Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

170/2021

Reglugerð um neyslurými.

I. KAFLI Gildissvið, markmið og skilgreining.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um rekstur og starfsemi neyslurýma sem sett eru á fót á grundvelli 2. gr. a laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, með síðari breytingum.

2. gr. Markmið.

Markmiðið með reglugerð þessari er að setja ramma um rekstur og starfsemi neyslurýma sem rekin skulu með skaðaminnkun að leiðarljósi.

3. gr. Skilgreining á neyslurými.

Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem neytendur sem eru 18 ára og eldri geta sprautað ávana- og fíkniefnum í æð undir eftirliti starfsfólks og gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.

II. KAFLI Rekstur.

4. gr. Rekstrarleyfi.

Embætti landlæknis veitir sveitarfélagi leyfi til að stofna og reka neyslurými að fenginni umsókn og að því skilyrði uppfylltu að húsnæði neyslurýmis sé í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar sem og annarra viðeigandi laga og reglugerða, meðal annars laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, skipulagslaga og byggingarreglugerðar.

Með umsókninni skulu fylgja nauðsynleg gögn, svo sem fjárhagsáætlun og húsreglur og önnur þau gögn sem embætti landlæknis krefst, sbr. 1. mgr.

Sveitarfélagi er heimilt að fengnu samþykki landlæknis að fela félagasamtökum rekstur neyslurýmis með samningi og nefnist sá aðili þá rekstraraðili. Jafnframt getur sveitarfélag samið við heilbrigðisstofnun um rekstur neyslurýmis.

Embætti landlæknis er heimilt að veita leyfið til takmarkaðs tíma og með öðrum skilyrðum sem embættið telur við eiga.

Embætti landlæknis skal hafa allan þann aðgang að neyslurými, starfsfólki, húsnæði, búnaði og gæðaskjölum sem embættinu er nauðsynlegur til eftirlits með starfseminni.

Embætti landlæknis er heimilt að afturkalla leyfi ef skilyrði fyrir starfsemi og rekstri neyslurýmis samkvæmt reglugerð þessari eru ekki uppfyllt.

5. gr. Ársskýrsla.

Sveitarfélag skal með ársskýrslu veita embætti landlæknis upplýsingar um rekstur neyslurýmis sem það hefur fengið leyfi til að stofna og reka.

Í ársskýrslu skulu koma fram upplýsingar um:

  1. Staðsetningu, opnunartíma og umfang þjónustu sem veitt er í neyslurými.
  2. Hvernig tekist hefur að uppfylla aðgangsskilyrði skv. 12. gr.
  3. Fjölda, aldur, kyn og búsetu skráðra notenda á ári hverju og frá upphafi.
  4. Tegund og magn efna sem tilkynnt hafa verið af notendum í neyslurými.
  5. Félagslega þjónustu og heilbrigðisþjónustu og hvernig hún hefur verið nýtt.
  6. Fjölda skipta sem lyf við ofskömmtun á ávana- og fíkniefnum hefur verið notað.
  7. Fjölda tilvísana til þjónustu utan neyslurýmis og tegundar þjónustu, svo sem vímuefnameðferðar.
  8. Helstu vandamál sem hafa komið upp og hvernig þau hafa verið leyst.

Skýrslan gildir um almanaksár og skal berast embættinu eigi síðar en í lok febrúar ár hvert.

6. gr. Staðsetning.

Í samráði við lögreglu í viðkomandi umdæmi skal sveitarfélag taka ákvörðun um staðsetningu neyslurýmis og taka tillit til fjarlægðar við sjúkrahús og aðgengi sjúkrabíla.

III. KAFLI Þjónusta og aðstaða.

7. gr. Þjónusta og aðstaða.

  1. Í þeim hluta húsnæðisins sem boðið er upp á skaðaminnkandi úrræði skal:

    1. Bjóða notendum upp á almennar ráðleggingar um sprautubúnað og sprautunotkun og aðrar hættuminni aðferðir við inntöku efna.
    2. Bjóða notendum upp á almenna ráðgjöf um hreinlæti og sjálfshjálp til að koma í veg fyrir sýkingar og draga úr líkum á sjálfsskaða.
    3. Dreifa hreinum sprautubúnaði fyrir hvern notanda og taka við notuðum sprautubúnaði til förgunar.
    4. Hafa eftirlit með notanda í neyslurými.
    5. Veita notanda einstaklingsmiðaða ráðgjöf í tengslum við neyslu.
    6. Veita notanda upplýsingar um heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu sem stendur honum til boða.
  2. Í þeim hluta húsnæðisins sem boðið er upp á heilbrigðisþjónustu er heimilt að:

    1. Bjóða upp á til dæmis hreinsun sára og mat á sýkingum og meðferð við þeim, svo sem saumatöku.
    2. Bjóða upp á skimun hjá kvensjúkdómalækni.
    3. Bjóða upp blóðþrýstingsmælingar.
    4. Bjóða upp á almenna heilsufarsráðgjöf og skoðun, þ.m.t. fræðslu um HIV- og lifrabólgusmitleiðir.

Auk þess er rekstraraðila heimilt að bjóða upp á frekari þjónustu, svo sem sturtuaðstöðu.

Notendum skal boðið upp á notendasamráð í þeim tilgangi að bæta þjónustu sem veitt er í neyslurými.

Synjun um þjónustu samkvæmt ákvæði þessu er ekki stjórnvaldsákvörðun.

8. gr. Opnunartími.

Þegar tekin er ákvörðun um opnunartíma neyslurýmis skal taka mið af þörfum notenda og annarri skaðaminnkandi þjónustu sem er í boði í sveitarfélaginu.

IV. KAFLI Starfsmenn.

9. gr. Gæðahandbók.

Væntanlegur rekstraraðili skal, minnst einum mánuði áður en hann hyggst hefja rekstur neyslurýmis, leggja fyrir embætti landlæknis ítarlega lýsingu á fyrirhugaðri starfsemi og gæðahandbók hennar þar sem lýst er helstu þáttum í starfseminni. Einnig skal hann leggja fram starfslýsingar og verklýsingar um framkvæmdina í starfseminni.

10. gr. Mönnun.

Rekstraraðili neyslurýmis ræður vaktstjóra og aðra starfsmenn.

Vaktstjóri neyslurýmis skal hafa viðeigandi menntun á sviði heilbrigðisvísinda.

Á hverri vakt í neyslurými skal ávallt starfa að minnsta kosti einn starfsmaður með menntun á sviði heilbrigðisvísinda og einn starfsmaður með þekkingu á sviði skaðaminnkunar.

Allt starfsfólk neyslurýmis skal reglulega sækja námskeið í skyndihjálp. Auk þess skal tryggja að starfsfólk neyslurýmis hafi grunnþekkingu á hugmyndafræði um skaðaminnkun.

Neyslurýmið skal vera þannig mannað á hverjum tíma að samtímis sé unnt að hafa eftirlit með aðgangi að neyslurýminu, fylgjast með neyslu og veita notendum ráðgjöf um neysluna sem og veita heilbrigðisþjónustu, sé hún í boði í sama húsnæði.

11. gr. Verkefni starfsfólks.

Hlutverk starfsfólks í neyslurými er að taka á móti einstaklingum skv. 1. mgr. 3. gr. og veita þeim þjónustu skv. 7. gr.

Starfsfólk getur kallað lögreglu til neyslurýmis, telji það að lífi sínu eða heilsu sé ógnað við störf í neyslurými. Jafnframt skal starfsfólk boða lögreglu til neyslurýmis ef þangað kemur notandi með magn efna sem er umfram það magn sem ætlað er til einkaneyslu.

Starfsfólk í neyslurými er óheimilt að aðstoða notendur í neyslurými við að sprauta ávana- og fíkniefnum í æð.

V. KAFLI Starfsemi o.fl.

12. gr. Aðgangur að neyslurými.

Einstaklingur fær aðgang að neyslurými þegar hann hefur skráð sig sem notanda í rýminu. Við skráningu þarf einstaklingur að gefa upplýsingar um nafn, aldur, kyn og búsetu. Þegar einstaklingur skráir sig má hann láta skrá gælunafn sem er notað upp frá því.

Með skráningunni samþykkir notandi að fara eftir húsreglum skv. 14. gr.

Notanda er heimilt að hafa í vörslu sinni það magn ávana- og fíkniefna sem hann ætlar að neyta í neyslurýminu og ber að kynna fyrir starfsfólki tegund og magn efnis hverju sinni.

Með því að skrá sig samþykkir einstaklingur að starfsfólk muni geta gripið til viðeigandi ráðstafana ef um ofneyslu er að ræða.

Notandi má ekki fá aðstoð frá öðrum við að neyta efna, hvort sem er frá starfsfólki eða notendum.

Í skráningu notanda felst að hann samþykki að rekstraraðili varðveiti og vinni með persónugreinanlegar upplýsingar með það að markmiði að halda utan um tölfræðilegar upplýsingar fyrir ársskýrslu og til að meta áframhaldandi rekstur rýmisins. Auk þess er tilgangur skráningar að geta fylgt málum eftir ef upp kemur smit sem ógnað getur heilsu og lífi starfsmanna og notenda neyslurýmis.

Heimilt er starfsfólki að takmarka fjölda notenda í neyslurými til að tryggja næði notenda og öryggi starfsfólks.

13. gr. Framfylgd reglna um aðgang.

Starfsfólki neyslurýmis er heimilt að ganga úr skugga um hvort skilyrði fyrir skráningu skv. 12. gr. séu uppfyllt.

Vaktstjóri neyslurýmis ákveður hvort einstaklingi sé synjað um aðgang að neyslurými.

Leiki vafi á því að einstaklingur hafi náð 18 ára aldri er heimilt að krefja viðkomandi um skilríki til að sanna aldur sinn.

14. gr. Húsreglur í neyslurými.

Rekstraraðili neyslurýmis skal setja húsreglur um hegðun notenda í neyslurými.

Ef notandi brýtur húsreglur er heimilt að vísa viðkomandi úr neyslurýminu um tiltekinn tíma sem vaktstjóri í neyslurými ákveður.

15. gr. Neyðarhnappur.

Starfsfólk neyslurýmis skal bera neyðarhnapp sem tengdur skal lögreglunni og getur notað, til dæmis ef það telur að sér stafi ógn af hegðun notanda neyslurýmis.

16. gr. Eftirlit lögreglu.

Lögreglu er heimill aðgangur að neyslurými ef hún hefur rökstuddan grun um að einstaklingur hafi í vörslu sinni ávana- og fíkniefni umfram það magn sem hann ætlar að neyta í neyslurýminu, sbr. 3. mgr. 12. gr.

Lögreglu er heimilt að grípa til aðgerða í neyslurými til að tryggja almannafrið í samræmi við 1. mgr. 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

VI. KAFLI Gildistaka.

17. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með vísan til 2. gr. a laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þar til húsnæði hefur verið opnað sem neyslurými er embætti landlæknis heimilt að veita sveitarfélagi leyfi til að nýta tímabundið sérútbúin bíl sem uppfyllir kröfur þessarar reglugerðar, eftir því sem við á.

Heilbrigðisráðuneytinu, 3. febrúar 2021.

Svandís Svavarsdóttir.

Ásthildur Knútsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.