Fara beint í efnið

Prentað þann 25. apríl 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 12. feb. 2022

60/2022

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð um sóttkví og einangrun og sóttvarnaráðstafanir á landamærum Íslands vegna COVID-19, nr. 38/2022.

1. gr.

4. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Allir þeir sem grunur leikur á að hafi dvalið á sama dvalarstað og einstaklingur með COVID-19 skulu fara í sóttkví í fimm daga, frá því að þeir dvöldust síðast með smituðum einstaklingi, sem þeir losna úr með neikvæðri niðurstöðu úr PCR-prófi. Dveljist einstaklingur í sóttkví án þess að viðhafa fullan aðskilnað við einstakling í einangrun skal sóttkví þó aldrei aflétt fyrr en degi eftir afléttingu einangrunar þess einstaklings sem henni sætti í kjölfar neikvæðrar niðurstöðu úr PCR-prófi þess sem sætir sóttkví. Þá skal einstaklingur sem gengst ekki undir PCR-próf til afléttingar á sóttkví sæta henni í 14 daga frá útsetningu fyrir smiti.

Einstaklingum sem eru bólusettir gegn COVID-19 með þremur skömmtum af bóluefni, viðurkenndu af Lyfjastofnun, þar sem þriðji skammtur var gefinn a.m.k. 14 dögum fyrir útsetningu smits og einstaklingum sem hafa fengið staðfest smit af COVID-19 og verið bólusettir með tveimur skömmtum af bóluefni gegn COVID-19, viðurkenndu af Lyfjastofnun, þar sem annar skammtur var gefinn a.m.k. 14 dögum fyrir útsetningu smits, ber þó ekki að sæta sóttkví skv. 1. mgr. heldur viðhafa smitgát og fer um skyldur þeirra eftir 5. gr. a. Jafnframt ber þeim að gangast undir PCR-próf eigi fyrr en á fimmta degi smitgátar, sem skal aflétt í kjölfar neikvæðrar niðurstöðu prófs, sbr. þó 2. málsl. 1. mgr.

Þá ber öðrum sem hafa verið í umgengni við einstakling með COVID-19, utan dvalarstaðar, að viðhafa smitgát í fimm daga frá því þeir umgengust síðast smitaðan einstakling. Um skyldur þeirra fer eftir 5. gr. a. Börn fædd 2006 og síðar eru þó undanþegin smitgát vegna umgengni utan dvalarstaðar við einstakling með COVID-19.

Um jákvæða niðurstöðu PCR-prófs fer eftir 3. gr.

2. gr.

5. gr. a reglugerðarinnar orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Skyldur einstaklinga sem viðhafa smitgát.

Í smitgát felst takmörkun á athafnafrelsi í fimm daga eftir útsetningu smits með eftirfarandi hætti:

  1. Einstaklingur skal forðast staði þar sem eru fleiri en 20 manns.
  2. Þrátt fyrir a-lið má einstaklingur sækja vinnu eða skóla þótt þar séu fleiri komnir saman sem og sækja sér nauðsynlega þjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu, sækja verslanir og nota almenningssamgöngur.
  3. Einstaklingur skal bera grímu í umgengni við einstaklinga, aðra en þá sem teljast vera í nánum tengslum, utan- sem innandyra.
  4. Einstaklingi er ekki heimilt að fara í heimsókn á heilbrigðisstofnanir, þ.m.t. hjúkrunarheimili, nema með sérstöku leyfi viðkomandi stofnunar.
  5. Einstaklingur skal forðast umgengni við einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af COVID-19.
  6. Einstaklingur skal undirgangast PCR-sýnatöku án tafar vakni hjá honum grunur um smit sökum einkenna. Neikvæð niðurstaða úr slíku prófi styttir þó ekki smitgát.

3. gr.

Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá telst bólusetningarvottorð skv. 1. mgr. aðeins viðurkennt hafi ekki liðið meira en 270 dagar frá grunnbólusetningu í þeim tilvikum sem einstaklingur hefur ekki gengist undir örvunarbólusetningu.

4. gr.

Í stað fylgiskjals 1 kemur nýtt fylgiskjal 1 sem birt er með reglugerð þessari.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 12., 13., 14. og 18. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, með síðari breytingum, tekur þegar gildi og gildir jafnframt um þá einstaklinga sem sæta þegar sóttkví skv. 4. gr. Þó skal 3. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. febrúar 2022.

Heilbrigðisráðuneytinu, 25. janúar 2022.

F. h. heilbrigðisráðherra,

Ásta Valdimarsdóttir.

Ásthildur Knútsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.