Leita
Hreinsa Um leit

Iðnaðarráðuneyti

985/2010

Reglugerð um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi kveður á um veitingu ívilnana á grundvelli laga nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Reglugerðin nær til þeirra ívilnana sem skilgreindar eru í III. og IV. kafla laga nr. 99/2010 að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru í þeim lögum og reglugerð þessari.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari skal eftirfarandi merking lögð í þessi hugtök:

 1. Byggðaaðstoð: Ríkisaðstoð sem veitt er með heimild í c-lið 3. mgr. 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið til að efla byggðaþróun og efnahagslíf á ákveðnu landsvæði í samræmi við samþykkt byggðakort.
 2. Byggðakort: Kort af Íslandi sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur, með ákvörðun nr. 378/06/COL, samþykkt fyrir árin 2007-2013, þar sem fram kemur á hvaða svæðum á Íslandi heimilt er að veita byggðaaðstoð og að hvaða marki.
 3. Fjárfestingarverkefni: Verkefni sem nýfjárfesting lýtur að.
 4. Fjárfestingarkostnaður: Kostnaður vegna áþreifanlegra eigna, t.d. lands, bygginga, tækja og búnaðar, sem fellur til í tengslum við fjárfestingarverkefni hér á landi. Eingöngu kostnaður sem fellur til eftir gildistöku reglugerðar þessara getur talist til fjárfestingarkostnaðar í skilningi þeirra. Kostnaður vegna óáþreifanlegra eigna, t.d. hugverkaréttinda og leyfa, getur einnig talist til fjárfestingarkostnaðar að því tilskildu að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
  1. að hinar óáþreifanlegu eignir séu einvörðungu nýttar af því fyrirtæki sem ívilnunar nýtur,
  2. að hinar óáþreifanlegu eignir séu fyrnanlegar eignir,
  3. að hinar óáþreifanlegu eignir hafi verið keyptar af þriðja aðila á markaðskjörum,
  4. að hinar óáþreifanlegu eignir séu hluti af eignum viðkomandi fyrirtækis í að lágmarki fimm ár frá því að ívilnun er veitt,
  5. að fjárfestingarkostnaður í óáþreifanlegum eignum sé ekki meiri en 50% af heildarfjárfestingarkostnaði þegar um stærri fyrirtæki er að ræða.
 5. Ívilnun: Skilgreind ríkisaðstoð samkvæmt lögum nr. 99/2010, sem er forsenda þess að tiltekið fjárfestingarverkefni verði að veruleika hér á landi.
 6. Lítið fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með færri en 50 starfsmenn og er með árlega veltu undir 2 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 2 milljónum evra, sbr. viðauka 1 við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 frá 6. ágúst 2008, þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast sameiginlega markaðnum til beitingar 61. og 62. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 er birt sem fylgiskjal við lög nr. 99/2010.
 7. Meðalstórt fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með á bilinu 50-250 starfsmenn og er með árlega veltu undir 50 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 43 milljónum evra, sbr. viðauka 1 við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008.
 8. Nýfjárfesting: Fjárfesting sem lýtur að uppsetningu nýs verkefnis eða nýrrar starfsemi hér á landi eða felur í sér sjálfstæða viðbót við eldra verkefni. Fjárfesting sem kemur í stað eldri fjárfestingar telst ekki nýfjárfesting í skilningi laga þessara.
 9. Stórt fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með fleiri en 250 starfsmenn, sbr. viðauka 1 við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008.

3. gr.

Skilyrði fyrir veitingu ívilnana.

Við mat á því hvort veita eigi ívilnun vegna nýfjárfestingar samkvæmt lögum nr. 99/2010 skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:

 1. að stofnað sé sérstakt félag um fjárfestingarverkefnið á Íslandi; íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð er í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið telst sérstakt félag,
 2. að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um viðkomandi fjárfestingarverkefni, þá aðila sem að því standa og hvernig fjármögnun er háttað,
 3. að fyrirhugað fjárfestingarverkefni sé ekki hafið áður en undirritaður er samningur um ívilnun skv. 20. gr. og að sýnt sé fram á að veiting ívilnunar sé forsenda þess að fjárfestingarverkefnið verði að veruleika hér á landi,
 4. að a.m.k. 65% af fjárfestingarkostnaði séu fjármögnuð án ríkisaðstoðar og þar af sé að lágmarki 20% fjármögnuð af eigin fé þess aðila sem sækir um ívilnun,
 5. að árleg velta fyrirhugaðs fjárfestingarverkefnis sé a.m.k. 300 millj. kr. eða að nýfjárfesting skapi a.m.k. 20 ársverk hjá umsóknaraðila við rekstur fjárfestingarverkefnis á fyrstu tveimur árum þess,
 6. að fyrir liggi arðsemisútreikningar sem sýni fram á að viðkomandi nýfjárfesting sé þjóðhagslega hagkvæm út frá hagsmunum íslensks efnahagslífs og samfélags, t.d. út frá atvinnusköpun, byggðaþróun, útflutningi, skatttekjum, nýsköpun og aukinni þekkingu,
 7. að um nýfjárfestingu sé að ræða og að tæki og búnaður sem kemur til vegna hennar sé nýr eða nýlegur og uppfylli skilyrði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með nýjum eða nýlegum búnaði er átt við að búnaðurinn hafi ekki áður verið notaður í viðkomandi starfsemi,
 8. að viðkomandi nýfjárfesting verði, eftir að rekstur hefst, að lágmarki til 10 ára í starfrækslu á viðkomandi svæði á Íslandi,
 9. að starfsemi félags sem ívilnunar nýtur sé að öllu leyti í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli, þ.m.t. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög á sviði umhverfisréttar, og starfsemin brjóti ekki í bága við almennt velsæmi,
 10. að ekki séu fyrir hendi, hjá viðkomandi félagi eða eigendum þess, vangreiddir skattar eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi eða endurgreiðslukrafa skv. 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, og að viðkomandi félag sé ekki í fjárhagslegum erfiðleikum eða fjárhagslegri endurskipulagningu í skilningi leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð til endurskipulagningar eða björgunar fyrirtækja,
 11. að eigendur sem fara með virkan eignarhlut og framkvæmdastjóri viðkomandi félags séu lögráða, hafi óflekkað mannorð og orðspor sem samrýmist reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Þeir skulu ekki hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota á síðustu fimm árum. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu fimm árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

4. gr.

Byggðaaðstoð.

Heimildir stjórnvalda til að veita ívilnun á grundvelli byggðaaðstoðar takmarkast af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda skv. 61.-64. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Þær skuldbindingar og heimildir eru nánar útfærðar í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA 378/06/COL, frá 6. desember 2006, um byggðakort og aðstoðarhlutföll (Ísland) sem birt var 28. febrúar 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 11, bls. 28, en þar kemur fram á hvaða svæðum á Íslandi heimilt er að veita byggðaaðstoð árin 2007 til 2013, þ.e. Suðurkjördæmi, Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi, og að hvaða marki.

5. gr.

Hámark leyfilegrar byggðaaðstoðar.

Með vísan til 4. gr. getur ívilnun á grundvelli byggðaaðstoðar almennt numið að hámarki 15% af skilgreindum fjárfestingarkostnaði þess fjárfestingarverkefnis sem sótt er um ívilnun fyrir. Fyrir meðalstór fyrirtæki er hámark ívilnunar 25% af fjárfestingarkostnaði og fyrir lítil fyrirtæki er hámark ívilnunar 35% af fjárfestingarkostnaði.

Í þeim tilvikum þegar fjárfestingarkostnaður fjárfestingarverkefnis er meiri en 50 milljónir evra lækkar hlutfall leyfilegrar hámarksaðstoðar, sbr. 1. mgr., í samræmi við heildar­fjárfestingarkostnað, sbr. 6. gr.

6. gr.

Leyfilegt hlutfall byggðaaðstoðar vegna stærri verkefna.

Í samræmi við leiðbeinandi reglur Eftirlitsstofnunar EFTA um landsbundna byggðaaðstoð fyrir árin 2007-2013, sbr. ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA 85/06/COL, frá 6. apríl 2006, sem birt var 28. febrúar 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 11, bls. 1, skal hámark leyfilegrar byggðaaðstoðar vegna fjárfestingarverkefna þar sem fjárfestingar­kostnaður er meiri en 50 milljónir evra vera sem hér segir:

Fjárfestingarkostnaður

Hámark byggðaaðstoðar

Kostnaður upp að 50 milljón evrum

15% af þeim fjárfestingarkostnaði

Kostnaður frá 50 milljón til 100 milljón evrur

7,5% af þeim fjárfestingarkostnaði

Kostnaður yfir 100 milljón evrum

5,1% af þeim fjárfestingarkostnaði7. gr.

Ívilnun í formi beins fjárstuðnings.

Byggðaaðstoð getur samkvæmt lögum nr. 99/2010 verið í formi beins opinbers fjárstuðnings vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis til þess félags sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið. Er þá um að ræða stofnfjárstyrk sem fellur til í upphafi verkefnis.

Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er ívilnun, sbr. 20. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag hins beina fjárstuðnings.

8. gr.

Ívilnanir tengdar sköttum og opinberum gjöldum.

Byggðaaðstoð getur samkvæmt lögum nr. 99/2010 verið í formi frávika frá sköttum eða opinberum gjöldum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis.

Félag sem stofnað er um nýfjárfestingu og uppfyllir öll skilyrði laga nr. 99/2010, og reglugerðar þessarar, fyrir veitingu ívilnunar skal njóta eftirfarandi skattalegra ívilnana:

 1. Tekjuskattshlutfall viðkomandi félags skal, í þann tíma sem kveðið er á um í 3. mgr., aldrei vera hærra en það tekjuskattshlutfall sem í gildi er þegar samningur skv. 20. gr. er gerður við félagið.
 2. Á því ári þegar nýjar eignir eru teknar í notkun getur félagið valið að fyrna þær í hlutfalli við notkun á árinu í stað fullrar árlegrar fyrningar skv. 34. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal félaginu heimilt að fyrna eignir sínar að fullu.
 3. Félagið skal undanþegið iðnaðarmálagjaldi samkvæmt lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, með síðari breytingum, og markaðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 160/2002, um útflutningsaðstoð, með síðari breytingum.
 4. Stimpilgjöld sem greiða bæri samkvæmt lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, skulu vera 0,15% af öllum stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnað er til í tengslum við uppbyggingu viðkomandi fjárfestingarverkefnis.
 5. Félagið skal undanþegið ákvæðum 1., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
 6. Skatthlutfall fasteignaskatts viðkomandi félags skal vera 30% lægra en lögbundið hámark að viðbættu álagi skv. II. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.
 7. Almennt tryggingagjald viðkomandi félags skal vera 20% lægra en það sem kveðið er á um í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald.
 8. Innflutningur og kaup félagsins eða einhvers fyrir þess hönd hérlendis á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis, svo og til reksturs þess, skulu vera undanþegin tollum og vörugjöldum samkvæmt tollalögum, nr. 88/2005, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

Þau frávik frá almennum reglum um skatta og opinber gjöld sem kveðið er á um í 2. mgr. gilda í 10 ár frá því að viðkomandi skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá því félagi sem ívilnunar nýtur, þó aldrei lengur en í 13 ár frá undirritun samnings samkvæmt 20. gr.

Félag sem ívilnunar nýtur samkvæmt grein þessari skal, að öðru leyti en kveðið er á um í 2. mgr., greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma. Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, inn­heimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisauka­skatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um viðkomandi félag.

9. gr.

Ívilnun í tengslum við land eða lóð undir nýfjárfestingu.

Byggðaaðstoð getur samkvæmt lögum nr. 99/2010 verið í formi sölu eða leigu ríkis eða sveitarfélags á landi eða lóð í eigu ríkis eða sveitarfélags undir viðkomandi fjárfestingar­verkefni til þess félags sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingar­verkefnið, á verði sem telst vera undir almennu markaðsverði.

Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er ívilnun, sbr. 20. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag ívilnunar sem tengd er sölu eða leigu á landi eða lóð.

10. gr.

Almennar ívilnanir.

Heimildir stjórnvalda til að veita ívilnun vegna fjárfestinga, sem ekki eru byggðatengdar, takmarkast af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda skv. 61.-64. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Þær heimildir eru nánar útfærðar í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008, frá 6. ágúst 2008, þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast sameiginlega markaðnum til beitingar 61. og 62. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (reglugerð um almenna hópundanþágu), eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2008 sem birt var 18. desember 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 79.

Ívilnun skv. 12.-15. gr. laga nr. 99/2010 getur verið í formi beins fjárstuðnings, frávika frá tilteknum sköttum og gjöldum skv. 8. gr. eða annarrar tegundar leyfilegrar ríkisaðstoðar samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008.

11. gr.

Ívilnun vegna þjálfunarkostnaðar nýfjárfestingar.

Almenn ívilnun vegna fjárfestingarverkefnis getur samkvæmt lögum nr. 99/2010 verið í formi þjálfunaraðstoðar vegna kostnaðar við þjálfun starfsfólks sem fellur til í tengslum við nýfjárfestingu.

Hámark leyfilegrar þjálfunaraðstoðar eru 2 milljónir evra fyrir hvert fjárfestingarverkefni.

Um skilyrði fyrir veitingu þjálfunaraðstoðar vísast nánar til 38. og 39. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008.

Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er ívilnun, sbr. 20. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag ívilnunar vegna þjálfunarkostnaðar.

12. gr.

Ívilnun vegna nýfjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Almenn ívilnun vegna fjárfestingarverkefnis getur samkvæmt lögum nr. 99/2010 verið í formi ívilnunar vegna nýfjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem hlutfall af fjárfestingar- eða launakostnaði viðkomandi fjárfestingarverkefnis.

Ívilnun skv. 1. mgr. getur að hámarki numið 10% af skilgreindum fjárfestingarkostnaði fyrir meðalstór fyrirtæki en 20% fyrir lítil fyrirtæki, þó aldrei að hærri fjárhæð en 7,5 milljónir evra fyrir hvert fjárfestingarverkefni.

Um skilyrði fyrir veitingu ívilnunar til lítilla og meðalstórra fyrirtækja vísast nánar til 14. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008.

Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er ívilnun, sbr. 20. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag ívilnunar vegna nýfjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

13. gr.

Ívilnun vegna nýfjárfestinga í rannsóknar- og þróunarverkefnum.

Almenn ívilnun vegna fjárfestingarverkefnis getur samkvæmt lögum nr. 99/2010 verið í formi ívilnunar vegna nýfjárfestinga í rannsóknar- og þróunarverkefni, sem hlutfall af fjárfestingarkostnaði viðkomandi fjárfestingarverkefnis.

Um skilyrði fyrir veitingu ívilnunar vegna nýfjárfestinga í rannsóknar- og þróunarverkefnum vísast nánar til 30.-37. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008.

Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er slík ívilnun, sbr. 20. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag ívilnunar vegna nýfjárfestinga í rannsóknar- og þróunarverkefni.

14. gr.

Ívilnun vegna umhverfistengdra fjárfestingarverkefna.

Almenn ívilnun vegna fjárfestingarverkefnis getur samkvæmt lögum nr. 99/2010 verið í formi ívilnunar til fyrirtækja vegna umhverfistengdra nýfjárfestinga sem fela í sér umbætur eða nýsköpun í umhverfis- og náttúruvernd, þ.m.t. orkusparnað eða minni losun gróður­húsalofttegunda.

Um skilyrði fyrir veitingu ívilnunar samkvæmt þessari grein vísast nánar til 17.-25. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008.

Í samningi milli stjórnvalda og þess aðila sem veitt er slík ívilnun, sbr. 20. gr., skal nánar kveðið á um fyrirkomulag ívilnunar vegna umhverfistengdra nýfjárfestinga.

15. gr.

Almenn frávik frá tilgreindum ákvæðum laga.

Í samningi skv. 20. gr. er heimilt að kveða á um að viðkomandi félag, sem stofnað er um nýfjárfestingu og reisir og rekur fjárfestingarverkefnið, skuli undanþegið:

 1. ákvæðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem setur það skilyrði að 4/5 hlutar hlutafjár hlutafélags séu eign íslenskra ríkisborgara og að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar,
 2. ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem þess er krafist að meiri hluti stjórnarmanna og framkvæmdastjóri einkahlutafélags hafi heimilisfesti á Íslandi, svo og sambærilegum síðari ákvæðum,
 3. ákvæðum laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, eða ákvæðum síðari laga um sameiginlega skyldutryggingu húseigna, enda verði með öðrum hætti tryggilega séð fyrir brunatryggingum,
 4. ákvæðum laga nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, enda viðhaldi félagið fullnægjandi viðlagatryggingu.

16. gr.

Nefnd um veitingu ívilnana vegna nýfjárfestinga.

Sérstök þriggja manna nefnd iðnaðarráðherra fer yfir umsóknir um ívilnun og gerir tillögu til ráðherra um afgreiðslu. Iðnaðarráðherra skipar nefndina og skulu fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra tilnefna sinn mann hvor, en sá þriðji skal skipaður án tilnefningar og vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

Nefndin leggur mat á umsóknir og kallar eftir þeim gögnum sem nauðsynleg eru.

Nefndin skal hafa samráð við sveitarfélög í tengslum við aðkomu þeirra að fyrirhuguðum fjárfestingarverkefnum sem staðsett eru innan umdæma þeirra.

Við mat á umsókn um ívilnun skal nefndin hafa heimild til þess að afla álits sérfróðra aðila um þætti sem að umsókn snúa, til að mynda varðandi mat á efnahags- og samfélagslegum ávinningi.

Ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda um störf nefndarinnar.

17. gr.

Arðsemisútreikningar.

Áður en nefnd skv. 16. gr. gerir tillögu til iðnaðarráðherra vegna umsóknar um ívilnun skal Fjárfestingarstofa framkvæma útreikninga fyrir nefndina á arðsemi og ávinningi fyrirhugaðs fjárfestingarverkefnis og vinna aðrar upplýsingar sem nauðsynlegt er að liggi fyrir áður en tekin er afstaða til umsóknar.

Aðili sem sækir um ívilnun skal leggja fram rekstrar- og viðskiptaáætlun vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis sem kleift er að byggja arðsemisútreikninga á og meta þannig þann virðisauka sem eftir verður í landinu vegna viðkomandi verkefnis. Liggi fullnægjandi gögn ekki fyrir til að framkvæma arðsemisútreikninga skal Fjárfestingarstofa kalla eftir þeim.

Arðsemisútreikninga skal framkvæma með samræmdum hætti á grundvelli fyrirliggjandi reiknilíkans. Til að unnt sé að framkvæma arðsemisútreikninga þurfa allar fjárhagslegar forsendur viðkomandi fjárfestingarverkefnis að liggja fyrir og gögnum þess efnis komið til Fjárfestingarstofu. Þannig þarf fyrirhuguð arðsemi eða tap af verkefninu að liggja fyrir, bæði að teknu tilliti til ívilnana og án ívilnana.

Ívilnanir skulu því aðeins boðnar umsækjanda ef arðsemisútreikningar gefa með skýrum hætti til kynna að veiting ívilnunar til viðkomandi fjárfestingarverkefnis hafi í för með sér efnahags- og samfélagslegan ávinning fyrir Ísland, jafnt til lengri sem skemmri tíma.

Við mat á efnahags- og samfélagslegum ávinningi af fyrirhugaðri starfsemi skal horft til mismunandi samsetninga ívilnana sem leyfilegar eru skv. III. og IV. kafla laga nr. 99/2010.

18. gr.

Boð um ívilnun.

Nefnd skv. 16. gr. skal gera tillögu til iðnaðarráðherra um að hafna beiðni um ívilnun eða að leggja fyrir umsækjanda boð um ívilnun.

Leggi iðnaðarráðherra fram boð um ívilnun skal það byggjast á þeim heimildum sem fram koma í III. og IV. kafla laga nr. 99/2010 og getur það verið samsett úr fleiri en einni tegund ívilnana, sbr. þó 19. gr.

19. gr.

Takmörk leyfilegrar ívilnunar.

Ívilnun til umsækjanda vegna fjárfestingarverkefnis getur að hámarki ekki farið yfir þau mörk sem leyfileg eru í samræmi við reglur þær um byggðaaðstoð sem fram koma í III. kafla laga nr. 99/2010 eða samkvæmt reglum um almennar ívilnanir sem fram koma í IV. kafla sömu laga. Ekki er heimilt að fullnýta ívilnanir bæði úr III. og IV. kafla laga nr. 99/2010 vegna sama fjárfestingarverkefnis þannig að samtala ívilnunar fari yfir þau mörk sem kveðið er á um í lögum nr. 99/2010 að meðtalinni annarri ríkisaðstoð sem sami aðili kann að hafa notið vegna sama fjárfestingarverkefnis.

20. gr.

Samningur um veitingu ívilnunar.

Fallist umsækjandi á boð iðnaðarráðherra um ívilnun skal gerður samningur milli um­sækjanda og iðnaðarráðherra, fyrir hönd stjórnvalda og, eftir atvikum, sveitarfélaga um veitingu ívilnunar vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis.

Samningur skv. 1. mgr. skal kveða á um þær skuldbindingar sem kunna að þykja nauðsynlegar fyrir viðkomandi fjárfestingarverkefni og hversu lengi samningur skuli gilda. Í samningi skal enn fremur m.a. kveðið á um eftirfarandi atriði:

 1. skilgreiningu og afmörkun á viðkomandi fjárfestingarverkefni,
 2. skilgreiningu og afmörkun á þeim lögaðila sem ívilnunar nýtur samkvæmt samn­ingnum,
 3. hvaða ívilnunum veitt er til verkefnisins,
 4. hvernig ívilnun er komið til verkefnis og á hvaða tíma,
 5. eftirlit og endurgreiðslu ívilnunar ef skilyrði samnings eru ekki uppfyllt.

Samningur um veitingu ívilnunar skv. 1. mgr. skal að hámarki gilda í 13 ár frá undirritun hans. Ívilnun sem veitt er á grundvelli 9. gr. laga nr. 99/2010 skal gilda í 10 ár frá því að viðkomandi skattskylda eða gjaldskylda sem kveðið er á um í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2010 myndast, þó aldrei lengur en í 13 ár frá undirritun samnings um veitingu ívilnunar.

Í samningi samkvæmt grein þessari skal koma fram áætlun um samtals fjárhæð veittrar ríkisaðstoðar, núvirt, á gildistíma samningsins.

Samningur um veitingu ívilnunar, sem iðnaðarráðherra undirritar samkvæmt lögum nr. 99/2010, skal birtur í B-deild Stjórnartíðinda.

21. gr.

Önnur ríkisaðstoð til sama fjárfestingarverkefnis.

Á þeim tíma sem samningur samkvæmt 20. gr. varir er óheimilt að veita annars konar ríkisaðstoð, í skilningi 61. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, til þess fjárfestingarverkefnis sem nýtur ríkisaðstoðar samkvæmt lögum nr. 99/2010.

22. gr.

Fjárheimild.

Að því leyti sem um beinar greiðslur úr ríkissjóði er að ræða er veiting ívilnunar samkvæmt lögum nr. 99/2010 háð fjárveitingu Alþingis hverju sinni samkvæmt fjárlögum og, eftir því sem við á, fjárveitingu sveitarfélaga.

23. gr.

Afmörkun ívilnunar.

Ívilnun er eingöngu veitt vegna ákveðins fjárfestingarverkefnis umsækjanda en ekki til annarrar starfsemi hans. Aðila sem ívilnunar nýtur samkvæmt lögum nr. 99/2010 er einvörðungu heimilt að nýta þá ívilnun í það skilgreinda fjárfestingarverkefni sem kveðið er á um í samningi skv. 20. gr. reglugerðarinnar.

24. gr.

Eftirlit með notkun ívilnunar.

Eftir undirritun samnings samkvæmt 20. gr. hefur iðnaðarráðuneytið eftirlit með því að veiting ríkisaðstoðar til viðkomandi fjárfestingarverkefnis sé í samræmi við lög nr. 99/2010 og þær reglur um ríkisaðstoð sem eru í gildi á hverjum tíma á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Til tryggingar á réttri notkun ívilnunar ber aðila sem ívilnunar nýtur að senda iðnaðar­ráðuneyti árlega skýrslu um framvindu fjárfestingarverkefnis, hlut ívilnunar í framgangi þess, samtals fjárhæð veittrar ríkisaðstoðar á undanförnu ári, forsendur fyrir þeim útreikn­ingum og tilgreiningu á annarri starfsemi aðila ef einhver er.

Iðnaðarráðuneytið fer yfir ársskýrslur samkvæmt 2. mgr. og leggur mat á hvort þær séu innan þess ramma sem lagður hefur verið með undirritun samnings samkvæmt 20. gr., um hámark leyfilegrar ríkisaðstoðar til viðkomandi fjárfestingarverkefnis. Iðnaðarráðuneytið getur kallað til sérfróða aðila við mat og útreikning á veittri ríkisaðstoð. Sé veitt ríkisaðstoð talin vera umfram það sem fram kemur í samningi samkvæmt 20. gr. gilda ákvæði 25. gr. um afturköllun og/eða endurgreiðslu ívilnunar.

Iðnaðarráðuneytið, í samstarfi við fjármálaráðuneytið, sendir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) árlega skýrslu með sundurgreindum upplýsingum um veitingu ríkisaðstoðar til þeirra fjárfestingarverkefna sem njóta ríkisaðstoðar á grundvelli laga nr. 99/2010.

Iðnaðarráðuneyti skal upplýsa hlutaðeigandi sveitarfélög um atvik sem geta haft áhrif á gildi samninga sem gerðir hafa verið og skulu viðkomandi sveitarfélög á sama hátt upplýsa iðnaðarráðuneyti um atvik af þessu tagi.

25. gr.

Afturköllun og/eða endurgreiðsla ívilnunar.

Fella ber niður ívilnun og endurkrefja um þegar veitta ívilnun komi í ljós að aðili sem nýtur ívilnunar hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða leynt upplýsingum sem höfðu áhrif á veitingu ívilnunarinnar.

Endurkrefja ber um ívilnun ef hún hefur verið nýtt til annarra hluta en fjárfestingarverkefnis þess sem var forsenda veitingar hennar.

Komi í ljós að ívilnun til aðila er komin umfram þær heimildir sem fram koma í lögum nr. 99/2010 eða samningi um veitingu ívilnunar, sbr. 20. gr., skal endurkrefja aðila um þann hlut sem umfram er og stöðva veitingu frekari ívilnunar.

Ef ákvörðun um ívilnun er afturkölluð, samkvæmt grein þessari eða í kjölfar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA um ólögmæta ríkisaðstoð, skulu stjórnvöld, sbr. 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, gera ráðstafanir til þess að endurheimta veitta ríkisaðstoð frá þiggjanda hennar.

26. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 26. gr. laga nr. 99/2010, um ívilnanir vegna ný­fjárfestinga á Íslandi, og öðlast þegar gildi.

Iðnaðarráðuneytinu, 25. nóvember 2010.

Katrín Júlíusdóttir.

Kristján Skarphéðinsson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica