Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Breytingareglugerð

1198/2020

Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð nr. 221/2001, um bólusetningar á Íslandi.

1. gr.

Á eftir 4. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein 4. gr. a., ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Bólusetning gegn COVID-19.

Þrátt fyrir önnur ákvæði þessarar reglugerðar gildir ákvæði þetta um bólusetningar gegn COVID-19.

Eftirfarandi einstaklingum verður, í þeirri röð sem þeir eru taldir upp hér að neðan, gefinn kostur á bólusetningu gegn COVID-19, eins og unnt er:

  1. Heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum starfsmönnum sem starfa á bráðamóttöku og gjörgæsludeild Landspítala og gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri.
  2. Heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum starfsmönnum sem starfa á COVID-19 göngudeild og legudeild Landspítala og sambærilegum deildum á Sjúkrahúsinu á Akureyri, heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum starfsmönnum sem starfa í heilsugæslu og framkvæma sýnatökur vegna gruns um COVID-19, og starfsmönnum hjúkrunar- og dvalarheimila.
  3. Einstaklingum sem dvelja á hjúkrunar- og dvalarheimilum og öldrunardeildum sjúkrahúsa.
  4. Sjúkraflutningamönnum og bráðatæknum sem fengið hafa starfsleyfi landlæknis í samræmi við reglugerð nr. 1110/2012, og starfa við sjúkraflutninga, starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands sem sinna störfum á vettvangi, starfsmönnum slökkviliðs sem sinna störfum á vettvangi, fangavörðum og útkallslögreglumönnum.
  5. Öðrum heilbrigðisstarfsmönnum sem sinna sjúklingum með beinum hætti og nauðsynlegt er að hljóti bólusetningu gegn COVID-19 samkvæmt nánari ákvörðun sóttvarnalæknis.
  6. Einstaklingum sem eru 60 ára og eldri. Þeim einstaklingum sem falla undir þennan lið og eru inniliggjandi sjúklingar á heilbrigðisstofnunum skal fyrst gefinn kostur á bólusetningu.
  7. Einstaklingum með undirliggjandi langvinna sjúkdóma sem eru í sérstökum áhættuhópi vegna COVID-19 samkvæmt nánari ákvörðun sóttvarnalæknis.
  8. Starfsmönnum í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Starfsmönnum félags- og velferðarþjónustu sem eru í beinum samskiptum við notendur, svo sem félagslegri heimaþjónustu.
  9. Einstaklingum sem eru í viðkvæmri stöðu vegna félagslegra- og efnahagslegra aðstæðna og eru í sérstakri áhættu.
  10. Öllum öðrum einstaklingum sem óska bólusetningar gegn COVID-19 samkvæmt nánari ákvörðun sóttvarnalæknis.

Börnum fæddum árið 2006 og síðar er ekki boðin bólusetning gegn COVID-19 nema þeim börnum sem falla undir 7. tölul. 2. mgr. þessa ákvæðis.

Sóttvarnalækni er heimilt að víkja frá forgangsröðun 2. mgr. ef nauðsynlegt er, svo sem vegna stöðu faraldursins hverju sinni eða tegund bóluefnis, en skal taka mið af þeirri forgangsröðun sem kveðið er á um í 2. mgr. og tilkynna það ráðherra með rökstuðningi eins fljótt og hægt er.

Sóttvarnalæknir ber ábyrgð á skipulagningu og samræmingu bólusetningar samkvæmt ákvæði þessu, svo sem hvaða bóluefni er notað og fyrir hvaða hópa. Sóttvarnalæknir ber ábyrgð á forgangsröðun innan þeirra hópa sem taldir eru upp í 2. mgr. ef nauðsyn krefur og er heimilt að forgangsraða einstaklingi framar ef hann fellur undir fleiri en einn tölul. í 2. mgr.

Bólusetning samkvæmt ákvæði þessu skal vera gjaldfrjáls.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 12., 17. og 18. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Heilbrigðisráðuneytinu, 27. nóvember 2020.

F. h. r.

Ásta Valdimarsdóttir.

Elsa B. Friðfinnsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.