmagnseftirliti ríkisins eða löggiltum rafverktaka, að galli er á veitu eða tækjum skal eigandi veitunnar eða tækjanna skyldur til þess að láta, á sinn kostnað, löggiltan rafverktaka gera við gallana.

 

Óleyfilegar tengingar.

Séu gerðar óleyfilegar tengingar eða breytingar á veitu eða tækjum, eða sýnt hirðuleysi í meðferð eða viðhaldi veitu eða tækj a, skal farið með það sem galla á veitu og er heimilt að gera eiganda að greiða þann kostnað sem aukið eftirlit með veitunni hefur í för með sér.

 

Aftenging veitu.

Veitustjóri getur látið taka veituna eða tæki úr sambandi, meðan galli er á veitunni eða tækjunum, þar til úr er bætt.

 

Aðgangsréttur.

Starfsmenn BV eiga rétt til þess að hafa óhindraðan aðgang til skoðunar á veitum, jafnt fullgerðum sem ófullgerðum, hvort sem er:

til athugunar á öryggi þeirra, þ.m.t. neyslutæki,

til athugunar á mælitækjum og því hvort öll notkun komi rétt til mælis samkvæmt verðskrá,

til álestrar á mælitæki,

til lokunar vegna vanskila og til annarra þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru samkvæmt réttindum og skyldum BV.

 

Tengiskilyrði.

Setja má, í sérstakri reglugerð staðfestri af ráðherra, sérákvæði um nánari tæknileg tengiskilyrði.

 

17. gr.

Mælitæki.

BV setur upp nauðsynleg mælitæki og ákveður fjölda þeirra, tegund og staðsetningu. Mælitækin má ekki flytja til án samþykkis BV en hún getur krafist flutnings þeirra ef það þykir hentugra að dómi veitustjóra.


 

Notandi.

Notandi mælitækis er sá sem skráður er fyrir raforkunotkun þeirrar veitu sem mælitækið er fyrir. Skal hann bera ábyrgð á mælitækjum og raforkunotkun veitunnar þar til hann lætur af notkun hennar og tilkynnir BV um það.

 

Viðhald.

BV annast venjulegt viðhald mælitækjanna á sinn kostnað en verði mælitæki fyrir óvenjulegu hnjaski eða skemmdum er heimilt að skylda notanda til að greiða kostnað við viðhald eða endurnýjun þess.

 

Tækjaleiga.

Notandi greiðir leigu fyrir a.fnot mælitækja skv. verðskrá BV á hverjum tíma.

 

Greiðsluábyrgð.

Þar sem eitt mælitæki er sett fyrir sameiginlega notkun fleiri aðila ber notandi, sem skráður er fyrir mælitækinu, ábyrgð á greiðslum vegna hinnar sameiginlegu notkunar. Aðrir notendur bera hver um sig ábyrgð in solidum á greiðslum þessum með hinum skráða notanda.

 

Skráning notanda.

Breyting á skráningu notanda fyrir sameiginlegri notkun orku um mælitæki verður því aðeins gerð að allir notendur hinnar sameiginlegu notkunar fari fram á það skriflega.

 

Kostnaður við prófun.

Óski notandi að mælitæki verði prófað skal beiðni um það vera skrifleg. Reynist skekkja +/- 5% eða minni er heimilt að gera notanda að greiða kostnað við prófun.

 

Mæliskekkja.

Ef fram kemur við prófun, sem BV framkvæmir, að mælitækið hafi mælt 5% of lítið eða þaðan af minna skal notandinn greiða það sem vanmælt var.

 

Endurgreiðsla.

Hafi tækið mælt 5% of mikið eða þaðan af meira skal endurgreiða notandanum mismuninn með frádrætti á næsta orkureikningi eða í reiðufé.

 

Endurgreiðslutímabil.

BV getur ekki krafist viðbótargreiðslu fyrir lengra tímabil en 1 ár og sama gildir um kröfu notanda til endurgreiðslu.

 

Endurreiknun orkunotkunar.

Við endurreiknun orkunotkunar skal taka tillit til fyrri notkunar viðkomandi aðila og annarra aðstæðna sem gefið gætu vísbendingu um það hvenær mælitækið bilaði. Eigi skal reikna vexti af umfram- eða vangreiðslum sem að framan greinir.

 

Véfenging á prófun mælitækis.

Ef notandi véfengir niðurstöður prófunar á mælitæki skal leita úrskurðar Rafmagnseftir­lits ríkisins og er hann bindandi fyrir báða aðila.

 

Tilkynning um notendaskipti.

Hætti skráður notandi notkun skal hann, í tæka tíð, tilkynna það til BV, sem annast lokaálestur. Hafi eigi annar notandi sótt um að fá mælitækið skráð á sitt nafn skal loka því og eigi skal hefja orkusölu um tækið á ný fyrr en nafn og nafnnúmer/kennitala nýs notanda hefur verið tilkynnt.


 

Notkun vegna galla á veitu.

Þótt raforkunotkun verði rakin til galla á veitu eða tækjum er BV ekki skylt að áætla frádrátt á reikningum notanda af þeim sökum.

 

Leiðrétting á reikningsfjárhæð.

Ef svo reynist að notkun hefur orðið meiri en álestur sýnir, eða álestur eða útreikningur á reikningsfjárhæð verið skakkur, áskilur BV sér rétt til að leiðrétta þessa skekkju eftir á, undir eins og vitað er um hana.

 

Óleyfileg notkun.

Verði uppvíst að rafmagn sé notað á annan hátt en um er samið, eða að raskað hafi verið mælitækjum eða breytt tengingu þannig að öll notkun komi ekki fram, skal BV áætla þá notkun sem fram hefir farið óleyfilega og skal notandi gjalda fyrir hana, eftir verðskrá, fyrir allan tímann sem liðinn er frá síðustu skoðun veitunnar og þar til leiðrétt er.

 

Áætlun um notkun.

Ef ekki liggja fyrir sérstakar upplýsingar um líklega notkun á veitunni má við matið hafa hliðsjón af stærð á vörum þeim sem fyrir veitunni eru.

 

18. gr.

Innsigli.

Starfsmenn BV hafa heimild til að innsigla mælitæki, sem raforkukaup eru gerð um, svo sem kWh-mæla, straumspenna o.þ.h. Einnig mega starfsmenn BV innsigla hluta veitu sem ómæld orka fer um. Þessi innsigli mega engir aðrir rjúfa en starfsmenn BV. Önnur innsigli BV mega rafverktakar rjúfa að fengnu leyfi BV hverju sinni.

 

Hættuástand.

Ef skjótra aðgerða er þörf vegna hættuástands er heimilt að rjúfa innsigli en þá skal viðkomandi, eigi síðar en næsta virkan dag á eftir, tilkynna BV skriflega málsatvik.

 

Tilkynning.

Veiti notandi eða rafverktaki því athygli að innsigli sé rofið eða vanti er hann skyldur að tilkynna BV slíkt án tafar.

 

IV. KAFLI

Skilmálar fyrir raforkusölu.

19. gr.

Tímabil sölusamnings.

Upphaf og lok samnings um orkukaup eru við skráningu tilkynningar þess efnis hjá BV.

 

20. gr.

Umsókn um tengingu.

Skilyrði raforkusölu er að samþykkt hafi verið umsókn um tengingu viðeigandi húsveitu við veitukerfi BV.

 

21. gr.

Raforkusala.

BV selur raforku á orkuveitusvæði sínu, þar sem veitukerfi hennar nær til, með þeim skilmálum sem ákveðnir eru í reglugerð þessari, sérreglum um raforkuvirki á orkuveitusvæði hennar og verðskrá hennar á hverjum tíma.


 

Umsókn um raforkukaup.

BV getur krafist þess að hver sem óskar að gerast notandi raforku sæki um það skriflega og geri nána grein fyrir afl- og orkunotkun og til hverra nota raforkan sé ætluð, sbr. einnig 13. gr.

 

Takmörkuð flutningsgeta.

Á þeim stöðum í veitukerfinu þar sem flutningsgeta þess leyfir ekki umbeðið afl án sérstakra ráðstafana, ákveður veitustjóri nánari skilmála.

 

Rafhitun.

BV getur takmarkað sölu samkvæmt sérsökum töxtum vegna rafhitunar.

 

Sérstök spennistöð.

Ef BV telur nauðsynlegt að komið verði fyrir raforkuvirkjum á viðkomandi lóð, í því skyni að sala raforku geti farið þar fram, skal BV látin í té nauðsynleg lóð eða húsnæði fyrir spennistöð með sérstökum samningi, og nauðsynleg lóð eða aðstaða fyrir jarðstrengi, tengiskápa, stólpa og festur fyrir loftlínur, án endurgjalds. BV er heimilt að láta öðrum notendum í té raforku frá spennistöðinni. Kvöð um uppsetningu, og rekstur hennar og annarra raforkuvirkja, má þinglýsa á viðkomandi húseign.

 

Fjarliggjandi staðir.

Orkuafhendingu má binda því skilyrði að kostnaður vegna sérstakrar fjarlægðar sé greiddur af umsækjanda.

 

22. gr.

Rekstrartruflanir.

Stöðvun á rekstri, eða truflanir vegna bilunar eða takmarkana á raforkuvinnslu, hefur ekki í för með sér neina skaðabótaskyldu á hendur B V en koma skal á reglulegum rekstri aftur eins fljótt og auðið er. Notendur eiga ekki rétt til endurgreiðslu þótt stöðvun verði vegna bilana eða annarra óviðráðanlegra atvika um langan eða skamman tíma, sbr. þó síðustu mgr. 22. gr.

 

Spennubreyting.

BV ber ekki ábyrgð á spennubreytingum undir slíkum kringumstæðum né afleiðingum af þeim né heldur af bruna eða slysum sem verða kunna af völdum rafmagns frá veitum rafmagnsnotanda.

 

Viðgerðir.

BV áskilur sér rétt til þess að taka rafmagn af veitu vegna viðgerða og viðhalds eða eftirlits þegar þörf gerist.

 

Lagning heimtauga.

Meðan verið er að leggja heimtaugar er BV heimilt að taka rafmagn af því svæði sem nauðsynlegt er til þess að framkvæma tengingar.

 

Takmörkun á orkuafhendingu.

Komi það fyrir að takmarka þurfi notkun á rafmagni um langan eða skamman tíma ákveður BV hvernig takmörkun skuli hagað.

 

Tilkynning um straumleysi.

Stöðvun á rekstri skal tilkynna fyrirfram, ef unnt er, en þó eiga notendur enga skaðabótakröfu á hendur BV þótt straumur hafi rofnað fyrirvaralaust.


Notendur, sem greiða aflgjald, eiga rétt á að fá sem svarar 1/300 hluta aflgjaldsins endurgreiddan fyrir hvern heilan dag er þeir missa raforkuna vegna stöðvunar eða truflana á rekstri, þó eigi fyrir skemmri tíma en tvo sólarhringa. Þetta gildir ekki varðandi lokun vegna vanskila.

 

23. gr.

Umsaminn taxti.

Sérhver rafmagnsnotkun, er notandi byrjar á skv. tilteknum taxta (verðskrárlið) BV, er bindandi fyrir hann í að minnsta kosti 1 ár. Þó getur veitustjóri leyst notanda undan þessari skuldbindingu.

 

Umsókn um taxtabreytingu.

Verði breyting á notkun, þannig að hún geti fallið undir annan taxta, skal umsókn um það send BV með eins mánaðar fyrirvara.

BV áskilur sér rétt til að segja upp sölu eftir tilteknum taxta með eins mánaðar fyrirvara ef í ljós kemur að notkunin á að falla undir annan taxta.

 

Ábyrgð notanda.

Notandi ber ábyrgð á notkun um þá veitu, sem hann er skráður fyrir, þar til hann hættir notkuninni og hefur sagt henni upp með tilkynningu til BV með eðlilegum fyrirvara.

 

Notendaskipti, tilkynningarskylda.

Húseigandi er ábyrgur fyrir tilkynningu til BV um notendaskipti. Vanræki húseigandi þessa tilkynningarskyldu sína er heimilt að gera hann ábyrgan fyrir ógreiddri orkunotkun þess aðila er áður var notandi viðkomandi veitu.

Almenn ákvæði um sölu á varmaorku, húsveitur og tenging þeirra við hitaveitukerfið.

 

V. KAFLI

24. gr.

Eigandi veitu.

Eigandi húsveitu, eða annarrar veitu sem tengist hitaveitukerfi BV, nefnist húseigandi (veitueigandi). Kaupandi varmaorku, eða sá sem ber ábyrgð á greiðslu hennar, nefnist notandi.

 

25. gr.

Utanhússlagnir og mælar.

BV sér um flutning vatns frá kyndistöð inn fyrir útvegg húss að mæli. Er BV eigandi þessara lagna og mæla. Efni og frágangur búnaðar skal vera samkvæmt tæknireglum BV.

 

26. gr.

Viðhaldsskylda.

BV annast allt viðhald og endurbætur á dreifikerfinu, tengingum og mælum og greiðir kostnað því samfara. Þó er rétt að endurkrefja húseigendur um kostnað vegna tjóns á kerfi eða mælum, sem rekja má til hirðuleysis eða mistaka þeirra.

 

27. gr.

Afnot varmaorku.

Sú varmaorka, sem BV lætur í té, er ætluð til upphitunar húsa og almennra heimilisnota. Heimild stjórnar BV og bæjarstjórnar þarf til annarrar notkunar varmaorkunnar.

Óheimilt er að taka vatn af hringrásarkerfinu.


 

28. gr.

Bótaskylda.

BV ber ekki ábyrgð á tjóni, sem leiða kann af rekstrartruflunum er verða vegna bilunar í tækjabúnaði eða dreifikerfi, vegna rafmagnstruflana, frosta eða náttúruhamfara eða annarra óviðráðanlegra atvika.

BV skal kappkosta að viðhalda nægilegu hitastigi og þrýstingi, en er þó ekki skaðabóta­skyld, verði misbrestur á þessu.

 

29. gr.

Umsóknir.

Sækja skal skriflega um tengingu við veitukerfið á sérstökum eyðublöðum sem B V lætur í té.

Umsókn skal skila samtímis umsókn um byggingarleyfi og skal staðsetning inntaks greinilega mörkuð á uppdrætti, fylgja umsókn um byggingarleyfi.

Áður en úttekt er gerð á undirstöðum húss skal umsækjandi skila séruppdrætti á hitakerfi hússins í tvíriti til BV.

Umsókn um tengingu skal undirrituð af eiganda húss, eða fullgildum umboðsmanni hans, ásamt þeim pípulagningameistara sem verkið á að annast.

 

30. gr.

Tengingar hitalagna.

Uppdráttur skal gerður af sérmenntuðum verkfræðingi, tæknifræðingi, pípulagninga­meistara eða öðrum þeim sem hlotið hefur löggildingu til slíkra starfa, og ber hann ábyrgð á því að uppdráttur sé réttur og í samræmi við reglur þessar, sérteikningar BV, svo og aðrar reglur og lög sem gilda um byggingarmál.

 

31. gr.

Teikningar.

Uppdrættir skulu vera skýrir og greinilegir og gerðir á haldgóðan pappír. Stærð skal vera samkvæmt íslenskum staðli ÍST 1, þó ekki stærri en Al. Notuð tæki skulu vera samkvæmt ÍST 64.

 

32. gr.

Breytingar á eldri lögnum.

Ef uppdrættir af gömlum hitalögnum, sem breyta á, eru ekki til getur B V krafist þess, að þeir séu gerðir, eftir því sem nauðsynlegt er, og ber húseigandi allan kostnað af því.

 

33. gr.

Meistarar.

Löggiltir pípulagningameistarar hafa einir rétt til þess að annast hitalagnir. Þeir bera ábyrgð á að allar lagnir séu í samræmi við reglugerð þessa, nánari fyrirmæli er kunna að verða sett og samþykkta uppdrætti.

Ef skipt er um meistara, meðan á verkinu stendur, skal það tilkynnt B V skriflega og lætur BV þá fara fram úttekt á þeim hluta verksins sem lokið er.

Óheimilt er að halda áfram verkinu fyrr en annar meistari hefur tekið við því.

 

34. gr.

Eftirlit.

BV annast eftirlit með því að hitalagnir séu í samræmi við samþykktan uppdrátt og reglugerð þessa. Eftirlitsmaður BV skal hafa frjálsan aðgang að hitalögnum meðan á verki stendur. Húseiganda er skylt að láta honum í té allar upplýsingar er skipt geta máli um upphitun hússins. Engar hitalagnir má hylja fyrr en að fengnu leyfi eftirlitsmanns BV. Getur hann stöðvað verkið þar til bætt hefur verið úr því sem áfátt kann að vera.

Ef vanrækt er að vinna verk sem BV hefur fyrirskipað samkvæmt reglugerð þessari, eða verk er ekki unnið á viðunandi hátt, er BV þá heimilt að láta vinna það, sem þörf krefur, á kostnað viðkomandi aðila.

 

35. gr.

Dælur á heimæðum.

Óheimilt er að tengja dælur við heimæðar nema gegn skriflegu leyfi BV.

 

36. gr.

Tenging.

Eigendum húseigna í nýjum byggingarhverfum, þar sem dreifiæð BV verður lögð, er skylt að láta tengja þau hitaveitukerfinu. Sama gildir um eldri íbúðarhverfi, sem ákveðið kann að verða að leggja hitaveitu í, enda er bæjarstjórn heimilt að ákveða upphæð og greiðslufyrir­komulag stofngjalds í þeim hverfum með öðrum hætti en fyrir nýbyggingar. Nú eru sérstakir erfiðleikar eða óeðlilegur kostnaður samfara tengingu húss eða tenging þykir af einhverjum ástæðum ekki ráðleg og getur BV þá ákveðið að húsið skuli ekki tengt við veitukerfið.

 

VI. KAFLI

Sérákvæði um hitaveitukerfi.

37. gr.

Efni og frágangur.

Öll vinna að hitalögnum skal vera vel af hendi leyst og allt óaðfinnanlegt. Nú telur eftirlits- eða umboðsmaður BV, að vinna eða efni sé gallað og er þá skylt að bæta það.

 

38. gr.

Forhitarar.

Pípur í forhitara og geyma skulu þrýstiprófaðar með 10 kg/cm2, en kápa með 6 kg/cm2. Forhitarar skulu staðsettir í minnst Sem fjarlægð frá vegg, lofti eða gólfi og tryggilega festir.

Leyfi BV þarf til þess að setja forhitara á miðstöðvarkerfið. Þá mun BV ákveða hvert þrýstitap má mest verða í forhitaranum við hámarksálag.

Óheimilt er að tengja varmadælu veitukerfinu (miðstöðvarkerfinu).

 

39. gr.

Pípur.

Stálpípur, sem notaðar eru til hitalagna, skulu fullnægja ákvæðum þeim sem gildandi eru í þýskum staðli, DIN 2440.

Allar pípur skulu vera hreinar. Í þeim mega ekki vera ryðskánir. Þar sem pípur eru huldar getur BV krafist þess að samskeytin séu soðin.

Eirpípur skulu fullnægja lágmarksákvæðum þeim sem gildandi eru í þýskum staðli, DIN 1786.

Óheimilt er að nota annað efni en hér hefur verið lýst.

 

40. gr.

Suðuprófun á stálpípum.

Eftirlitsmaður BV hefur rétt til þess að krefjast þess að teknir verði bútar úr hitakerfinu til prófunar, svo margir sem honum þykir þurfa.


Pípulagningameistari sá, sem ábyrgð ber á verkinu, skal taka slík sýnishorn og færa lögnina í samt lag aftur. Komi í ljós að sýnishorn fullnægi ekki þeim kröfum, sem gerðar verða til þeirra, ákveður BV hvað gert skuli til lagfæringar eða hve mikinn hluta kerfisins skuli endurleggja.

 

41. gr.

Um pípulögnina.

Pípur skal leggja með tilliti til lofttæmingar hitunarkerfisins.

Við skurð á pípum skal snarað úr endum þeirra. Pípur, sem lagðar eru með veggjum og undir loftum, skal festa með burðarjárnum, og ber að ganga svo frá járnunum að þau hindri ekki hitaþenslu pípanna.

 

42. gr.

Miðstöðvarofnar.

Miðstöðvarofnar skulu þola 6 kg/cm2. Þeir skulu að jafnaði festir á vegg. Burðarjárn ofna skal staðsetja þannig að fjarlægð ofns verði a.m.k. 3 cm frá fullgerðum vegg en fjarlægð frá fullgerðu gólfi, upp að ofni, skal vera 10 -15 cm. Tengipípur ofna skulu vera svo lagðar að þær þoli þensluhreyfingu aðliggjandi stofna.

 

43. gr.

Þensluker.

Ef fjarhitari er á miðstöðvarlögninni er skylt að hafa á henni þensluker.

Sé frosthætta þar sem þensluker er staðsett skal það einangrað. Yfirfall skal vera á opnum þenslukerjum til frárennsliskerfis.

Yfirfallspípu úr zinkhúðuðu efni eða öðru jafngóðu, skal tengja við frárennsliskerfi með vatnslás.

Heimilt er að nota þrýstiþensluker (lokað þensluker).

 

44. gr.

Geislahitunarlögn.

Í geislahitunarlögn má eingöngu nota pípur sem þola a.m.k. 30 kg/cm2 þrýsting. Pípurnar skal beygja kaldar, þannig að bil milli pípanna verði rétt samkvæmt uppdrætti. Hitamottur skal leggja á a.m.k. 5 - 6 mm steypustyrktarjárn eða steinflögur, þannig að tryggt sé að steypa geti runnið undir þær alls staðar.

Að lokinni niðursetningu hitaflata, og tengingu þeirra, skal þrýstireyna geislahitunar­kerfið með köldu vatni, með 30 kg/cm2 þrýstingi er haldið sé óbreyttum í 2 klst. Geislahitunarkerfið telst þétt ef ekki sést rakavottur á neinni pípu eftir slíka prófun.

Eftirlitsmaður BV skal vera viðstaddur þegar prófanir, skv. þessari grein, fara fram. ~ öllum geislahitunarkerfum skulu vera sjálfvirk stjórntæki sem fyrirbyggi að of heitt vatn geti farið inn á þau.

45. gr. Einangrun. Allar pípur í veggjum og gólfum skal einangra með ólífrænu einangrunarefni, sem sé

a.m.k. 20 mm þykkt. Pípur í neðsta gólfi skal þó einangra þannig að raufir þær, sem pípur liggja í, séu fylltar með mjúku asfaltefni sem blanda má þurrum sandi í hlutföllunum 1 hl. asfalt 2 hl. sandur.

Bil milli pípa sé hvergi minna en 20 mm.

 

46. gr.

Stjórntæki.

Hitakerfi skulu búin stjórn- og öryggistækjum er dæmist fullnægjandi af BV. Öryggislokar skulu þola a.m.k. 6 kg/cm2 þrýsting.


 

47. gr.

Mælar.

Á inntakspípum húss, sem tengd eru hitaveitukerfinu, setur BV upp mæla. BV ákveður gerð og stærð mælitækja. Mælar þessir eru í eigu og umsjón BV, og er skylt að tilkynna tafarlaust ef vart verður við leka eða aðra bilun á mælunum.

 

48. gr.

Þrýstiprófun hitakerfa.

Þegar lokið er lögn miðstöðvarkerfis, og áður en pípur eru huldar, skal þrýstiprófað af pípulagningameistara að viðstöddum eftirlitsmanni BV. Prófa skal með köldu vatni og 6 kg/ cm2 þrýstingi.

Þrýsting skal mæla við inntak.

 

49. gr.

Nýjungar.

Komi fram nýjungar í efni og frágangi, sem þessi reglugerð nær ekki yfir, getur BV veitt samþykki sitt, enda uppfylli nýbreytnin svipaðar kröfur og gert er ráð fyrir í reglugerð þessari.

 

VII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

50. gr.

Lögtak.

Öll gjöld samkvæmt reglugerð þessari, svo og verðskrá settri skv. henni, má innheimta með lögtaki.

 

51. gr.

Refsing.

Brot á reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við að lögum.

 

52. gr.

Málsókn.

Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

 

53. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem samin er og samþykkt af Bæjarstjórn Vestmannaeyja 17. maí 1990, er hér með staðfest samkvæmt vatnalögum nr. 15, 20. júní 1923 og orkulögum nr. 58, 29. apríl 1967 til að öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi felldar reglugerð nr. 117, 22. ágúst 1949 fyrir Rafveitu Vestmannaeyja og reglugerð nr. 479, 29. október 1975 fyrir Fjarhitun Vestmannaeyja.

 

Iðnaðarráðuneytið, 7. júní 1990.

 

Jón Sigurðsson.

Páll Flygenring.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica