Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Breytingareglugerð

106/2022

Reglugerð um (9.) breytingu á reglugerð nr. 1364/2019 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

1. gr.

Við reglugerðina bætist eftirfarandi grein sem verður 5. gr. og breytast önnur númer í samræmi við það:

Kröfur um aðbúnað og lágmarksstærð sjúkraþjálfunarstofu.

Endurgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands samkvæmt reglugerð þessari er háð því skilyrði að sjúkraþjálfunarstofa sú sem sjúkratryggður sækir þjónustu á uppfylli eftirfarandi kröfur um lágmarksstærð og útbúnað:

  1. Húsnæði og tækjabúnaður skal vera aðgengilegur hreyfihömluðum og undir sama þaki. Í húsnæðinu skal vera rými fyrir þau tæki og búnað sem kveðið er á um í lista um lágmarksbúnað, sbr. fylgiskjal með reglugerð þessari. Miðar sú upptalning við starfsstöð eins til tveggja sjúkraþjálfara. Bæta þarf við búnaði og tækjum í samræmi við stærð og eðli starfseminnar.
  2. Æfingaaðstaða og fjöldi meðferðarklefa skal jafnframt vera í samræmi við umfang og eðli starfseminnar. Æfingaaðstaða skal vera nægjanlega rúmgóð og vel tækjum búin svo að lágmarki helmingur starfandi sjúkraþjálfara og þeirra skjólstæðingar geti verið í æfingameðferð þar á sama tíma.
  3. Baðaðstaða skal vera til staðar sé boðið upp á hópþjálfun.
  4. Bjóða skal upp á lokað herbergi þegar tekið er við persónulegum upplýsingum.

Ef húsnæði er samnýtt með annarri starfsemi, t.d. líkamsræktarstöð, skal tryggja að sjúkraþjálfunarstofan hafi eðlilegt rými og æfingaaðstöðu. Þegar um samnýtingu er að ræða skal þó ávallt vera fyrir hendi æfingaaðstaða sem eingöngu er ætluð starfsemi sjúkraþjálfunar. Ef sjúkraþjálfunarstofa er samnýtt með líkamsræktarstöð þarf að tryggja óheft aðgengi að æfingaaðstöðu.

Húsnæðið skal uppfylla allar opinberar kröfur sem gerðar eru til sjúkraþjálfunarstofu, m.a. faglegar lágmarkskröfur embættis landlæknis, og hafa tilskilin leyfi frá heilbrigðiseftirliti viðkomandi sveitarfélags.

2. gr.

Í stað dagsetningarinnar "31. janúar 2022" í 3. gr. reglugerðarinnar kemur: 30. apríl 2022.

3. gr.

Í stað orðanna "6. gr." í núverandi 7. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur: 7. gr.

4. gr.

Í stað orðanna "5. gr." í núverandi 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur: 6. gr.

5. gr.

Í stað dagsetningarinnar "31. janúar 2022" í 10. gr. reglugerðarinnar kemur: 30. apríl 2022.

6. gr.

Í stað orðanna "5. gr." í ákvæði til bráðabirgða við reglugerðina kemur: 6. gr.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 21. gr., 2. mgr. 38. gr. og 55. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, öðlast þegar gildi.

Heilbrigðisráðuneytinu, 14. janúar 2022.

Willum Þór Þórsson
heilbrigðisráðherra.

Heiða Björg Pálmadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.