Iðnaðarráðuneyti

661/1995

Reglugerð um breytingu á reglugerð varðandi umsóknir um einkaleyfi o.fl., nr. 574/1991 og um breytingu á auglýsingu um reglur varðandi einkaleyfisumsóknir, - Brottfallin

I. KAFLI - Breytingar á reglugerð varðandi umsóknir um einkaleyfi o.fl., nr. 574/1991.

1. gr.

3. gr. orðist svo:

Umsóknargögn mega vera á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku. Ef lýsing, einkaleyfiskröfur og ágrip eru ekki á íslensku skulu ágrip og einkaleyfiskröfur liggja fyrir í íslenskri þýðingu áður en umsókn er gerð aðgengileg, en lýsing skal liggja fyrir í íslenskri þýðingu innan fjögurra mánaða frá því að umsækjanda var tilkynnt um að umsóknin hefði verið samþykkt til framlagningar.

Ef gögn eru á öðru tungumáli en um getur í 1. mgr. skal fylgja þýðing á eitthvert þeirra tungumála sem þar eru tilgreind. Einkaleyfastofan getur þó fallið frá kröfu um þýðingu á öðrum gögnum en lýsingu, einkaleyfiskröfum og ágripi og þeim hlutum lýsingar eða einkaleyfiskrafna í íslenskri einkaleyfisumsókn sem ekki teljast grunngögn skv. 1. mgr. 21. gr. eða leyft að þýðing sé á öðrum tungumálum en íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku. Einkaleyfastofan getur krafist þess að löggiltur skjalaþýðandi, eða annar aðili sem einkaleyfayfirvöld viðurkenna, staðfesti þýðinguna. Umsækjandi eða umboðsmaður hans má þó í staðinn, að því tilskildu að gögnin séu á dönsku, norsku, sænsku, ensku, þýsku eða frönsku, gefa yfirlýsingu um að hinn þýddi texti sé samsvarandi hinum erlendu gögnum.

2. gr.

21. gr. orðist svo:

Grunngögn í íslenskri einkaleyfisumsókn og einkaleyfisumsókn sem tekin er til meðferðar skv. 38. gr. einkaleyfalaga teljast lýsing, teikningar og kröfur sem liggja fyrir á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku á umsóknardegi, eða á þeim degi sem telst umsóknardagur, sbr. 14. gr. einkaleyfalaga. Liggi gögn þessi ekki fyrir á áðurnefndum tímamörkum skal sú lýsing, ásamt viðeigandi teikningum og kröfum, sem lögð er fram síðar í íslenskri, danskri, norskri, sænskri eða enskri þýðingu, teljast grunngögn að svo miklu leyti sem efni umsóknarinnar kemur greinilega fram í þeim gögnum sem lágu fyrir á umsóknardegi.

Grunngögn í alþjóðlegri einkaleyfisumsókn, sem yfirfærð er í samræmi við 31. gr. einkaleyfalaganna, teljast þýðing á dönsku, norsku, sænsku eða ensku, á lýsingu, teikningum og kröfum eða þýðing á íslensku á kröfum, með þeim breytingum sem gerðar eru á þýðingunni innan frests sem veittur er skv. 53. gr. Ef alþjóðleg einkaleyfisumsókn er lögð inn á dönsku, norsku, sænsku eða ensku hjá viðtökuyfirvöldum telst afrit af lýsingu, teikningum og kröfum, sem lagt er inn í samræmi við 31. gr. einkaleyfalaganna, vera grunngögn, ásamt þeim breytingum sem gerðar hafa verið áður en frestur skv. 53. gr. er liðinn. Hafi umsækjandi samþykkt að alþjóðleg umsókn verði tekin til afgreiðslu innan þess frests sem kveðið er á um í 53. gr., sbr. 34. gr. einkaleyfalaga, og ákvörðun er tekin um að leggja hana fram eða hafna henni, þá telst lýsing, teikningar og einkaleyfiskröfur viðkomandi umsóknar, eins og þau gögn lágu fyrir þegar viðkomandi ákvörðun var tekin, vera grunngögn.

Sé þess getið við innlagningu einkaleyfisumsóknar að umsókn, er varðar sömu uppfinningu, hafi áður verið lögð inn erlendis og númer hennar og umsóknardagur er tilgreindur, skal líta svo á að staðfest afrit, sem síðar er lagt fram af þeirri umsókn, hafi borist á umsóknardegi íslensku umsóknarinnar.

3. gr.

47. gr. orðist svo:

Alþjóðleg einkaleyfisumsókn sem lögð er inn til einkaleyfayfirvalda hér á landi skal afhent í einu eintaki. Umsóknin skal vera á dönsku, norsku, sænsku eða ensku. Upplýsingar á umsóknarblaði mega vera á ensku þótt önnur gögn séu á einhverju fyrrnefndra tungumála.

4. gr.

52. gr. orðist svo:

Ef alþjóðleg umsókn er ekki á dönsku, norsku, sænsku eða ensku skal þýðing á eitthvert þessara tungumála lögð inn við yfirfærslu umsóknarinnar í samræmi við 31. gr. einkaleyfalaga eða við endurskoðun ákvörðunar skv. 1. mgr. 38. gr. laganna. Hafi umsóknin upphaflega verið lögð inn á einhverju framangreindra tungumála skal afhenda afrit af henni. Ennfremur skal afhenda þýðingu á íslensku af ágripi og einkaleyfiskröfum, sbr. ákvæði 1. mgr. 3. gr., ef umsókn er yfirfærð eftir 18 mánuði frá alþjóðlegum umsóknardegi eða forgangsréttardegi. Ákvæði 3. gr. gilda að öðru leyti varðandi þýðingar á umsóknargögnum.

Einkaleyfayfirvöld geta sett reglur til að takmarka skyldu til að afhenda þýðingu ef aðeins hluti alþjóðlegrar umsóknar er yfirfærður til landsins.

II. KAFLI - Breytingar á auglýsingu um reglur varðandi einkaleyfisumsóknir, nr. 575/1991.

5. gr.

2. mgr. 3. gr. orðist svo:

Sænska einkaleyfastofnunin (PRV) og evrópska einkaleyfastofnunin (EPO) eru alþjóðlegar nýnæmisrannsóknarstofnanir fyrir alþjóðlegar umsóknir sem einkaleyfastofan veitir viðtöku. Þegar óskað er nýnæmisrannsóknar á alþjóðlegri umsókn skal afhenda þýðingu á dönsku, norsku, sænsku eða ensku.

6. gr.

2. mgr. 37. gr. orðist svo:

Ef einkaleyfisumsókn er ekki á tungumáli sem viðurkennt er af alþjóðlegri stofnun sem annast nýnæmisrannsókn (þ.e. sænsku einkaleyfastofnuninni eða evrópsku einkaleyfastofnuninni) skal þýðing á dönsku, norsku, sænsku eða ensku fylgja kröfu um alþjóðlega nýnæmisrannsókn.

7. gr.

38. gr. orðist svo:

Umsóknargögn mega vera á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku. Ef lýsing, einkaleyfiskröfur og ágrip eru ekki á íslensku skulu ágrip og einkaleyfiskröfur liggja fyrir í íslenskri þýðingu áður en umsókn er gerð aðgengileg, en lýsing skal liggja fyrir í íslenskri þýðingu innan fjögurra mánaða frá því að umsækjanda var tilkynnt um að umsóknin hefði verið samþykkt til framlagningar.

Einkaleyfastofan getur krafist þess að íslenski textinn sé staðfest þýðing á erlendu gögnunum.

8. gr.

1. mgr. 39. gr. orðist svo:

Einkaleyfastofan getur krafist þess að þýðing sú sem nefnd er í 31. gr. ell. á lýsingu, einkaleyfiskröfum og ágripi skuli vera staðfest, sbr. 3. gr. rg. ell.

9. gr.

1. ml. 6. tl. 1. mgr. 42. gr.

Í fylgiskjöl er lögð voru fram í upphafi vantar lýsingu, einkaleyfiskröfur eða ágrip, ellegar þýðing á þessum skjölum hefur ekki verið lögð fram á tilskildum tíma, sbr. 3. gr. rg. ell.

10. gr.

Við 4. reglu í viðauka 1 bætist við ný málsgrein sem orðist svo:

Vegna frekari rannsókna í Danmörku getur einkaleyfastofan krafist þýðingar á öðrum gögnum (s.s. breyttri lýsingu og einkaleyfiskröfum eða mótrökum umsækjanda) á dönsku, norsku, sænsku eða ensku.

III. KAFLI - Gildistaka.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 17/1991 með síðari breytingum og öðlast gildi 1. janúar 1996.

Iðnaðarráðuneytið, 22. desember 1995.
F. h. r.
Þorkell Helgason.
Jón Ögmundur Þormóðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica