Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

393/2013

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 451/2009 um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

1. gr.

Á eftir 1. gr. kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:

Sjóður græna hagkerfisins.

Fjárveitingu ríkisins til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins til eflingar græna hagkerfisins verður ráðstafað í gegnum sérstakan sjóð, Sjóð græna hagkerfisins. Honum skal varið til að fjárfesta í fyrirtækjum sem þróa og framleiða vörur eða þjónustu sem tengist umhverfistækni og umhverfisvænni starfsemi.

Handbæru fé sjóðsins og eignum sem stafa af fjárfestingu hans skal halda reikningslega aðgreindu frá öðru fé Nýsköpunarsjóðs og skal gera sérstaklega grein fyrir umræddum fjárfestingum og starfsemi Nýsköpunarsjóðs í þeirra þágu í ársskýrslu á ársfundi.

Í starfsreglum sjóðsins skal mælt fyrir um skilyrði þess að fyrirtæki teljist þróa og framleiða vörur og þjónustu sem um getur í 1. mgr. og með hvaða hætti metið skuli hvort þau skilyrði séu uppfyllt.

Sérstakt fimm manna fagráð skal meta öll fjárfestingarverkefni fyrir Sjóð græna hagkerfisins. Um starfsemi fagráðsins skal fjallað í starfsreglum Nýsköpunarsjóðs, m.a. faglegar kröfur til ráðsmanna og verklag við mat og eftirfylgni.

2. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 17. gr. laga nr. 61/1997 um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins með síðari breytingum og öðlast hún þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 26. apríl 2013.

Steingrímur J. Sigfússon.

Kristján Skarphéðinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica