Iðnaðarráðuneyti

38/2009

Reglugerð um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. - Brottfallin

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til leitar, rannsókna, vinnslu kolvetnis og flutnings þess eftir leiðslukerfi utan netlaga í landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunni Íslands.

2. gr.

Skilgreiningar.

Efnahagslögsaga: Efnahagslögsaga Íslands er svæði utan landhelgi er afmarkast af línu sem alls staðar er 200 sjómílur frá grunnlínum landhelginnar, sbr. lög nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Milli Íslands annars vegar og Færeyja og Grænlands hins vegar, þar sem minna en 400 sjómílur eru milli grunnlína, afmarkast efnahagslögsaga og landgrunn Íslands af miðlínu.

Flutningur: Flutningur kolvetnis frá hafstöð með leiðslukerfi eða með öðrum hætti.

Framleiðsla: Upptaka efnis úr jarðlögum.

Framleitt kolvetni: Kolvetni sem búið er að dæla upp úr kolvetnisgeymi og ekki hefur verið dælt aftur niður í kolvetnisgeymi.

Hafstöð:

 1. Búnaður, svo sem pallar, leiðslukerfi og önnur mannvirki í efnahagslögsögu og landgrunni Íslands sem notuð eru í kolvetnisstarfsemi.
 2. Hvers konar flutningstæki sem nýtt eru til kolvetnisstarfsemi meðan þau liggja við festar.

Íslenskt hafsvæði: Hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögunnar eða að ytri mörkum landgrunns þar sem það nær út fyrir efnahagslögsöguna.

Kolvetni: Jarðolía, jarðgas eða annars konar kolvetni sem er til staðar í jarðlögum undir hafsbotni frá náttúrunnar hendi og nýtanlegt er í loftkenndu eða fljótandi formi.

Kolvetnisauðlind: Kolvetni á eða í kolvetnisgeymi.

Kolvetnisgeymir: Jarðfræðilega afmarkað svæði undir hafsbotni sem inniheldur kolvetni.

Kolvetnislögin: Lög nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis með síðari breytingum.

Kolvetnisstarfsemi: Starfsemi sem tengist kolvetnisauðlindum neðansjávar, svo sem rannsóknir og vinnsla, þar með talið áform um slíka starfsemi en þó ekki olíuflutningar með skipi.

Landgrunn: Hafsbotninn og neðansjávarsvæði utan landhelginnar, sem eru framlenging landsvæðisins, allt að ytri mörkum landgrunnssvæðisins, þó að 200 sjómílna fjarlægð frá grunnlínum landhelginnar þar sem ytri mörk landgrunnssvæðisins ná ekki þeirri fjarlægð, sbr. lög nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Milli Íslands annars vegar og Færeyja og Grænlands hins vegar, þar sem minna en 400 sjómílur eru milli grunnlína, afmarkast efnahagslögsaga og landgrunn Íslands af miðlínu.

Landhelgi Íslands eða landhelgin: Svæði afmarkað af línu sem alls staðar er 12 sjómílur frá grunnlínu sem dregin er samkvæmt lögum um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

Leit: Könnun á almennum skilyrðum til myndunar og varðveislu kolvetnis, afmörkun svæða þar sem slík skilyrði eru hagstæð og leit að kolvetnisauðlindum með mælingum úr lofti, á láði, á legi, á hafsbotni eða með sýnatöku úr efstu jarðlögum hafsbotnsins, t.d. með grunnum borunum eða töku kjarna.

Leyfisaðili: Einn einstaklingur eða lögaðili úr hópi handhafa leyfis til rannsókna og vinnslu á kolvetni, séu þeir fleiri en einn.

Leyfishafi: Aðili sem skráður er hér á landi sem fengið hefur leyfi til leitar, rannsókna og/eða vinnslu kolvetnis í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

Rekstraraðili: Sá úr hópi leyfisaðila sem sér um daglega stjórn kolvetnisstarfseminnar fyrir hönd leyfishafa.

Rannsóknir: Mat á stærð, legu og vinnslueiginleikum kolvetnisgeymis með borun leitarholna og borholumælingum auk leitar að kolvetni með jarðeðlisfræðilegum aðferðum.

Tilraunabrunnur: Borhola sem ekki er ætluð til vinnslu kolvetnis.

Vinnsla: Vinnsla kolvetnis úr kolvetnisgeymi, þ.m.t. borun vinnsluholna, dæling eða leiðsla kolvetnis til yfirborðs, niðurdæling kolvetnis og annarra efna, meðhöndlun og geymsla kolvetnis fyrir flutning, útskipun kolvetnis ásamt byggingu, uppsetningu, rekstur og lokun hafstöðvar ætlaðrar til slíkrar vinnslu.

II. KAFLI

Eignarréttur að kolvetni.

3. gr.

Eignarréttur að kolvetni.

Íslenska ríkið er eigandi alls kolvetnis skv. 1. gr. Heimilt er að semja við handhafa rannsóknar- og vinnsluleyfis um að hann verði eigandi þess kolvetnis sem hann framleiðir.

Iðnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari.

III. KAFLI

Leyfi til leitar að kolvetni.

4. gr.

Leyfi til leitar.

Orkustofnun veitir leyfi til leitar að kolvetni með rannsóknir og vinnslu að markmiði.

5. gr.

Umsókn.

Umsókn um leitarleyfi skal lögð fram eigi síðar en sex mánuðum áður en rannsókn hefst. Efnisatriði umsóknar skulu vera samkvæmt reglum sem Orkustofnun setur.

6. gr.

Málsmeðferð.

Áður en Orkustofnun veitir leyfi til leitar skal hún leita umsagnar sjávarútvegsráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Þá skal Orkustofnun leita umsagnar viðeigandi sveitarfélaga ef sótt er um leyfi á svæði sem er innan 1 sjómílu frá netlögum.

7. gr.

Svæðið sem leyfi tekur til.

Í leyfi skal tilgreina svæðið sem leyfi tekur til.

Leitarleyfi gildir ekki á svæðum þar sem einkaréttur til rannsókna eða vinnslu hefur þegar verið veittur eða kann síðar að verða veittur samkvæmt kolvetnislögunum, nema með samþykki einkaréttarhafa og Orkustofnunar.

8. gr.

Heimildir samkvæmt leyfi.

Leyfi heimilar leyfishafa leit að kolvetni með þeim aðferðum sem viðurkenndar eru í reglum Orkustofnunar.

Leyfi felur í sér heimild til borunar í þeim tilgangi að afla upplýsinga um almenn skilyrði til myndunar og varðveislu kolvetnis. Feli leit í sér dýpri borun en 25 metra niður fyrir hafsbotn skal senda Orkustofnun sérstaka umsókn með þeim upplýsingum sem stofnunin telur nauðsynlegar.

Leyfi til leitar að kolvetni veitir leyfishafa ekki rétt til borunar eftir kolvetni, vinnslu kolvetnis eða forgangsrétt til að fá slíkt leyfi síðar.

9. gr.

Gildistími leyfis og tungumál.

Leyfi til leitar að kolvetni skal veitt til allt að þriggja ára.

Leyfishafi getur hvenær sem er afsalað sér leyfi með skriflegri tilkynningu til Orku­stofnunar.

Leyfi til leitar skal eftir atvikum útgefið á íslensku eða ensku.

10. gr.

Tilkynningar varðandi leit.

Sérhvern leiðangur til leitar að kolvetni á eða yfir íslensku hafsvæði skal tilkynna til Orkustofnunar eigi síðar en fimm vikum áður en hann hefst. Orkustofnun er við sérstakar aðstæður heimilt að veita undanþágu frá tilgreindum fresti.

Skipaleiðangur skal tilkynna til Landhelgisgæslunnar innan frests skv. 1. mgr.

Leiðangur með loftfari skal einnig tilkynna til Flugmálastjórnar Íslands og Land­helgis­gæslunnar innan frests skv. 1. mgr.

Efni tilkynninga skv. 1.-3. mgr. svo og annarra tilkynninga í tengslum við leit skal ákveðið í reglum Orkustofnunar.

Ef loftfar er með sérstakt lofthæfisskírteini skal ábyrgðaraðili þess senda Flugmálastjórn Íslands afrit af því og tryggingaskírteini loftfarsins innan frests skv. 1. mgr.

11. gr.

Skil á skýrslum og gögnum.

Meðan á leitarleiðangri stendur á leitarsvæði skal leyfishafi senda Orkustofnun vikulega skýrslu, með nákvæmu yfirliti um framkvæmd leitarinnar, með símbréfi eða tölvupósti.

Eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að leitarleiðangri lýkur skal leyfishafi gefa Orku­stofnun skýrslu um hann. Í skýrslunni skal koma fram nákvæmt yfirlit um leiðangurinn, þar með talið lýsing á framkvæmd leitarinnar, leitarbúnaði, mælingum og töku sýna.

Leyfishafi skal fyrir hvert almanaksár gefa Orkustofnun skýrslur um allar jarðfræðilegar, jarðeðlisfræðilegar og jarðefnafræðilegar athuganir sem gerðar hafa verið á svæðinu sem leyfið tekur til. Skýrslurnar skal senda Orkustofnun svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 1. apríl árið eftir að athuganirnar fóru fram. Skýrslunum skulu fylgja afrit af gögnum, greiningum og niðurstöðum gagnavinnslu samkvæmt nánari fyrirmælum Orku­stofnunar. Leyfishafi skal afhenda Orkustofnun jarðfræðileg, jarðeðlisfræðileg og jarðefnafræðileg sýni óski hún þess.

Orkustofnun getur veitt undanþágu frá skilafresti skv. 3. mgr.

Leyfishafi skal uppfylla allar kvaðir samkvæmt grein þessari Orkustofnun að kostnaðar­lausu.

IV. KAFLI

Rannsóknar- og vinnsluleyfi.

12. gr.

Rannsóknar- og vinnsluleyfi.

Orkustofnun veitir leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni utan netlaga í landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunni Íslands. Slíkt leyfi felur í sér einkarétt leyfishafa til rannsókna og vinnslu. Heimilt er að kveða nánar á um skyldur og rannsóknarkvaðir leyfishafa í rannsóknar- og vinnsluleyfi.

Í þeim tilvikum þar sem handhafar leyfis til rannsókna og vinnslu á kolvetni eru fleiri en einn ber að leggja til staðfestingar Orkustofnunar samstarfssamning um framkvæmd leyfisins. Allar breytingar á slíkum samningi, eða aðrir viðaukar, eru háðir samþykki Orkustofnunar. Einungis má veita leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis aðilum sem hafa nægilega sérþekkingu, reynslu og fjárhagslegt bolmagn til að annast þessa starfsemi. Gera má ríkari kröfur til rekstraraðila í því sambandi.

Rannsóknar- og vinnsluleyfi samkvæmt reglugerð þessari felur upphaflega í sér heimild til þess að rannsaka kolvetnisauðlind á tilteknu svæði á leyfistímanum með þeim skilmálum sem tilgreindir eru í reglugerð þessari, lögum, í leyfinu sjálfu og samkvæmt nánari fyrirmælum Orkustofnunar. Orkustofnun er heimilt að skipta leyfistíma rannsóknar­leyfis í undirtímabil þar sem kveðið skal nánar á um réttindi og skyldur leyfishafa á hverju einstöku tímabili. Að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru fyrir rannsóknum á leyfishafi forgangsrétt á framlengingu leyfisins til vinnslu kolvetnis í allt að 30 ár. Að fenginni framlengingu leyfis til vinnslu felur rannsóknar- og vinnsluleyfi í sér heimild til handa leyfishafa til að vinna úr og nýta viðkomandi kolvetnisauðlind á leyfistímanum í því magni og með þeim skilmálum öðrum sem tilgreindir eru í reglugerð þessari, lögum, í leyfinu sjálfu og sem Orkustofnun telur nauðsynlega.

13. gr.

Auglýsing.

Að jafnaði skal auglýsa eftir umsækjendum áður en leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni er veitt og skal auglýsing birt í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum Evrópu­sambandsins. Í auglýsingunni skal tilgreina umsóknarfrest sem skal ekki vera skemmri en 90 dagar. Þá skal í auglýsingunni m.a. taka fram til hvaða svæðis leyfið tekur og skilyrði fyrir veitingu leyfisins að öðru leyti.

Orkustofnun ákveður framsetningu auglýsingarinnar. Sé auglýsingu á einhvern hátt breytt, eða skilyrðum fyrir veitingu leyfis samkvæmt slíkri auglýsingu, eftir birtingu skal Orkustofnun tilkynna þeim sem þá þegar hafa skilað inn umsókn, eða ljóst er að munu skila inn umsókn, innan þess umsóknarfrests sem kunngerður hefur verið.

14. gr.

Umsókn.

Í umsóknum um rannsóknar- og vinnsluleyfi skal koma skýrt fram hvert sé markmið með öflun leyfis ásamt ítarlegum upplýsingum um staðsetningu, umfang, eðli og tímasetningu fyrirhugaðra framkvæmda umsækjanda. Orkustofnun er heimilt að kveða nánar á um efni umsóknar í reglum.

Telji Orkustofnun að umsókn um rannsóknarleyfi uppfylli ekki kröfur skv. 1. mgr. getur hún synjað um rannsóknarleyfi eða sett sérstök skilyrði í rannsóknarleyfi af þessu tilefni.

15. gr.

Málsmeðferð.

Áður en Orkustofnun veitir leyfi til rannsóknar og vinnslu skal hún leita umsagnar sjávarútvegsráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Þá skal Orkustofnun leita umsagnar viðeigandi sveitarfélaga ef sótt er um leyfi á svæði sem er innan 1 sjómílu frá netlögum.

16. gr.

Leyfisveiting.

Við veitingu rannsóknar- og vinnsluleyfis skal umsækjendum ekki mismunað og skal jafnræðis gætt. Rannsóknar- og vinnsluleyfi skulu veitt á grundvelli hlutlægra viðmiða sem gerð hafa verið opinber. Jafnframt skal tekið tillit til vinnslu sem þegar er hafin eða sótt hefur verið um í næsta nágrenni. Orkustofnun er heimilt að hafna öllum umsóknum um rannsóknar- og vinnsluleyfi sem berast í kjölfar auglýsingar.

Orkustofnun er eingöngu heimilt að byggja skilyrði fyrir veitingu og nýtingu rannsóknar- og vinnsluleyfis á sjónarmiðum um nauðsyn þess að tryggja að kolvetnisstarfsemi innan þess svæðis sem leyfið tekur til fari fram með sem bestum hætti.

Orkustofnun er heimilt á hverjum tíma að setja skilyrði og gera kröfur um hvernig starfsemi samkvæmt rannsóknar- og vinnsluleyfi er stunduð, m.a. á grundvelli þjóðaröryggis, almannaöryggis, almannaheilbrigðis, samgönguöryggis, umhverfis­verndar, verndar lífrænna auðlinda og þjóðargersema sem hafa listrænt, sögulegt og fornleifafræðilegt gildi, öryggis mannvirkja og starfsmanna, skipulagðrar stjórnunar kolvetnisauðlinda, t.d. hversu hratt kolvetni er nýtt, eða þarfar á að tryggja skatttekjur og til að tryggja að nýting kolvetnisauðlindanna sé hagkvæm frá þjóð­hagslegu sjónarmiði.

Við ákvörðun um veitingu rannsóknar- og vinnsluleyfis skal einkum taka mið af fjárhagslegri og tæknilegri getu umsækjenda, að vinnsla auðlindar sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og á hvaða hátt framlögð rannsóknaráætlun getur náð settu markmiði. Hafi tiltekinn umsækjandi áður verið handhafi rannsóknar- og vinnsluleyfis er Orkustofnun einnig heimilt að líta til þess hvort umsækjandi hafi við handhöfn hins fyrra leyfis sýnt fram á fullnægjandi skilvirkni eða hvort hann hafi sýnt af sér háttsemi sem gefi réttmæta ástæðu til þess að draga í efa hæfni hans að mati Orkustofnunar. Telji Orkustofnun tvær eða fleiri umsóknir jafnhæfar að uppfylltum framangreindum skilyrðum er henni heimilt að meta umsóknir út frá öðrum málefnalegum sjónarmiðum.

Heimilt er að veita leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis án auglýsingar ef svæðið sem leitað er leyfis fyrir:

 1. er aðgengilegt til langs tíma;
 2. hefur áður sætt málsmeðferð þar sem auglýst hefur verið en hefur ekki leitt til þess að leyfi hafi verið veitt; eða
 3. hefur verið gefið eftir af fyrirtæki enda fellur það ekki sjálfkrafa undir a-lið.

Áður en rannsóknar- og vinnsluleyfi er veitt skal birta tilkynningu í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum Evrópusambandsins þar sem fram kemur afmörkun viðeigandi svæðis ásamt leiðbeiningum um hvar veittar eru frekari upplýsingar um leyfisveitingu á svæðinu. Verði umtalsverðar breytingar á þessum upplýsingum skal án tafar upplýsa um slíkt með nýrri tilkynningu. Áður en leyfi er veitt samkvæmt þessari málsgrein skal einnig gefa leyfishöfum á aðlægum svæðum tækifæri til að sækja um rannsóknar- eða vinnsluleyfi á viðkomandi svæði. Þó er ekki hægt að taka til meðferðar umsóknir um leyfi eða veita leyfi samkvæmt þessari málsgrein fyrr en viðeigandi tilkynning hefur verið birt í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

17. gr.

Efni rannsóknar- og vinnsluleyfis.

Í rannsóknar- og vinnsluleyfi skal m.a. kveðið á um:

 1. Tímalengd leyfis. Kveðið skal á um hvenær starfsemi skuli í síðasta lagi hefjast og hvenær henni skuli lokið.
 2. Afmörkun rannsóknar- eða vinnslusvæðis.
 3. Hvernig skuli staðið að rannsóknum og vinnslu kolvetnis, þar á meðal skilyrði um staðsetningu og dýpi borholna til vinnslu og niðurdælingar og vinnsluhraða.
 4. Útfærslu tæknilegra lausna og kröfur um búnað.
 5. Upplýsinga- og tilkynningarskyldu leyfishafa til Orkustofnunar, þ.m.t. skyldu til afhendingar á sýnum og gögnum og hvernig hún skuli innt af hendi.
 6. Eftirlit Orkustofnunar og annarra opinberra aðila eftir því sem við á.
 7. Þagnarskyldu og gagnaleynd.
 8. Heilsu-, öryggis- og umhverfisverndarráðstafanir eftir því sem við á.
 9. Kaup ábyrgðartrygginga hjá viðurkenndu vátryggingafélagi, bankatryggingar, verkábyrgðir eða aðrar tryggingar sem Orkustofnun metur jafngildar og bæta tjón sem leyfishafi kann að valda með störfum sínum.
 10. Ráðstöfun hafstöðva, vinnslumannvirkja og vinnslutækja að leyfistíma loknum.
 11. Frágang á hafstöðvum og starfsstöðvum sem nýttar hafa verið við rannsóknir eða vinnslu.
 12. Stofnframlag sem og árlegt gjald leyfishafa rannsóknar- og vinnsluleyfis í kolvetnisrannsóknasjóð.
 13. Gjaldtöku vegna rannsókna og vinnslu kolvetnis.

Heimilt er að kveða á um í rannsóknar- og vinnsluleyfi að það skuli endurskoðað að tilteknum tíma liðnum, enda hafi forsendur fyrir skilyrðum leyfis breyst.

18. gr.

Tímalengd, skilyrði og tungumál leyfis.

Leyfi til rannsókna skal veitt til allt að 12 ára og er heimilt að framlengja það til allt að tveggja ára í senn. Hámarkstími leyfis til rannsókna skal þó ekki vera lengri en 16 ár. Miða skal tímalengd leyfis til rannsókna við umfang rannsókna og eðli kolvetnisauðlindar.

Að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru fyrir rannsóknum í rannsóknar- og vinnsluleyfinu á leyfishafi forgangsrétt á framlengingu leyfisins til vinnslu kolvetnis í allt að 30 ár. Umsókn um framlengingu leyfis skal berast Orkustofnun eigi síðar en 90 dögum áður en gildandi rannsóknar- og vinnsluleyfi fellur úr gildi. Orkustofnun er heimilt að krefja leyfishafa um eftirgjöf ákveðins hluta rannsóknarsvæðis áður en rannsóknar- og vinnsluleyfi er framlengt og skal tillaga leyfishafa um slíka eftirgjöf berast Orkustofnun eigi síðar en 90 dögum fyrir lok gildistíma rannsóknar- og vinnsluleyfis. Frekari fyrirmæli um eftirgjöf svæða skulu sett í rannsóknarleyfi. Berist Orkustofnun eigi tillaga leyfishafa er henni heimilt að ákveða eftirgjöf svæða.

Stöðvi leyfishafi vinnslu samfellt í þrjú ár fellur leyfið niður að þeim tíma liðnum.

Heimilt er að afturkalla rannsóknar- og vinnsluleyfi ef bú leyfishafa er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga.

Leyfi til vinnslu skv. 2. mgr. skal a.m.k. taka til þess hluta svæðisins þar sem leyfishafi hyggst hefja vinnslu kolvetnis og hagkvæmur er til vinnslu að mati Orkustofnunar.

Rannsóknar- og vinnsluleyfi skal útgefið á ensku.

19. gr.

Staðsetning stöðva á landi tengdum kolvetnisstarfsemi.

Við val á staðsetningu stöðva á landi er tengjast rannsóknum og vinnslu kolvetnis skal miðað við vegalengd frá rannsóknar- og/eða vinnslusvæði sem viðunandi er m.t.t. öryggis-, umhverfis- og hagkvæmnissjónarmiða að mati Orkustofnunar.

20. gr.

Skuldbindingar.

Í rannsóknar- og vinnsluleyfi er Orkustofnun heimilt að kveða á um frekari skuld­bindingar leyfishafa á gildistíma rannsóknar- og vinnsluleyfis, umfram þær skuld­bindingar sem kveðið er á um í reglugerð þessari svo sem varðandi rannsóknir, rannsóknaboranir á tilteknum fjölda brunna niður á ákveðið dýpi. Viðkomandi rannsóknar- og vinnsluleyfi skal mæla fyrir um efni, umfang og tímamörk til að uppfylla viðkomandi skuldbindingar.

Orkustofnun er heimilt að veita undanþágur frá slíkum skuldbindingum. Komi til þess að rannsóknar- og vinnsluleyfi verði framlengt skal kveðið á um skuldbindingar leyfishafa samhliða slíkri framlengingu.

V. KAFLI

Framleiðsla kolvetnis o.fl.

21. gr.

Hagnýtar framleiðsluaðferðir.

Framleiðsla kolvetnis skal fara fram með þeim hætti að eins mikið af kolvetni sé framleitt úr hverjum kolvetnisgeymi og unnt er. Framleiðslan skal fara fram í samræmi við almennt viðurkennd tæknileg- og efnahagsleg viðmið og á þann hátt að leitast sé við að forðast sóun á kolvetni eða öðrum orkugjöfum.

Leyfishafi skal reglulega endurmeta framleiðsluaðferðir og tæknilegar lausnir við framleiðsluna og skal grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að ná framangreindu mark­miði.

22. gr.

Borun í jarðlögum.

Boranir í jarðlög undir hafsbotni mega einungis hefjast að fengnu samþykki Orku­stofnunar á búnaði, áætlun um borun og starfsfyrirkomulagi.

Orkustofnun skal setja nánari ákvæði um slíkar boranir, meðal annars um umsóknir, skráningu, söfnun gagna, skýrslugjöf og tímaáætlun.

23. gr.

Mat á kolvetnisauðlind.

Innan átta mánaða frá því tilvist kolvetnisauðlindar hefur verið staðfest með borunum skal leyfishafi afhenda Orkustofnun skriflega áætlanir um frekari rannsóknir sem og niðurstöður rannsókna á kolvetnisauðlindinni.

Hafi verið sýnt fram á líkindi fyrir því að kolvetnisgeymir innihaldi nýtanlegt kolvetni með prófunum, sýnatökum eða með öðrum hætti, skal leyfishafi að auki gefa til kynna stærð kolvetnisgeymis og leggja fram áætlanir um áframhaldandi starfsemi.

Orkustofnun getur farið fram á að leyfishafi leggi fram frekara mat og upplýsingar varðandi kolvetnisauðlindina.

24. gr.

Yfirlýsing þess efnis að vinnslu verði ekki haldið áfram.

Eigi síðar en tveimur árum eftir að síðasti tilraunabrunnur var boraður skal leyfishafi tilkynna Orkustofnun skriflega hafi hann tekið þá ákvörðun að hefja ekki vinnslu kolvetnis úr kolvetnisgeymi. Skal tilkynningunni fylgja skýrsla þar sem fram koma ástæður ákvörðunarinnar og samantekt á helstu upplýsingum um kolvetnisauðlindina, svo sem tæknilegum og efnahagslegum atriðum, auk rannsókna sem gerðar hafa verið, eða sem ráðgert er að gera með það að markmiði að ákvarða hvort kolvetnisauðlindin er eða getur orðið viðskiptalega hagkvæm.

25. gr.

Upplýsingar vegna afhendingar á kolvetni.

Leyfishafi skal innan 30 daga frá lokum hvers ársfjórðungs afhenda Orkustofnun upplýsingar um skuldbindandi samninga um afhendingu kolvetnis úr landgrunni Íslands. Skulu þær innihalda tæmandi upplýsingar um umsamið magn kolvetnis auk lýsingar á helstu skilmálum samninga þ.m.t. en ekki takmarkað við upplýsingar um gagnaðila og ef við á um umsamið verð þess magns kolvetnis sem samið hefur verið um að afhenda á næstliðnum ársfjórðungi.

Orkustofnun getur ákveðið önnur tímamörk fyrir afhendingu upplýsinga en að framan greinir.

26. gr.

Framkvæmda- og vinnsluáætlun.

Hafi leyfishafi fundið nýtanlegar kolvetnisauðlindir og hyggist hann hefja vinnslu ber honum, áður en hann hefur nokkra slíka starfsemi, að leggja framkvæmda- og vinnslu­áætlun fyrir Orkustofnun til samþykktar, sbr. 2. mgr. 15. gr. kolvetnislaganna.

Framkvæmda- og vinnsluáætlun skal innihalda lýsingu á fyrirhuguðum framkvæmdum og vinnslu. Nánari lýsing á framkvæmda- og vinnsluáætlun skal koma fram í reglum er Orkustofnun setur.

Orkustofnun er heimilt að krefjast þess að leyfishafi veiti upplýsingar um með hvaða hætti hann hyggst fjármagna framkvæmdir og vinnslu samkvæmt áætluninni.

Orkustofnun skal rökstyðja ákvörðun sína um að samþykkja eða synja framkvæmda- og vinnsluáætlun.

Tilkynna ber Orkustofnun um allar viðamiklar breytingar og frávik frá upphaflegri áætlun. Í slíkum tilvikum er Orkustofnun heimilt að krefjast þess að ný eða breytt áætlun verði lögð fram.

Þegar ríkir þjóðhagslegir hagsmunir krefjast þess er Orkustofnun heimilt að breyta skilmálum framkvæmda- og vinnsluáætlunar.

27. gr.

Skilmálar framleiðsluáætlunar.

Áður en eða samhliða því að Orkustofnun samþykkir framkvæmda- og vinnsluáætlun skal Orkustofnun samþykkja framleiðsluáætlun. Orkustofnun skal í samþykki sínu kveða á um það magn efnis sem leyfishafa er heimilt að vinna, dæla niður aftur eða losa, á ákveðnum tímabilum. Orkustofnun skal byggja slíka ákvörðun á framlagðri framleiðslu­áætlun nema nýjar upplýsingar um kolvetnisauðlindina eða aðrar aðstæður krefjist annars.

Orkustofnun er heimilt að kveða nánar á um efni framleiðsluáætlunar.

28. gr.

Svæðisskýrsla.

Orkustofnun getur krafist þess að leyfishafi geri sérstaka skýrslu um svæði sem leyfi nær til og að leyfishafa verði gefinn að minnsta kosti sex mánaða frestur til undirbúnings slíkrar skýrslu nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til styttri tímafrests.

29. gr.

Sértækar aðgerðir til upplýsingaöflunar.

Orkustofnun getur krafist sértækra aðgerða í því skyni að afla upplýsinga ef nauðsynlegt er talið að leggja mat á hvort rekstur kolvetnisauðlinda fari fram með skynsamlegum hætti eða til að hrinda af stað samstarfi milli nokkurra leyfishafa um samnýtingu kolvetnisauðlinda.

30. gr.

Mæling á kolvetni.

Leyfishafa ber að mæla og greina allt framleitt og unnið kolvetni í samræmi við almennt viðurkenndar aðferðir. Búnaðurinn og aðferðin fer eftir reglum er Orkustofnun setur í samráði við fjármálaráðuneytið og skal hafa hlotið samþykki Orkustofnunar.

Ef ástæða er til að ætla að magn framleidds eða unnins kolvetnis hafi verið reiknað ranglega, ber leyfishafa að veita Orkustofnun aðgang að öllum gögnum og búnaði í því skyni að hægt verði að komast að réttum útreikningi.

31. gr.

Eftirlit með kolvetnisgeymum og vinnslu á framleiðslutímabili.

Leyfishafa ber að hafa eftirlit með kolvetnisgeymum á meðan á framleiðslunni stendur, þar á meðal þrýstingi og flæðiskilyrðum, framleiddu og niðurdældu magni á hverja borholu, svæði og geymi svo og samsetningu efnisþátta kolvetnis. Með svæði er í grein þessari átt við hluta af kolvetnisgeymi sem hægt er að líta á sem aðskilinn hluta kolvetnisgeymis vegna mismunandi þrýstings og lektar.

Heildarframleiðsla og magn niðurdælingar á svæði skal hlutfallað við hverja einstaka holu á mánaðarlegum grundvelli miðað við fyrirfram ákveðin viðmið.

Framleiðsluaðstæður skulu miða að því að ná hámarks vinnsluárangri.

32. gr.

Áætlun um byggingu, uppsetningu og rekstur hafstöðvar.

Framkvæmda- og vinnsluáætlun skal ná til byggingar, uppsetningar og reksturs hafstöðva ásamt mati á umhverfisáhrifum.

Orkustofnun er heimilt að binda samþykki sitt á framkvæmda- og vinnsluáætlun frekari skilyrðum varðandi áætlunina um byggingu, uppsetningu og rekstur hafstöðvar og getur m.a. mælt fyrir um samnýtingu hafstöðva, að afkastageta hafstöðvar verði aukin eða að hafstöð verði breytt með þeim hætti að hún verði nothæf fyrir aðrar tegundir kolvetnis en þá sem áætlunin gerði upphaflega ráð fyrir.

Kostnaður sem hlýst af framangreindu skal borinn af þeim aðila eða aðilum sem hafa hag af slíkum skilyrðum.

33. gr.

Efni áætlunar um byggingu, uppsetningu og rekstur hafstöðvar.

Áætlun um byggingu, uppsetningu og rekstur hafstöðvar skal taka mið af sjónarmiðum sem varða kolvetnisauðlindina, ásamt efnahagslegum-, tæknilegum-, umhverfisverndar- og öryggissjónarmiðum. Þá skal hún taka mið af umfangi verkefnisins.

Orkustofnun skal í reglum kveða nánar á um efni áætlunar þessarar.

34. gr.

Samþykki fyrir að hefja framkvæmdir og halda þeim áfram.

Leyfishafa ber að afla sérstaks samþykkis Orkustofnunar áður en borun hefst í jarðlög undir hafsbotni. Það samþykki skal ná til búnaðar, áætlunar um borun og starfs­fyrir­komulags. Þá er bygging og starfræksla leiðslubúnaðar til vinnslu og flutnings kolvetnis háð samþykki Orkustofnunar.

Leyfishafa ber einnig að afla sérstaks samþykkis Orkustofnunar í eftirfarandi tilvikum:

 

a)

áður en hafstöð eða hluti hafstöðvar er tekinn til notkunar;

 

b)

áður en hafstöð eða hluti hafstöðvar er tekinn til notkunar eftir viðamikla endur­upp­byggingu eða breytingar eða áður en breytingar eru gerðar á upphaflegum tilgangi hafstöðvarinnar;

 

c)

áður en hafstöð er notuð umfram þann tíma sem upphaflega var fyrirhugaður eða með öðrum hætti en mælt var fyrir um í framkvæmda- og vinnsluáætlun, áætlun um uppsetningu og starfrækslu hafstöðvar eða áætlun um lokun hafstöðvar.35. gr.

Rannsóknir vegna lagningar leiðslubúnaðar og jarðvegskannanir.

Leyfishafa ber eigi síðar en fimm vikum fyrir upphaf rannsókna vegna lagningar leiðslu­búnaðar sem og jarðvegskannana að koma upplýsingum um eftirfarandi á framfæri við Orkustofnun:

 

a)

tilgang rannsóknanna;

 

b)

tíma, lengd og staðsetningu rannsóknanna;

 

c)

rannsóknaraðferðir;

 

d)

tegund skipa sem notast verður við;

 

e)

á hvaða dýpi borað verður.Á meðan rannsóknir vegna lagningar leiðslubúnaðar og jarðvegskannanir standa yfir er óheimilt að bora dýpra en 200 metra undir sjávarbotn.

VI. KAFLI

Gjaldtaka.

36. gr.

Gjöld vegna leitarleyfis.

Áður en umsókn um leitarleyfi er tekin til umfjöllunar skal umsækjandi greiða 150.000 kr. umsóknargjald til Orkustofnunar.

Til að standa undir kostnaði af undirbúningi og útgáfu leitarleyfis skal umsækjandi greiða kr. 600.000 til Orkustofnunar. Umsækjandi skal greiða framangreint gjald við útgáfu leyfis.

Leyfishafi skal greiða kr. 500.000 í gjald vegna eftirlits, frágangs og varðveislu gagna fyrir hvert ár sem leyfi er í gildi. Fyrsti gjalddagi skal vera fimmtán dögum eftir að leitarleyfi er veitt og árlega á þeim degi eftir það. Leyfi fellur úr gildi ef gjald vegna eftirlits er ekki greitt á tilsettum tíma.

37. gr.

Gjöld vegna umsóknar og útgáfu leyfis til rannsókna og vinnslu kolvetnis.

Áður en umsókn um leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis er tekin til umfjöllunar skal umsækjandi greiða til Orkustofnunar kr. 150.000 umsóknargjald.

Orkustofnun er eigi heimilt að taka umsókn til umfjöllunar hafi gjald skv. 1. mgr. eigi verið innt af hendi.

Til að standa undir kostnaði af undirbúningi og útgáfu rannsóknar- og vinnsluleyfa skal umsækjandi greiða eftirfarandi gjöld til Orkustofnunar:

 1. Fyrir leyfi til rannsókna kolvetnis skal greiða kr. 850.000.
 2. Fyrir leyfi til vinnslu kolvetnis skal greiða kr.1.350.000.

Umsækjandi skal greiða gjald samkvæmt lið a eða b hér að framan við útgáfu leyfis.

Leyfishafi skal greiða kr. 1.000.000 í gjald vegna eftirlits, frágangs og varðveislu gagna fyrir hvert ár sem leyfi er í gildi. Fyrsti gjalddagi skal vera fimmtán dögum eftir að rannsóknar- og vinnsluleyfi er veitt og árlega á þeim degi eftir það. Leyfi fellur úr gildi ef gjald vegna eftirlits er ekki greitt á gjalddaga.

38. gr.

Svæðisgjöld.

Svæðisgjöld skv. 7. mgr. 7. gr. kolvetnislaganna, skulu greidd í ríkissjóð. Gjalddagar svæðisgjalda skulu ákveðnir í rannsóknar- og vinnsluleyfi.

39. gr.

Dráttarvextir.

Orkustofnun er heimilt að reikna dráttarvexti á ógreiddar fjárhæðir skv. vaxtalögum sem eru í gildi á hverjum tíma.

VII. KAFLI

Lokun hafstöðva.

40. gr.

Áætlun um lokun hafstöðva.

Áætlun um lokun einnar eða fleiri hafstöðva skal uppfylla skilyrði 16. gr. kolvetnis­laganna, ákvæði viðkomandi rannsóknar- og vinnsluleyfis sem og reglugerðar þessarar. Í áætluninni skulu koma fram upplýsingar um hvernig staðið verði að lokun ásamt áhrifum lokunarinnar. Áætlunina ber að leggja fram til Orkustofnunar til samþykktar og setur stofnunin nánari skilyrði um efni hennar. Óheimilt er að hefja framkvæmd lokunar fyrr en samþykki Orkustofnunar liggur fyrir.

Breytist forsendur áætlunar um lokun hafstöðvar ber að tilkynna slíkar breytingar tafarlaust til Orkustofnunar og leggja fram nýja áætlun um lokun hafstöðvar til samþykkis Orkustofnunar svo fljótt sem auðið er.

VIII. KAFLI

Upplýsingagjöf og skilaskyld gögn.

41. gr.

Árleg skýrsla um vettvangsstöðu vinnslusvæða.

Ár hvert og við lok leyfistíma skal handhafi leitarleyfis eða rannsóknar- og vinnsluleyfis senda Orkustofnun skýrslu þar sem fram koma upplýsingar um framkvæmd og niðurstöður leitar, rannsókna og vinnslu, upplýsingar um eðli og umfang kolvetnis­auðlindar, heildarmagn og mat á verðmæti þess kolvetnis sem hefur verið unnið og fleiri atriði samkvæmt ákvæðum í viðkomandi leyfi. Þá skal leyfishafi afhenda gögn og senda sýni af efnum óski Orkustofnun þess.

Orkustofnun er heimilt að kveða nánar á um efni og form skýrslunnar.

42. gr.

Upplýsingar um framleitt kolvetni o.fl.

Eigi sjaldnar en ársfjórðungslega og oftar krefjist Orkustofnun þess skal leyfishafi afhenda Orkustofnun upplýsingar um eðli, magn og samsetningu framleidds kolvetnis og önnur atriði því tengd.

Upplýsingar skulu jafnframt veittar um alla vinnslu kolvetnis. Upplýsingarnar skulu byggjast á mælingum.

Orkustofnun getur sett nánari reglur um skýrslugjöfina.

43. gr.

Upplýsingar um sölu kolvetnis.

Innan fimmtán daga frá lokum hvers ársfjórðungs skal leyfishafi veita Orkustofnun upplýsingar um það magn sem selt hefur verið og það verð sem fékkst fyrir. Jafnframt skal veita upplýsingar um það magn sem tekið hefur verið til eigin nota leyfishafa eða til annarra nota, svo sem vinnslu, hreinsunar eða afhendingar til tengdra félaga, og það samningsverð sem stuðst var við.

44. gr.

Upplýsingar um viðskipta- og fjárhagsáætlun.

Þegar viðskipta- og fjárhagsáætlun leyfishafa vegna starfsemi komandi árs liggur fyrir ber að senda afrit slíkra gagna til Orkustofnunar án ástæðulauss dráttar. Verulegum breytingum á slíkri áætlun ber að koma á framfæri og er heimilt að krefjast viðbótar­upplýsinga.

Leyfishafa er skylt að veita Orkustofnun aðgang að ársskýrslum og reikningum sem tengjast starfseminni. Þetta tekur jafnframt til eigenda leyfishafa.

45. gr.

Upplýsingar um rannsóknar- og þróunarverkefni.

Orkustofnun getur farið fram á að leyfishafi veiti upplýsingar um fyrirhuguð, yfirstandandi eða yfirstaðin rannsóknar- og þróunarverkefni í tengslum við kolvetnisstarfsemi samkvæmt leitarleyfi eða rannsóknar- og vinnsluleyfi.

46. gr.

Upplýsingar frá svæðum utan íslenska landgrunnsins.

Leyfishafi skal afhenda Orkustofnun að kostnaðarlausu jarðfræðilegar, jarðeðlis­fræðilegar og jarðefnafræðilegar upplýsingar varðandi svæði utan íslenska landgrunnsins sem keyptar hafa verið eða fengnar hafa verið í tengslum við starfsemi samkvæmt rannsóknar- og vinnsluleyfi á íslensku yfirráðasvæði og sem Orkustofnun metur nauðsynlegar til skilnings á jarðfræði við eða á íslenska landgrunninu.

47. gr.

Afhending upplýsinga og gagna.

Orkustofnun ákveður á hvaða formi og með hvaða hætti upplýsingar og gögn skulu afhent stofnuninni.

Gögn og upplýsingar sem Orkustofnun getur krafist að lögð verði fram taka jafnframt til hugbúnaðar sem notaður er til að vinna gögnin. Leyfishafa ber að greiða kostnað vegna flutnings gagnanna til notendabúnaðar að því marki sem slíkt getur talist eðlilegt.

48. gr.

Varðveisla gagna.

Leyfishafa ber af öryggisástæðum að varðveita nauðsynlegar upplýsingar og gögn til að tryggja að Orkustofnun geti sannreynt hvort kolvetnisstarfsemin fari fram í samræmi við lög og reglur.

Fari fram endurúrvinnsla á gögnum sem aflað hefur verið samkvæmt leitarleyfi eða rannsóknar- og vinnsluleyfi skal leyfishafi innan tveggja mánaða frá því að endur­úrvinnslunni lauk skila skýrslu um hana ásamt afriti af hinum endurunnu gögnum til Orkustofnunar samkvæmt nánari fyrirmælum hennar. Þessi skylda helst eftir að leyfi fellur úr gildi.

Leyfishafi skal varðveita öll frumgögn sem aflað hefur verið samkvæmt leitarleyfi eða rannsóknar- og vinnsluleyfi í a.m.k. eitt ár eftir að leyfi fellur úr gildi.

Ákveði leyfishafi að losa sig við frumgögnin að þessum tíma loknum skal hann bjóða Orkustofnun að taka þau í sína vörslu áður en þeim er eytt. Í tilviki slíkrar afhendingar, ber jafnframt að afhenda önnur mikilvæg skjöl í tengslum við slík gögn og upplýsingar.

Leyfishafi skal veita Orkustofnun upplýsingar um hverjum hafi verið seldar eða afhentar skýrslur eða gögn samkvæmt grein þessari óski hún þess.

Leyfishafi skal uppfylla allar kvaðir samkvæmt grein þessari Orkustofnun að kostnaðar­lausu.

IX. KAFLI

Framsal og veðsetning.

49. gr.

Heimildir til framsals.

Óheimilt er að framselja leyfi samkvæmt reglugerð þessari, eða nokkurn hluta þess, beint eða óbeint, þriðja aðila eða samleyfishafa nema að fengnu samþykki Orku­stofnunar. Einnig er óheimilt nema að fengnu samþykki Orkustofnunar að framselja hlutafé eða önnur eignarréttindi í slíku magni að það geti breytt ráðandi stöðu í félagi sem er leyfishafi eða samleyfishafi eða gera samninga sem hafa sömu áhrif.

Orkustofnun er heimilt að krefjast þess að leyfishafi greiði kostnað þann er fellur til vegna framsals leyfa skv. 1. mgr. Heimilt er að kveða nánar á um slíka gjaldtöku í leyfi.

50. gr.

Veðsetning hafstöðva.

Orkustofnun er heimilt að binda samþykki fyrir byggingu og uppsetningu hafstöðva skv. 15. gr. kolvetnislaganna sem og fyrir byggingu og starfrækslu leiðslubúnaðar til vinnslu og flutnings kolvetnis skv. 17. gr. kolvetnislaganna, þeim skilyrðum að afla þurfi heimildar Orkustofnunar fyrir hvers kyns veðsetningu eða öðrum beinum eða óbeinum eignarréttindum. Óbein eignarréttindi skv. grein þessari ná til en takmarkast þó ekki við kauprétti eða önnur slík réttindi, þriðja aðila yfir hafstöðvum í heild eða að hluta, sem tengjast kolvetnisstarfsemi leyfishafa.

Orkustofnun er heimilt að kveða nánar á um skilyrði fyrir samþykki sínu skv. 1. mgr. í reglum sem hún gefur út. Skilyrðin sem skulu byggð á almennum málefnalegum sjónarmiðum, svo sem þjóðaröryggissjónarmiðum, sjónarmiðum um almannahagsmuni, flutningsöryggi, umhverfisvernd, verndun líffræðilegra auðlinda og þjóðargersema sem hafa listrænt, sögulegt eða jarðfræðilegt gildi, öryggi aðbúnaðar og starfsmanna, kerfisbundna auðlindastjórnun eða nauðsyn þess að tryggja fjárhagslegar tekjur.

Öll veðréttindi sem Orkustofnun hefur veitt samþykki sitt fyrir, skv. 1. mgr. þessarar greinar, skal undantekningalaust þinglýst í viðeigandi þinglýsingarbók í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga nr. 39/1978 svo fljótt sem auðið er eftir að Orkustofnun hefur veitt samþykki sitt og aldrei síðar en innan 8 vikna frá samþykki Orkustofnunar.

51. gr.

Ábyrgð á framkvæmd og kostnaði af lokun hafstöðva vegna réttinda þriðja manns.

Telji Orkustofnun að andlag veðsetningarinnar sé þess eðlis að það myndi, ef gengið yrði að veðinu, hafa þau áhrif að leyfishafi gæti ekki uppfyllt skyldur sínar skv. kolvetnislögunum, reglugerð þessari eða leyfi veittu á grundvelli þeirra, er stofnuninni heimilt að setja það skilyrði fyrir samþykki sínu skv. 50. gr. reglugerðar þessarar að veðhafi ábyrgist með fullnægjandi hætti framkvæmd og greiðslu kostnaðar af lokun hafstöðva, sbr. 16. gr. kolvetnislaganna, komi til þess að gengið verði að veðinu.

52. gr.

Reglur um réttindi þriðja manns.

Orkustofnun er heimilt að setja reglur um frekari skilyrði fyrir samþykki á fullnustu réttinda þriðja manns og notkun þriðja aðila og leyfishafa á hafstöðvum í heild eða að hluta, sem tengjast kolvetnisstarfsemi leyfishafa, í framhaldi af slíkri fullnustu.

X. KAFLI

Almenn ákvæði.

53. gr.

Tilkynningarskylda.

Leyfishafi skal tafarlaust tilkynna Orkustofnun um atvik eða aðstæður sem gætu leitt til lokunar hafstöðva, skertrar framleiðslu kolvetnis eða hafa áhrif á athafnir sem mælt er fyrir um í stjórnvaldsákvörðunum sem teknar hafa verið á grundvelli kolvetnislaganna eða reglugerðar þessarar.

54. gr.

Aðgangur að skipum og hafstöðvum.

Leyfishafa ber ávallt að veita fulltrúum Orkustofnunar og samráðshóps eftirlitsaðila vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis við Ísland, sbr. 24. gr. kolvetnislaganna aðgang að skipum, hafstöðvum og öðrum mannvirkjum sem tengjast kolvetnisvinnslu leyfishafa. Sama gildir um gögn, sýni og aðrar upplýsingar eftir því sem Orkustofnun eða samráðshópurinn metur nauðsynlegt þannig að þessir aðilar geti sinnt eftirlitshlutverki sínu og til að uppfylla markmið stjórnvalda um að efla þekkingu á sviði kolvetnisvinnslu. Skulu fulltrúarnir jafnframt hafa rétt til að fylgjast með rannsóknum og vinnslu sem framkvæmdar eru á grundvelli leyfisins.

Leyfishafi skal heimila framangreindum fulltrúum að vera um borð í skipum og hafstöðvum svo lengi sem þörf krefur.

Leyfishafi skal sjá um að koma framangreindum fulltrúum með viðeigandi ferðamáta frá starfsstöð viðkomandi fulltrúa og til viðkomandi skips eða hafstöðvar og aftur til baka sem og að tryggja þeim hæfilega gistingu og uppihald meðan á veru þeirra þar stendur.

55. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum, nema þyngri refsingu varði samkvæmt öðrum lögum. Dæma má jafnt lögaðila sem einstakling til greiðslu sekta vegna brota á reglugerð þessari. Gera má lögaðila sekt fyrir brot á reglugerð þessari án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans.

56. gr.

Þagnarskylda.

Um þagnarskyldu fer skv. ákvæðum kolvetnislaga.

57. gr.

Reglur.

Reglur sem Orkustofnun setur á grundvelli heimilda í reglugerð þessari skulu staðfestar af iðnaðarráðherra.

58. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi sem er sett samkvæmt 31. gr. kolvetnislaganna öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 553/2001 um veitingu leyfa til leitar að kolvetni.

Leyfi, sem veitt eru samkvæmt reglum nr. 553/2001 og eru í gildi við gildistöku reglugerðar þessarar, halda gildi sínu.

Iðnaðarráðuneytinu, 21. janúar 2009.

Össur Skarphéðinsson.

Kristján Skarphéðinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica