Heilbrigðisráðuneyti

317/2021

Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 161/2021, um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19. - Brottfallin

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. reglugerðarinnar:

 1. Í stað 5. málsl. 1. mgr. koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Börnum fæddum 2005 eða síðar er ekki skylt að framvísa PCR-vottorði en er skylt að fara í sýnatöku við landamæri. Sýnataka úr börnum skal fara fram með eins lítið íþyngjandi hætti og unnt er og með hliðsjón af aldri þeirra og þroska. Ferðist barn með einstaklingi sem skylt er að sæta sóttkví samkvæmt þessu ákvæði þarf barnið jafnframt að sæta sóttkví sem það losnar úr ef síðara sýni úr samferðamanni er neikvætt. Ferðist barn eitt eða samferðafólk er undanskilið sóttkví þarf barnið ekki að sæta sóttkví en er skylt að fara í sýnatöku.
 2. 2. mgr. fellur brott.

 

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. reglugerðarinnar:

 1. Í stað 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Ferðamaður sem kemur frá eða hefur dvalið á svæði þar sem 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa er yfir 500 eða fullnægjandi upplýsingar um svæðið liggja ekki fyrir (dökkrauð eða grá svæði samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópu) skal dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Sóttvarnalæknir skal birta lista yfir svæði sem falla undir ákvæðið. Sé löndum skipt upp í fleiri en eitt svæði þar sem nýgengi smita er ólíkt er heimilt að miða allt landið við það svæði þar sem nýgengi er hæst. Almennt skal miðað við að listinn sé uppfærður á tveggja vikna fresti.
    Þeim sem greinast í sýnatöku skv. 4. gr. með afbrigði SARS-CoV-2 veirunnar sem eru meira smitandi en önnur afbrigði og/eða valda alvarlegri sjúkdómi er skylt að dvelja í sóttvarnahúsi. Um málsmeðferð fer eftir 14. gr. sótt­varnalaga, nr. 19/1997, með síðari breytingum.
 2. Á eftir orðinu "Einangrun" í 2. mgr. kemur: eða sóttkví.

 

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. reglugerðarinnar:

 1. Í stað orðanna "sérstökum verkefnum" í 1. málsl. 1. mgr. kemur: nauðsynlegum vinnu­tengdum verkefnum.
 2. Við 1. mgr. bætist svohljóðandi málsliður: Afgreiðslufrestur á umsókn um vinnusóttkví getur verið allt að 10 dagar.
 3. Við 2. mgr. bætist nýr stafliður sem verður e-liður, svohljóðandi: Ekki séu fleiri saman í vinnusóttkví en 50 manns nema á grundvelli undanþágu frá heilbrigðisráðuneytinu, sbr. reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

 

4. gr.

Reglugerð þessi sem sett er á grundvelli 12., 13., 14. og 18. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, með síðari breytingum, tekur þegar gildi.

Þrátt fyrir 1. mgr. tekur 1. og 2. gr. reglugerðarinnar gildi þann 1. apríl 2021.

Reglugerð þessi fellur úr gildi þann 30. apríl 2021.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 23. mars 2021.

 

F. h. r.

Ásta Valdimarsdóttir.

Ásthildur Knútsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica