Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

1150/2019

Reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar.

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til raforkuviðskipta, þar sem hlutverki, réttindum og skyldum þeirra sem stunda viðskipti með raforku er lýst. Þá eru með reglugerðinni gerðar lágmarkskröfur um raforku­mæla og mælabúnað, mælingu raf­orku, skráningar og meðhöndlun mæligilda og miðlun upp­lýs­inga til uppgjörs á raforku­viðskiptum.

2. gr.

Skilgreiningar.

Eftirfarandi skilgreiningar eru notaðar í reglugerð þessari:

Afhendingarstaður: Staður í flutnings- eða dreifikerfi þar sem innmötun eða úttekt raforku fer fram.

Aflraðarmæling: Mæling raforkunotkunar sem safnað er klukkustund fyrir klukkustund.

Afltoppur: Afltoppur er hæsta meðalálag raforku, mælt í skilgreindan tíma. Mælieining afltopps er kW eða kVAr.

Almennur notandi: Almennir notendur eru notendur eða þjónustuveitendur sem ekki eru stór­notendur eða heildsalar.

Ábyrgðaraðili jöfnunarorku: Sá aðili sem ábyrgist með skriflegum samningi við kerfisstjórn að jafnvægi sé milli öflunar raforku, þ.e. raforkuframleiðslu og raforkukaupa annars vegar, og ráð­stöfunar, þ.e. sölu og notkunar hins vegar.

Ábyrgðaraðili mælinga: Flutningsfyrirtæki og dreifiveitur.

Gagnaflutningssamband: Fjarskiptasamband til flutnings á mæligögnum.

Hámarksúttekt: Mesta leyfilega afl í kW og kVA sem flytja má um tengingu eins og kveðið er á um í tengisamningi.

Heimilisnotandi: Almennur notandi sem kaupir raforku til heimilisnota, þar með talið til hús­hitunar. Heimilisnotendur teljast einnig þeir notendur sem kaupa raforku fyrir atvinnurekstur sem er sam­mældur með heimilisrekstri, t.a.m. búrekstur.

Heildsali: Einstaklingur eða lögaðili sem kaupir rafmagn til endursölu.

Hleðslustöð: Raffang sem hleður rafknúin ökutæki.

Innmötun: Raforka sem er mötuð inn á flutningskerfi eða dreifikerfi.

Jöfnunarorka: Mismunur innmataðrar/úttekinnar orku og kaup-/söluskuldbindinga hvers ábyrgð­ar­aðila jöfnunarorku.

Kennitala mælistaðar: Hlaupandi talnakóði fyrir hvern mælistað (mæliverk) í raforkukerfinu.

Mælibúnaður: Mælibúnaður er safnheiti yfir allan nauðsynlegan búnað til að mæla raforku­notkun. Til mælibúnaðar teljast m.a. raforkumælar, straumspennar, spennuspennar, tímarofar, mæli­taugar, einangrun, varnarbúnaður, gagnasafnverk og samskiptabúnaður.

Mælisnúmer: Sérstakt eigandanúmer raforkumælis eða raðnúmer á upplýsingaskildi mælis.

Neysluveita: Raflögn og rafbúnaður innan við stofnkassa eða búnað, sem gegnir hlut­verki stofnkassa. Á einni heimtaug geta verið fleiri en ein neysluveita.

Notandi: Sá sem kaupir raforku til eigin nota.

Notendaskipti: Notandi tekur við neysluveitu.

Notkunarferill: Mismunur heildarinnmötunar á notkunarferilssvæði á klukkustund annars vegar, og tímamældrar notkunar einstakra notenda og ómældrar þekktrar notkunar hins vegar. Töp í raforku­kerfinu teljast hluti af notkunarferli.

Notkunarstaður: Sá staður þar sem dreifiveita afhendir raforku til almenns notanda.

Ómæld áætluð orkunotkun: Raforka sem seld er samkvæmt afltaxta, þar sem uppsett afl og nýt­ingartími er notað til útreiknings á raforkunotkun og mælingu verður ekki komið við af tæknilegum ástæðum eða vegna kostnaðar.

Raffang:Hvers konar hlutur sem að einhverju leyti kemur að gagni við nýtingu raforku, þ.e. til vinnslu, flutnings, dreifingar, geymslu, mælinga, breytinga og notkunar raforku, svo sem spennar, hreyflar, mælitæki, neyslutæki, varnarbúnaður, hleðslustöðvar, hafnartengingar og búnaður til raf­lagna.

Rafknúið ökutæki: Vélknúið ökutæki búið aflrás sem hefur a.m.k. eina rafmagnsvél, sem er ekki jaðarbúnaður, sem orkubreyti með endurhlaðanlegu raforkugeymslukerfi sem hægt er að hlaða utan ökutækisins.

Raforkusölumælir: Löggiltur mælir sem notaður er til uppgjörs á sölu raforku.

Raforkusölusamningur: Samningur milli sölufyrirtækis og viðskiptavinar um sölu hins fyrr­nefnda á raforku til hins síðarnefnda.

Raforkuviðskipti: Kaup og sala raforku.

Stoðþjónusta: Kaup á aðföngum eins og tíðnireglun, spennureglun, varaafli o.fl., sem nauð­syn­leg eru til að uppfylla skyldur um kerfisþjónustu.

Stórnotandi: Notandi sem notar innan þriggja ára á einum stað a.m.k. 80 GWst á ári.

Söluaðilaskipti: Notandi færir raforkuviðskipti frá einu sölufyrirtæki til annars.

Sölufyrirtæki: Fyrirtæki sem selur raforku eða annast raforkuviðskipti, hvort sem er í heildsölu eða smásölu.

Tengisamningur dreifiveitu: Heimtaugaumsókn eða sérstakur samningur dreifiveitu við almennan notanda eða vinnslufyrirtæki um tengingu þessara aðila við dreifikerfið, dreifingu raforku, mælingu hennar eða aðra þjónustu tengda afhendingarstað raforkunnar.

Tengisamningur flutningskerfis: Samningur flutningsfyrirtækis við vinnslufyrirtæki, dreifiveitu eða stórnotanda um tengingu þessara aðila við flutningskerfið, flutning raforku, mælingu hennar eða aðra þjónustu tengda afhendingarstað raforkunnar.

Töp í raforkukerfi: Mismunur á mældri innmataðri orku í raforkukerfi og því sem mælt er út af sama raforkukerfi ásamt ómældri áætlaðri orkunotkun.

Viðskiptavinur: Heildsali eða notandi rafmagns.

Þjónustuveitandi: Aðili sem veitir almennum notanda tímabundinn aðgang að raffangi til notk­unar raforku innan fasteignar, lóðar eða athafnasvæðis og hefur milligöngu um öflun raforku frá sölu­fyrirtæki og greiðir dreifiveitu fyrir dreifingu, sem tengist nýtingu aðstöðunnar. Með þjónustu­veitanda raforku er átt við aðila sem starfrækir hleðslustöðvar, hafnartengingar og tengingar á tjald­svæðum.

II. KAFLI

Skyldur raforkufyrirtækja.

3. gr.

Skyldur vinnslufyrirtækja.

Vinnslufyrirtækjum ber að framleiða raforku samkvæmt sölusamningum við sölu­fyrirtæki og samningum um stoðþjónustu við kerfisstjórn. Vinnslufyrirtækið skal standa skil á greiðslum til flutn­ings­fyrirtækis eða dreifiveitu vegna tengingar og innmötunar á flutnings­kerfið.

4. gr.

Skyldur sölufyrirtækja.

Sölufyrirtækjum ber skylda til að afla þeirrar orku sem þau endurselja og tryggja að jafnvægi sé milli orkuöflunar og orkusölu á hverjum tíma. Í því skyni ber sölufyrirtækjum að gera skriflegan samning við kerfisstjórn flutningsfyrirtækis sem ábyrgðaraðili jöfnunarorku og senda inn sundur­liðaðar áætlanir um orkuviðskiptin skv. reglum kerfisstjórnar flutnings­fyrirtækis. Sölufyrirtæki ber skylda til að afhenda viðskiptavini raforku í samræmi við raforku­sölusamning.

Í því skyni ber sölufyrirtækjum m.a. að:

 1. gera raforkusölusamning við viðskiptavini,
 2. semja um og standa skil á greiðslum vegna raforkuviðskipta við vinnslufyrirtæki eða önnur sölufyrirtæki,
 3. gera samning við kerfisstjórn flutningsfyrirtækis vegna ábyrgðar á jöfnunarorku og standa skil á greiðslum vegna hennar,
 4. standa skil á innheimtum gjöldum vegna flutnings- og dreifingarþjónustu til dreifi­veitna, í þeim tilvikum sem sölufyrirtæki sér um þá innheimtu,
 5. innheimta eftir atvikum, greiðslur fyrir ofangreinda kostnaðarliði hjá viðskiptavinum,
 6. afhenda almennum notanda raforku til þrautavara, sbr. ákvæði 5. mgr. 7. gr.

5. gr.

Skyldur flutningsfyrirtækis.

Flutningsfyrirtæki ber að flytja raforku, afla kerfisþjónustu, reglunarorku og orku vegna taps í flutningskerfi ásamt því að annast uppgjör vegna jöfnunarorku.

Í því skyni ber flutningsfyrirtæki m.a. að:

 1. tengja alla þá sem eftir því sækjast við flutningskerfið, enda uppfylli þeir tæknileg skilyrði fyrir því og greiði tengigjald samkvæmt ákvæðum í gjaldskrá. Þó er heimilt að synja nýjum aðilum um aðgang að flutningskerfinu á grundvelli sjónarmiða um flutningsgetu, öryggi og gæði kerfisins. Synjun skal vera skrifleg og rökstudd,
 2. útvega rafmagn í stað þess sem tapast í kerfinu,
 3. útvega launafl fyrir kerfið til að nýta flutningsgetu og tryggja spennugæði,
 4. annast uppgjör jöfnunarorku,
 5. tryggja áreiðanleika í rekstri kerfisins,
 6. sjá til þess að fyrir liggi spá um raforkuþörf og áætlun um uppbyggingu flutnings­kerfisins,
 7. greiða þeim dreifiveitum bætur sem verða fyrir langvarandi skerðingu á raforku­afhendingu,
 8. mæla það rafmagn sem afhent er inn á og út af flutningskerfinu,
 9. halda utan um mælingar og skila gögnum til viðkomandi aðila svo að unnt sé að gera upp viðskipti með raforku,
 10. stilla saman raforkuvinnslu og raforkuþörf svo að hægt sé að mæta frávikum milli umsam­inna kaupa og raforkunotkunar, sem og að gera samninga við vinnslufyrirtæki í þessu sam­bandi,
 11. tryggja nægjanlegt framboð reiðuafls við rekstur kerfisins,
 12. samræma notkunarferla þar sem aflmæling fer ekki fram,
 13. hafa tiltækar viðbragðsáætlanir og annast samræmingu neyðaraðgerða í flutnings­kerfinu, bregðast við í vá og ef einhver aðili að neyðarsamstarfi raforkukerfisins óskar þess og tryggja tengsl við yfirstjórn almannavarna,
 14. kaupa inn stoðþjónustu sem nauðsynleg er til að uppfylla kröfur um kerfisþjónustu.

6. gr.

Skyldur dreifiveitna.

Dreifiveita skal annast dreifingu þeirrar raforku sem kemur frá flutningskerfinu og þeim virkjun­um sem framleiða beint inn á dreifikerfi hennar, til notenda á viðkomandi dreifiveitu­svæði. Dreifiveita ber ábyrgð á mælingum og ómældri áætlaðri orkunotkun á sínu dreifiveitu­svæði og að skila gögnum til viðkomandi aðila.

Í því skyni ber dreifiveitum m.a. að:

 1. tengja alla sem eftir því sækjast við dreifikerfið, enda hafi þeir gildan samning um kaup eða sölu á raforku, uppfylli tæknileg skilyrði fyrir tengingu og hafi greitt tengigjald sem skal tilgreint í gjaldskrá. Þó er heimilt að synja nýjum aðilum um aðgang að kerfinu á grundvelli sjónarmiða um flutningsgetu, öryggi og gæði kerfisins, eða dreifikerfi er ekki fyrir hendi. Synjun skal vera skrifleg og rökstudd,
 2. tryggja áreiðanleika í rekstri kerfisins,
 3. útvega rafmagn í stað þess sem tapast í kerfinu,
 4. útvega launafl fyrir kerfið til að nýta flutningsgetu og tryggja spennugæði,
 5. mæla eða láta mæla með nákvæmum hætti þá raforku sem hún afhendir eða tekur við í samræmi við reglur þar að lútandi,
 6. veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort hún fullnægi skyldum sínum. Rísi ágreiningur um hvort fyrirtækinu sé skylt að veita umbeðnar upplýsingar sker Orkustofnun úr. Úrskurður Orkustofnunar í þessu efni sætir kæru til úrskurðarnefndar raforkumála,
 7. gæta jafnræðis við starfrækslu sína og trúnaðar um upplýsingar er varða viðskipta­hagsmuni notenda og aðrar þær upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari,
 8. greiða þeim notendum bætur sem verða fyrir langvarandi skerðingu á raforku­afhendingu,
 9. gera upp kostnað af flutningi raforku og kerfisþjónustu við kerfisstjórn flutnings­fyrirtækis,
 10. semja um og gera upp raforkukaup vegna orkutaps í dreifikerfi,
 11. miðla upplýsingum til kerfisstjórnar flutningsfyrirtækis og sölufyrirtækja vegna upp­gjörs á raforkuviðskiptum og jöfnunarorku,
 12. miðla upplýsingum til smærri virkjana sem framleiða beint inn á dreifiveitusvæði,
 13. halda skrá yfir veitur á sínu dreifiveitusvæði með þeim hætti að tengja megi veituna við viðskiptavini og annast söluaðilaskipti.

III. KAFLI

Raforkuviðskipti.

7. gr.

Upphaf raforkuviðskipta, söluaðilaskipti og notendaskipti.

Forsenda raforkuviðskipta almennra notenda er að viðkomandi sé skráður viðskiptavinur dreifi­veitu á tilteknum notkunarstað, að neysluveita hans sé tengd dreifikerfinu og að hann hafi gert raforku­sölusamning við sölufyrirtæki. Raforkusölu­samningur er ekki bundinn notkunar­stað.

Við tengingu neysluveitu kemst á tengisamningur milli dreifiveitu og almenns notanda. Upp­lýsingar um samningsskilmála dreifiveitna, gjaldskrá, og þar með talið kostnað við að loka og opna veitu, skulu ætíð vera aðgengi­legar notendum. Heimilt er að vísa til rafrænna upp­lýsinga á heimasíðu viðkomandi dreifiveitu.

Dreifiveita skal upplýsa notendur um að það sé forsenda viðskipta við dreifiveitu að þeir séu með gildan raforkusölusamning við sölufyrirtæki. Dreifiveitur skulu ávallt upplýsa nýja notendur um rétt þeirra til þess að velja sér sölufyrirtæki og rétt þeirra til að skipta um sölufyrirtæki. Við leið­bein­ingar­skyldu sína skal dreifiveita gæta jafnræðis í hvívetna og er henni óheimilt að vekja athygli notenda á einu sölufyrirtæki umfram annað. Jafnframt skal upplýst að ekkert gjald má taka fyrir söluaðilaskipti. Sé gildur raforkusölusamningur fyrir hendi fylgir hann notanda við notendaskipti, nema viðskiptavinur ákveði annað. Orkustofnun skal halda skrá yfir sölufyrirtæki sem dreifiveitur skulu vísa til í upplýs­ingagjöf sinni.

Heimilt skal að raforkusölusamningur sé gerður á rafrænu formi og þar með talið í gegnum vefsíðu viðkomandi sölufyrirtækis. Stórnotandi og sölufyrirtæki skulu ávallt gera með sér formlegan skrif­legan samn­ing um raforkuviðskipti.

Komi upp þær aðstæður að almennur notandi hefur ekki gert raforkusölusamning við sölu­fyrirtæki, viðkomandi er ekki með gildan raforkusölusamning við notendaskipti, sbr. 3. mgr., en er engu að síður með virka neysluveitu, ber dreifiveitu að setja hann í viðskipti við það sölufyrirtæki sem Orkustofnun hefur valið til að vera söluaðila til þrautavara. Sölufyrirtæki er í því tilviki valið eftir leiðbeinandi reglum sem Orkustofnun setur og taka þær m.a. mið af lægsta meðalverði til ákveðins tíma, samkvæmt nánari útfærslu Orkustofnunar. Sé viðskiptavinur með raforkusölu­samning við fleiri en einn raforkusala ber honum við notendaskipti að tilkynna hvaða söluaðili á að fylgja notenda­skiptunum. Að öðrum kosti fer með slík notendaskipti í samræmi við málsgrein þessa.

Ákvörðun sölufyrirtækis um að hafna raforkuviðskiptum við almennan notanda er hægt að beina til Orkustofnunar í formi kvörtunar.

Almennur notandi getur sent inn álestur til dreifiveitu á að lágmarki fjögurra vikna fresti og óskað eftir breytingu á áætlun um orkunotkun vegna verulega breyttrar notkunar eða ef rökstuddar ástæður fyrir breytingu liggja fyrir. Hann getur einnig farið fram á leiðréttingu reiknings af sömu ástæðum.

Við lok raforkuviðskipta skal fara fram álestur, sem næst skiptadegi, og tilkynning send við­komandi aðilum.

Sölufyrirtæki er skylt að sýna dreifiveitu skilmála sem varða starfsemi hennar í raforkusölu­samn­ingum sínum, ef eftir því er leitað.

Um raforkuviðskipti sölufyrirtækis sem er í hlutverki þjónustuveitanda raforku fer skv. 8. gr.

8. gr.

Þjónustuveitandi raforku.

Þjónustuveitandi raforku getur innheimt gjald fyrir raforkunotkun með föstu gjaldi fyrir nýtingu aðstöðu sinnar, eða tekið fast gjald fyrir aðstöðu og breytilegt gjald í samræmi við raforkunotkun. Þjónustuveitendum er heimilt að veita viðskiptavinum þjónustu á grundvelli samnings, þ.m.t. í nafni og fyrir hönd annarra þjónustuveitenda. Rafföng sem aðgengileg eru almenningi skulu einnig bjóða upp á þann möguleika að nýta rafmagn án þess að gera formlegan samning við hlutaðeigandi þjón­ustu­veitanda. Um skráningu og meðferð persónuupplýsinga í þessum tilvikum gilda almennar laga­reglur á hverjum tíma.

Starfsemi skv. 1. mgr. er hægt að reka án þess að hafa söluleyfi hjá Orkustofnun. Þó er þjón­ustuveitendum skylt að tilkynna um slíka þjónustu til Orkustofnunar í rafrænu viðmóti á heimasíðu Orkustofnunar með þeim skilyrðum sem stofnunin setur.

9. gr.

Upplýsingamiðlun.

Tilkynningar samkvæmt ákvæðum þessa kafla, skulu vera á stöðluðu og rafrænu formi í sam­ræmi við verklagsreglur flutningsfyrirtækis eða dreifiveitu, sem samþykktar hafa verið af Orku­stofnun.

Orkustofnun, og eftir atvikum dreifiveitur og sölufyrirtæki, skulu veita notendum allar nauðsyn­legar upplýsingar um réttindi þeirra, núgildandi löggjöf og leiðir til að skera úr deilumálum sem þeim standa til boða ef ágreiningur verður.

Orkustofnun setur leiðbeinandi reglur um lágmarksupplýsingar sem koma fram í raforkusölu­samningi og á reikningum.

10. gr.

Uppsögn raforkusamnings.

Almennum notanda er heimilt að segja upp raforkusölusamningi við sölufyrirtæki með 3ja vikna fyrirvara á gildistíma hans, sem taki þá gildi um næstu mánaðamót. Heimilt er að semja um lengri uppsagnarfrest ef almennur notandi notar árlega meira en 0,5 GWst af raforku.

Uppsögn raforkusölusamnings getur verið með rafrænum eða skriflegum hætti og skal beinast að viðkomandi sölufyrirtæki.

11. gr.

Stöðvun raforkuafhendingar.

Sölufyrirtæki getur farið fram á við dreifiveitu að raforkuafhending til almenns notanda sé stöðvuð, ef um vanskil er að ræða af hálfu notanda sem hann er í viðskiptum við. Sölufyrirtæki skal senda dreifiveitu skriflega beiðni um lokun og hvenær hún skuli koma til framkvæmda, ásamt gögnum um ástæður fyrir beiðni um lokun.

Sölufyrirtæki ber ekki skylda til að hefja raforkuafhendingu fyrr en raforkuskuld ásamt kostnaði vegna stöðvunar raforkuafhendingar hefur verið að fullu greidd eða samið hefur verið um greiðslu.

Dreifiveita ein hefur heimild til að stöðva raforkuafhendingu að húsi eða íbúð almenns not­anda sem vanrækir að greiða reikning fyrir sölu, flutning og dreifingu, eða að uppfylla skyldur sínar sam­kvæmt reglugerð þessari. Til slíkra aðgerða má þó fyrst grípa eftir gjalddaga og að undan­geng­inni skrif­legri viðvörun, sem send skal notanda með 30 daga fyrirvara. Vanskil á greiðslu áætlunar­reikn­inga heimila dreifiveitum sömu aðgerðir til innheimtu og stöðvunar á orku­afhendingu og van­skil á uppgjörsreikningum. Heimild til stöðvunar raforkuafhendingar getur einnig í undantekningar­tilfellum tekið til þeirra tilvika þegar fyrir aðgerðir eða aðgerðarleysi viðskiptavinar næst ekki að lesa af mæli, sinna nauðsynlegu viðhaldi eða endurnýjun á mælabúnaði. Dreifiveita ber ekki ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum slíkrar stöðvunar. Stöðvun orkuafhendingar hefur engin áhrif á greiðslu­skyldu notenda á skuldum við dreifiveitu.

Dreifiveitu er heimilt að loka veitu sem er ekki í notkun.

Dreifiveitu er heimilt að innheimta lokunar- og opnunargjöld hjá almennum notanda sem dreif­ingarþjónusta hefur verið stöðvuð hjá vegna kostnaðar sem af því hlýst. Dreifiveitu ber ekki skylda til að hefja dreifingarþjónustu fyrr en skuld ásamt kostnaði vegna stöðvunar dreifingarþjónustunnar hefur verið að fullu greidd.

Dreifiveita skal upplýsa notendur sína um lokunar- og opnunargjöld.

12. gr.

Riftun raforkusölusamnings.

Sölufyrirtæki er heimilt að rifta samningi um raforkuviðskipti, ef almennur notandi stendur ekki í skilum með greiðslur vegna raforkukaupa í samræmi við 7. gr. Sölufyrirtæki er þó eigi heimilt að rifta samningi nema almennum notanda hafi áður verið gefin skrifleg viðvörun, sbr. ákvæði 11. gr.

Sölufyrirtæki er heimilt að rifta samningi án fyrirvara ef bú almenns notanda er tekið til gjald­þrotaskipta. Dreifiveita fær þá sömuleiðis heimild til að stöðva raforkuafhendingu án fyrirvara.

Almennum notanda er heimilt að rifta samningi vegna verulegra vanefnda sölufyrirtækis.

13. gr.

Aðfararheimild.

Gjöld fyrir raforku svo og gjöld fyrir flutning og dreifingu, sem innheimt eru í samræmi við gjaldskrár, eru aðfararhæf án dóms eða sáttar skv. 10. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989. Heimilt er að stöðva afhendingu raforku ef ekki er staðið í skilum með greiðslu gjalda fyrir sölu, flutning og dreifingu, skv. grein þessari.

IV. KAFLI

Ábyrgð á mælingu raforku.

14. gr.

Mæling raforku í flutningskerfi.

Kerfisstjórn flutningsfyrirtækis ber ábyrgð á mælingu raforku inn á og út af flutnings­kerfinu í sam­ræmi við raforkulög. Í því felst uppsetning, rekstur og viðhald mælibúnaðar ásamt söfnun, leið­réttingu og staðfestingu mæligagna og dreifingu þeirra til viðkomandi aðila. Enn fremur skal kerfis­stjórn tryggja að raforkumælar sem notaðir eru til uppgjörs sölu raforku séu löggiltir.

Mælistaður skal vera sá staður í flutningskerfinu sem tilgreindur er sem afhendingar­staður í við­komandi tengisamningi. Kerfisstjórn skal skilgreina nánar í tengisamningi við vinnslu­fyrirtæki, dreifi­veitu og stórnotanda fyrirkomulag mælibúnaðar og kennitölu mæli­staðar.

Nota má tímabundið annan mælistað en skilgreindur er í tengisamningi, ef hluti mæli­búnaðar er ekki til staðar svo sem straum- og/eða spennuspennar.

Séu fleiri en einn raforkusölumælir fyrir á afhendingarstað skal skilgreint í raforkusölu­samningi eða tengisamningi hvaða mælir skal notaður til skuldfærslu.

Óski vinnslufyrirtæki, dreifiveita eða stórnotandi eftir því að aðrir mælar á viðkomandi mæli­stað séu tengdir gagnasöfnunarkerfi kerfisstjórnar eða dreifiveitu ber þeim að gera um það sérsamn­ing og greiða kostnað við þá mæliþjónustu.

Vinnslufyrirtæki, dreifiveitu eða stórnotanda er óheimilt að flytja mælibúnað eða breyta mæli­taugum, nema í samráði við flutningsfyrirtæki.

15. gr.

Mæling raforku í dreifikerfi.

Dreifiveita ber ábyrgð á mælingum á dreifiveitusvæði sínu. Í því felst uppsetning, rekstur og viðhald mælibúnaðar svo og söfnun, leiðrétting og staðfesting mæligagna og dreifing þeirra til við­komandi aðila. Enn fremur skulu dreifiveitur tryggja að raforkumælar til uppgjörs raforku séu lög­giltir. Notendum er skylt að veita dreifiveitu aðgang að inntaki, mælum og öðrum búnaði, hvort sem er til viðhalds, mælaskipta, álesturs eða annars sem tilheyrir rekstri dreifikerfis og þar með sölu­mæla.

Mælistaður skal vera sá staður í dreifikerfinu sem tilgreindur er sem notkunarstaður eða afhend­ingarstaður virkjunar.

Nota má annan mælistað en skilgreindur er í tengisamningi, ef hluti mælibúnaðar er ekki til staðar svo sem straum- og/eða spennuspennar. Skal þá áætla skekkjuna og leiðrétta. Þeir aðilar sem eiga hlut að máli skulu samþykkja leiðréttinguna, en ef ekki næst sátt skal eftirlits­aðili úrskurða. Sé þessi leið valin skal settur upp fullnægjandi búnaður næst þegar viðkomandi tengivirki er endur­nýjað.

Dreifiveita skal skilgreina nánar fyrirkomulag mælibúnaðar í tengisamningi við al­mennan notanda eða virkjun, sem tengd er dreifikerfi. Séu mælar fleiri en einn á sama notk­unarstað skal skil­greint í tengi- eða orkusölusamningi hvaða raforkusölumælir skal notaður til skuld­færslu og við útreikning á jöfnunarorku. Óski almennur notandi eftir því að aðrir mælar á viðkomandi notkunar­stað séu tengdir gagnasöfnunarkerfi dreifiveitu eða kerfisstjórnar ber þeim að gera um það sérsamn­ing og greiða kostnað við þá mæliþjónustu.

V. KAFLI

Tæknilegar kröfur til mælibúnaðar.

16. gr.

Skrár yfir mælibúnað.

Kerfisstjórn og dreifiveitur skulu halda skrár yfir allan mælibúnað eða tryggja að þær séu aðgengi­legar hjá þjónustufyrirtæki mælinga. Hið minnsta skal varðveita gögn um löggildingu og prófunar­vottorð mæla, prófunarvottorð fyrir straumspenna og spennuspenna, svo og gögn varðandi stillingar og prófanir annars mælibúnaðar ásamt teikningum af mælirásum. Aðilar skulu hafa aðgang að þeim gögnum er varða áreiðanleika mælinga þeirra sjálfra og geta farið fram á sérstakar prófanir skv. 23. gr. ef rökstudd ástæða liggur fyrir.

17. gr.

Prófanir og stillingar mælibúnaðar.

Sá aðili sem er ábyrgur fyrir mælingu raforku skal greiða kostnað við reglubundnar próf­anir mæla. Til mælingar á raun- eða launorku á mælibúnaður að vera prófaður og stilltur til að vinna innan tilgreindra skekkjumarka, sbr. töflur 2 og 3 í 19. gr., þegar tekið hefur verið tillit til skekkju í straum- og spennuspennum og viðnáms í mælitaugum og varnarbúnaði.

Öll vinna við mælibúnað og prófanir hans skal framkvæmd á þann hátt að sem minnst röskun verði á rekstri búnaðarins. Alla vinnu sem getur haft áhrif á mæliniðurstöður skal skrá í dagbók. Öll leið­rétting sem gerð er vegna þessa skal einnig skráð og tilkynning send þeim aðilum sem málið snertir.

Komi fram skekkja eða bilun í mæli skal ábyrgðaraðili mælinga skipta þeim mæli út og leiðrétta mælingar. Jafnframt skal hlutaðeigandi aðilum send greinargerð um leiðréttinguna.

18. gr.

Hönnun, framleiðsla og prófun mælibúnaðar (staðlar fyrir mælibúnað).

Mælibúnaður, sem notaður er til uppgjörs raforku skal hannaður, framleiddur og gæða­prófaður í samræmi við gildandi íslenska, evrópska og/eða alþjóðlega staðla, í þessari röð. Undir þetta falla allar gerðir raforkumæla, straumspenna og spennuspenna. Allir raforku­mælar sem falla undir þessa reglu­gerð skulu hafa gerðarviðurkenningu skv. reglugerð um mælifræðilegt eftirlit með raforku­mælum nr. 1061/2008 með síðari breytingum.

19. gr.

Lágmarkskröfur um nákvæmni mælibúnaðar.

Nákvæmni mælibúnaðar skal að lágmarki vera sem segir í neðangreindum töflum:

Tafla 1: Nákvæmniflokkur straumspenna, spennuspenna og raforkumæla.

Mælibúnaður

Nákvæmniflokkur mælibúnaðar

Gerð mælibúnaðar > 10
MVA
5-10
MVA
1-5
MVA
< 1
MVA
Straumspennar, sem teknir voru í notkun fyrir
1. janúar 2005
0,5 0,5 0,5 1
Straumspennar, sem teknir voru í notkun eftir
1. janúar 2005
0,2S 0,2S 0,5S 0,5S
Spennuspennar, sem teknir voru í notkun fyrir
1. janúar 2005
0,5 0,5 0,5 1
Spennuspennar, sem teknir voru í notkun eftir
1. janúar 2005
0,2 0,2 0,5 0,5
Raforkumælar (raunorkumælar), sem teknir voru í notkun fyrir 1. janúar 2005  0,5 0,5 1 2
Raforkumælar (raunorkumælar), sem teknir voru í notkun eftir 1. janúar 2005 0,2S 0,5S 1 2
Launorkumælar 0,5S 1 1 2

Tafla 2: Mælibúnaður ásamt mælirásum fyrir raunafl.

Skilyrði Skekkjumörk við gefinn fasviksstuðul
    Leyfileg hámarksskekkjumörk
miðað við afl
Straumur, sem hlutfall
af málgildi mælistraums
Fasviks­stuðull > 10 MVA 5-10 MVA 1-5 MVA < 1 MVA
120% til og með 10% 1,0 ± 0,5% ± 1,0% ± 2,0% ± 3,0%

Tafla 3: Mælibúnaður ásamt mælirásum fyrir launafl.

Skilyrði Skekkjumörk við gefinn fasviksstuðul
    Leyfileg hámarksskekkjumörk
miðað við afl
Straumur, sem hlutfall
af málgildi mælistraums
Fasviks-
stuðull
> 10MVA 5-10 MVA 1-5 MVA < 1 MVA
120% til og með 10% 0 ± 4,0% ± 4,0% ± 4,0% ± 4,0%

20. gr.

Samanburðarmælar.

Samanburðarmæla skal setja upp á mikilvægum stöðum í raforkukerfinu til að tryggja nákvæmni og öryggi raforkumælinga. Kerfisstjórn flutningskerfis og dreifiveitu skal setja verklags­reglur um hvar slíkir mælar skuli settir upp.

VI. KAFLI

Rekstur mælibúnaðar og mælikerfa.

21. gr.

Innsiglun mælibúnaðar.

Kerfisstjórn flutningskerfis og dreifiveitu skal tryggja að innsigli þess aðila sem hefur löggilt raf­orku­mæli sé til staðar. Hafi innsigli verið rofið ber ábyrgðaraðila mælinga að skipta mæli út. Kerfis­stjórn flutningskerfis og dreifiveitu skulu innsigla mælispenna, mæliferjöld og gagnasöfnunar­búnað, þar sem því verður við komið og hafa ein heimild til að rjúfa þau inn­sigli.

22. gr.

Aðgengi að mælibúnaði.

Kerfisstjórn flutningskerfis eða dreifiveitu skal hafa greiðan aðgang að mælibúnaði. Mælibúnað má ekki flytja til án samþykkis þeirra, en kerfisstjórn getur krafist flutnings mælis ef hann er á óhentugum stað.

23. gr.

Skekkjur í mælingu raforku.

Sé farið fram á sérstaka prófun á mælibúnaði skal ábyrgðaraðili hans láta prófa búnaðinn. Sé mæliskekkja mælibúnaðar meiri en 50% umfram hámarksskekkjumörk við álag sem er ákvarðandi fyrir viðskiptauppgjör, sbr. töflu 1 í 19. gr., skal ábyrgðaraðili mælinga greiða kostnað við prófun hans. Ella skal sá sem fór fram á prófunina bera kostnaðinn. Sömu reglur gilda ef farið er fram á sérstaka skoðun eða rannsókn á mælibúnaði.

24. gr.

Stilling klukkna.

Kerfisstjórn flutningskerfis og dreifiveitna er ábyrg fyrir samtímastillingu klukkna í safn­stöðvum. Kerfisstjórn skal skilgreina leyfileg tímafrávik í aflraðarmælingu. Verði tímafrávik yfir leyfilegum mörkum skal aflröð leiðrétt. Slík leiðrétting skal skráð í dagbók og viðkom­andi aðilum send til­kynning þar um.

25. gr.

Leiðrétting mæligilda.

Kerfisstjórn flutningskerfis og dreifiveitna skal setja reglur um aðferðir við leiðréttingu mæli­gilda, skráningu þeirra og birtingu. Orkustofnun skal samþykkja reglurnar.

26. gr.

Reglur um aðgangsöryggi.

Kerfisstjórn flutningskerfis og dreifiveitna skal setja reglur um aðgangsöryggi að söfn­unar­kerfum og gagnagrunnum til að tryggja trúnaðarskyldu raforkulaga.

VII. KAFLI

Mælaálestur og miðlun gagna.

27. gr.

Raforkumælar án fjarálestrarbúnaðar.

Dreifiveita skal lesa á mæla hjá almennum notendum að lágmarki fjórða hvert ár. Dreifi­veita skal engu að síður afla upplýsinga um mælistöðu árlega.

Almennum notanda ber að skila árlega til dreifiveitu upplýsingum um mælistöður allra mæla sem skráðir eru í tengisamningi, fari dreifiveita fram á það.

Almennur notandi getur, gegn greiðslu aukagjalds, krafist aukaálestrar og uppgjörs miðað við mælda notkun.

28. gr.

Raforkumælar með fjarálestrarbúnaði.

Upplausn mælinga þar sem heimtaug er stærri en 3 x 63A skal a.m.k. vera ein klukkustund.

Dreifiveita leggur til nauðsynlegt gagnaflutningssamband, sé ekki getið um annað í tengi­samn­ingi. Í tengisamningi skal kveðið á um aðstöðu fyrir gagnaflutningsbúnað og aðgengi að honum, upp­setningu hans og viðhald. Dreifiveitu er heimilt að sækja og nota mæligögn fyrir reikningsgerð vegna kostnaðar við dreifingu raforku og útreiknings á jöfnunarorku, svo og uppgjörs viðskipta með raforku, enda sé slíkt í samræmi við lög og reglugerðir. Afhending mæligagna til annarra skal vera í samræmi við reglugerð og skilmála.

Almennur notandi getur farið fram á að raforkunotkun hans sé tímamæld, enda greiði hann viðbótar­­kostnað sem af slíkri mælingu hlýst. Dreifiveita getur hvenær sem er tímamælt raforku­notkun almenns notanda, enda greiði hún viðbótarkostnað af mælingunni.

Þegar flutningsfyrirtæki eða dreifiveita getur ekki sótt mæligögn eða mæling hefur glatast, skal áætla mæligildi út frá sambærilegum gögnum og forsendum.

29. gr.

Skil á mæligögnum.

Dreifiveita skal skila álestrum, áætlunum og mæligögnum fyrir tímamælda notendur til sölu­fyrirtækja vegna uppgjörs og reikningsgerðar fyrir næstliðinn mánuð í síðasta lagi 10. hvers mán­aðar á því formi sem kerfisstjórn ákveður.

30. gr.

Framsetning og miðlun upplýsinga.

Flutningsfyrirtæki og dreifiveitum ber að afhenda vinnslufyrirtækjum, sölufyrirtækjum og not­endum nauðsynlegar upplýsingar. Gagnasamskiptin skulu vera á því formi og með þeirri tíðni sem kerfis­stjórn ákveður og Orkustofnun samþykkir.

Kerfisstjórn flutningskerfis skal í samráði við dreifiveitur setja verklagsreglur um til­kynningar og staðfestingar milli viðskiptakerfa. Verklagsreglurnar skulu lagðar fyrir Orku­stofnun til sam­þykktar.

VIII. KAFLI

Jöfnunarábyrgð og uppgjör jöfnunarorku.

31. gr.

Samningar og skil á áætlunum vegna jöfnunarábyrgðar.

Jöfnunarábyrgðaraðila ber að gera skriflegan samning við kerfisstjórn flutningsfyrirtækis um jöfn­unar­ábyrgð. Þeir skulu skila inn áætlunum sem sýna fram á jafnvægi í öflun og ráðstöfun þeirrar raforku sem þeir eiga viðskipti með. Áætlanir þessar skulu vera samkvæmt verklagsreglum kerfis­­stjórnar.

32. gr.

Útreikningur á jöfnunarorku.

Kerfisstjórn flutningsfyrirtækis skal reikna út jöfnunarorku hvers ábyrgðaraðila jöfnunar­orku fyrir sig. Jöfnunarorkan á að reiknast út á grunni uppgjörsgagna frá flutningskerfi, dreifi­veitum og sölufyrirtækjum. Jöfnunarorku á að reikna út fyrir hvern klukkutíma og með nákvæmni sem svarar til kWst/st.

33. gr.

Greiðsluskylda og inneignir vegna jöfnunarorku.

Kerfisstjórn flutningsfyrirtækis skal reikna út greiðsluskyldu eða inneign hvers ábyrgðar­aðila á grunni jöfnunarorku hvers aðila. Greiðsluskylda eða inneign á að grundvallast á verði jöfnunarorku hjá kerfisstjórn. Upplýsingar um greiðsluskyldu eða inneign skulu sendar til aðila í síðasta lagi 20 dögum eftir lok uppgjörstímabils. Kerfisstjórn er heimilt að krefja jöfnunarábyrgðaraðila um trygg­ingar­upphæð sem nemur 25% af áætluðum árlegum kostnaði vegna jöfnunarorku.

34. gr.

Skil dreifiveitu á mæligögnum vegna uppgjörs jöfnunarorku.

Dreifiveita skal senda kerfisstjórn flutningsfyrirtækis mæligögn yfir heildarraforkunotkun innan síns dreifikerfis sundurliðuð eftir einstökum sölufyrirtækjum, ásamt dreifingartapi í sam­ræmi við verklags­reglur skv. 38. gr. Enn fremur skal dreifiveita senda viðkomandi sölufyrir­tækjum þau mæli­gögn sem varða viðskipti þeirra innan dreifikerfis hennar.

35. gr.

Verklagsreglur um útreikning og uppgjör jöfnunarorku.

Flutningsfyrirtæki skal setja sér verklagsreglur um útreikning og uppgjör jöfnunarorku og gera samninga á grundvelli þeirra. Reglurnar skulu stuðla að skilvirkum raforkumarkaði og tryggja jafn­ræði aðila. Reglurnar skal leggja fyrir Orkustofnun til samþykktar.

36. gr.

Þóknun vegna útreiknings og uppgjörs.

Kerfisstjórn flutningsfyrirtækis og dreifiveitum er heimilt að krefja sölufyrirtæki um þóknun vegna útreiknings og uppgjörs á jöfnunarorku sem nemur kostnaði við þá umsýslu.

37. gr.

Rafræn upplýsingamiðlun.

Tilkynningar samkvæmt ákvæðum þessa kafla, skulu vera á rafrænu og stöðluðu formi í sam­ræmi við verklagsreglur kerfisstjórnar flutningsfyrirtækis.

IX. KAFLI

Verklagsreglur og viðskiptaskilmálar flutningsfyrirtækis.

38. gr.

Verklagsreglur flutningsfyrirtækis.

Flutningsfyrirtækið skal í samráði við raforkufyrirtæki setja sérstakar verklagsreglur um sam­skipti, greiðslur og upplýsingastreymi milli flutningsfyrirtækisins og vinnslufyrirtækja, dreifiveitna, sölu­fyrirtækja og stórnotenda. Gildistaka verklagsreglnanna er háð samþykki Orkustofnunar.

39. gr.

Viðskiptaskilmálar flutningsfyrirtækis.

Flutningsfyrirtæki skal í gjaldskrá sinni fyrir flutning raforku og kerfisþjónustu skilgreina viðskipta­skilmála fyrirtækisins þ. á m. greiðsluskilmála, gjalddaga og eindaga reikninga og viðurlög við vanskilum.

X. KAFLI

Viðskiptaskilmálar dreifiveitu.

40. gr.

Greiðsla fyrir dreifingarþjónustu.

Almennum notanda ber að greiða fyrir tengingu við dreifikerfi svo og fyrir dreifingu raforku til hans. Greiðsluskyldan tekur einnig til dreifingar og flutnings raforku, sem mæld hefur verið hjá notanda, þótt hún hafi ekki komið honum að gagni vegna bilana í raflögnum hans eða vegna annarra orsaka sem dreifiveitunni eru óviðkomandi.

Dreifiveita gerir notanda reikning fyrir dreifingarþjónustu samkvæmt tengisamn­ingi/heimtauga­umsókn og gildandi gjaldskrá. Í tengisamningi skal skilgreina hvert eigi að senda reikning í upphafi viðskipta en notandi hefur rétt til að tilkynna breytingar síðar.

41. gr.

Tíðni reikninga fyrir dreifingarþjónustu.

Dreifiveita skal senda almennum notanda reikning að lágmarki á þriggja mánaða fresti, en dreifi­veita og notandi geta samið um annað fyrirkomulag. Dreifiveitu ber þó að senda a.m.k. einn reikning á ári.

Dreifiveitu er heimilt að áætla notkunarmynstur notenda á milli álestra á grundvelli fyrri notkunar.

42. gr.

Reikningsgerð.

Dreifiveitu er heimilt að annast útsendingu og innheimtu reikninga fyrir sölufyrirtæki. Nýti dreifi­veita sér þessa heimild og semji um slíka þjónustu við eitt sölufyrirtæki, skal öðrum sölu­fyrirtækjum standa til boða sama þjónusta á sömu kjörum.

Sölufyrirtækjum sem hafa söluleyfi raforku er heimilt að innheimta gjöld fyrir sölu, dreifingu og flutning raforku. Þegar innheimtan er í höndum sölufyrirtækis ber því að beina innheimtunni um viðskiptabanka og skal halda greiðslu dreifiveituþjónustu aðskilinni á sérgreindum bankareikningi sem einungis er heimilt að ráðstafa til greiðslu fyrir dreifiveituþjónustu. Heimilt er að sölu- og dreifi­fyrirtæki innheimti gjöld fyrir þjónustu hvort í sínu lagi.

Á reikningi ber að sérgreina gjald fyrir flutning, dreifingu og sölu raforku.

Dreifiveita og sölufyrirtæki skulu gera með sér skriflegan samning um áðurnefnda þjón­ustu, sem skilgreini gagnaaðgang og gagnaflutning, milli aðila, snið gagna og upphæð trygg­ingar vegna inn­heimtra gjalda fyrir dreifingarþjónustu.

Sölufyrirtæki skal standa dreifiveitu skil á innheimtum gjöldum vegna hennar eigi síðar en 15. dag mánaðar miðað við uppgjör 10. dag sama mánaðar. Uppgjör vegna innheimtu gjalda síðasta upp­gjörs­tímabils skal senda dreifiveitu á skiladegi gjalda.

Dreifiveitu er óheimilt að auglýsa þjónustu sölufyrirtækja á reikningum sínum.

43. gr.

Upplýsingar á reikningi fyrir dreifingarþjónustu.

Á reikningi skal koma fram einingaverð sem notað er til grundvallar reikningsgerðinni ásamt magni raforku.

Gjöld fyrir flutning, dreifingarþjónustu og raforku skulu vera greinilega aðgreind á reikningi. Heimilt er að sýna meðalkostnað dreifiveitu fyrir flutning í kr./kWst.

Á reikningum almennra notenda á svæðum þar sem í gildi er dreifbýlisgjaldskrá, skulu koma fram upplýsingar um fjárhæð framlags til lækkunar dreifingarkostnaðar.

Á reikningi dreifiveitu skal koma fram kennitala mælistaðar ásamt auðkenni notkunar­ferils­svæðis sem kerfisstjórn flutningsfyrirtækis úthlutar.

44. gr.

Gjaldfrestur reiknings og dráttarvextir.

Frá útsendingardegi reiknings til gjalddaga hans skal líða minnst ein vika.

Almennum notanda ber skylda til að greiða reikning dreifiveitu í síðasta lagi á þeim gjalddaga sem fram kemur á reikningi. Verði dráttur á greiðslu reiknings er dreifiveitu heimilt að innheimta dráttar­vexti skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Dreifi­veitu er einnig heimilt að innheimta hæfilegt gjald fyrir skriflega innheimtu- og lokunar­viðvörun samkvæmt gjaldskrá dreifi­veitunnar.

45. gr.

Leiðrétting á skekkju í mælingu raforku.

Mælitæki telst sýna rétt ef mesta skekkja þess er innan ± 50% frá skilgreindum skekkju­mörkum, sbr. töflu 1 í 19. gr. Komi fram villa í reikningi, mælingu eða mælaálestri á dreifi­veita rétt á að inn­heimta viðbótarupphæð sem leiðréttingunni nemur og á sama hátt á al­mennur notandi rétt á endur­greiðslu í eftirfarandi tilvikum:

 1. Sé staðfest að mæliskekkjan hafi verið meiri en kveðið er á um í 1. mgr. skal mis­munurinn gerður upp eftir áætlun dreifiveitu sem byggð skal á niðurstöðum úr prófunum á mæli­búnaði, staðfestri notkun notandans að teknu tilliti til hvenær notkunin fór fram eða öðrum atriðum sem máli skipta.
 2. Hvor sem er, almennur notandi eða dreifiveita, geta krafist þess að fá greiddar kröfur, sem stafa af skekkjum í mælingum, tvö ár aftur í tímann.
 3. Hafi aðeins verið lesið á mæli fjórða hvert ár í samræmi við 27. gr. geta samningsaðilar krafist leiðréttingar vegna skekkja fjögur ár aftur í tímann.
 4. Dreifiveitu ber að endurgreiða notanda raunvirði oftekinna gjalda. Vegna vantekinna gjalda skal notanda veittur sanngjarn tímafrestur til greiðslu viðbótarupphæðar. Greiði notand­inn ekki reikning vegna viðbótarupphæðar á umsömdum tíma er dreifiveitu heim­ilt að inn­heimta dráttarvexti skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

XI. KAFLI

Uppgjör á grunni notkunarferils.

46. gr.

Notkunarferill.

Uppgjör milli kerfisstjórnar flutningsfyrirtækis og sölufyrirtækja skal byggjast á notk­unarferlum fyrir þá almennu notendur, sem ekki eru tímamældir.

Dreifiveitum er heimilt að skilgreina fleiri en einn notkunarferil á dreifiveitusvæði sínu. Þó er ekki heimilt að leggja fleiri en einn notkunarferil til grundvallar úttekt á hverjum afhendingarstað úr flutningskerfinu. Samtengdir og sammældir afhendingarstaðir teljast í þessu sambandi einn afhend­ingarstaður. Breytingar á notkunarferlum skulu gerðar í samráði við flutningsfyrirtækið.

47. gr.

Útreikningur á tapi í dreifikerfi.

Við útreikning á orkutapi í dreifikerfinu fyrir skilgreiningu á notkunarferli skal nota tapferil sem er einkennandi fyrir viðkomandi dreifikerfi. Orkutap skal gefið upp fyrir hverja klukku­stund.

48. gr.

Útreikningur á orkuúttaki sölufyrirtækja.

Dreifiveita skal reikna út hlutdeild hvers sölufyrirtækis í notkunarferlinum út frá áætlaðri árs­notkun þeirra almennu notenda, sem ekki eru tímamældir.

49. gr.

Tilkynningar með uppgjörsupplýsingum á grunni notkunarferils.

Dreifiveita skal senda uppgjör á útreiknaðri úttekt til sölufyrirtækja fyrir hverja klukku­stund í samræmi við hlutdeild í notkunarferli innan viku frá lokum uppgjörsmánaðar. Klukku­tímagildi úttektar á að gefa upp í heilum kWst/st.

50. gr.

Upplýsingar um áætlaða úttekt á hverjum mælistað.

Dreifiveita á að senda upplýsingar til viðkomandi sölufyrirtækis um áætlaða árlega úttekt fyrir hvern mælistað þess þegar breyting þess efnis kemur með nýjum álestri.

51. gr.

Fjárhagslegt uppgjör.

Dreifiveita skal annast fjárhagslegt uppgjör á mismuni milli áætlaðrar og raunverulegrar úttektar og upplýsa sölufyrirtæki um greiðsluskyldu þess eða inneign, innan sex vikna frá lokum uppgjörs­tímabils og afhenda grunngögn ef eftir þeim er leitað.

Dreifiveita skal halda bókhald yfir dreifingu fyrir sérhvert sölufyrirtæki. Bókhaldið skal upp­færa við álestur mælis svo og hlutdeild sölufyrirtækis í notkunarferlinum. Mismuninn skal verð­leggja í sam­ræmi við verð jöfnunarorku hjá kerfisstjórn flutningsfyrirtækis eins og það er á hverri klukku­stund. Bókhaldið skal gera upp eigi sjaldnar en um hver áramót.

52. gr.

Rafræn upplýsingamiðlun.

Tilkynningar samkvæmt ákvæðum þessa kafla, skulu vera á stöðluðu og rafrænu formi í sam­ræmi við verklagsreglur kerfisstjórnar flutningsfyrirtækis.

XII. KAFLI

Gildistaka o.fl.

53. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 3. mgr. 20. gr. raforkulaga nr. 65/2003, öðlast þegar gildi. Á sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1050/2004 um raforkuviðskipti og mælingar, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Innleiðingu á breytingu á hugbúnaði hjá reiknistofu dreifiveitna, vegna ákvæða 7. gr. reglu­gerðar­innar, skal lokið eigi síðar en 31. desember 2020.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 2. desember 2019.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Ingvi Már Pálsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica