Iðnaðarráðuneyti

177/1939

Reglugerð fyrir Rafveitu Hafnarfjarðar.

A. STJÓRN OG REKSTUR

1. gr. -

Markmið rafveitunnar.

Rafveita Hafnarfjarðar er fyrirtæki, sem Hafnarfjarðarkaupstaður starfrækir í þeim tilgangi, að veita raforku um bæinn og selja hana til heimilisnotkunar, iðnaðar og annara þarfa.

Rafveitan er eign Hafnarfjarðarbæjar, en skal rekin sem sjálfstætt fyrirtæki með nafninu Rafveita Hafnarfjarðal.

2. gr. - V

erksvið og orkuveitusvæði.

Rafveita Hafnarfjarðar aflar raforku til almenningsþarfa í Hafnarfjarðarkaupstað, með því að kaupa raforku af orkuveitu frá Sogsvirkjuninni eða öðrum, svo og vinna hana sjálf í orkuverum, er síðar kunna að verða reist, og veitir þeirri orku, sem þannig er keypt eða unnin, um orkuveitukerfi rafveitunnar.

Orkuveitusvæði rafveitunnar er lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar og sá hluti nágrennis bæjarins, sem bæjarstjórn ákveður og atvinnumálaráðherra samþykkir.

Rafveita Hafnarfjarðar hefir einkarétt til sölu á raforku til notenda á orkuveitusvæði sínu.

3. gr. -

Stjórn rafmagnsmála. Rafveitustjóri.

Yfirstjórn rafmagnsmála bæjarins er í höndum bæjarstjórnar, en framkvæmdastjórnin skal falin rafveitunefnd ásamt rafveitustjóra, sem bæjarstjórnin skipar að fengnum tillögum rafveitunefndar, og skal hann vera rafmagnsverkfræðingur. Bæjarstjórnin setur honum erindisbréf. Rafveitustjóri er framkvæmdarstjóri rafveitunnar.

Í rafveitunefnd eiga sæti 3 menn kosnir af bæjarstjórn. Bæjarstjóri og rafveitustjóri eiga sæti á fundum nefndarinnar og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

4. gr. -

Verksvið rafveitunefndar.

Rafveitunefnd hefir á hendi stjórn rafveitunnar, sér um viðhald hennar og umbætur, og allt, er að starfrækslu hennar lýtur, kaup og sölu á raforku, fjárhald og reikningsskil. Hún skal gefa bæjarstjórn þær skýrslur, sem óskað er eftir, um starfrækslu og ástand rafveitunnar og leggja ársreikning hennar fyrir bæjarstjórn til úrskurðar samtímis ársreikningum bæjarsjóðs.

Rafveitunefnd semur nánari reglur, sem bæjarstjórn skal staðfesta, um einstök atriði þessarar reglugerðar, eftir því sem þörf gerist. Hún gerir einnig tillögur til bæjarstjórnar um gjaldskrár fyrir rafveituna, undirbýr samninga um orkukaup og orkusölu og annast framkvæmdir allra rafmagnsmála bæjarins.

Rafveitunefnd skipar alla fasta starfsmenn rafveitunnar, að fengnum tillögum rafveitustjóra, og setur þeim erindisbréf.

5. gr. -

Verksvið rafveitustjóra.

Rafveitustjóri stjórnar daglegri starfrækslu og reikningshaldi rafveitunnar, eftirliti, viðhaldi á stöðvum, taugum og öðrum útbunaði og öllum verklegum framkvæmdum, er snerta hana. Hann hefir umsjón með rafmagnslagningu í bænum, þar með talið efni og tæki, sér um afgreiðslu og innheimtu við kaup og sölu á raforku, efni og tækjum, sem veitan kaupir eða selur.

Rafveitustjóri ræður verkamenn og starfsmenn veitunnar svo sem þörf er á, auk hinna föstu starfsmanna.

6. gr. -

Reikningshald og ráðstöfun tekna.

Rafveita Hafnarfjarðar hefir sjálfstætt reikningshald og tekur sjálf við greiðslum fyrir selda raforku og öðrum tekjum. Skal tekjum hennar fyrst og fremst varið til að standast straum af öllum greiðsluskuldbindingum hennar, svo sem afborgunum af áhvílandi skuldum, vöxtum og öðrum reksturskostnaði, þar með talið fullnægjandi viðhald og endurnýjun virkja og annað, sem nauðsynlegt er til að tryggja öruggan rekstur rafveitunnar, en tekjum, sem umfram kunna að verða, ráðstafar bæjarstjórn. Rafveitustjóri varðveitir sjóð rafveitunnar samkvæmt nánari reglum, sem bæjarstjórn setur að tillögum rafveitunefndar.

7. gr. -

Löggilding rafvirkja.

Rafveitunefnd löggildir þá menn, til lagninga á húsveitum, er fullnægja löggildingarskilyrðum, er bæjarstjórn setur, enda hafi þeir áður hlotið löggildingu rafmagnseftirlits ríkisins til rafvirkjastarfa. Þessir menn nefnast löggiltir rafvirkjar og skal rafveitunefnd setja reglur um frágang og tilhögun á verkum þeim, sem falla undir verksvið þeirra. Engir aðrir en þeir, sem löggiltir eru, mega taka að sér lagningu á húsveitum, uppsetningu tækja, eða framkvæma á sína ábyrgð nokkurt verk, er snertir veitur, sem tengja á við taugakerfi rafveitunnar.

Bæjarstjórn getur, þegar henni þykir ástæða til, ákveðið verðlag á efni og vinnu rafvirkja, svo og ákveðið í gjaldskrá greiðslur fyrir verk þau, sem rafveitan innir af hendi við úttekt raflagna, skoðunargerðir og annað eftirlitsstarf sitt.

B. SÖLUSKILMÁLAR

8. gr. -

Sala raforku.

Rafveita Hafnarfjarðar selur raforku til almenningsþarfa á orkuveitusvæði sínu, allsstaðar þar sem taugakerfi hennar nær til, með þeim skilmálum, sem ákveðnir eru í reglugerð þessari og gjaldskrá rafveitunnar á hverjum tíma.

Raforkan er seld sem ein- eða þrífasa riðstraumur, með 220 volta málspennu og 50 riðum á sekúndu. Þegar sérstakar ástæður mæla með, má rafveitustjóri láta í té orku með annari spennu og annari straumtegund.

9. gr. -

Umsókn um kaup á raforku.

Hver, sem óskar eð gerast notandi að raforku, verður að fylla út tilætluð umsóknareyðublöð, er fást á skrifstofu rafveitunnar, og skal hann skuldbinda sig með undirskrift sinni, að hlíta settum reglum um kaup á raforku frá rafveitunni. Skal í umsókninni skýrt frá, hve mikið afl þarf, og til hvers það er ætlað.

10. gr. -

Umsókn um heimtaug.

Umsókn um heimtaug eða breytingu á heimtaug skal undirskrifuð af húseiganda, er skuldbindur sig til þess með undirskrift sinni, að greiða heimtaugargjald það, sem ákveðið er í gjaldskrá rafveitunnar.

Heimtaugar með stofnvari eru eign rafveitunnar, enda þótt heimtaugargjaldið hafi verið greitt eftir kostnaði heimtaugar. Rafveitan annast viðhald og endurnýjun heimtaugar, án sérstaks endurgjalds, nema heimtaug þurfi að breyta vegna breytingar á húsi. Skal húseigandi greiða kostnaðinn við þá breytingu og ef ofanjarðarheimtaug er breytt í neðanjarðar, skal húseigandi greiða mismun, sem ákveðinn er í gjaldskrá. Rafveitunni er heimilt að krefjast skuldbindingar um lágmarksnotkun um heimtaug.

Sé um tiltölulega mikla notkun að ræða, og rafveitan þarf, til þess að fullnægja henni, sérstaklega að auka háspennukerfi, auka afl spennistöðvar eða gera meiriháttar viðbætur á lágspennukerfi, er rafveitustjóra heimilt að krefjast skuldbindingar umsækjanda um tiltekinn notkunartíma eða þátttöku í kostnaði.

Eigi er skylt að ljúka lagningu jarðstrengsheimtaugar meðan jörð er frosin.

11. gr. -

Húsveitur.

Skylt er að láta löggiltan rafvirkja, eða rafveituna , ef hún tekur slík verk að sér, framkvæma alla vinnu við raflagnir og raftæki, hvort heldur er um að ræða nýjar raflagnir eða breytingar eða viðgerð á raflögn.

Löggiltir rafvirkjar annast umsóknir og tilkynningar til rafveitunnar um allar raflagnir fyrir hönd húseigenda eða notenda, samkvæmt því, sem ákveðið er í reglum um raflagningar í Hafnarfirði, en rafveitan annast úttekt á öllum nýlagningum, viðaukum og breytingum á raflögnum.

Engir aðrir en umboðsmenn rafveitunnar mega setja straum á veitu eða hluta af veitu í fyrsta sinn eftir úttekt.

Sé út af þessu brugðið, varðar það þann sektum, sem verkið er unnið fyrir, þann, sem setur strauminn á og loks hinn löggilta rafvirkja, er sá um verkið.

Rafveitan tekur ekki á sig ábyrgð á veitu með úttekt eða tengingu.

Rafveitan áskilur sér rétt til þess að setja þau skilyrði fyrir tengingu á veitu, að notkun um hana verði ekki taugakerfi rafveitunnar ofviða, og þar sem hætta kann að verða á þessu, má setja viðeigandi skilyrði í hvert sinn fyrir notkuninni þar til úr er bætt.

12. gr. -

Sala á raforku til notenda, sem sjálfir hafa orkuvinnslu.

Veitur, sem að jafnaði nota raforku annarsstaðar að en frá rafveitunni, má tengja við taugakerfi hennar í því skyni að rafveitan verði aðallega eða eingöngu notuð til vara með því skilyrði, að greitt sé lágmarks árgjald sem svarar til þeirrar kvaðar, sem hvílir á rafveitunni vegna tengingarinnar.

Framsal til annara á raforku, sem keypt er af rafveitunni, er óheimilt án leyfis rafveitunnar.

13. gr. -

Eftirlit með húsveitum og tækjum. Gallar á húsveitum.

Sérhver húsveita, að meðtöldum tækjum til notkunar á raforku, skal fullnægja kröfum þeim, sem settar eru í reglugerð rafmagnseftirlits ríkisins og í reglugerðum rafveitunnar um raflagnir.

Rafveitustjóra er heimilt að hafa eftirlit með öllum húsveitum, gögnum og tækjum, sem notuð eru við hagnýtingu á raforku, og skulu starfsmenn rafveitunnar hafa frjálsan aðgang að öllum herbergjum húss, hvenær sem nauðsynlegt er, til að skoða húsveituna, eða hluta hennar, eða raftæki, sem nota má við veituna.

Vélar og önnur tæki skulu vera þannig sett og þannig útbúin að þau starfi án þess að titringi valdi eða truflun a ljósum eða annari notkun.

Sé misbrestur á þessu, eða aðrir gallar á veitu eða tækjum, skal notandi undir eins á sinn kostnað láta löggiltan rafvirkja lagfæra þetta.

Nú kemur í ljós við skoðun húsveitu, sem framkvæmd er af rafveitunni, rafmagnseftirliti ríkisins eða löggiltum rafvirkja, að galli er á veitu eða tækjum, og skal þá eigandi veitunnar eða tækjanna skyldur til pess að láta löggiltan rafvirkja gera við gallana á sinn kostnað.

Rafveitustjóri getur látið taka veituna eða tæki úr sambandi meðan galli er á veitunni eða tækjunum, þar til úr er bætt, eða látið gera við galla á kostnað eiganda.

Húseiganda er skylt að sjá um, að stofntaugar í húsveitu hans séu ávallt nægilega gildar fyrir notkun veitunnar.

Ef óleyfileg vör finnast í veitu, skal notandi veitunnar gerður ábyrgur fyrir, samkvæmt fyrirskipun rafmagnseftirlits ríkisins.

Séu gerðar óleyfilegar tengingar eða breytingar á veitu eða tækjum eða sýnt hirðuleysi um meðferð eða viðhald veitu eða tækja, skal farið með það sem galla á veitu, og er heimilt að gera eiganda að greiða aukagjald, sem ákveðið er í gjaldskrá, vegna kostnaðar við aukið eftirlit með veitunni.

Það er óleyfilegt, sem ekki fullnægir kröfum, sem settar eru í reglugerðum

rafmagnseftirlits ríkisins um raforkuvirki og reglugerðum rafveitu Hafnarfjarðar,

14. gr. -

Mælitæki.

1. Rafveitustjóri ákveður stærð og gerð mælitækja, sem nota skal fyrir húsveitu, svo og stað fyrir þau og um tengingu.

Notandi mælitækis er sá, sem skráður er fyrir raforkunotkun þeirrar veitu, sem mælitækið er fyrir. Skal hann bera ábyrgð á mælitækinu, svo og raforkunotkun veitunnar þar til hann lætur af notkun hennar og hefir sagt upp notkuninni með þeim fyrirvara, sem um getur í 19. gr.

Rafveitan leggur til öll mælitæki og annast um venjulegt viðhald þeirra og endurnýjun á sinn kostnað. Nú verður mælitæki fyrir óvenjulegu hnjaski eða skemmdum, og er þá heimilt að gera notanda að greiða kostnað við viðhald þess eða endurnýjun.

2. Ef notandi óskar að mælitæki sé leiðrétt, skal hann senda skriflega beiðni um það til rafveitunnar.

Ef þá kemur í ljós við athugun mælitækis, að mesta skekkja sé +/- 5% eða minni, er heimilt að gera notanda að greiða kostnað við prófunina. Sé skekkja meiri, skal rafveitan bera kostnað af prófuninni.

Ef notandi véfengir árangur prófunarinnar, skal leita úrskurðar rafmagnseftirlits ríkisins, og er hann bindandi fyrir báða aðila. Kostnað við það skal notandi greiða, ef skekkjan reynist minni en +/- 5%, en rafveitan annars.

Hafi kwst-mælir sýnt +/- 5% skekkju eða meira, skal rafveitan áætla leiðréttingu á reikningi rafmagnsnotanda miðað við fyrri notkun, og eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, eftir því, sem næst verður komist, þó ekki fyrir lengra tímabil en 3 mánuði, nema notandi geti sannað, að um lengra tímabil hafi verið að ræða.

3. Notendur, sem hafa hemil eða rofa, eiga ekki rétt á neinni endurgreiðslu á föstu verði þótt þeir telji sig ekki hafa getað náð því afli, sem fasta greiðslan er miðuð við, en rafveitunni er skylt að leiðrétta skekkju hemilsins eða rofans, svo fljótt sem við verður komið.

Ef hemill notanda brennur sundur með stuttu millibili og ástæða er til að ætla, að of mikið sé lagt á hann að staðaldri, hefir rafveitan rétt til að neita um hemil og gera notanda að skilyrði að kaupa orkuna eftir öðrum gjaldskrárlið.

4. Ef notandi hefir aukna straumnotkun vegna galla á veitu sinni eða tækjum, er rafveitan ekki skyld til þess að áætla frádrátt á reikningum notandans þess vegna.

5. Ef svo reynist, að notkun hafi orðið meiri en álestur sýnir, eða álestur verið skakkur eða útreikningur á reikningsfjárhæðinni, áskilur rafveitan sér rétt til að leiðrétta þessa skekkju eftir á, undir eins og vitað er.

6. Verði uppvíst að straumur sé notaður á annan hátt en um er samið, eða að raskað hefir verið mælitækjum eða breytt tengingu, þannig að ekki komi fram öll notkun, skal rafveitan áætla þann straum, sem notaður hefir verið óleyfilega, og skal notandi gjalda fyrir hann þrefalt verð eftir gjaldskrá, fyrir allan tímann, sem liðinn er frá síðustu skoðun veitunnar og þar til leiðrétt er, nema þyngri refsing liggi við að lögum.

Ef ekki eru fyrir hendi sérstakar upplýsingar um líklega notkun á veitunni, má miða matið við stærð á vörum þeim, sem fyrir veitunni eru.

Við endurtekningu skal rjúfa samband við veituna og gera ráðstafanir til að koma fram ábyrgð á hendur þeim, sem brotlegur hefir gerzt.

15. gr. -

Ábyrgð.

Ef vanskil eða dráttur verður á greiðslu rafmagnsgjalda, getur rafveitan krafizt tryggingar fyrir skilvísri greiðslu. Ef rafmagnsnotkun um mælitæki nægir ekki til þess að greiða raunverulegan afhendingarkostnað raforkunnar um mælitækið, er rafveitunni heimilt að krefjast lámarksgjalds fyrir notkunina. Að öðrum kosti er rafveitunni heimilt að taka mælitækið niður og loka veitunni, eða breyta tengingu hennar.

16. gr. -

Gjald fyrir raforku.

Reikningur fyrir raforku skal að jafnaði afhentur í húsnæði því, þar sem raforkan er notuð, og er reikningurinn fallinn í gjalddaga undir eins og krafið er um greiðslu. Nánari reglur um gjalddaga má setja í gjaldskrá.

17. gr. -

Lokun fyrir veitu og enduropnun.

Sé gjald fyrir raforku ekki greitt þegar greiðslu er krafizt, getur rafveitan sent gjaldanda tilkynningu, eða afhent hana í húsnæði því, er veita hans er í, um að hann verði að greiða gjaldið til skrifstofu rafveitunnar innan viku. Dragist greiðsla lengur, er heimilt að taka straum af veitunni, en þó ekki fyrr en þremur dögum eftir að skrifleg tilkynning þess efnis til gjaldanda er afhent honum eða afhent í húsnæði því, sem veita hans er í.

Rafveitunni er heimilt að loka veitunni:

a) þegar notandi, þrátt fyrir kröfu og skriflega aðvörun, sem að framan greinir, hefir ekki greitt reikning, sem fallinn er í gjalddaga,

b) þegar ábyrgðarmaður notanda stendur ekki við ábyrgðina,

c) þegar notandi hefir gerzt brotlegur við reglugerð þessa.

Lokun fyrir strauminn af þessum ástæðum losar notandann ekki undan greiðsluskyldu á lokunartímabilinu.

Sé lokað fyrir veitu vegna skulda má að jafnaði ekki opna aftur nema:

1) skuldin sé greidd að fullu eða fullnægjandi trygging sett fyrir því, að skuldin verði greidd,

2) að greitt sé aukagjald fyrir enduropnun veitunnar samkv. gjaldskrá,

3) að trygging sé sett fyrir skilvísri greiðslu framvegis, ef sérstakar ástæður eru til að krefjast slíkrar tryggingar.

Nú fæst skuldin ekki greidd, þrátt fyrir lokun, og má þá senda skuldakröfuna til innheimtu með lögtaki.

Ef notandi veitu óskar eftir að veita hans sé tekin úr sambandi um tíma, er heimilt að taka aukagjald, samkvæmt gjaldskrá, fyrir enduropnun veitunnar, svo og að taka fulla leigu fyrir mælitæki veitunnar þann tíma, sem veitan var ekki í notkun.

Enginn má framkvæma endurtengingu veitu nema þeir, sem rafveitan hefir veitt umboð til þess hverju sinni. Sé brotið á móti þessu, skal farið með það sem endurtekna, óleyfilega straumnotkun samkvæmt 14. gr.

18. gr. -

Reksturstruflanir.

Stöðvun á rekstri eða truflanir vegna bilana eða takmarkana á raforkuvinnslunni hefir ekki í för með sér neinar skaðabótaskyldur á hendur rafveitunni, en koma skal á reglulegum rekstri aftur, eins fljótt og auðið er.

Notendur eiga ekki rétt á endurgjaldi þótt stöðvun verði vegna bilana eða annara óviðráðanlegra atvika um langan eða skamman tíma, að öðru leyti en því, sem segir síðar um endurgreiðslu fastagjalds, og rafveitan ber ekki ábyrgð á spennubreytingum undir slíkum kringumstæðum eða afleiðingum af þeim, og eigi heldur af bruna eða slysum, sem verða kunna af völdum rafmagns frá húsveitum rafmagnsnotenda.

Rafveitan áskilur sér rétt til þess að loka fyrir straum til viðgerða og viðhalds eða eftirlits, á helgidögum, á þeim tímum, sem heimilisnotkun er almennt minnst, og að nóttu til í maí--júlí, svo og endranær þegar þörf gerist.

Meðan verið er að leggja heimtaugar eða götutaugar, er rafveitunni heimilt að taka straum af því svæði, sem nauðsynlegt er, til þess að framkvæma tengingar.

Komi það fyrir, að takmarka þurfi notkun á raforku um langan eða skamman tíma, ákveður bæjarstjórn, eftir tillögum rafveitunefndar, hver notkun skuli takmörkuð fyrst.

Stöðvun á rekstri skal tilkynna fyrirfram, ef unnt er, en þó eiga notendur enga skaðabótakröfu á hendur rafveitunni þótt straumur hafi verið tekinn af fyrirvaralaust.

Notendur, sem greiða raforku við föstu árgjaldi, eiga rétt á að fá 1/300 hluta árgjaldsins endurgreiddan fyrir hvern heilan dag, er þeir missa raforkuna vegna stöðvunar eða truflana á rekstri, þó eigi fyrir skemmri tíma en tvo sólarhringa.

19. gr. -

Uppsögn á rafmagnsnotkun og tilkynning um flutning eða breytingu í notkun.

Sérhver rafmagnsnotkun, er notandi byrjar á eftir nýjum lið gjaldskrár rafveitunnar, er bindandi fyrir hann að minnsta kosti eitt ár, nema um sé að ræða bráðabirgðalagnir eða tilraunataxta, sem eru fullreyndir á skemmri tíma. Þó getur rafveitustjóri leyst notanda undan þessari skuldbindingu þegar sérstaklega stendur á.

Þegar ár er liðið, getur notandi sagt upp notkuninni með eins mánaðar fyrirvara, ef ekki er um annað samið eða annað ákveðið í gjaldskrá rafveitunnar. Skal uppsögn tilkynnt rafveitustjóra skriflega.

Rafveitan áskilur sér sama uppsagnarfrest af sinni hálfu og notandi hefir samkvæmt framansögðu.

Tilkynning um breytingu á notkun frá einum gjaldskrárlið til annars er sama og uppsögn á fyrri notkun og beiðni um nýja, og fer um það, sem að ofan greinir.

Tilkynning um flutning notanda úr einni íbúð í aðra skal afhenda á innheimtuskrifstofu rafveitunnar með hálfs mánaðar fyrirvara.

Notandi ber ábyrgð á raforkunotkun þeirrar veitu, sem hann er skráður fyrir, þar til hann hættir notkun veitunnar og hefir sagt henni upp með þeim fyrirvara, sem hann hefir samkvæmt reglugerð þessari.

20. gr. -

Breytingar á gjaldskrá.

Notanda skal skylt að hlíta ákvæðum gildandi gjaldskrár rafveitunnar og breytingum þeim, sem bæjarstjórn samþykkir og atvinnumálaráðherra staðfestir.

Verði ágreiningur milli rafmagnsstjóra og notanda um skilning á ákvæðum gjaldskrár eða settum skilyrðum fyrir rafmagnsnotkun, getur notandi krafizt þess, að ágreiningurinn verði lagður undir úrskurð bæjarstjórnar.

C. ALMENN ÁKVÆÐI

21. gr. -

Brot á reglugerð.

Brot gegn reglugerð þessari eða gegn reglum, sem settar verða samkvæmt henni, varða sektum allt að 1000 krónum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum. Ef brot veldur skemmdum á eignum rafveitunnar, skal hinn brotlegi þess utan bæta skaðann.

Sektir renna í ríkissjóð.

22. gr. -

Málsókn.

Með mál út af brotum á reglugerð þessari eða á reglum, sem settar eru samkvæmt henni, skal farið sem almenn lögreglumál.

Reglugerð þessi, sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefir samið og samþykkt, staðfestist hér með samkvæmt vatnalögum nr. 15 20. júní 1923, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið, 16. september 1939.

Ólafur Thors.

Páll Pálmason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica