Iðnaðarráðuneyti

205/1995

Reglugerð fyrir sjóð skv. 12. gr. laga nr. 80/1966 um kísilgúrverksmiðju við Mývatn. - Brottfallin

Reglugerð

fyrir sjóð skv. 12. gr. laga nr. 80/1966 um kísilgúrverksmiðju við Mývatn.

1. gr.

Sjóðurinn starfar samkvæmt 12. gr. laga nr. 80/1966, sbr. 2. gr. laga nr. 17/1995 og eftir ákvæðum reglugerðar þessarar.

Iðnaðarráðherra skipar stjórn sjóðsins til tveggja ára í senn. Stjórn sjóðsins skal skipuð einum fulltrúa Kísiliðjunnar hf., einum fulltrúa Skútustaðahrepps, einum fulltrúa Húsavíkurbæjar, einum fulltrúa samgönguráðherra, einum fulltrúa umhverfisráðherra og einum fulltrúa iðnaðarráðherra sem jafnframt skal vera formaður stjórnarinnar.

2. gr.

Stjórnin tekur ákvarðanir um málefni sjóðsins. Hver stjórnarmaður fer með eitt atkvæði. Til ákvörðunar þarf meirihluta atkvæða. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns stjórnar sjóðsins.

Stjórnin fer með vörslu fjármuna sjóðsins og skulu þeir ávaxtaðir á sem hagkvæmastan hátt hjá innlánsstofnun eða í verðbréfum útgefnum af ríkinu eða lánastofnunum.

3. gr.

Tilgangur sjóðsins er að kosta undirbúning aðgerða til þess að efla atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem nú eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi Kísiliðjunnar hf.

Sjóðurinn skal einbeita sér að nýsköpun í atvinnulífi. Til að ná fram markmiðum sjóðsins er stjórninni heimilt:

a. að veita lán til ákveðinna verkefna, annaðhvort sjóðurinn einn eða í samvinnu við aðra,

b. að veita styrki, m.a. til tækniaðstoðar, rannsókna, vöruþróunar og markaðsathugana,

c. að kaupa hluti í nýjum og starfandi félögum, enda verði stefnt að því að selja hlutina strax og aðstæður leyfa og hagkvæmt þykir.

4. gr.

Kjör á lánum frá sjóðnum eru háð nánari ákvörðun stjórnarinnar, en stjórnin skal að jafnaði við ákvörðun lánskjara hafa hliðsjón af þeim lánskjörum sem tíðkast á hinum almenna markaði á hverjum tíma.

Sjóðnum er óheimilt að eiga meirihluta hlutafjár í félögum.

5.gr.

Ráðstöfunarfé sjóðsins er:

a. 20% af námagjaldi Kísiliðjunnar hf. til ársins 2001,

b. 68% af námagjaldi framleiðslufélagsins frá og með árinu 2002 til og með árinu 2010,

c. allt að 20% af tekjum ríkisins sem eiganda framleiðslufélagsins samkvæmt heimildum í fjárlögum hverju sinni, d. arður af hlutafé, vextir og aðrar tekjur.

6. gr.

Stjórn sjóðsins skal semja ársreikning fyrir hvert reikningsár í samræmi við ákvæði laga. Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Ennfremur skal semja ársskýrslu. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.

Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður af Ríkisendurskoðun.

Fyrir 1. júní hvert ár skal stjórnin afhenda iðnaðarráðherra ársskýrslu sjóðsins ásamt eintaki af ársreikningi hans, árituðum af endurskoðanda sjóðsins.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 12. gr. laga nr. 80/1966, sbr. 2. gr. laga nr. 17/1995, öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Stjórn sjóðsins sem skipuð var 25. maí 1993 skal sitja til 30. júní 1996.

Iðnaðarráðuneytið, 29. mars 1995.

F. h. r.
Þorkell Helgason.

Ásgeir Einarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica